Mál nr. 74/2003
Þriðjudaginn, 16. mars 2004
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 29. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. október 2003.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 9. ágúst 2003 um að synja kæranda um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„Vísað er umsóknar A dagsett 25.7.2003 og meðfylgjandi bréfs dagsett 27.7.2003 varðandi greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Þar kemur fram að undirrituð fór í eins árs fæðingarorlof 2. september 2002 þar sem útborgun var 40% af meðaltekjum viðmiðunartímabili (2001-2002). Nýtt fæðingarorlof hófst l. október 2003, og verður einnig 12 mánuðir. Vegna þess hve stuttur tími líður á milli fæðinga skerðist núverandi orlof undirritaðrar mun meira en eðlilegt má teljast miðað við grunntekjur í fullu starfi. Í núverandi fæðingarorlofi er útborgun því komin í 16% af fyrri tekjum.
Farið er fram undanþágu frá viðmiðun af meðaltekjum 12 mánaða tímabils er ljúki 2 mánuðum fyrir upphafsdag orlofs. Farið er fram á að fæðingarorlof verði reiknað sem 80% af grunnlaunum (B kr.) skv. kjarasamningi undirritaðrar.“
Með bréfi, dags. 3. nóvember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:
„Með ódagsettri umsókn sem barst 29. júlí 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar 29. september 2003. Með umsókninni fylgdi bréfi frá henni þar sem hún fór fram á að útreikningur greiðslna miðaðist við meðaltal heildartekna á viðmiðunartímabili fyrir fæðingarorlofs hennar vegna barns fædds í september 2002. Til vara fór hún fram á að tekið yrði mið af 80% af meðaltali heildartekna á því viðmiðunartímabili eða að útreikningur miðaði við grunnlaun sín eins og þau væru í dag.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali heildarlauna á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með mánuðum í ákvæði þessu er átt við almanaksmánuði.
Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Ef foreldri telur upplýsingar úr viðkomandi skrám ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. ágúst 2003 var synjað að verða við beiðni hennar um að miða útreikning á fæðingarorlofi hennar við annað tímabil en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).
Í 2. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. ffl er að finna skýr fyrirmæli um það hvernig útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eigi að fara fram. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn um að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá RSK séu rangar. Útreikningur á greiðslum til kæranda var því í samræmi við ákvæði þessi byggður á launum samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK á viðmiðunartímabilinu.
Að lokum er vert að geta þess að hugsanlegt er að kærandi eigi sem opinber starfsmaður rétt á viðbótargreiðslu úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði opinberra starfsmanna sem nemur mismuni þeirra greiðslna sem hún fær úr Fæðingarorlofssjóði og þeim launum sem hún hefði fengið í fæðingarorlofi skv. reglugerð um barnsburðarleyfi opinberra starfsmanna nr. 410/1989.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.
Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Kærandi ól barn 29. september 2003. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá júlí 2002 til og með júní 2003.
Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á breytingu á útreikningi á greiðslum í fæðingarorlofi. Lögin heimila ekki að vikið sé frá reglu 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um breytingu á útreikningi á greiðslum í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson