Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 32/2012

Fimmtudaginn 9. janúar 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 9. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 8. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 39 ára. Hann býr ásamt sambýliskonu og tveimur börnum í 80,6 fermetra eigin íbúð. Kærandi starfar sem deildarstjóri pípulagna hjá X, en hann er menntaður tæknifræðingur og pípulagningamaður.

Útborgaðar mánaðartekjur kæranda eru að meðaltali 459.237 krónur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til efnahagshrunsins 2008. Við það hafi lán kæranda og sambýliskonu hans hækkað mjög mikið og þau hafi ekki getað greitt af þeim. Fram að því hafi þau getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar. Kærandi rekur erfiðleika sína einnig til þess að á árunum 2005 til 2008 hafi hann starfað sem einyrki og upp hafi safnast skuldir sem tengdust rekstrinum. Illa hafi gengið að semja við kröfuhafa og að lokum hafi fjárnám blasað við í eign kæranda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 68.133.655 krónur og falla þar af 31.133.655 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun. Sambýliskona kæranda er meðskuldari hans á lánum frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 11.621.946 krónur. Utan samnings um greiðsluaðlögun fellur dómsekt að fjárhæð 37.000.000 króna. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2000 og 2008 til 2010.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 26. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála breyti ákvörðun umboðsmanns skuldara og taki umsókn hans um greiðsluaðlögun til greina.

Kærandi kveðst ekki geta fallist á að neita eigi honum um greiðsluaðlögun vegna einnar skuldar, þó nefnd skuld sé há og stafi frá refsiverðri háttsemi hans. Samkvæmt f-lið 3. gr. lge. sé gert ráð fyrir að skuldari eigi rétt á greiðsluaðlögun þó hann hafi hlotið dóm um greiðslu fésektar en greiðsluaðlögunin taki ekki til þeirrar skuldar. Kærandi telji sig geta greitt sektina með samfélagsþjónustu sem hann hafi verið kominn langt með að semja um en samningar hafi fallið niður þegar kærandi hafi leitað greiðsluaðlögunar. Kærandi segist ekki vita af hvaða ástæðum fallið hafi verið frá samningaumleitunum.

Að mati kæranda séu öll rök til þess að hann fái efnislega niðurstöðu um aðrar kröfur sínar, en það sé nauðsynlegt til að hann geti veitt fjölskyldu sinni viðunandi framtíð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í athugasemdum með 6. gr. lge. er fylgdu frumvarpi til laganna komi fram að ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vanda hans megi að einhverju eða öllu leyti rekja til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé refsivert ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi heildarskuldbindingar kæranda 68.133.655 krónum. Þá liggi fyrir að með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 71/2010 hafi kærandi verið dæmdur til greiðslu 37.000.000 króna sektar í ríkissjóð vegna vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Með dóminum hafi kærandi, sem framkvæmdastjóri félagsins Y ehf., verið dæmdur sekur fyrir að hafa hvorki skilað skilagreinum né virðisaukaskattskýrslum á réttum tíma, auk þess sem hann hafi skilað efnislega rangri virðisaukaskattskýrslu með vísan til 2. og 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Brotin hafi verið framin á árunum 2005 til 2007. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 4. mars 2011.

Samkvæmt upplýsingum á skattframtölum kæranda og sambýliskonu hans hafi eignir þeirra og skuldir verið eftirfarandi á árunum 2005 til 2010:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Eignir 33.360.691 20.895.200 19.400.000 20.513.895 24.813.307 23.105.297
Skuldir 16.052.288 18.160.383 11.356.779 29.756.264 32.970.575 32.852.701
Eignastaða 17.308.403 2.734.817 8.043.221 -9.242.369 -8.157.268 -9.747.404

Kröfur sem tilkomnar séu með háttsemi er varði refsingu séu samtals að fjárhæð 37.000.000 króna. Fjárhæðin verði út af fyrir sig að teljast verulega há og sem hlutfall af heildarskuldbindingum kæranda sé hún 54,3%. Jafnvel þótt eignastaða kæranda hafi verið jákvæð þegar til kröfunnar hafi verið stofnað verði ekki litið fram hjá því að um refsiverðan verknað hafi verið að ræða. Það sé því mat umboðsmanns skuldara að skuldbindingar kæranda sem rekja megi til þeirrar háttsemi sem tilgreind sé í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. teljist ekki smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Að því er varði ummæli kæranda í kæru um að hann hafi sótt um að fá að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu, verði ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að afstaða hafi verið tekin til umsóknar hans. Sé slík heimild bundin ýmsum skilyrðum samkvæmt lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Færi svo að kærandi fengi slíka umsókn samþykkta, ætti hann samt sem áður eftir að afplána refsingu sína til þess að krafa ríkissjóðs um greiðslu sektar félli niður. Ekki verði séð að beiðni kæranda um að fá að sækja um að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu geti ein og sér breytt niðurstöðu málsins.

Sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem varðað geti refsingu og sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans. Þyki umboðsmanni skuldara því óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála breyti ákvörðun umboðsmanns skuldara og taki umsókn hans um greiðsluaðlögun til greina.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðslu­aðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 71/2010 var kærandi dæmdur til greiðslu 37.000.000 króna sektar í ríkissjóð vegna vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins var hrein eign kæranda og sambýliskonu hans mest rúmar 17.000.000 króna á árinu 2005 en hefur farið minnkandi og er nú neikvæð um tæplega 10.000.000 króna. Skuld kæranda vegna dómsektar nemur alls 37.000.000 króna sem telja verður verulega háa fjárhæð. Skuld þessi er nú 54,3% af heildarskuldum kæranda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta er skuld sem ekki fellur undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessarar skuldar með refsiverðri háttsemi eins og tiltekið er hér að framan.

Eins og á stendur í máli þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 telur kærunefndin að fyrrnefnd skuld kæranda vegna dómsektar, sem fellur undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sé svo veruleg miðað við fjárhag kæranda ef litið er til tekna hans og eignastöðu að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar. Breytir þá engu þótt kærandi kveðist hafa óskað eftir að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu þar sem hvorki liggur fyrir að hann fullnægi skilyrðum þar um né að beiðni hans hafi verið samþykkt.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið staðfestir kærunefndin að synja beri A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta