Mál nr. 76/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 76/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 15. maí 2009 sem staðfest var skriflega 27. maí 2009. Á fundi Vinnumálastofnunar þann 20. júní 2009 reiknaði stofnunin honum 29% bótarétt en leiðrétti það síðan 28. júlí 2009 og var umsókn kæranda þá samþykkt með 46% bótarétt. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 13. júlí 2009. Kærandi krefst þess að fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.
Kærandi starfaði, samkvæmt vinnuveitendavottorði sem hann gaf sjálfur út, dags. 27. maí 2009, við sjálfstæðan rekstur á eigin kennitölu frá því í mars 2007 til maí 2009 en þá hætti hann störfum vegna samdráttar í verkefnum. Starfsemin fellur undir tekjuflokk B5 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lágmarksviðmiðunarfjárhæð í þeim flokki nemur 342.000 kr. og hefur sú fjárhæð verið óbreytt frá því bótaréttur kæranda myndaðist. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi staðgreiðslu og tryggingagjald af starfi sínu miðað við 100.000 kr. á mánuði frá 1. janúar 2008. Fyrir árið 2007 greiddi hann staðgreiðslu og tryggingagjald að fjárhæð samtals 1.474.169 kr.
Kærandi kveður sig hafa borið hið reiknaða endurgjald undir skattayfirvöld og hafi það orðið sameiginleg niðurstaða að hann teldi fram 100.000 kr. fyrir fulla starfsemi. Í framhaldinu hafi hann greitt af hinu mánaðarlega reiknaða endurgjaldi. Stundum hafi tekjur verið hærri og hafi hann þá talið það fram en þegar á leið hafi verkefnum fækkað og stundum hafi tekjur verið lægri en 100.000 kr. og stundum engar. Kærandi kveður tekjur sínar hafa verið undir 342.000 kr. vegna færri verkefna og lægri tekna. Hann telur það hart ef samdráttur verður og það verður til þess að bætur skerðast hjá þeim sem unnið hafa sjálfstætt. Þeir sem vinni sem fastráðnir starfsmenn og missi svo vinnu þurfi ekki að þola neitt slíkt þó velta hjá vinnuveitanda hafi dregist saman. Kærandi telur þennan mun ekki geta samrýmst jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og séu það rökin fyrir því að hann geri kröfu um að vera reiknaður í 100% hlutfalli.
Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að kærandi var sjálfstætt starfandi á ávinnslutímabili skv. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og skilaði inn ásamt umsókn, staðfestingu skattayfirvalda á greiðslu reiknaðs endurgjalds, tryggingargjalds og staðgreiðsluskatts. Þá hafi einnig borist vottorð vinnuveitanda útgefið af kæranda. Eðlismunur á starfstengdum aðstæðum sjálfstætt starfandi einstaklinga annars vegar og launamanna hins vegar leiði til þess að svo finna megi vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli miða við skrár skattyfirvalda, sbr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi ekki greitt sér laun sem námu lágmarksviðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og ákvarðist tryggingarhlutfall hans því af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds og viðmiðunarfjárhæðinni, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Loks kemur fram hjá Vinnumálastofnun að kærandi vísi í jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem rök fyrir kröfu sinni um að vera reiknaður í 100% hlutfall. Ekki verði séð að kærandi eigi að sæta annars konar meðferð en aðrir þeir umsækjendur sem teljist til sjálfstætt starfandi einstaklinga eins og það hugtak sé skilgreint í b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 37/2009 um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. september 2009, send greinargerð Vinnumálastofnunar og önnur gögn og gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri fyrir 8. október 2009. Kærandi sendi rafpóst þann 12. október 2009 með frekari athugasemdum.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að ágreiningi um bótahlutfall kæranda en Vinnumálastofnun telur að það skuli vera 46% en kærandi að það skuli vera 100%. Við lausn ágreiningsefnisins verður að líta til 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. gr. laga nr. 37/2009, en ákvæðið er svohljóðandi:
Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.
Ljóst er að 2. málsliður ákvæðisins á við um aðstöðu kæranda. Eins og málatilbúnaði aðila er háttað telst mat Vinnumálastofnunar á 46% bótahlutfalli kæranda vera rétt.
Við mat á jafnræðissjónarmiðum verður að hafa í huga að með 13. gr. laga nr. 37/2009 var reglum um ávinnslutímabil sjálfstætt starfandi einstaklinga breytt og tekin m.a. upp þau viðmið sem felast í 2. ml. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þessi viðmið voru rökstudd m.a. með vísan til þess að nokkur eðlismunur væri á starfstengdum aðstæðum launamanna annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar. Nánari rök voru svo færð fyrir þeirri skipan sem 2. mgr. 19. laganna mælir fyrir um, sbr. skýringar í lagafrumvarpi á þeirri grein sem varð að 13. gr. laga nr. 37/2009. Í ljósi þessa verður að fallast á röksemdir Vinnumálastofnunar og telja að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin í samræmi við jafnræðissjónarmið.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning bótaréttar A er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson