Mál nr. 11/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 11/2017
Miðvikudaginn 8. mars 2017
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 11. desember 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á mánaðarlegum greiðslum til hennar frá 1. janúar 2016.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Maki kæranda lést þann X 2015. Kærandi tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins um andlátið þann X 2015. Þann X 2015 gerði stofnunin tillögu að tekjuáætlun og greiðsluáætlun kæranda fyrir árið 2016 sem birtar eru á vefgátt stofnunarinnar „Mínum síðum“. Í framangreindum áætlunum var gert ráð fyrir auknum lífeyrissjóðstekjum kæranda vegna væntanlegs makalífeyris frá lífeyrissjóði og myndu örorkulífeyrisgreiðslur hennar frá Tryggingastofnun vera skertar vegna þess. Þann 1. janúar 2016 lækkuðu greiðslur til kæranda. Þann 4. janúar 2016 breytti kærandi fyrirliggjandi tekjuáætlun á vefgátt Tryggingastofnunar ríkisins „Mínum síðum“ þannig að áætlaðar lífeyrissjóðstekjur voru lækkaðar. Ný greiðsluáætlun, dags. 11. janúar 2016, var birt á „Mínum síðum“ þar sem gert var ráð fyrir hærri greiðslum til kæranda en samkvæmt áætlun frá X 2015.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. janúar 2016, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Þann 25. janúar 2017 bárust athugasemdir frá kæranda og viðbótargögn.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski þess að makalífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóði skerði ekki örorkulífeyrisgreiðslur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins.
Í kæru segir að kærandi sé örorkulífeyrisþegi og að hún hafi missti maka sinn þann X 2015. Í janúar 2016 hafi greiðslur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins lækkað töluvert og henni hafi verið sagt að ástæða þess væri sú að hún væri að fá makalífeyri. Maki hennar hafi alla sína starfsævi greitt lögboðin gjöld í lífeyrissjóð með það að markmiði að bæta afkomu sína að loknu starfi og fjölskyldunnar ef hann félli frá. Kærandi geti ekki sætt sig við skýringar Tryggingastofnunar að þar sem henni séu nú greiddar þessa makabætur skerðist þær bætur sem hún hafði áður. Kærandi telji alfarið að það sé hún sem eigi rétt á að njóta betri afkomu vegna makalífeyrisins en ekki Tryggingastofnun að hluta. Þá segir í kæru að það komi hvergi fram að greiðslur í lífeyrissjóð og skyldur sem því fylgja séu ætlaðar til skerðingar annarra tekna. Kærandi vænti þess að málið verði skoðað því að það sé ekki ásættanlegt að Tryggingastofnun reikni dæmið á þennan máta.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á mánaðarlegum örorkulífeyrisgreiðslum til kæranda frá 1. janúar 2016.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda ekki tilkynnt formlega um það að örorkulífeyrisgreiðslur til hennar frá Tryggingastofnun ríkisins myndu lækka vegna makalífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóði. Af kæru verður hins vegar ráðið að kærandi hafi fengið þær upplýsingar í janúar 2016 þegar bótagreiðslur til hennar frá stofnuninni lækkuðu. Fyrir liggur að kærandi breytti tekjuáætlun sinni þann 4. janúar 2016. Í kjölfar breytinga kæranda afgreiddi Tryggingastofnun ríkisins nýja tekjuáætlun og útbúin var ný greiðsluáætlun vegna ársins, dags. 11. janúar 2016, sem var birt á vefgátt Tryggingastofnunar ríkisins „Mínum síðum“. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir hvenær í janúar kærandi fékk upplýsingar um tekjuskerðingu vegna makalífeyrisgreiðslna telur úrskurðarnefndin rétt að meta vafa um það kæranda í hag og miða við að hin kærða ákvörðun hafi verið tilkynnt henni í lok janúar 2016. Þann 11. janúar 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála umrædd kæra. Með hliðsjón af framangreindu liðu rúmlega ellefu mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun þangað til kæra barst úrskurðarnefndinni. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því löngu liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
-
afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
-
veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 17. janúar 2017, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með bréfi, mótteknu 25. janúar 2016, bárust athugasemdir kæranda og fylgigögn. Í bréfi kæranda segir að hún hafi vonast til að greiðslur hennar yrðu leiðréttar allt árið 2016 þannig að mánaðarlegar greiðslur yrðu svipaðar og þegar maðurinn hennar var á lífi. Þá segir að hún hafi af og til sent Tryggingastofnun fyrirspurnir um hvernig stæði á því að tekjur þeirra til hennar hafi lækkað þegar hún hafi tilkynnt um andlátið. Kæran sé lögð fram í byrjun árs 2017 því að þá fyrst hafi hún haft samanburð greiðslna ársins 2016 við árið 2015.
Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kæranda hafi verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og kærufrest þegar henni var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun. Í athugasemdum við 28. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tekið sem dæmi um afsakanlegar ástæður fyrir því að kæra berist of seint, tilvik þar sem lægra stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur hins vegar að slík vanræksla leiði ekki sjálfkrafa til þess að kæra sé tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn heldur verði að skoða hvert tilvik fyrir sig. Ef aðstæður í máli þessu eru skoðaðar verður ekki ráðið af athugasemdum kæranda að hún hafi ekki vitað að hin kærða ákvörðun væri kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Auk þess bera gögn málsins með sér að kærandi hafi mátt vita að afgreiðsla stofnunarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, enda liggja fyrir í gögnum málsins tvær aðrar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynntar voru kæranda í janúar 2016 þar sem henni var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Þá lítur úrskurðarnefndin til þess að rúmlega ellefu mánuðir liðu frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun þar til hún kærði til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi aðhafðist því ekkert í tæpt ár. Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir