Hoppa yfir valmynd

Nr. 227/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 4. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 227/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020032

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

  1. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 13. febrúar 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2023, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Þá gerir kærandi kröfu um að kæra fresti réttaráhrifum á ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 frestar kæra réttaráhrifum.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 9. september 2022. Á grundvelli vegabréfsáritunar til Spánar í vegabréfi kæranda var, beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni 21. október 2022, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá spænskum yfirvöldum, dags. 26. október 2022, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 24. október 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 31. janúar 2023 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 1. febrúar 2023 og kærði hún ákvörðunina 13. febrúar 2023 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 27. febrúar 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að spænsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Spánar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn hennar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Spánar.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún starfi sem […] og komi frá Rússlandi. Ættingjar hennar séu þó fæddir í Úkraínu. Kærandi hafi mótmælt stjórnvöldum í heimaríki frá árinu 2011 og telur öryggi sínu ógnað vegna þess. Kærandi hafi verið handtekin af lögreglu í mótmælum þar í landi og haldið fanginni um nokkurt skeið. Þá hafi kærandi fengið sekt vegna mótmælaaðgerða og verið meðvituð um að stjórnvöld í heimaríki hafi fylgst með almenningi með myndavélum. Stjórnvöld hafi svo tekið upp á því að handtaka mótmælendur ef til þeirra sást á almannafæri. Þar sem ekki hafi verið hægt að fá beint flug frá heimaríki til Íslands hafi kærandi flogið í gengum Eistland. Kærandi hafi aldrei komið til Spánar og geti ekki hugsað sér að fara þangað. Kærandi telji lífi sínu ógnað í heimaríki vegna þess ofbeldis sem viðgangist þar í landi og hafi því sótt um vegabréfsáritun til Spánar en það hafi tekið skemmstan tíma að fá áritun þangað. Kærandi hafi einnig fengið vegabréfsáritun til Íslands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi tengsl við Ísland og hyggist setjast hér að fái hún alþjóðlega vernd hér á landi.

Kærandi byggir aðallega á því að mál hennar skuli tekið til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sérstök tengsl við landið og því sé nærtækast að hún fái alþjóðlega vernd á Íslandi, enda hafi hún áður dvalið hér á landi í þrjá mánuði. Kærandi hafi engin tengsl við viðtökuríki en hafi myndað félagsleg tengsl hér á landi. Þá sé kærandi með íbúð og vinnustofu fyrir listsköpun sína hér á landi. Kærandi sé virtur listamaður og hafi verið í kynnum við íslenska listamenn og listunnendur áður en hún hafi flúið heimaríki vegna aðstæðna. Kærandi líti á þessa aðila sem fjölskyldu sína, enda dvelji hún hér á landi í þeirra skjóli. Kærandi hafi fengið boð um að taka þátt í gjörningahátíð, tekið þátt í listamessu og hafi verið með sýningu hér á landi. Auk þess sé hún í miklum samskiptum við ákveðna nafngreinda aðila og meðlimur í sambandi íslenskra myndlistarmanna.

Kærandi byggir jafnframt á því að hún glími við heilsubrest. Kærandi hafi verið haldin kvíða og sé í sambandi við geðlækni/sálfræðing einu sinni í mánuði til mats á andlegri heilsu hennar. Kærandi hafi þurft að taka kvíðastillandi lyf vegna ástand síns en henni líði betur eftir að hún kom til Íslands og hafi verið lyfjalaus til skamms tíma.

Kærandi leggur áherslu á að hún hafi aldrei komið til Spánar, líkt og hún hafi tekið skýrt fram í viðtali hjá Útlendingastofnun.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæð kona á [...]. Við meðferð málsins hefur kærandi greint frá því að hún hafi ekki komið til Spánar eftir að hún hafi fengið útgefna vegabréfsáritun frá spænskum stjórnvöldum. Kærandi hafi flogið í gegnum Eistland til Íslands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 9. september 2022. Kærandi hafi fengið vegabréfsáritun til Íslands eftir að hún hafi komið hingað til lands. Kærandi hafi ekki lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Spáni og þekki ekki til verndarkerfisins þar í landi. Kærandi hafi stuðning frá fjölskyldu sem hún dvelji hjá hér á landi en ekki á Spáni. Þá sé kærandi listamaður og hafi starfað sem slíkur hér á landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún væri við góða líkamlega heilsu. Þá væri andleg heilsa hennar stöðug en hún hafi glímt við kvíða og tekið kvíðastillandi lyf vegna þess.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið um það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Í 7. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að viðmiðin hafi forgang í samræmi við röð þeirra í kaflanum. Í 12. gr. er síðan mælt fyrir um það viðmið að ríki skuli bera ábyrgð á umsókn umsækjanda sem er handhafi dvalarskjals eða vegabréfsáritunar í viðkomandi ríki. Er mælt fyrir um ákveðna forgangsröðun er lýtur að tilvikum þegar umsækjandi hefur slíkt dvalarskjal eða vegabréfsáritun í mismunandi aðildarríkjum reglugerðarinnar. Af gögnum málsins verður ráðið að þegar kærandi lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi hafði hún hvoru tveggja vegabréfsáritun hér á landi og á Spáni og þurfti því óhjákvæmilega að leggja mat á það hvort íslensk eða spænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á umsókn hennar í samræmi við umrædd ákvæði 12. gr. reglugerðarinnar eða eftir atvikum öðrum ákvæðum hennar.

Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skal beiðni um að aðildarríki taki yfir umsjá umsækjanda lögð fram á stöðluðu eyðublaði ásamt sönnunum og/eða þáttum í yfirlýsingu umsækjanda, sem gera yfirvöldum aðildarríkis sem tekur við beiðninni kleift að kanna hvort það beri ábyrgð í samræmi við viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í reglugerðinni. Á hinu staðlaða eyðublaði er gert ráð fyrir að aðildarríki sem óskar eftir að annað aðildarríki taki ábyrgð á umsókn upplýsi hvort umsækjandi sé viðtakandi dvalarskjals eða vegabréfsáritunar í fyrrnefnda ríkinu. Í gögnum málsins er að finna staðlað eyðublað sem af hálfu Útlendingastofnunar var fyllt út og sent til stjórnvalda á Spáni vegna máls kæranda. Þar kemur ranglega fram að kærandi sé hvorki viðtakandi dvalarskjals né vegabréfsáritunar á Íslandi. Hvað svo sem líður því álitaefni hvort íslensk eða spænsk stjórnvöld báru ábyrgð á umsókn kæranda leiðir af framangreindu að spænsk stjórnvöl höfðu ekki réttar forsendur til að ákvarða hvort þau bæru ábyrgð á umsókn kæranda samkvæmt ákvæðum og viðmiðum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Með vísan til þessa var verulegur annmarki á málsmeðferð Útlendingastofnunar er laut að samskiptum við spænsk stjórnvöld er lyktaði með því að þau samþykktu að taka ábyrgð á umsókn kæranda. Umrætt samþykki var grundvöllur þeirrar niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðun að ákvæði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væri uppfyllt. Kærunefnd telur ekki unnt að bæta úr framangreindum annmarka á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Er það því niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to reexamine the case.

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta