Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 72/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 72/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn, dags. 7. maí 2009, og staðfesti hana skriflega sama dag. Umsóknin var samþykkt þann 30. maí 2009. Af hálfu Vinnumálastofnunar segir að stofnunin hafi ekki tekið formlega ákvörðun í máli kæranda og í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar er lúta að námsmönnum milli anna, hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júní, júlí og ágúst, eða það tímabil sem námsmenn eiga ekki rétt á framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi vildi ekki una því að fá ekki greiddar bætur frá og með dagsetningu umsóknar um atvinnuleysisbætur og lagði fram kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. júlí 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að ákvörðun stofnunarinnar um upphaf greiðslu atvinnuleysisbóta verði staðfest.

Samkvæmt vottorði Háskóla Íslands, dags. 5. maí 2009, var kærandi skráð stúdent við skólann skólaárið 2008–2009. Hún var skráð í 30 ETCS einingar á vorönn og skráð áfram í nám haustið 2009. Í vottorði vinnuveitanda kemur fram að kærandi hafi starfað hjá X ehf. frá 13. febrúar 1989 til 30. apríl 2009 en þá var henni sagt upp vegna samdráttar. Kærandi kveðst hafa verið í 100% vinnu út apríl síðastliðinn en farið í nám með starfinu á uppsagnarfrestinum til að gera sig hæfari til að fá starf að nýju. Hún krefst þess að fá atvinnuleysisbætur frá 7. maí eða til vara frá 12. maí 2009. Hún kveðst telja réttmætt að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim degi sem starfstíma hennar lauk þrátt fyrir að hún hafi verið í skóla með vinnunni. Það telji hún málinu óviðkomandi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2009, kemur fram stofnunin líti svo á að kærandi sé með kæru sinni að mótmæla því að hafa verið sett á það tímabil sem námsmenn eigi ekki rétt á framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Vinnumálastofnun vísar í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Stofnunin tekur fram að ákvæði 52. gr. laganna sé mjög skýrt og taki með berum orðum fram að sá sem stundi nám sé ekki tryggður á sama tímabili. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Það sé ljóst af tilvitnuðu ákvæði að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu meðan þeir stunda nám, heldur skuli námsmenn almennt leita til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Samkvæmt úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna skuli grunnframfærsla sýna lánsþörf námsmanns á námstíma sem teljist samkvæmt reglum lánasjóðsins níu mánuðir. Grunnframfærsla samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins sé þannig ákveðin sem 1/9 af mismuni framfærslugrunnsins, eins og hann sé á hverjum tíma og ráðstöfunartekna námsmanns. Þá byggist útreikningur á grunnframfærslu á þeim ECTS einingum sem námsmaður ljúki. Vinnumálastofnun hafi litið svo á að námsmenn geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á sama tíma og þeir njóti greiðslna frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Við gerð verklagsreglna hvað varði námsmenn hafi því verið horft til þess að þeir námsmenn sem stundi lánshæft nám á vorönn og skráðir séu í áframhaldandi nám eftir sumarið, eigi rétt á framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna níu mánuði af árinu. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að námsmenn geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og þeim sé tryggð framfærsla frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. október 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við nefnda lagagrein í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og ekki skipti máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Kærandi var skráð í 30 ECTS eininga nám á vorönn 2009 og samkvæmt framangreindri meginreglu átti hún ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir maí mánuð 2009.

Í 2. mgr. 52. gr. segir að þrátt fyrir 1.mgr. skuli Vinnumálastofnun meta sérstaklega hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður samkvæmt lögum þessum þegar hann hefur stundað nám með starfi sínu sem hann missti og námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda er lánshæft og hún á því heldur ekki rétt á atvinnuleysisbótum á grundvelli 2. mgr. 52. gr.

Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar átti kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir maí mánuð 2009.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta