Hoppa yfir valmynd

Nr. 107/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 107/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120011

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. desember 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. janúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 25. október 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 5. desember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. desember 2018 og viðbótargögn frá honum þann 30. janúar 2019. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 31. janúar 2019 ásamt talsmanni sínum og símatúlki. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 25. febrúar 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna auk þess sem hann óttist að vera gert að sinna herskyldu sem gagni gegn lífskoðunum hans og samvisku og geti jafnvel orðið hættulegt heilsu hans.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að aðalástæða flótta kæranda frá heimaríki sínu séu ofsóknir rússneskra yfirvalda í hans garð. Ofsóknirnar megi rekja til þess að yfirvöld telji hann tilheyra hryðjuverkahópnum […]. Kærandi óttist að yfirvöld hyggist bera á hann þær sakir að hafa sært lögregluþjón við skyldustörf. Kærandi óttist auk þess að verða sendur í herinn þrátt fyrir að vera undanþeginn herskyldu samkvæmt lögum vegna heilsufarsástæðna. Kærandi hafi einnig greint frá því að herþjónusta gangi gegn samvisku hans og gildum enda sé hann frelsissinni.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi lengi haft áhuga á stjórnmálum og tekið þátt í ýmsum fundum og mótmælum, m.a. gegn spillingu yfirvalda í Rússlandi og gegn Vladímír Pútín. Kærandi hafi tekið þátt í mótmælum þann 5. nóvember 2017 sem hafi kallast […], en einn hvatamaður þess fundar hafi verið maður að nafni […]. Sá maður sé stjórnandi hópsins […] sem berjist gegn spillingu og stjórn yfirvalda. […] hafi verið bannaður í Rússlandi og skilgreindur sem hryðjuverkahópur. Í aðdraganda mótmælanna hafi fjöldi meðlima hópsins verið handteknir, m.a. grunaðir um að taka þátt í skipulagningu hryðjuverka. Kærandi hafi mætt á mótmælin og verið handtekinn innan nokkurra sekúndna. Yfirvöld hafi beitt hann óhóflegri valdbeitingu við handtökuna og illri meðferð meðan á varðhaldi hafi staðið. Honum hafi verið meinað um mat og drykk og að fara á salernið fyrr en seint um kvöldið. Kærandi sé með sjúkdóm, sem lýsir sér [...]. Á lögreglustöðinni hafi kæranda verið tilkynnt að hann hafi verið sakaður um að hafa tekið þátt í ólöglegum mótmælum. Honum hafi verið sleppt um kvöldið og gert að mæta fyrir héraðsdóm tveimur dögum síðar. Þann [...] 2017 hafi dómstólar tekið mál kæranda fyrir og hann hafi verið dæmdur til greiðslu sektar. Kærandi hafi talið, af fyrri reynslu, að tilgangslaust væri að áfrýja þeirri niðurstöðu. Daginn eftir, þann [...] 2017, hafi kærandi verið kallaður til viðtals við yfirmann sinn. Þar hafi verið óeinkennisklæddur maður sem hafi sýnt kæranda skilríki um að hann væri liðsforingi í lögreglunni (e. major). Sá hafi spurt kæranda út í þátttöku hans í mótmælum og hvort hann væri meðlimur í […]. Kærandi hafi neitað því en lýst sínum skoðunum. Kærandi kveður þá að liðsforinginn hafi reynt að beita hann þrýstingi og fá hann til að vinna með yfirvöldum. Hann hafi meðal annars reynt að múta kæranda með loforði um stöðuhækkun. Þegar kærandi hafi neitað að bera vitni gegn nokkrum meðlimum […] (sem hann kvaðst ekki þekkja) hafi liðsforinginn sagt að hann myndi lenda í vandræðum. Þá hafi liðsforinginn byrjað að spyrja kæranda út í herskyldu, og spurt hvers vegna hann hefði ekki sinnt herþjónustu.

Kærandi kveður að þann [...] 2017 hafi hann verið boðaður á innritunarstöð hersins. Þar hafi hann fengið þær upplýsingar að heilsufarsgögn hans hefðu glatast og að hann þyrfti að fara í læknisskoðun að nýju til að fá staðfesta undanþágu frá herskyldu. Hafi hann síðan verið boðaður á lögreglustöðina þann [...] s.á. Þar hafi kærandi verið spurður hvort hann hefði endurskoðað afstöðu sína varðandi samvinnu við yfirvöld. Þegar hann hafi neitað hafi lögreglan tilkynnt honum að hann væri grunaður um að vera meðlimur […]. Kærandi kvað lögregluna hafa sýnt honum myndir sem hafi verið teknar úr símagögnum hans. Þá hafi lögreglan tilkynnt honum að lögreglumaður hafi meiðst á olnboga daginn sem kærandi hafi verið handtekinn og að yfirvöld hygðust athuga hvort hann hefði eitthvað með það að gera. Kærandi hafi orðið áhyggjufullur enda hafi hann heyrt að það sé algengt að yfirvöld byggi upp mál gegn saklausu fólki á þennan hátt og að lögreglumenn fengju gjarnan greitt fyrir að halda fram að þeir hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.

Kærandi kveður að þann [...] 2017 hafi hann verið kallaður á skrifstofu yfirmanns síns og honum gefinn sá kostur að segja upp starfi sínu ellegar yrði honum sagt upp. Í byrjun [...] hafi kærandi fengið boðun frá yfirstofnun, sem sæi um herskyldu, sem hafi greint honum frá því að ekki væri kannast við að kærandi hefði skilað inn nýjum heilsufarsgögnum, sem hann kvaðst þó hafa gert. Kærandi hafi flutt úr íbúðinni sinni á þessum tíma enda hafi hann óttast að yfirvöld myndu sækja hann hvað úr hverju.

Í byrjun [...] 2018 hafi rannsóknarlögreglumaður hringt í kæranda og boðað hann á lögreglustöðina í vitnaleiðslu vegna líkamsárásar á lögreglumann. Kærandi hafi orðið mjög óttasleginn vegna þessa enda hafi hann vitað að um væri að ræða gildru af hálfu lögreglunnar. Það væri þekkt að lögreglan boðaði fólk sem vitni en beitti svo pyndingum til þess að knýja fram játningu og breytti þannig stöðu vitnis í sakborning. Kærandi hafi hringt daginn áður en hann hafi átt að mæta og sagst vera veikur. Hann hafi í kjölfarið eyðilagt símkortið sitt. Skömmu síðar hafi hann verið boðaður skriflega til yfirheyrslu á lögreglustöðinni. Kærandi hafi ákveðið að flýja heimaríki þann [...] 2018 enda hafi hann óttast um líf sitt. Kærandi hafi greint frá því að lögreglumenn hafi komið á heimili móður hans þann [...] s.á. og framkvæmt leit samkvæmt leitarheimild frá dómstólum. Hafi lögreglan lagt hald á tölvu kæranda, geisladiska, símagögn og bækur og síðan hafi lögreglan komið ítrekað á heimili hennar og spurst fyrir um hann.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun taldi kærandi upp þau afskipti sem hann hafi haft af lögregluyfirvöldum í gegnum tíðina. Kærandi hafi lýst því að hann hafi verið handtekinn fyrst í mótmælum árið 2010, en þá hafi hann verið ólögráða. Síðan hafi hann verið handtekinn aftur árið 2013 vegna pólitískra götulistaverka (e. graffity), þá hafi hann verið skilríkjalaus og gefið upp rangt símanúmer. Síðan hafi hann verið handtekinn árið 2014 og fengið sekt.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Rússlandi og stöðu mannréttinda þar í landi. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslna bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í Rússlandi og mannréttindasamtakanna Human Rights Watch og Amnesty International. Í gögnunum komi m.a. fram að rússnesk stjórnvöld hafi farið í herferð gegn borgaralegu lýðræðissamfélagi frá því að Vladímír Pútín hafi tekið við sem forseti landsins árið 2012. Heimildir beri með sér að refsingum vegna þátttöku í ólöglegum fundum eða samkomum hafi fjölgað umtalsvert á síðustu misserum. Pólitískar ofsóknir, þrýstingur og afskipti stjórnvalda af frjálsum félagasamtökum sé eitt af alvarlegustu mannréttindabrotum yfirvalda gegn borgurum sínum, auk mismununar stjórnvalda gagnvart minnihlutahópum. Meðal annarra alvarlegra mannréttindabrota séu pyndingar og óhófleg beiting lögregluvalds, en gífurleg spilling sé hjá hinu opinbera. Þá komi fram að meðal stærstu vandamála ríkisins séu skortur á sjálfstæði dómskerfisins og þá sérstaklega spillingar handhafa löggæslu- og dómsvalds. Samkvæmt heimildum þrífist spilling á öllum stigum stjórnkerfisins, m.a. hjá öryggislögreglunni, öðru framkvæmdavaldi og dómstólum. Forseti Rússlands hafi smám saman aukið lagaleg völd FSB (e. Ferderal Security Service of the Russian Federation) til að öryggissveitin geti haft afskipti af einkalífi fólks. Þá sé verið að skerða grundvallarmannréttindi íbúa Rússlands, sem viðurkennd séu samkvæmt alþjóðalögum. Völd FSB séu orðin svo víðtæk að stofnuninni hafi verið líkt við forvera hennar, sovésku leyniþjónustuna KGB. Pútín hafi skrifað undir hryðjuverkalög (e. The Yarovaya Law) sem heimili m.a. fangelsun á börnum allt niður í 14 ára aldur, geri fjarskiptafyrirtækjum skylt að ganga enn lengra við gagnasöfnun fyrir yfirvöld og geri þá háttsemi refsiverða að tilkynna ekki yfirvöldum um einstaklinga sem grunaðir séu um glæp. Þá bíði pólitísk morð, sýndarréttarhöld og útlegð þeirra sem gagnrýni stjórnvöld í Rússlandi. Áætlað sé að mikill fjöldi samviskufanga séu í haldi í rússneskum fangelsum. Í greinargerð kæranda er þá fjallað um […] og takmarkaða möguleika á undanþágu frá herþjónustu í Rússlandi.

Að öllu þessu virtu telur kærandi að hann falli undir skilgreiningu flóttamanns, eins og hún kemur fram í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, þar sem hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu rússneskra yfirvalda vegna stjórnmálaskoðana sinna, þátttöku í mótmælum og vegna gruns um aðild hans að hryðjuverkahópnum […]. Þá telji kærandi að hætta sé á áframhaldandi ofsóknum af hálfu stjórnvalda snúi hann aftur til heimaríkis. Þar sem kærandi sé að flýja Rússland vegna ofsókna af hálfu stjórnvalda í landinu sé ekki raunhæft að ætla að hann geti leitað sér verndar yfirvalda þar í landi, auk þess sem heimildir bendi til þess að spilling og refsileysi loði við yfirvöld í Rússlandi. Kærandi teljist því vera flóttamaður í skilningi ákvæðanna og eigi rétt á alþjóðlegri vernd skv. 1. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga. Auk þess tilheyri hann tilteknum þjóðfélagshópi, þar sem hann sé mótfallinn herþjónustu af samviskuástæðum.

Til vara heldur kærandi fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Því til stuðnings vísar kærandi á gögn um það hvernig farið hafi fyrir fjölda meðlima […] og að í fjölda tilvika hafi mál verið höfðuð á fölskum grunni gegn stjórnarandstæðingum í Rússlandi. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun ekki með fullnægjandi hætti fært rök fyrir því að kærandi eigi ekki á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til Rússlands. Með því að senda kæranda til Rússlands sé verið að brjóta gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. útlendingalaga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og yfirvöld í heimaríki telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt, verði ekki fallist á aðalkröfu hans.

Að lokum gerir kærandi í greinargerð athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi kveður kærandi að stofnunin hafi talið þátttöku kæranda í áðurgreindum mótmælum lítilvæga og að þar með eigi hann ekki á hættu ofsóknir. Kærandi telur að ekki hafi verið tekið nægilega mikið mark á frásögn hans af handtökum og afskiptum lögreglu af sér í kjölfar mótmælanna. Í því samhengi sé gerð athugasemd við að ekki hafi verið aflað þýðingar á skjölum sem kærandi hafi lagt fram. Í öðru lagi sé gerð athugasemd við það mat stofnunarinnar að kærandi hafi aðallega verið í mótmælum tengdum dýra- og umhverfisvernd. Kærandi hafi lagt fram fjölda gagna um þátttöku í alls konar pólitískum mótmælum og verið virkur í mótmælum gegn stjórnvöldum og Pútín. Í þriðja lagi sé gerð athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið tekinn út fyrir sviga af lögreglunni í Rússlandi. Þvert á móti bendi gögn sem kærandi hafi lagt fram, myndir og myndbandsupptökur af handtöku, til hins gagnstæða. Þá liggi fyrir röð atvika sem hafi gerst í kjölfar handtökunnar árið 2017 sem renni stoðum undir að kærandi sé undir smásjá yfirvalda, sem hafi verið að skoða hann sérstaklega. Vísar kærandi í því sambandi til frásagnar sinnar, framlagðrar húsleitarlýsingar, vitnaboðunar og ítrekaðra boðana heryfirvalda. Í fjórða lagi sé gerð alvarleg athugasemd við það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renni stoðum undir frásögn hans um að rússnesk stjórnvöld telji hann tilheyra […]. Kærandi telji fráleita kröfu stofnunarinnar um að hann sýni fram á slíkt með gögnum. Kærandi eigi að njóta vafans þegar erfitt sé að afla sannana. Kærandi hafi lagt fram töluvert af gögnum sem öll renni stoðum undir frásögn hans. Með tilliti til landaupplýsinga sem fyrir liggi um vinnubrögð lögreglu og annarra yfirvalda í Rússlandi og með vísan í röð atburða í lífi kæranda fyrir tilstilli yfirvalda í kjölfar handtökunnar í [...] 2017, verði ekki annað séð en að frásögn kæranda sé að þessu leyti afar trúverðug og að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Því til viðbótar hafi kærandi hunsað vitnaboðun yfirvalds, gerð hafi verið húsleit á heimili hans, hald lagt á ýmsa muni og ítrekað komið til móður hans og spurst fyrir um hann. Í fimmta lagi sé gerð athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um undanþágu frá herþjónustu en stofnunin virðist mistúlka það sem kærandi segi í viðtalinu. Kærandi kveður að verið sé að ógna honum og kúga hann með því að hóta því að hann þurfi að gegna herþjónustu, undanþágur séu fáar og alls ekki auðfengnar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað rússnesku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé rússneskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Human Rights Practices Russia 2017 (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Mass arrests tighten authorities´stronghold on freedom of expression (Amnesty International, 12. júní 2017);
  • World Report 2019 – Russia (Human Rights Watch, 18. janúar 2019);
  • Russia (Transparency International, sótt 25. janúar 2019);
  • The Human Rights Center “Memorial” publishes lists of political prisoners as of March 1, 2018 (Human Rights Center Memorial, 7. mars 2018);
  • Russian political prisoners in the year of 2018: situation and its trends (Human Rights Center Memorial, 28. september 2018);
  • Russia: Information on military conscription and exemption from service, including alternative military service for conscientious objectors (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. nóvember 2011);
  • The World Factbook - Russia (vefsíða Central Intelligence Agency, sótt 25. janúar 2019);
  • Conscientious Objection in Europe 2017 (European Bureau for Conscientious Objection, sótt 25. janúar 2019);
  • Russia: uncertain revolutions and future question marks (Reset DOC, 9. nóvember 2017);
  • Artpodgotovka: six days to destroy a movement (ODR, 3. nóvember 2017);
  • Hundreds Arrested as Group Urges New Russian Revolution (New York Times, 5. nóvember 2017);
  • Freedom in the World 2019 – Russia (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Nations in Transit 2018 (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Ryssland: situationen per den 31 december 2017;
  • Military service, including amendments to military service; whether women are treated differently than men; consequencefs of draft evasion and availability of an appeal process (2006-April 2015), (Immigration and Refugee Board, Canada, 23. apríl 2015);
  • Russland: Straff for unndragelse fra militærtjeneste, (Landinfor, Respons, 13. janúar 2015);
  • Russian Activists Forcibly Disappeared, Allegations of Torture in Custody (Human Rights Watch, 1. febrúar 2018) og
  • In Brief – Human Rights and Democracy in Russia (Helsinki Commission Report, 20. september 2017).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Rússland sambandsríki með um 144 milljónir íbúa. Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 gerðist Rússland aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1973. Rússland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006. Þá er Rússland aðili að Evrópuráðinu og samþykkti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1998.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að staða mannréttinda í Rússlandi hafi versnað í kjölfar endurkjörs Vladímírs Pútíns sem forseta Rússlands árið 2012. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi allt til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi Rússlands vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Með aðstoð lögreglu, áróðri og löggjöf kúgi stjórnvöld íbúa landsins. Yfirvöld hafi þrengt að borgaralegum réttindum í Rússlandi m.a. með lagasetningu sem takmarki möguleika erlendra stofnanna og jafnvel frjálsra félagasamtaka til að aðhafast í landinu þar sem yfirvöld líti á starfsemi þeirra sem ógn við ríkið. Þrátt fyrir að stjórnarskrá Rússlands tryggi sjálfstæði dómstóla landsins þá sé spilling viðvarandi vandamál í dómskerfinu. Bæði dómstólar og löggæsla séu notuð af stjórnvöldum til að kúga íbúa ríkisins. Samkvæmt ofangreindum gögnum sé algengt að dómarar láti undan pólitískum þrýstingi þegar dæmt sé í málum andófsmanna sitjandi yfirvalda í Rússlandi.

Rússneska stjórnsýslukerfið einkennist að miklu leyti af óhagkvæmni, geðþóttaákvörðunum og spillingu. Þrátt fyrir að Rússland hafi samþykkt samning Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum árið 2012 þá sjáist engar marktækar framfarir í þeim efnum þar sem stjórnvöld hafi ekki framfylgt samningnum með fullnægjandi hætti. Þessi víðtæka spilling grafi undan trausti almennings á stjórnkerfi landsins.

Starfandi sé umboðsmaður mannréttinda í Rússlandi (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hún hyggist einbeita sér að félagslegum réttindum og því að styðja rússneska ríkisborgara utan Rússlands. Víða í Rússlandi séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála, en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi undan sjálfstæði skrifstofanna jafnframt sem skilvirkni þeirra sé ábótavant. Þá hafi mannréttindaráð Vladímírs Pútíns (e. Council for Civil Society and Human Rights) heimild til að fylgjast með störfum umboðsmannsins.

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að stjórnarskrá Rússlands banni pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þrátt fyrir það gefi heimildir til kynna að lögregluyfirvöld grípi til pyndinga, illrar meðferðar og ofbeldis til að þvinga grunaða einstaklinga til játningar. Þá séu lögreglumenn sem grípi til slíkra framkvæmda sjaldnast sóttir til saka og í þau fáu skipti sem það hafi gerst sé refsingin væg. Þá komi jafnframt fram í ofangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þar með talið frelsi til tjáningar á veraldarvefnum. Ýmis umræðuefni á veraldarvefnum, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og jafnvel fangelsisvistar. Löggjöf gegn t.d. öfgahreyfingum, landráði og hryðjuverkum hafi verið notuð til að þagga niður í baráttufólki fyrir mannréttindum og meðlimum stjórnarandstöðunnar. Ríkið eigi stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og hafi töluverð áhrif á það sem þar komi fram.

Leyniþjónusta Rússlands nefnist FSB og hafi forseti Rússlands yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt ofangreindum gögnum beri innanríkisráðuneytið, FSB, rannsóknarnefnd (e. the Investigative Committee), skrifstofa saksóknara (e. the Office of the Prosecutor General) og þjóðvarðarliðið (e. the National Guard) ábyrgð á löggæslu í öllu ríkinu. Þá sé FSB ábyrgt fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt lögum hafi FSB m.a. aðgang að öllum símtölum, smáskilaboðum, tölvupósti og öðrum aðgerðum sem framkvæmdar séu á veraldarvefnum í Rússlandi. Fjarskiptafélög séu skyldug til að koma upp búnaði sem auðveldi tengingu FSB jafnframt sem símafyrirtæki þurfi að vista gögn viðskiptavina sinna svo að FSB hafi aðgang að þeim.

Í frétt Amnesty International, um fjöldahandtökur rússnesku lögreglunnar í júní 2017 á mótmælendum við friðsæl mótmæli gegn opinberri spillingu, kemur fram að það verði ekki séð að friðsamleg mótmæli séu liðin af stjórnvöldum. Samkvæmt Amnesty International og Human Rights Watch hafi ekki þrengt jafn mikið að tjáningarfrelsi í landinu frá falli Sovétríkjanna.

Í ofangreindum gögnum kemur þá fram að […] sé rússneskur byltingarhópur sem hafi verið skilgreindur sem hryðjuverkahópur og bannaður af rússneskum dómstólum. Leiðtogi hópsins heiti […], en hann hafi stýrt hópnum m.a. í gegnum veraldarvefinn. Hann sé nú í útlegð í Frakklandi. […] hafi hvatt stuðningsmenn sína til að fjölmenna á götur og torg víðs vegar um landið þann 5. nóvember 2017. Hópurinn sé hægrisinnaður og markmið hans sé að Pútín segi af sér. Hundruðir hafi verið handteknir í mótmælunum.

Samkvæmt 22. gr. rússneskra alríkislaga nr.53 frá árinu 1998 um herskyldu og herþjónustu séu karlmenn á aldrinum 18-27 ára skyldugir til að sinna herþjónustu. Einstaklingur geti verið undanþeginn m.a. ef heilbrigðisnefnd meti sem svo að hann geti ekki sinnt herskyldu. Þá geri rússnesk lög ráð fyrir að einstaklingur geti sótt um að sinna samfélagsþjónustu ef hernaður gangi gegn sannfæringu eða trú. Heimildir beri þó með sér að ferill umsókna um samfélagsþjónustu sé ýmsum annmörkum háður, t.a.m. þurfi að sækja um slíka undanþágu töluvert löngu áður en boðun berist, eða um sex mánuðum áður, og hafi það leitt til þess að mörgum umsækjendum sé synjað. Hafi slík mál farið fyrir stjórnlagadómstól Rússlands sem hafi sagt að ekki sé heimilt að synja einstaklingi um slíka undanþágu eingöngu vegna formgalla. Gögn bendi til þess að stór hluti, jafnvel allt að helmingur, þeirra sem kvaddir séu í herinn komi sér hjá því með ýmsum ráðum að gegna herskylda. Að sinna ekki herkvaðningu sé refsivert skv. rússneskum hegningarlögum með sektum eða allt að tveggja ára fangelsi en upplýsingar séu takmarkaðar um það í hversu miklum mæli yfirvöld framfylgi lögunum. Ennfremur kemur fram að vegna spillingar sé algengt að einstaklingar geti greitt mútur til þess að komast hjá herþjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur lýst ástæðum flótta í viðtölum hjá stjórnvöldum, bæði Útlendingastofnun og hjá kærunefnd útlendingamála. Hann hefur jafnframt lagt fram nokkuð af gögnum. Kærandi kveðst óttast yfirvöld í Rússlandi vegna stjórnmálaskoðana sinna og þátttöku í mótmælum. Hann óttist að verða fangelsaður að ósekju eða gert að sæta herþjónustu sem fari gegn sannfæringu hans og sé jafnframt hættulegt heilsu hans.

Í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála þann 31. janúar sl. lýsti kærandi þátttöku sinni í mótmælum í heimaríki, einkum mótmælum 5. nóvember 2017. Aðspurður hvort hann teldi alla sem tóku þátt í umræddum mótmælum eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í Rússlandi svaraði kærandi neitandi. Aðspurður af hverju hann teldi sig vera í slíkri hættu sagðist hann telja það vera vegna starfs síns en samkvæmt frásögn kæranda er hann menntaður í öryggisfræðum og hefur starfað hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í öryggisgæslu. Stjórnvöld hefðu gert honum upp tengsl við samtökin […] til að kæranda myndi láta af hegðun sinni.

Kærandi lýsti afskiptum lögreglu af sér með þeim hætti að hann hefði verið handtekinn í kjölfar þátttöku í mótmælum þann 5. nóvember 2017. Hann hefði orðið fyrir slæmri meðferð eftir handtökuna en verið látinn laus og gert að greiða sekt. Til stuðnings þeirri frásögn hefur hann lagt fram gögn sem benda til þess að hann hafi verið dæmdur til að greiða sekt fyrir þátttöku í umræddum mótmælum.

Í viðtali hjá kærunefnd lýsti kærandi því jafnframt að hann teldi að lögreglan og yfirvöld myndu hafa frekari afskipti af honum en að gera honum sektargreiðslu. Hann kvaðst telja að stjórnvöld hygðust ásaka hann um að hafa slasað lögregluþjón í mótmælunum 5. nóvember 2017. Kærandi lýsti í frásögn sinni hótunum sem hafi átt sér stað á vinnustað hans og einnig í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Hann kvaðst telja að lögreglan vildi fá hann til að bera vitni gegn meðlimum […] sem hann hafi tekið þátt í mótmælum með. Yfirvöld hafi undanfarna mánuði beitt hann þrýstingi með öllum tiltækum ráðum og því hafi hann ekki séð annan kost í stöðunni en að flýja land. Hann telji að stjórnvöld hafi gefið út boðun um yfirheyrslu undir því yfirskyni að fá hann til að koma og þvinga hann til að játa á sig refsiverða hegðun. Handtökuskipan sem hafi verið gefin út, sem hann hafi lagt fram í gögnunum renni stoðum undir þann grun hans og þann ótta hans að verða tekinn höndum. Þá teldi kærandi að húsleit sem hafi verið framkvæmd heima hjá honum tengdist þeim ásetningi stjórnvalda að koma á hann sök vegna þess að hann hafi ekki viljað bera vitni gegn meðlimum samtakanna […].

Kærandi hefur lagt fram nokkuð magn gagna sem hann telur renna stoðum undir frásögn sína. Þar á meðal er afrit af húsleitarheimild sem ber með sér að eiga við leit á heimili kæranda. Í ljósi gagna málsins og framburðar kæranda dregur kærunefnd ekki í efa að kærandi hafi tekið þátt í mótmælum í heimaríki og orðið fyrir áreiti stjórnvalda vegna þess. Þá telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi áhyggjur af því að stjórnvöld kunni að tengja hann við samtökin […]. Á grundvelli gagna málsins og upplýsinga um heimaríki kæranda telur nefndin engu að síður að þær áhyggjur séu ekki ástæðuríkar. Við það mat hefur kærunefnd litið til þess að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem bendi til þess að stjórnvöld hafi tengt hann starfi samtakanna […] eða gert að öðru leyti líklegt að athygli stjórnvalda í Rússlandi hafi beinst sérstaklega að honum.

Kærunefnd telur ljóst af þeim gögnum sem nefndin hefur skoðað að töluverðar takmarkanir séu á tjáningarfrelsi í heimaríki kæranda, sérstaklega þegar um er að ræða gagnrýni á stjórnvöld í landinu. Einstaklingar sem mótfallnir séu stjórnvöldum í landinu hafi ekki farið varhluta af þessum takmörkunum og hafi verið þrengt að tjáningarfrelsinu með setningu takmarkandi laga. Kærandi kveður að hann hafi tekið þátt í ýmsum mótmælum í heimaríki sínu og tjáð skoðanir sínar opinberlega m.a. á samfélagsmiðlum. Kærandi hefur þó ekki lagt fram gögn eða annað sem bendi til þess að staða hans í heimaríki sé önnur en annarra einstaklinga sem almennt séu mótfallnir stjórnvöldum og taki þátt í mótmælum í heimaríki kæranda. Kærunefnd telur því með hliðsjón af framburði kæranda og þeim gögnum sem hann hefur lagt fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á með nægilega skýrum hætti að hans bíði ofsóknir í heimalandi á grundvelli stjórnmálaskoðana. Að mati kærunefndar verður heldur ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana hans sem nái því marki að teljast ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eða eigi á hættu að verða fyrir slíkum ofsóknum af öðrum ástæðum, m.a. vegna tjáningar á netmiðlum. Möguleg kvaðning kæranda til yfirheyrslu hjá lögreglu í heimaríki breyti ekki þeirri niðurstöðu.

Í leiðbeiningunum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu frá 2014 segir m.a. að rétturinn til að neita herþjónustu af samviskuástæðum sé afleiddur réttur byggður á túlkun á 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttinn til frelsis hugsana sinna, samvisku og trúar og 18. gr. samnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna geti þó á lögmætan hátt krafist þess að ríkisborgarar þeirra gegni herþjónustu eða þjónustu af öðrum toga. Í þeim tilvikum þar sem ríki býður ekki upp á þann möguleika að ríkisborgari gegni annars konar þjónustu verði að kanna hvaða afleiðingar séu af því að hann neiti að gegna herskyldu. Eigi einstaklingur á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir að neita að gegna herskyldu geti komið til athugunar að veita viðkomandi alþjóðlega vernd. Í ríkjum sem bjóða ekki upp á að ríkisborgarar, sem neita að gegna herskyldu, inni af hendi annars konar þjónustu teljist það hins vegar ekki til ofsókna ef þeir geta komist hjá herskyldu með greiðslu stjórnsýslusektar.

Í 4. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Samkvæmt greininni tekur þvingunar- eða nauðungarvinna ekki til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sáttmálans. Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið afstöðu til þess hvort herskylda stríði gegn mannréttindum einstaklinga hefur dómstóllinn litið til þess að ákvæði sáttmálans hafi að þessu leyti sérstaklega tekið til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er hennar í stað. Aftur á móti hefur dómstóllinn fallist á að herskylda og þjónusta sem er krafist hennar í stað geti falið í sér takmörkun á rétti manna til að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar, sbr. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, í þeim tilvikum þegar ástæður af trúarlegum toga liggja að baki synjun á að gegna herþjónustu eða að viðkomandi hafi lýst yfir sterkum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 7. júlí 2011 í máli Bayatyan gegn Armeníu (mál nr. 23459/03).

Kærandi hefur lagt fram gögn þar sem kemur fram að hann hafi verið undanþeginn herskyldu í heimaríki vegna náms hans og vegna heilbrigðisástæðna. Hann kveður að vegna þátttöku hans í mótmælum hafi stjórnvöld notað herkvaðningu sem leið til þess að reyna að hafa áhrif á afstöðu hans. Yfirvöld hafi m.a. sagst hafa glatað læknisfræðilegum gögnum um veikindi hans og beðið hann um að gangast undir nýtt læknisfræðilegt mat til þess að ákvarða hvort hann skuli enn eiga rétt til undanþágu frá herskyldu af heilsufarsástæðum. Kærandi lagði fram nýleg læknisfræðileg gögn við meðferð málsins og kærunefnd fékk túlk til þess að lesa yfir þau gögn. Af gögnunum má sjá að heilsufar kæranda sé gott og að hann sé full vinnufær verður ekki séð af gögnunum að líkamleg heilsa kæranda sé slík að hann sé í hættu verði honum gert að sinna herskyldu. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð máls kæranda til þess að kærandi hafi möguleika á því að sækja um undanþágu frá herskyldu, þrátt fyrir að erfitt geti verið að fá slíka umsókn samþykkta af yfirvöldum sé það ekki útilokað. Að framangreindu virtu telur kærunefnd ljóst að kærandi eigi ekki á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu vegna ákvörðunar sinnar um að forðast herskyldu og að aðstæður hans að þessu leyti séu ekki grundvöllur fyrir veitingu alþjóðlegrar vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendingaÞar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi styður þrautavarakröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða m.a. við þau rök að stjórnvöld hafi valdið því að hann hafi misst vinnuna, gerð hafi verið húsleit heima hjá honum og að mál hans sé í skoðun hjá hermálayfirvöldum. Hann muni því búa við erfiðar félagslegar aðstæður verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Með vísan til umfjöllunar um heimaríki kæranda verður ekki talið að aðstæður kæranda þar í landi séu þess eðlis að kærandi teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrirliggjandi upplýsingar um heilsufar kæranda benda til þess að hann hafi glímt við nýrnasjúkdóm en sé að öðru leyti heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, þ.á.m. trúverðugleikamat og rökstuðning stofnunarinnar. Einkum byggir kærandi á því að að ekki hafi verið aflað þýðingar á skjölum sem kærandi hafi lagt fram og að ekki hafi verið lagt til grundvallar að kærandi hafi mótmælt ríkjandi stjórnvöldum.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og þrátt fyrir að fallast megi á að betur hefði farið á því að Útlendingastofnun hefði látið þýða framlögð skjöl kæranda verður, m.a. í ljósi þess að kærunefnd hefur látið túlk lesa yfir öll framlögð gögn kæranda, ekki fallist á að fella skuli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi af þeim sökum. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 29. janúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun. Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta