Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2003

Þriðjudaginn, 24. febrúar 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. september 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. september 2003. Kæra hafði áður verði send á rangan stað eða til úrskurðarnefndar almannatrygginga og nýtur kærandi þess þegar litið er til þess hvort kærufrestur sé liðinn.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 13. maí 2003, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks vegna töku sameiginlegs fæðingarorlofsréttar foreldra. 

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Undirritaður óskaði eftir að fá greidda 3 mánuði í fæðingarorlof auk þeirra 3 mánaða sem hann á rétt á sem námsmaður. Var því hafnað (án þess að vísað væri í lög eða reglur þar um) á þeirri forsendu að þar sem móðir, í þessu tilviki hefði ekki rétt til fæðingarorlofs á Íslandi, þá félli 3 mánaða sameiginlegur réttur foreldra niður. Kæran er lögð fram á þeirri forsendu að undirritaður telur það ekki felast í hugmyndinni um sameiginlegan rétt, að höfnun sem annar aðilinn fær feli þar með í sér höfnun gagnvart hinum aðilanum.“

  

Með bréfi, dags. 30. september 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 12. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 17. mars 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna og maki hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar 10. maí. Í umsókninni komu fram upplýsingar um að maki kæranda hefði unnið í B-landi undanfarin 2-3 ár þar sem kærandi hefði verið í námi og að hún hefði áunnið sér rétt til fæðingarorlofs erlendis. 

Með bréfi dags. 28. apríl 2003 var kæranda tilkynnt að réttur móður til greiðslna erlendis hafi áhrif á rétt hans hér á landi og þar sem hann sækti um að fá að nýta sameiginlegan rétt foreldra til greiðslna yrði móðir að leggja fram gögn frá réttu yfirvaldi í B-landi sem sýni fram á hver sé réttur hennar til greiðslna þar vegna fæðingarinnar. Umsókn hans væri í biðstöðu þar til viðeigandi gögn bærust.

Eftir að borist hafði staðfesting á því að maki kæranda ætti rétt á fæðingarorlofi í 29 vikur í B-landi var kæranda með bréfi dags. 13. maí 2003 synjað um sameiginlegan rétt foreldra á grundvelli þess að maki hans nýtti þann rétt í B-landi.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. janúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks vegna sameiginlegs fæðingarorlofsréttar foreldra.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér. Í athugasemdum með 19. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 er kveðið á um skiptingu sameiginlegs réttar ef foreldrar falla undir mismunandi kerfi, en þá nýtur hvort um sig réttar samkvæmt sínu kerfi en um skiptingu sameiginlega réttarins fari skv. 6. mgr. Hún hljóðar svo: „Ef annað foreldrið tekur hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.“

Barn kæranda er fætt 17. maí 2003. Samkvæmt gögnum málsins átti móðir barnsins rétt til greiðslu í fæðingarorlofi í B-landi þar sem hún hafði starfað þar á vinnumarkaði. Hún átti rétt á greiðslu í 29 vikur, og mun hún hafa nýtt sér þann rétt. Í sex vikur fékk hún greiðslu sem nam 90% af launum hennar og síðan fékk hún D kr. á viku næstu 23 vikurnar. Þær greiðslur byggðu á sjálfstæðum rétti móður. Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi engan rétt á greiðslum í B-landi. 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli sameiginlegs réttar foreldra til fæðingarorlofs, hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni vegna töku sameiginlegs fæðingarorlofsréttar foreldris.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli sameiginlegs réttar foreldra til greiðslna í fæðingarorlofi er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni vegna töku sameiginlegs fæðingarorlofsréttar foreldris.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta