Hoppa yfir valmynd

Nr. 49/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 25. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 49/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU22120072 og KNU22120073

 

Beiðni [...] og [...]um endurupptöku

  1. Málsatvik

    Hinn 23. júní 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 12. apríl 2022 um að taka umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir M), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum 27. júní 2022.

    Hinn 4. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Hinn 15. júlí s.á. féllst kærunefnd á beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Hinn 21. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku.

    Af beiðni kærenda um endurupptöku má ráða að hún byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kærenda

    Beiðni kærenda um endurupptöku mála þeirra byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að þau lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á þeirra ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsóknir kærenda því teknar til efnismeðferðar hér á landi. Kærendur vísa til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 580/2017, dags. 24. október 2017, máli sínu til stuðnings.

    Í beiðni kærenda er vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 527/2022. Kærendur séu ósammála túlkun nefndarinnar á 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga um að beiting þess feli í sér frestun á öllum réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar á meðan mál kærenda er til meðferðar fyrir dómi, þ.m.t. umræddum 12 mánaða fresti. Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiði að umrætt tímabil hefjist þegar umsækjandi leggi fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hafi í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin. Eðli máls samkvæmt beri stjórnvöld ábyrgð á málsmeðferðartíma á stjórnsýslustigi nema hægt sé að rekja meintar tafir til hátternis umsækjenda, sem sé ekki hægt í máli kærenda. Upphaflegi úrskurður kærunefndar útlendingamála í málum kærenda var birtur sex mánuðum eftir að þau lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hérlendis. Nánast sjö mánuðum eftir framlagningu var beiðni þeirra um frestun réttaráhrifa samþykkt. Í kjölfarið hafi kærendur óskað eftir flýtimeðferð málsins hjá héraðsdómi og verið synjað 25. júlí 2022. Um mistök hafi verið að ræða hjá löggjafanum að skylda umsækjendur til að óska eftir flýtimeðferð, þrátt fyrir að synjun sé í flestum tilfellum fyrirsjáanleg. Ekki sé hægt að byggja á því að beiting 6. mgr. 104. gr. laganna feli í sér veitingu efnismeðferðar þegar málsmeðferðin sé jafn óskilvirk og raun beri vitni. Slík túlkun stríði einnig gegn sjónarmiðum um hlutverk stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga, en túlkunin virðist ganga út frá því að það sé sjálfgefið að málsmeðferðartíminn muni dragast úr öllu hófi og langt umfram 12 mánaða frestinn þegar beiðni um frestun réttaráhrifa er samþykkt. Óskýrleiki lagaákvæða og túlkun þeirra geti ekki verið grundvöllur svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar. Þannig sé úrskurður kærunefndar nr. 527/2022 ekki í samræmi við téð lagaákvæði og brot á lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Með vísan til framangreinds og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. úrskurð kærunefndar í máli nr. 580/2017 er óskað eftir að kærunefnd endurupptaki mál þeirra, felli ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi og geri stofnuninni að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar á grundvelli 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Þá telur kærunefnd að horfa verði til þess að 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga um 12 mánaða frest er sérregla og byggir á því að tafir á málsmeðferð verði ekki taldar á ábyrgð umsækjenda. Sú regla gildir um málsmeðferð fyrir stjórnvöldum og er ætlað að tryggja að málsmeðferð stjórnvalda dragist ekki úr hófi fram. Frestun réttaráhrifa á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er annars eðlis og byggir á beiðni kærenda þar um til að fá að dvelja hér á landi á meðan mál þeirra er til meðferðar fyrir dómstólum. Verður ákvæði 6. mgr. 104. gr. laganna ekki skilið öðruvísi en svo að beiting þess feli í sér frestun á öllum réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar á meðan mál kærenda er til meðferðar fyrir dómi, þ.m.t. umræddum 12 mánaða fresti. Að öðrum kosti væri ákvæði 6. mgr. 104. gr. laganna þýðingarlaust þar sem beiting þess myndi í reynd fela í sér veitingu efnismeðferðar.

Kærendur lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 17. desember 2021 og hefði umræddur 12 mánaða frestur því runnið út á miðnætti 17. desember 2022. Kærunefnd féllst á beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa á málum þeirra með úrskurði nr. 277/2022, dags. 15. júlí 2022, u.þ.b. fimm mánuðum áður en 12 mánaða fresturinn rann út. Telur kærunefnd því að ekki sé hægt að fallast á endurupptöku á málum þeirra á grundvelli þess að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir síðan þau lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi., sbr. 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá vekur kærunefnd athygli á því að reynt hefur á sambærilegt álitaefni fyrir Hæstarétti í tíð eldri laga um útlendinga og vísar í því sambandi til dóms réttarins í máli 164/2015, dags. 8. október 2015, sbr. jafnframt dóma réttarins nr. 132/2015, 114/2015 og 430/2014.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kærenda á þann hátt að þau eigi rétt á endurupptöku á málum sínum, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á málum þeirra er þar með hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine their cases is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta