Hoppa yfir valmynd

Nr. 262/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 262/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050017

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 12. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. september 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Finnlands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. desember 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 25. desember 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var hafnað af kærunefnd þann 8. febrúar 2018. Þann 8. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 16. maí og 6. júní 2018.

Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga komi m.a. fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Kærandi bendir á að þar sem hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 4. maí 2017 og dvalið samfellt hér á landi síðan telji hann að tilefni sé til þess að óska eftir endurupptöku málsins hjá kærunefndinni. Kærandi bendi á að hann hafi glímt við alvarleg geðræn vandamál og hafi lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Kærandi bendi á að til hafi staðið að flytja hann úr landi aðfaranótt 30. apríl sl. Dagana 28. og 29. apríl sl. hafi kærandi hins vegar fengið alvarlegt bakslag og hafi þess vegna ekki verið staðsettur á dvalarstað sínum þegar flytja átti hann úr landi. Kærandi hafi svo lagst inn á geðdeild Landspítalans þann 30. apríl sl. Kærandi telji ekki hægt að líta svo á að hann beri ábyrgð á að lengd málsmeðferðarinnar hafi tafist hjá íslenskum stjórnvöldum þar sem ástæða þess að ekki hafi náðst í hann við fyrirhugaðan flutning aðfararnótt 30. apríl sl. megi rekja til hans alvarlegu geðrænu veikinda.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum litið svo á að fresturinn í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byrji að telja þegar kærandi sækir um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til flutningur kæranda til viðtökuríkis hefur farið fram.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. maí 2017 og þann 12. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. september 2017, um að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Finnlands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. desember 2017. Þann 8. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.

Þann 14. maí sl. óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra varðandi flutning á kæranda, aðdraganda hans og framkvæmd. Þann sama dag barst svar frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd á flutningi kæranda og hvers vegna ekki var hægt að flytja hann úr landi þann 30. apríl sl. Í svari frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra kemur m.a. fram að lögreglan hafi farið á dvalarstað kæranda föstudaginn 27. apríl sl. og látið hann vita af fyrirhuguðum flutningi hans til Helsinki á mánudagsmorgun. Lögreglan hafi látið kæranda vita að á sunnudeginum yrði haft samband við hann og hafi hann gefið lögreglunni upp símanúmer sem hann noti. Þegar lögreglan hafi mætt á dvalarstað kæranda sunnudaginn 29. apríl sl. hafi hann ekki verið þar og hafi lögreglan í þrígang reynt að hitta á hann á dvalarstað hans þann dag. Þá hafi lögreglan ásamt talsmanni kæranda einnig reynt að ná í hann í síma yfir daginn án árangurs. Jafnframt hafi lögreglubíll ekið reglulega framhjá dvalarstað kæranda aðfaranótt 30. apríl sl. en enga hreyfingu hafi verið að sjá. Í svari frá Útlendingastofnun þann 14. maí sl. kemur m.a. fram að kærandi hafi látið sig hverfa fyrir flutning þann 30. apríl sl. og hafi Reykjavíkurborg, sem hafi þjónustað kæranda, verið gert viðvart um að fella niður þjónustu við hann og leiðbeina honum um að leita til Útlendingastofnunar telji hann sig þurfa á þjónustu að halda.

Kærunefnd beindi því til talsmanns kæranda þann 14. maí sl. að leggja fram nýrri læknisfræðileg gögn í máli kæranda og óskaði eftir upplýsingum um hvar hann hafi verið staddur aðfaranótt 30. apríl sl. og hvers vegna hann hafi ekki verið í búsetuúrræði sínu. Þann 16. maí sl. barst svar frá kæranda ásamt fylgigögnum varðandi fyrirspurn kærunefndar. Þar kemur m.a. fram ítrekun á að kærandi eigi sögu um andleg veikindi og hafi orðið frávita af hræðslu í kjölfar frétta af fyrirhuguðum flutningi á honum úr landi. Ástand kæranda hafi náð hámarki á sunnudeginum 29. apríl sl., degi fyrir flutning, þannig að hann hafi ekki verið með sjálfum sér lengur og fundið fyrir yfirþyrmandi hræðslutilfinningu. Kærandi hafi stormað út af heimili sínu og ráfað um götur borgarinnar, en þar hafi hann verið þegar til hafi staðið að flytja hann úr landi. Undir morgun á mánudeginum, þann 30. apríl sl., hafi kærandi ákveðið að leita til Bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans og hafi mætt þangað um hádegið og óskað eftir hjálp og hafi hann í kjölfarið verið lagður þar inn. Kærandi hafi svo verið útskrifaður af geðdeild þann 2. maí sl. Kærandi hafi því fengið innlögn á geðdeild þann 30. apríl sl., eða nokkrum klukkustundum eftir fyrirhugaðan flutning úr landi. Kærandi telji að ekki verði litið svo á að hann beri ábyrgð á þeim töfum sem hafi orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við að flytja hann úr landi heldur hafi veikindi hans gert það að verkum að ekki hafi náðst í hann þegar lögreglan hugðist flytja hann úr landi.

Í framlagðri göngudeildarnótu frá Bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans, dags. 30. apríl 2018, kemur m.a. fram að þegar kærandi sé aðspurður um ástæðu þess að hann komi á Bráðaþjónustu geðsviðs þennan dag kveðst hann ekki vita það. Síðar hafi kærandi greint frá því að lögreglan hafi verið að leita að honum en hann hafi ekki sagt af hverju. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki getað farið til baka á dvalarstað sinn því lögreglan gæti verið að bíða eftir honum þar. Þá kemur fram í framlögðum samskiptaseðli frá Göngudeild sóttvarna, dags. 2. maí sl., að kærandi eigi tíma hjá sálfræðingi en hann hafi ekki mætt í þann tíma og ítrekað hafi verið reynt að ná í hann í síma án árangurs en hann hafi svo mætt þann 9. maí sl. í bókaðan tíma hjá sálfræðingi.

Talsmanni kæranda var veittur frekari frestur þann 17. maí sl. til að leggja fram læknisfræðileg gögn í máli kæranda frá 30. apríl til 2. maí 2018, þ.m.t. læknabréf tengdu útskrift kæranda af geðdeild sem vísað er til í framlagðri göngudeildarskrá frá geðdeild, dags. 2. maí 2018, en fylgdi ekki með í gögnum málsins. Þá fylgdi ekki með fyrsta síða sömu göngudeildarskrár til kærunefndar. Frekari gögn hafi ekki verið lögð fram af hálfu kæranda.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja umsækjanda áður en 12 mánaða fresturinn leið.

Samkvæmt ofangreindu óskaði kærandi eftir alþjóðlegri vernd hér á landi þann 4. maí 2017. Ljóst er að kærandi yfirgaf búsetuúrræði Útlendingastofnunar sjálfviljugur skömmu áður en til stóð að flytja hann úr landi og virðist hafa slökkt á símanum sínum þannig að ekki var hægt að ná í hann í þau símanúmer sem hann hafði gefið upp. Þá benda gögn málsins eindregið til þess að kærandi hafi haft ásetning til að láta ekki ná í sig eða finna sig og að hann væri meðvitaður um að lögreglan var að reyna að hafa uppi á honum. Líkt og áður hefur komið fram var kærandi settur á framkvæmdarlista stoðdeildar Ríkislögreglustjóra og til stóð að flytja hann úr landi þann 30. apríl sl. Lögreglu tókst hins vegar ekki að framkvæma flutning á kæranda þar sem hann sinnti ekki boðunum lögreglu og ekki var unnt að finna hann í búsetuúrræði Útlendingastofnunar. Stjórnvöldum er eðli málsins samkvæmt ómögulegt að framfylgja ábyrgð sinni um að flytja kæranda til viðtökuríkis þegar staðfest er að kærandi sinnti ekki boðunum lögreglu og lét sig hverfa af yfirsettu ráði. Með athöfnum sínum gerði kærandi lögreglu ómögulegt að framkvæma flutning á honum innan tilskilinna tímamarka samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Það er mat kærunefndar í ljósi alls ofangreinds að tafir sem urðu á framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli kæranda séu á ábyrgð kæranda sjálfs. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar eru ekki uppfyllt.

Í úrskurði kærunefndar dags. 12. desember 2017 var kærandi metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í ljósi aðstæðna í Finnlandi og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda var það mat kærunefndar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram með endurupptökubeiðni þessari breyta ekki framangreindu mati kærunefndar.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 12. desember 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

Hvað varðar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga vekur kærunefnd athygli á því að ákvæðið fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna kærumeðferðar. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli hans á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The appellant’s request is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta