Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2012

Þriðjudaginn 7. janúar 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. janúar 2012 þar sem umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 24. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. febrúar 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 3. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 34 ára. Hann býr með eiginkonu sinni, tveimur börnum þeirra og stjúpbarni í leiguhúsnæði að B götu nr. 5 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er menntaður málari en hann hefur nýlega lokið því námi. Hann starfar í fullu starfi hjá X slf. en eignarhlutur hans í félaginu er 33,3%. Útborguð mánaðarleg laun kæranda eru að meðaltali 188.422 krónur ef mið er tekið af launum ársins 2011.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis, tekjulækkunar og veikinda sonar hans. Kærandi kveðst hafa búið í sveitarfélaginu D ásamt fjölskyldu sinni fram til ársins 2008 er þau fluttu í sveitarfélagið E. Flutningarnir hafi einkum verið vegna náms kæranda og veikinda sonar hans. Árið 2010 flutti fjölskyldan í sveitarfélagið C en það sem áhrif hafði á staðarvalið voru aðstæður sonarins.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 21.926.811 krónur og þar af falla 5.907.799 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skulda var stofnað á árunum 2000 til 2009.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 21. janúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. janúar 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. lge. þar sem kærandi hafði tekið á sig ótakmarkaða ábyrgð á skuldum samlagsfélags eftir að hann komst í greiðsluskjól.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur einungis fram að breytingar hafi verið gerðar á ábyrgð félagsmanna í samlagsfélaginu X. Eftir breytinguna beri kærandi aðeins ábyrgð með því fé sem hann lagði til félagsins sem stofnfé. Aðild hans að félaginu ætti því ekki að koma niður á umsókn um greiðsluaðlögun. Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann fari fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sé umboðsmanni skuldara skylt að synja um greiðsluaðlögun ef aðstæður þær sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins eru fyrir hendi.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í almennum athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna komi fram að ekki megi samþykkja umsókn ef hún telst á einhvern hátt óeðlileg. Í því tilliti er bent á skuldasöfnun sem eigi rætur sínar að rekja til ólögmætra eða ósiðlegra athafna skuldara.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 6. gr. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara bendi ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt því sem fram komi í athugasemdum við ákvæðið skuli umboðsmaður skuldara eins og kostur er og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um tekjur og skuldbindingar skuldara leggja mat á hvort ákvæðið eigi við. Með þessu sé komið í veg fyrir að einstaklingur geti ráðstafað tekjum sínum umfram efni til ónauðsynlegra hluta og látið ógert að greiða af þeim skuldbindingum sem hann hafði gengist undir áður en umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram, í því skyni að fá þær skuldbindingar lækkaðar eða felldar niður með greiðsluaðlögun.

Í a–d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara í greiðsluskjóli. Fram komi í a-lið 1. mgr. 12. gr. að skuldara beri að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærandi hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 21. janúar 2011. Þann 31. maí 2011 hafi hann ásamt tveimur öðrum stofnað samlagsfélagið X. Tilgangur félagsins sé málningarvinna og fleira. Eignarhlutur kæranda í félaginu sé 33,3%. Samkvæmt tilkynningu um stofnun félagsins sé kærandi ásamt öðrum sameiganda sínum ábyrgur fyrir skuldum félagsins gagnvart þriðja aðila. Í 2. gr. samlagsfélagssamnings fyrir félagið komi fram að aðilar félagsins með ótakmarkaða ábyrgð séu kærandi og annar sameiganda hans. Þriðji sameigandinn beri aðeins ábyrgð í hlutfalli við 33,4% eignarhluta sinn. Af þessum ástæðum telji umboðsmaður skuldara að kærandi hafi með síðari ráðstöfunum sínum hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að getað leitað greiðsluaðlögunar, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Að mati umboðsmanns brýtur sú háttsemi kæranda að taka að sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldum X slf. í bága við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þannig þyki liggja fyrir að kærandi uppfylli ekki skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 128/2010 hafi verið lögfest tímabundið ákvæði um svokallað greiðsluskjól. Samkvæmt ákvæðinu hefjist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. við móttöku umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Ákvæðið gildi um umsóknir sem bárust umboðsmanni fyrir 1. júlí 2011.

Í máli þessu hafi kærandi notið greiðsluskjóls á þeim tíma er hann hafi stofnað til þeirrar fjárhagslegu skuldbindingar sem felist í því að taka á sig ótakmarkaða ábyrgð á framtíðarskuldbindingum samlagsfélags í atvinnurekstri auk þess að leggja fram stofnfé. Samkvæmt því hafi honum á þeim tíma borið að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem var umfram það sem hann þurfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða auk þess sem honum hafi verið óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað hafi verið til hafi verið nauðsynleg til að sjá skuldara eða fjölskyldu hans farborða, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Af þessum ástæðum þyki umrædd skuldbinding kæranda hafa falið í sér brot á skyldum hans í greiðsluskjóli. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Ákvæði 12. og 15. gr. hafi verið lögfest fyrir gildistöku laga nr. 128/2010 og geri ekki ráð fyrir því að umsækjandi um greiðsluaðlögun geti notið greiðsluskjóls áður en mál hans komi til kasta umsjónarmanns. Til þess geti komið eftir gildistöku laga nr. 128/2010 að umboðsmaður skuldara verði þess áskynja við rannsókn sína samkvæmt 5. gr. lge. að umsækjandi um greiðsluaðlögun hafi brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli áður en ákvörðun sé tekin um hvort heimila eigi greiðsluaðlögunarumleitanir. Við þessar aðstæður þyki umboðsmanni skuldara ljóst að greiðsluaðlögunarumleitanir geti ekki náð fram að ganga. Því verði að telja að ákvæði 12. gr. lge., sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, geri það í raun að viðbótarskilyrði fyrir því að greiðsluaðlögunarumleitanir geti náð fram að ganga að skuldari hafi staðið við skyldur sínar í greiðsluskjóli frá því að hann sótti um greiðsluaðlögun og þar til umsókn hans sé tekin til afgreiðslu.

Þá tilgreinir umboðsmaður að nokkur reynsla sé komin á framkvæmd við niðurfellingu mála á grundvelli 15. gr. lge. vegna brota á skyldum skuldara í svokölluðu greiðsluskjóli. Í tilviki kæranda hafi þótt ljóst að framganga hans falli undir nefnd lagaákvæði. Einnig hafi þótt liggja fyrir að háttsemi kæranda væri til þess fallin að skaða hagsmuni annarra lánardrottna. Þessu til viðbótar sé ógerningur að ná jafnvægi milli skulda og greiðslugetu með þeirri óvissu sem skapist við að kærandi beri fulla ábyrgð á væntanlegum skuldum X slf. til framtíðar eða á meðan hann sé í forsvari sem ábyrgðarmaður gagnvart þriðja manni komi til þess að félagið takist á hendur skuldbindingar.

Að framangreindu virtu er það mat umboðsmanns að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 6. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Krefst umboðsmaður þess að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a- og c-liðum 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í c-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir skyldum skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Styðst ákvörðun umboðsmanns við a- og d-liði ákvæðisins en í a-lið segir að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið skal skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi hafi í félagi við aðra stofnað samlagsfélag á þeim tíma er hann naut svokallaðs greiðsluskjóls, það er tímabundinnar frestunar greiðslna. Við stofnun félagsins hafi hann tekist á hendur ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins gagnvart þriðja manni. Þessi háttsemi skerði hagsmuni annarra lánardrottna. Að auki séu heildarskuldbindingar kæranda óvissar þar sem hann beri fulla ábyrgð á þeim skuldum sem félagið kunni að takast á hendur á meðan ábyrgð hans sé ótakmörkuð með framangreindum hætti. Því sé ekki unnt að laga skuldir kæranda að greiðslugetu.

Ákvæði a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Eins og fram hefur komið varðar ákvæðið skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með ákvæðinu er vísað til I. kafla laganna í þessu sambandi.

Að mati kærunefndarinnar ber hér að líta til almennra ákvæða laganna, einkum 2. gr. lge. þar sem gerð er grein fyrir því hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar. Í fyrsta lagi eru það einstaklingar, hjón og sambýlisfólk sem sýna fram á að þau geti ekki staðið við fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna að öðru leyti. Í öðru lagi verða menn að vera búsettir og eiga lögheimili hér á landi. Þannig er hér fremur um að ræða formskilyrði en efnisleg skilyrði. Með hliðsjón af gögnum málsins telur kærunefndin að kærandi uppfylli skilyrði 2. gr. lge. um búsetu og vangetu til að standa í skilum með skuldbindingar. Almennar athugasemdir við frumvarp til lge. eiga því ekki við í þessu samhengi.

Fellst kærunefndin því ekki á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar.

Ákvæði c-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í c-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar.

Í kafla III. hér að framan er gerð grein fyrir hluta þess sem fram kemur í athugasemdum við ákvæðið. Því til viðbótar segir í athugasemdunum að ákvæðið eigi fyrst og fremst við um skuldara sem hafi haft svo háar tekjur að ljóst megi vera að honum hafi verið unnt að ráðstafa þeim til greiðslu skuldbindinga sinna og eðlilegrar framfærslu sinnar og fjölskyldu.

Hér háttar svo til að nokkur hluti vanskila kæranda er frá árunum 2008 og 2009. Einnig liggur fyrir að fasteign kæranda og eiginkonu hans var seld nauðungarsölu á uppboði í nóvember 2009. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum var eigna- og skuldastaða kæranda og eiginkonu hans eftirfarandi árin 2008 til 2010:

  2008 2009 2010
Skuldir alls kr. 20.321.927 33.675.657 10.738.435
Innstæður og verðbréf kr. 63.491 5.288 142.651
Ökutæki kr. 1.746.000 1.530.900 965.000
Fasteignir kr. 14.165.000 14.750.000 0
Eignir alls kr. 15.974.491 16.286.188 1.107.651
Nettóeignastaða kr. -4.347.436 -17.389.469 -9.630.784

Af ofangreindu má ráða að kærandi hefur glímt við fjárhagserfiðleika að minnsta kosti frá árinu 2008. Verður því ekki talið að framganga hans við stofnun skulda hafi ótvírætt verið óheiðarleg til að hann geti leitað greiðsluaðlögunar.

Að því er varðar síðari ráðstafanir kæranda felast þær í stofnun samlagsfélags í félagi við aðra og ábyrgð gagnvart þriðja manni á skuldum félagsins. Kærunefndin álítur þessa ráðstöfun kæranda ekki ótvírætt hafa verið óheiðarlega til að hann gæti leitað greiðsluaðlögunar enda hafði hann þá þegar leitað greiðsluaðlögunar. Þá bendir ekkert til þess að ráðstöfunartekjur kæranda hafi verið nægilega háar til að honum hefði verið unnt að ráðstafa tekjum sínum bæði til greiðslu skuldbindinga sinna og eðlilegrar framfærslu fjölskyldu sinnar.

Kærunefndin fellst því ekki á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að framganga kæranda hafi verið andstæð c-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Ákvæði 12. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. eru skuldara lagðar tilteknar skyldur á herðar á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Meðal annars ber skuldara að leggja til hliðar af tekjum sínum það sem er umfram framfærslukostnað samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. Þá er það skylda skuldara samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 12. gr. lge. með því að taka að sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins X slf. Samkvæmt gögnum máls var stofnfé X slf. 500.000 krónur og var kærandi eigandi að 33,3% hlut í félaginu. Ekki hefur verið upplýst hvernig kærandi greiddi fyrir hlut sinn. Þykir kærunefndinni því varhugavert að slá því föstu að hann hafi greitt fyrir hlutinn með launum sínum eða öðrum tekjum. Hitt er þó engum vafa undirorpið að við stofnun félagsins tókst kærandi á hendur ábyrgð á skuldum þess gagnvart þriðja manni. Með þessari ráðstöfun tókst kærandi á hendur greiðsluskyldu á öllum skuldbindingum sem félagið kynni að baka sér án nokkurra takmarkana.

Kærunefndin aflaði gagna frá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði um félagið X slf. Meðal gagna frá embættinu er tilkynning 20. janúar 2012 þar sem fram kemur að ábyrgð kæranda sé nú takmörkuð við innborgað stofnfé og því ekki lengur ótakmörkuð eins og fram kemur í stofnsamningi félagsins. Ekki liggur fyrir hvort myndast hafi kröfur á kæranda vegna þess tímabils sem hann var í ótakmarkaðri ábyrgð fyrir umrætt félag. Tilkynning um takmarkaða ábyrgð kæranda barst embætti sýslumanns eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara barst kæranda.

Samkvæmt d-lið 12. gr. lge. er skuldara heimilt að stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni kröfuhafa hafi honum verið nauðsynlegt að stofna til þeirra til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að framangreind undanþága sé sett til að tryggt sé að námsmönnum sé heimilt að sækja um fyrirgreiðslu til banka vegna framfærslu. Ákvæðið sé ekki einskorðað við námsmenn en því sé þó ætlað að hafa þröngt gildissvið. Undir það falla til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem eru nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar.

Samkvæmt ákvæðinu skal umboðsmaður skuldara leggja sérstakt mat á hvort skuldari hafi brugðist skyldum sínum með því að stofna til nýrra skulda eða hann gert aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni kröfuhafa. Hafi skuldari brugðist þessum skyldum sínum samkvæmt mati umboðsmanns skal embættið einnig meta hvort skuldari hafi gert það af nauðsyn til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærunefndin fær ekki séð af gögnum málsins eða ákvörðun umboðsmanns að embættið hafi metið hvort stofnað hafi verið til skuldbindinga af nauðsyn. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um hvort skuldbinding kæranda vegna félagsins X slf. hafi leitt til þess að myndast hafi á hann kröfur sem skaðað geta hagsmuni lánardrottna.

Á embætti umboðsmanns skuldara hvílir rík rannsóknarskylda samkvæmt 5. gr. lge. og verður að telja við aðstæður sem þessar að tilefni sé til gagnaöflunar um skuldir sem hvíla á kæranda vegna félagsins X slf. og þá hvort nauðsynlegt hafi verið fyrir hann að stofna til þeirra.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir einnig á a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu skal umboðsmaður leggja mat á hvort skuldari hafi brugðist skyldum sínum með því að láta ógert að leggja til hliðar fjármuni umfram framfærslu. Í ákvörðun umboðsmanns og greinargerð er ekki gerð grein fyrir því hvernig kærandi á að hafa brugðist skyldu sinni samkvæmt ákvæðinu. Hvergi kemur fram í ákvörðun hvað kærandi átti að hafa lagt mikla fjármuni mánaðarlega til hliðar umfram framfærslu né þá heildarfjárhæð sem umboðsmaður telur að kærandi hafi átt að hafa lagt til hliðar á tímabilinu sem hann naut greiðsluskjóls. Þá gefa gögn málsins ekki til kynna að kærandi hafi brugðist skyldu sinni samkvæmt ákvæðinu.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda vegna vangoldins virðisaukaskatts samtals 4.097.833 krónur sem nema um 18,6% af heildarskuldum kæranda. Til skuldarinnar var að mestu leyti stofnað á árinu 2011. Í 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um heimild umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við matið skal embættið meðal annars taka tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d-lið ákvæðisins. Umboðsmaður skuldara hefur ekki lagt sérstakt mat á hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. Kærunefndin tekur ekki afstöðu til þess hvort synja ber um greiðsluaðlögun nema að undangengu mati umboðsmanns skuldara um hvort óhæfilegt sé að veita greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðinu.

Með vísan til alls framangreinds verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi ekki byggst á fullnægjandi upplýsingum, sem umboðsmanni skuldara var skylt að afla eða láta afla samkvæmt 5. gr. lge., og að ekki hafi farið fram fullnægjandi mat á því sem skipti máli þegar tekin var ákvörðun um að veita kæranda ekki heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 6. og 12. gr. laganna. Samkvæmt því ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til meðferðar umboðsmanns skuldara.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta