Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2013

Þriðjudaginn 10. desember 2013


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 19. júní 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 19. júní 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. júní 2013, þar sem honum var tilkynnt að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs.  

Með bréfi, dags. 21. júní 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. júlí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. júlí 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi á tvö börn, annað fætt þann Y. júlí 2009 og hitt þann Y. mars 2011. Kærandi fór í 60 daga fæðingarorlof með eldra barni þegar það fæddist. Þegar yngra barnið fæddist sótti kærandi um að fara í fæðingarorlof í 90 daga vegna fæðingar þess. Kærandi gerði ráð fyrir því að þeir 90 dagar myndu skiptast þannig að hann myndi fyrst nýta þá daga sem hann hafi átt inni vegna eldra barns og síðan nýta 60 daga af rétti sínum til fæðingarorlof með yngra barninu. Kærandi var hins vegar afgreiddur þannig að allir 90 dagarnir voru teknir af rétti hans vegna yngra barnsins og því við það miðað að kærandi hafi enn átt ónýtta 30 daga með eldra barni. Kærandi sótti á ný um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 30 daga með umsókn, dags. 7. maí 2013. Fæðingarorlofssjóður tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. júní 2013, að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs. Er það sú niðurstaða sem nú er kærð til úrskurðarnefndarinnar.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að þegar yngra barnið fæddist hafi hann í misgáningi óskað eftir 90 daga fæðingarorlofi vegna fæðingar yngra barnsins í stað þess að byrja á því að taka þá daga sem hann hafi átt ónýtta vegna eldra barns. Í kjölfar þess hafi kærandi ætlað að taka 30 daga fæðingarorlof sumarið 2013 með yngra barni þar sem það hafi þá ekki verið orðið 36 mánaða gamalt.

Afleiðing þessa sé sú að eldra barnið hafi orðið af 30 daga feðraorlofi.

Kærandi óski því eftir því að úrskurðarnefnd taki til greina að þegar kærandi hafi tekið fæðingarorlof sumarið 2011 hafi eldra barn hans átt inni daga sem kærandi hafi talið sig vera að nýta.

Hvert barn eigi rétt á 90 daga feðraorlofi sem séu teknir fyrstu 36 mánuðina. Vegna handvammar hafi eldra barn kæranda orðið af 30 dögum þar sem hann hafi náð 36 mánaða aldri.

Kærandi óski eftir því við nefndina að hún hafi í huga anda laga um flðingarorlof og gæti réttar barnanna til samvista við foreldra sína. Börnin hafi báðir rétt á 90 daga feðraorlofi fyrstu 36 mánuði ævi sinnar en nú eigi að hafa þann rétt af öðru barninu vegna þess að eyðublað hafi verið rangt út fyllt.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 5. maí 2010, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með eldra barni sínu fæddu þann Y. júlí 2009.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um fæðingarorlof, dags. 21. maí 2010, og launaseðlar fyrir mars og apríl 2010. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands og samskiptasaga kæranda og Fæðingarorlofssjóðs.

Á tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 21. maí 2010, hafi komið fram að kærandi sæki um fæðingarorlof tímabilið frá 1. júlí til 3. ágúst 2010 og hann verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við það sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 11. júní 2010. Ekki verði séð að nein önnur tilkynning eða beiðni hafi borist Fæðingarorlofssjóði um fæðingarorlof með barni fæddu Y. júlí 2009.

Í 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 17. gr. laga nr. 70/2009, sem hafi verið í gildi við fæðingu barns kæranda, sé kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barn nái 36 mánaða aldri.

Eins og áður segi fæddist eldra barn kæranda þann Y. júlí 2009 og féll því, samkvæmt framangreindu lagaákvæði, réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sjálfkrafa niður er barnið náði 36 mánaða aldri þann Y. júlí 2012, sbr. og úrskurðir úrskurðarnefndar í málum nr. 56/2007 og 36/2008. Það sé sú ákvörðun sem kærð sé nú.

Með tölvupósti, dags. 17. maí 2011, hafi kærandi síðan sótt um fæðingarorlof með yngra barni sínu fæddu þann Y. mars 2011. Í tölvupóstinum sé sérstaklega tekið fram að verið sé að sækja um fæðingarorlof með barni fæddu Y. mars 2011. Með tölvupóstinum hafi fylgt umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, dags. 17. maí 2011, þar sem fram komi að kærandi sæki um greiðslur í þrjá mánuði. Tilkynning um fæðingarorlof, dags. 17. maí 2011, þar sem fram komi að sótt sé um greiðslur tímabilið frá 1. júní til 31. ágúst 2011 og launaseðlar fyrir mars og apríl 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra, Þjóðskrá Íslands og samskiptasaga kæranda við Fæðingarorlofssjóð.

Kærandi hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof með barni fæddu Y. mars 2011 í samræmi við framangreint, sbr. greiðsluáætlun til hans dags. 24. maí 2011.

Með umsókn, dags. 7. maí 2013, hafi kærandi síðan sótt um einn mánuð í fæðingarorlof til viðbótar með yngra barni sínu fæddu þann Y. mars 2011. Með umsókninni hafi fylgt tilkynning um fæðingarorlof, dags. 15. maí 2013, ásamt launaseðlum fyrir mars, apríl og maí 2013.

Með bréfi til kæranda, dags. 13. júní 2013, hafi honum verið tilkynnt um að hann hefði fullnýtt þriggja mánaða rétt sinn til töku fæðingarorlofs með barni fæddu Y. mars 2011 á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst 2011. Í framhaldinu hafi tölvupóstur frá kæranda, dags. 19. júní 2013, þar sem fram komi að hann telji Fæðingarorlofssjóð hafa misskilið umsókn sína þar sem hluti af því fæðingarorlofi sem hann hafi tekið á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst 2011 hafi átt að vera vegna eldra barnsins.

Í kæru kæranda sé tiltekið að fyrir misgáning hafi hann óskað eftir 90 daga fæðingarorlofi í nafni yngra barnsins í stað þess að byrja á því að taka fæðingarorlof með eldra barni sem hann hafi átt inni.

Eins og að framan hafi verið rakið verði ekki séð að nein gögn hafi borist um frekara fæðingarorlof með eldra barninu eftir að kæranda hafi verið send greiðsluáætlun þann 11. júní 2010. Í ffl. sé ekki að finna neina undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 70/2009, um að heimilt sé að greiða fæðingarorlof vegna fæðingar barns eftir að barn nær 36 mánaða aldri.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður enga heimild vera til staðar að greiða kæranda eftirstöðvar fæðingarorlofs eftir Y. júlí 2012 enda hafi þá sjálfkrafa falliðp niður réttur hans til greiðslu fæðingarorlofs með barni fæddu Y. júlí 2009.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um frekara fæðingarorlof. Ákvörðunin byggir á því að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði vegna barns fætt í mars 2011.   

Kærandi byggir á því að Fæðingarorlofssjóði hafi borið að skrá hann þannig í fæðingarorlof að hann myndi nýta ótekið fæðingarorlof vegna eldra barns áður en orlof vegna yngra barns hæfist.   

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við umsóknir og tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs frá kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. sem var í gildi við fæðingu barns kæranda fellur réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar niður er barn nær 36 mánaða aldri. Eldra barn kæranda fæddist þann Y. júlí 2009 og varð því 36 mánaða þann Y. júlí 2012.  

Óumdeilt er í málinu að kærandi hafi átt eftir 30 ónýtta daga í fæðingarorlof vegna eldra barns sem fæddist Y. júlí 2009. Þá liggur fyrir tölvupóstur kæranda til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. maí 2011 þar sem fram kemur að sótt sé um fæðingarorlof vegna barns sem fæddist þann Y. mars 2011. Með tölvupósti kæranda fylgdi útfyllt umsókn um fæðingarorlof í 90 daga vegna barns fæddu í mars 2011 og tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs. Óumdeilt er að kærandi var afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við umsókn sína. Kærandi sótti á ný um fæðingarorlof í 30 daga vegna barns fæddu í mars 2011 með umsókn, dags. 7. maí 2013. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 13. júní 2013, að hann hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs með yngra barni.

Þar sem kærandi var afgreiddur í fullu samræmi við umsóknir og tilkynningar kæranda til Fæðingarorlofssjóðs er að mati úrskurðarnefndar ekki hægt að gera athugasemdir við afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs á tilhögun fæðingarorlofa kæranda frá 1. júlí til 3. ágúst 2010 og 1. júní til 31. ágúst 2011. Þá verður einnig að fallast á með Fæðingarorlofssjóði að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs vegna fæðingar yngra barns.

Þá virðist kærandi einnig byggja á því að hann eigi enn inni rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna eldra barns. Líkt og áður segir fellur réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar niður er barn nær 36 mánaða aldri. Eldra barn kæranda fæddist þann Y. júlí 2009 og varð því 36 mánaða þann Y. júlí 2012. Þegar kærandi sótti um fæðingarorlof með umsókn, dags. 7. maí 2013, var réttur kæranda til fæðingarorlofs vegna eldra barns því fallinn niður. Hvergi í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008 er að finna heimild til að víkja frá framangreindu aldursviðmiði.

Kærandi byggir á því að hann hafi í misgáningi sótt um 90 daga vegna yngra barns en hafi gert ráð fyrir því að hann myndi nýta ótekið orlof vegna eldra barns áður en orlof vegna yngra barns hæfist. Það er því í raun kjarni þessa máls hvort taka beri til greina þá málaleitan kæranda að líta nú á þetta fyrra fæðingarorlof sem hann tók sem fæðingarorlof með eldra barninu að hluta.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé unnt að fallast á að réttur til orlofs sé færður til með þessum hætti eftir að orlof hefur verið tekið. Kærandi eignaðist sjálfstæðan rétt til orlofs við fæðingu yngra barnsins. Sá réttur er lögmæltur og grundvallast á sjónarmiðum um að rétt sé að veita foreldri og barni tækifæri til samvista. Ekki er annað komið fram en að kærði hafi nýtt þessi réttindi sín til samvista við yngra barnið í samræmi við umsókn sína. Réttur hans til orlofs vegna fæðingar eldra barnsins var með sama hætti sjálfstæður réttur til að taka orlof til samvista við það barn og njóta greiðslna á meðan. Sá réttur féll niður að liðnum lögmæltum tíma.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að kærandi, A hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs staðfest.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta