Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 35/2013

Þriðjudaginn 7. janúar 2014


A

gegn

Fæðingarorlofssjóði - Vinnumálastofnun

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. ágúst 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. ágúst 2013. Kærð var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs – Vinnumálastofnunar (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. júní 2013, þar sem honum var tilkynnt að mánaðarleg greiðsla til hans miðað við 100% orlof yrði X kr.   

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 14. september 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. september 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemidr bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi flutti til Íslands frá Danmörku árið 2012 og hóf störf á Íslandi. Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna fæðingar barns þann Y. júní 2013 með umsókn, dags. 21. maí 2013. Með bréfi, dags. 11. júní 2013, sendi Fæðingarorlofssjóður kæranda greiðsluáætlun þar sem fram kom að miðað við 100% orlof yrði mánaðarleg greiðsla til kæranda X kr.  

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að samkvæmt greiðsluáætlun, dags. 11. júní 2013, sé kæranda einungis veitt lágmarks fæðingarorlofsgreiðsla í fæðingarorlofi frá janúar til mars 2014, þar sem ekki sé tekið tillit til tekna kæranda í Danmörku við útreikning á fæðingarorlofsgreiðslum.

Kærandi hafi flust ásamt konu sinni til Íslands þrátt fyrir að kærandi hafi haft góða vinnu í Danmörku og kona hans góða atvinnumöguleika við lok náms. Þau hafi gert ráð fyrir góðum móttökum af hálfu íslenskra yfirvalda. Því hafi það valdið þeim miklum vonbrigðum að þua hafi virst detta út úr velferðarkerfinu á Íslandi vegna dvalar erlendis hvað varði fæðingarorlof og hafi ekki rétt á fæðingarorlofi í Danmörku vegna lögheimilsflutnings til Íslands. Kærandi falli þannig á milli kerfa.

Það geti ekki verið í anda laganna um Fæðingarorlof að réttindi falli niður eða skerðist við flutninga milli Norðurlanda, sérstaklega ekki þegar dvöl erlendis sé vegna náms maka.

Laun og tekjur í Danmörku séu talin fram á skattframtali á Íslandi fyrir árið 2012.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 95/2000 öðlist foreldri rétt til greiðslna eftir að hafa verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Barnið hafi fæðist þann Y. júní 2013 og kærandi hafið störf á Íslandi í desember 2012 og lokið störfum í Danmörku í nóvember 2012. Því hljóti 11. mgr. 13. gr. ffl. að eiga við varðandi viðmiðunartímabil við útreikning fæðingarorlofs.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 21. maí 2013, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna fæðingar barns þann Y. júní 2013.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 21. maí 2013, launaseðlar frá vinnuveitanda fyrir mars og apríl 2013, umboð, dags. 22. maí 2013 og tölvupóstar frá 22. til 24. maí 2013. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Þann 11. júní 2013 hafi kæranda verið send greiðsluáætlun með útreikningum á væntanlegum greiðslum þar sem fram hafi komið að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) sé kveðið á um að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn komi inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr.

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem hann hafi unnið hjá vinnuveitanda sínum sem starfsmaður skv. 2. mgr. 7. gr. ffl. allt ávinnslutímabilið skv. 1. mgr. 13. gr. ffl., þ.e. frá Y. desember 2012 til Y. júní 2013 og af þeirri ástæðu eigi hann tilkall til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. sé síðan fjallað um það viðmiðunartímabil sem líta skuli til þegar mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna skv. 2. mgr. 7. gr. ffl. sé ákveðin. Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, 3. gr. laga nr. 136/2011 og 2. gr. laga nr. 143/2012, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a – og b – lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar greiðslur skv. a – og b – lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa koma til á viðmiðunartímabili skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a., án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við almanaksmánuði og að áfram sé tekið fram að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til utan innlends vinnumarkaðar.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.  Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. júní 2013 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið frá desember 2011 til nóvember 2012, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Fyrir liggi í gögnum málsins að kærandi hafi verið búsettur og starfandi í Danmörku allt viðmiðunartímabil 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., og því ekki verið á innlendum vinnumarkaði.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl. komi fram að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans.

Í 7. mgr. 13. gr. ffl. komi síðan fram að greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25 – 49% starfi í hverjum mánuði skuli þó aldrei vera lægri en sem nemi X kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50 – 100% starfi í hverjum mánuði skuli aldrei vera lægri en sem nemi X kr. á mánuði. Eins og áður segi hafi kærandi verið afgreiddur með X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 11. júní 2013.

Í kæru kæranda telji hann að taka beri tillit til þeirra launa sem hann hafi aflað á erlendum vinnumarkaði, við útreikning á meðaltali heildarlauna hans með vísan til 11. mgr. 13. gr. ffl. Af þeirri ástæðu þyki rétt að taka fram að ákvæði 11. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, snúi að skyldu Fæðingarorlofssjóðs að taka tillit til starfstímabila foreldris, sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings, í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabili 1. mgr. 13. gr. ffl. þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabilinu.

Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er orðið hafi að lögum nr. 74/2008 komi fram að leiði samlagning starfstímabila til þess að foreldri eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skuli þó einungis taka mið af meðaltali heildarlauna foreldris á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna eins og þeim sé breytt með frumvarpinu og að ekki sé um breytingu á framkvæmd laganna að ræða að þessu leyti.

Ljóst sé því að ákvæði 11. mgr. 13. gr. ffl. taki ekki til útreiknings á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. heldur til ávinnslutímabila 1. mgr. 13. gr. ffl. Vilji löggjafans sé skýr hvað þetta varði, sbr. einnig úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 14/2011.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 11. júní 2013, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er sú ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs að mánaðarleg greiðsla til kæranda miðað við 100% fæðingarorlof sé X kr.

Kærandi vísi til þess að í 11. mgr. 13. gr. ffl sé mælt fyrir um að þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skuli skuli tillit til starfstímabila foreldris sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof.

Framangreint ákvæði fjallar um hvernig líta eigi til vinnu utan innlends vinnumarkaðar við mat á því hvort foreldri eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en ekki fjárhæð slíkra greiðslna. Um fjárhæð greiðslna þegar starfsmaður hefur verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í 6 mánuði, en ekki á viðmiðunartímabili samkvæmt 2. mgr. 13. gr. er sérstaklega fjallað í 4. mgr. 13. gr. laganna. 

Eingöngu er deilt um útreikning á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði en óumdeilt er að kærandi á rétt á greiðslum úr sjóðnum.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skal við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. Í 8. málsl. sömu málsgreinar segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði án tillits til þess hvort laun eða reiknað endurgjald hafi komið til.

Það er því ljóst að greiðslur til foreldris í fæðingarorlofi miðast við þau laun sem unnið hefur verið fyrir á innlendum vinnumarkaði. Óumdeilt er að kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl. segir að þegar starfsmaður uppfyllir skilyrði 1. mgr. um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. 13. gr. ffl. í samræmi við starfshlutfall hans. Greiðsla til foreldris í 50-100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur X kr. á mánuði, sbr. 7. mgr. 13. gr. ffl.

Þar sem kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu verður að líta til framangreindrar 4. mgr., sbr. 7. mgr. 13. gr. ffl. og fallast á að kærandi hafi öðlast rétt til lágmarksgreiðslna sem nemi X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof, líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun.  Sjónarmið kæranda um að hann hafi með þessu móti fallið á milli kerfa við flutning sinn til Íslands fá ekki haggað skýrum lagareglum að þessu leyti.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að mánaðarleg greiðsla til kæranda, A miðað við 100% orlof yrði X kr. er staðfest.  

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta