Hoppa yfir valmynd

Nr. 236/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. mars 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 236/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120027

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 8. desember 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Marokkó ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2023, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga, 20. júní 2018 með gildistíma til 4. maí 2019. Leyfið hefur verið endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 19. desember 2024. Hinn 17. janúar 2023 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2023, var kæranda synjað um ótímabundið dvalarleyfi, með vísan til þess að rof hefði myndast í samfellda dvöl hennar á dvalartímanum, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 24. nóvember 2023. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 8. desember 2023 en meðfylgjandi kæru var greinargerð og önnur fylgigögn kæranda. Með tölvubréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði kærunefnd eftir frekari skýringum og gögnum frá kæranda. Með tölvubréfi, dags. 2. mars 2024, lagði kærandi fram afrit af öllum stimpluðum síðum í vegabréfi sínu.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er greint frá útgefnum dvalarleyfum hennar. Fram kemur að hún hafi yfirgefið Schengen-svæðið 21. ágúst 2021, og komið aftur inn á svæðið 28. apríl 2022. Kærandi kveðst hafa dvalist í heimaríki sínu, Marokkó, en vegna ferðatakmarkana í kjölfar Covid 19 faraldursins hafi hún ekki geta yfirgefið heimaríki sitt. Takmörkununum hafi verið aflétt að hluta 7. febrúar 2022, og að fullu 7. apríl 2022, og hún hafi komið til Íslands 28. apríl 2022. Þá hafi dvalarleyfi hennar runnið út og hún þurft að fá útgefna vegabréfsáritun til þess að komast aftur til Íslands. Kærandi vísar til þess að það hafi ekki verið hennar ásetningur að dveljast svo lengi í heimaríki og að hún hafi glímt við aðstæður sem hún réði ekki við.

Kærandi vísar jafnframt til þess að hún hafi dvalist utan Schengen-svæðisins frá 15. júní 2022 til 30. desember 2022. Í fyrstu hafi kærandi og fjölskylda hennar viljað ferðast til Marokkó í einn mánuð en sonur kæranda hafði þá ekkert getað ferðast til landsins í um þrjú ár vegna ferðatakmarkana í kjölfar Covid 19 faraldursins. Fyrirhuguð heimferð til Íslands var 28. júlí 2022 og vísar kærandi til fylgiskjals hvað það varðar. Vegna aldurs og heilsufars kæranda hafi hún ekki geta dvalist ein á Íslandi á meðan sonur hennar, og fjölskylda hans, væru á ferðalagi í Marokkó. Vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar, þar sem greint er frá því að stimpill í vegabréfi sýni fram á brottför af Schengen-svæðinu 13. febrúar 2023, en enginn stimpill sýni fram á endurkomu á svæðið. Hafi stofnunin því litið svo á að kærandi hafi verið erlendis allt til 15. nóvember 2023, þegar hún hafi komið á skrifstofu Útlendingastofnunar vegna myndatöku. Kærandi vísar til þess að hún hafi farið í pílagrímaferð til Mekka í Sádí Arabíu 13. febrúar 2023 en að hún hafi handleggsbrotnað í troðningi þar. Hafi læknir kæranda ráðlagt henni að hvílast og sinna sjúkraþjálfun áður en hún myndi ferðast aftur til Íslands. Gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar um útgáfu nýs vegabréfs 23. mars 2023, en stofnunin hafi óskað eftir stimplum úr umræddu vegabréfi við úrlausn málsins. Að sögn kæranda eigi hún bara eitt vegabréf, það sé útgefið árið 2021, og liggi fyrir í málinu.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Í 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um samfellda dvöl sem skilyrði fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að dvöl útlendings teljist samfelld hér á landi í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafi hann ekki dvalist lengur erlendis en 90 daga á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis. Í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að víkja frá skilyrði 1. mgr. við sérstakar aðstæður hafi Útlendingastofnun veitt heimild til lengri dvalar erlendis á gildistíma tímabundins dvalarleyfis. Það sama eigi við hafi Útlendingastofnun ekki fellt niður tímabundið dvalarleyfi vegna of langrar dvalar erlendis og aðstæður mæli með því að öðru leyti.

Samkvæmt því sem hefur verið rakið hefur kærandi verið með útgefið dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga, óslitið frá 20. júní 2018 til 19. desember 2024. Leyfið getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi dvalist erlendis lengur en í 90 daga a.m.k. þrisvar á dvalartíma sínum. Fyrst í 250 daga frá 21. ágúst 2021 til 28. apríl 2022, því næst í 198 daga frá 15. júní 2022 til 30. desember 2022, og loks frá 13. febrúar 2023, en við töku ákvörðunar Útlendingastofnunar lá ekki fyrir hvenær kærandi kom aftur til landsins. Í ákvörðun sinni leggur Útlendingastofnun til grundvallar 15. nóvember 2023, en þann dag kom kærandi í myndatöku í afgreiðslu stofnunarinnar. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram afrit af stimplum í vegabréfi sínu. Samkvæmt stimpli í vegabréfi kæranda kom hún aftur inn á Schengen-svæðið 18. október 2023, og lítur kærunefnd til þess til samræmis við útreikning dvalar vegna fyrri ferða kæranda.

Að mati kærunefndar getur langtímadvöl kæranda erlendis ekki fallið undir skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar, um að dveljast hér á landi samfellt. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi leitað til Útlendingastofnunar á meðan dvöl hennar í heimaríki og Sádí Arabíu stóð þegar henni varð ljóst að hún kæmist ekki til Íslands, s.s. í því skyni að fá heimild til að dvelja lengur en 90 daga erlendis, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar um útlendinga. Þar sem fyrir liggur að Útlendingastofnun felldi dvalarleyfi kæranda ekki niður þrátt fyrir langa dvöl erlendis kemur  til skoðunar hvort aðstæður mæli með því að öðru leyti að kæranda skuli veitt ótímabundið dvalarleyfi þrátt fyrir framangreint. Um er að ræða undanþáguákvæði frá meginreglunni um samfellda dvöl og ber því að túlka það þröngt.

Samkvæmt skýringum kæranda ílengdist dvöl hennar í heimaríki á árunum 2021 til 2022 vegna ferðatakmarkana í ljósi Covid 19 faraldursins. Kærunefnd telur þá skýringu hafa lítið vægi í málinu enda bera heimildir með sér að ferðatakmarkanir hafi þegar verið í gildi þegar kærandi fór til heimaríkis. Ekki liggja fyrir gögn um samskipti við Útlendingastofnun eða tilraunir til þess að yfirgefa heimaríki innan þeirra heimilda sem kærandi hefur til þess að dvelja erlendis. Telur kærunefnd eðlilegt að kærandi axli ábyrgð á því að setja sig í slíkar aðstæður. Vegna dvalar erlendis á seinni hluta ársins 2022 lagði kærandi fram staðfestingu á flugmiðakaupum frá Marrakesh til Madrídar, og þaðan til Íslands 28. júlí 2022. Ekki hafa verið lagðar fram skýringar á því hvers vegna kærandi fór ekki í umrætt flug, en hafi þess í stað dvalið í heimaríki í um fimm mánuði í viðbót. Vegna dvalar í Sádí Arabíu og síðar Marokkó á árinu 2023 má ráða af gögnum málsins að kærandi hafi handleggsbrotnað, og sótt sjúkraþjálfun og endurhæfingu í heimaríki, sbr. vottorð dags. 9. ágúst 2023. Kærandi hafi síðan komið aftur inn á Schengen-svæðið 18. október 2023, og þaðan til Íslands. Telur kærunefnd handleggsbrot kæranda ekki vera slíkan heilsufarskvilla að það hafi hamlað henni að fljúga til Íslands. Af gögnum málsins má enn fremur ráða að kærandi hafi verið ferðafær, en kosið að fara til heimaríkis frekar en til Íslands. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að undanþágureglur 2. mgr. 13. gr. reglugerðar um útlendinga eigi ekki við um aðstæður kæranda. Er því ótvírætt að kærandi hafi ekki dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár og uppfyllir hún því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi, staðfest.

Þá bendir kærunefnd á að óbreyttu muni kærandi uppfylla skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um samfellda dvöl í fjögur ár 18. október 2027, myndist ekki frekara rof í samfellda dvöl hennar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta