Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 63/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 63/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem staðfest var skriflega þann 19. janúar 2009. Umsóknin var tekin fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 19. febrúar 2009 og var hún samþykkt með 26% bótahlutfalli. Kærandi vill ekki una því að örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins komi til skerðingar greiðslum til hennar úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sbr. kæru sem móttekin var 9. júní 2009. Vinnumálastofnun kveður lögbundnar ástæður liggja að baki ákvörðun sinni um að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna örorkulífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun.

Í erindi kæranda kemur fram að hún fái örorkulífeyri, en megi vinna fyrir 100.000 kr. á mánuði. Hún hafi fengið 70% vinnu og unnið í þrjá mánuði en hafi síðan farið á atvinnuleysisbætur. Varðandi greiðslu atvinnuleysisbótanna sé alltaf talað um að hún hafi tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins sem mergsjúgi atvinnuleysisbæturnar. Í ráðningarsamningi um tímabundið starf kemur fram að kærandi hafi unnið hjá X frá 14. október 2008 til 15. janúar 2009 í 70% starfi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 11. september 2009, er vísað til þess að í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna. Með skýru orðalagi 1. mgr. 36. gr. laganna sé mælt fyrir um skerðingu á bótarétti til handa þeim sem tryggðir eru samkvæmt lögunum, njóti þeir annarra tekna, svo sem elli- eða örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þar sem kærandi hafi slíkar tekjur skerðist réttur hennar í samræmi við það. Við útreikning á frádrætti vegna tekna sé gert ráð fyrir ákveðnu frítekjumarki, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en miðað sé við að hinn tryggði geti haft tekjur upp að vissu marki án þess að þær komi til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem fari fram yfir samanlagðar tekjur eða aðrar greiðslur hins tryggða og þeirra atvinnuleysisbóta sem hann eigi rétt á komi til frádráttar atvinnuleysisbótum.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. október 2009. Kærandi hefur ekki nýtt sér það. Kæranda var að nýju sent bréf, dags. 11. nóvember 2009, þar sem henni var bent á að kæra hennar virtist vera of seint fram komin og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum varðandi þennan þátt. Kærandi nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun var samkvæmt gögnum málsins tekin 19. febrúar 2009 en kæran var móttekin 9. júní 2009. Þegar kæran barst var hinn þriggja mánaða kærufrestur liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru í máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta