Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 79/2003

Þriðjudaginn, 16. mars 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. nóvember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 13. nóvember 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins dags. 20. október 2003 um að synja kæranda um framlengingu greiðslna vegna veikinda á meðgöngu. 

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Við undirrituð B og A viljum með bréfi þessu leggja fram kæru vegna neitunar um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði og vegna veikinda á meðgöngu samkv. bréfum frá Tryggingastofnun dags. 20.10.03 og 03.11.03.

1          A fór að vinna aftur, eftir að hafa verið í skóla á vorönn, þann 15. maí sl. en hefur verið óvinnufær frá 26.ágúst sl. umsókn um sjúkradagpeninga hefur verið send. Hún á því að eiga rétt til allt að tveggja mánaða framlengingu á fæðingarstyrk vegna veikinda á meðgöngu.“

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með læknisvottorði dags. 24. september 2003 sótti kærandi um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu. Með bréfi dags. 20. október var umsókninni synjað á þeim grundvelli að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) er ekki að finna ákvæði sem heimilar lengingu á greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda á meðgöngu.

Kærandi uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. ffl. fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að vera samfellt í a.m.k. sex mánuði á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Hún var í námi á vorönn 2003, í framhaldi af því á vinnumarkaði og síðan fékk hún greidda sjúkradagpeninga frá 21. ágúst – 10. nóvember, þ.e. fram að áætluðum fæðingardegi 11. nóvember. Þar sem hún hafði verið í námi og síðan samfellt á vinnumarkaði var á hinn bóginn heimilt að greiða henni fæðingarstyrk námsmanna. 

Í 17. gr. ffl. er kveðið á um heimildir til lengingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda barns eða móður (annars vegar vegna veikinda á meðgöngu og hins vegar vegna veikinda í tengslum við fæðingu). Í 22. gr. laganna er kveðið á um sambærilegar heimildir til lengingar á greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda barns eða móður í tengslum við fæðingu en ekki vegna veikinda á meðgöngu.

Kærandi fær greiddan fæðingarstyrk námsmanna og ekki er því um að ræða heimild til lengingar á greiðslum til hennar vegna veikinda á meðgöngu.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkur m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Kærandi ól barn 23. nóvember 2003. Hún átti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu og samkvæmt 4. mgr. 17. gr. ef þungaðri konu er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launað starf. Ákvæði 17. gr. eiga eingöngu við um konur sem eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 3. mgr. 22. gr. laganna er heimild til framlengingar fæðingarstyrks til móður vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Sambærileg heimild til framlengingar fæðingarstyrks vegna veikinda á meðgöngu og fram kemur í 4. mgr. 17. gr. ffl. um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er hins vegar ekki fyrir hendi í lögum nr. 95/2000.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu er staðfest. 

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta