Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 225/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 225/2020

Miðvikudaginn 16. september 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 20. mars 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. janúar 2020 um heimilisuppbót.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins frá 10. janúar 2020 með rafrænni umsókn 28. nóvember 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá væri hún í skráðri sambúð.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. mars 2020. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 17. ágúst 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. ágúst 2020, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að kærandi óski eftir því að umsókn hennar um heimilisuppbót verði samþykkt.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi sótt um heimilisuppbót þann 28. nóvember 2019. Kærandi hafi haldið heimili síðan í X 2019, en fyrrverandi sambýliskona hennar hafi flutt út og leigi fasteign og fái húsaleigubætur. Kærandi hafi staðið undir öllum rekstrarkostnaði vegna fasteignarinnar. Kærandi óski eftir að fá heimilisuppbót frá 1. júlí 2019. Kærandi sé einhleyp og sjái ein um heimilisrekstur. Í því samhengi vísar kærandi í lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 1200/2018.

Sambýliskona kæranda hafi neitað að færa lögheimili út af baráttu um lögheimili X þeirra.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að með bréfi, dags. 13. janúar 2020, hafi kæranda verið synjað um greiðslu heimilisuppbótar þar sem hún væri í skráðri sambúð samkvæmt Þjóðskrá.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Í 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur laganna. Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1052/2009, ásamt reglugerðarbreytingum.

Í 49. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé fjallað um réttarstöðu sambýlisfólks en þar segi að einstaklingar sem séu í óvígðri sambúð, sbr. 7. tölul. 2. gr., njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt þessum lögum.

Kærandi hafi sótt um greiðslu heimilisuppbótar með umsókn, dags. 28. nóvember 2019. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé kærandi í sambúð með B og deili lögheimili með henni og hafi gert frá janúar 2015.

Í kæru segi kærandi að B sé flutt út, búi í C og borgi þar leigu og fái húsaleigubætur. Kærandi segi að hún sé einhleyp og hafi borgað af öllum lánum og borgað alla reikninga sem tilheyra fasteigninni.

Í málinu liggi fyrir að kærandi sé enn skráð í sambúð með B samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá og sé með lögheimili á sama stað og hún. Þó að kærandi segi að hún sé einhleyp og deili ekki lögheimili með B þá sé Þjóðskrárstaða kæranda enn slík og Tryggingastofnun beri að fara eftir þeirri skráningu. Í skilningi laga sé kærandi enn í sambúð.

Samkvæmt skilgreiningu á orðinu einhleypur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt sé á netinu og unnin hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þá sé um að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né hjónabandi. Úrskurðarnefndin hafi staðfest að skilyrði laganna um að vera einhleypur eigi ekki við um þá einstaklinga sem enn séu í hjúskap, þrátt fyrir að búa ekki saman, sbr. úrskurði nr. 469/2017 og 57/2019.

Með vísan til ofangreinds og þess að einstaklingar í óvígðri sambúð njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögunum telji Tryggingastofnun að þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. að um einstakling í sambúð sé að ræða, þá séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt þar sem kærandi sé ekki einhleypur. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu heimilisuppbótar.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til einstaklinga sem séu skráðir í sambúð. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Í 2. kafla reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót er fjallað nánar um heimilisuppbót.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 7. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar er eftirfarandi orðskýring:

„Óvígð sambúð: Sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman, eigi von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera uppfyllt. Tryggingastofnun ríkisins synjaði greiðslu heimilisuppbótar til kæranda á þeirri forsendu að hún uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleyp. Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er sú að um sé að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né í hjónabandi. Þá er óvígð sambúð skilgreind í lögum um almannatryggingar sem sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í Þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman, eigi von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið skráð í óvígða sambúð í Þjóðskrá frá 29. janúar 2015. Kærandi hefur haldið því fram að sambýliskona hennar hafi flutt út en um leið staðfest að lögheimili hennar hafi ekki verið flutt vegna ágreinings þeirra. Í gögnum frá Sýslumanninum á Suðurnesjum, sem kærandi lagði fram, kemur fram að sambúðarslitamáli hennar og sambýliskonu hennar hafi verið vísað frá embættinu vegna ágreinings þeirra.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi sé ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð og hún uppfylli því ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt ákvæðinu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að engin heimild sé til staðar til að víkja frá því skýra skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð um að lífeyrisþegi sé einhleypur með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. janúar 2020 um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um heimilisuppbót, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta