Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 170/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. maí 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 170/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16020009

Kæra [...]

og barns hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. febrúar 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. febrúar 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir hennar og sonar hennar[...], fd. [...], um hæli á Íslandi og endursenda þau til Ítalíu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir hennar og sonar hennar um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrest, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli hér á landi þann 23. ágúst 2015. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 4. september 2015, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í gagnagrunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Þann 21. september 2015 var beiðni um viðtöku kæranda beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 15. október 2015 barst svar frá ítölskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 5. febrúar 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hún skyldi endursend til Ítalíu. Kærandi kærði ákvörðunina þann 9. febrúar 2016 auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan mál hennar væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 11. febrúar s.á. Greinargerð kæranda barst kærunefndinni 20. mars 2016. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 3. maí 2016 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddur var talsmaður kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að fyrir liggi að ítölsk stjórnvöld beri ábyrgð á afgreiðslu umsóknar kæranda um hæli skv. 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi haft dvalarleyfisskírteini sem útgefið hafi verið af ítölskum stjórnvöldum.

Útlendingastofnun fjallar í ákvörðun sinni um aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu. Stofnunin vísar til skýrslu norsku flóttamannasamtakanna (The Italian approach to asylum: System and core problems (NOAS, apríl 2011)) og skýrslu svissnesku flóttamannanefndarinnar (Reception conditions in Italy: Report on the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, október 2013). Þá er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í mál Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) reifaður og tekið fram að Útlendingastofnun geti ekki ráðið af dóminum að almennt sé ekki í lagi að senda sérstaklega viðkvæma einstaklinga til Ítalíu. Auk þess hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn endursendingu þangað í kjölfar dómsins. Jafnframt er vísað til úrlausnar Mannréttindadómstólslins í máli Samsam Mohammed Hussein ofl. gegn Hollandi og Ítalíu, nr. 27725/10, og gerð grein fyrir breytingum sem hafa verið gerðar á tilskipunum Evrópusambandsins nr. 2013/33/ESB og nr. 2013/32/ESB sem innleiddar hafi verið í ítalskan rétt þann 15. september 2015. Það sé mat Útlendingastofnunar að skoða verði sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig hvort senda eigi einstaklinga til Ítalíu sem séu í viðkvæmri stöðu.

Kærandi hafi haldið því fram að hún væri [...]. Útlendingastofnun taldi frásögn kæranda trúverðuga þar sem að algengt væri að konur frá [...]á Ítalíu. [...]Þá bentu gögn ekki til þess að ítölsk stjórnvöld væru ekki í stakk búin til að vernda hagsmuni sonar kæranda en Ítalía sé m.a. aðili að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn hælisleitenda hafi aðgang að menntakerfinu á Ítalíu.

Þann 8. júní 2015 hafi ítölsk stjórnvöld sent minnisblað til yfirvalda allra aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins þar sem fullyrt sé að sérstakar ráðstafanir muni verða gerðar þegar hælisleitendur með ólögráða börn séu endursendir á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Stofnunin liti svo á að með bréfinu og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda væri nægjanlega tryggt að móttaka, málsmeðferð og aðbúnaður hennar á Ítalíu, uppfylli þær kröfur sem alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar kveði á um og þá einkum 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hafi ennfremur ekki borið því fyrir sig að hafa sætt meðferð af hálfu ítalska yfirvalda sem talist getur brotleg gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því verði að telja að aðstæður hennar séu ekki sambærilegar þeim sem um ræddi í áðurnefndum dómi Mannréttindadómstólsins í máli Tarakhel gegn Sviss.

Það sé mat Útlendingastofnunar, með vísan til fyrrgreinds, að kærandi sé ekki í þeirri stöðu að eitthvað sé því til fyrirstöðu að hún verði send aftur til Ítalíu. Aðstæður á Ítalíu væru ekki með þeim hætti að hún ætti á hættu að standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Vert væri að minnast á að kæranda hafi þegar verið veitt dvalarleyfi þar í landi og njóti því svipaðra réttinda og ítalskir ríkisborgarar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún skyldi endursend til Ítalíu. Lagt var til grundvallar að Ítalía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það sé niðurstaða stofnunarinnar, að gættum ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskra laga er málið varða, að hagsmunum barns kæranda sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi móður sinni til Ítalíu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem hælisleitandi af ýmsum ástæðum. Hún hafi verið [...]. Hún standi í stórri peningaskuld við þá aðila sem að baki [...] hafi staðið og sé sérstaklega berskjölduð vegna þess, auk þess sem fjölskylda hennar hafi verið þátttakendur í [...]. Einnig glími kærandi við varanlegar afleiðingar alvarlegs bílslyss sem hún hafi orðið fyrir árið [...]. Hún hafi verið í [...]á spítala og í [...] í kjölfar slyssins auk þess sem hún sé með [...]og [...] í líkamanum. Þá sé kærandi [...]móðir [...] ára gamals drengs.

Talsmaður kæranda hafi af þessum sökum talið að kærandi yrði ekki endursend til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og haft samband við Útlendingastofnun og gert grein fyrir stöðu kæranda svo taka mætti efnisviðtal í málinu strax. Talsmaður hafi jafnframt skilað skriflegum athugasemdum til stofnunarinnar þar sem ítarleg rök hafi verið færð fyrir því að umsókn kæranda skyldi tekin til efnismeðferðar á Íslandi. Í símtali við starfsmann Útlendingastofnunar hafi starfsmaður stofnunarinnar greint frá því að mál kæranda yrði tekið til efnismeðferðar og viðtal við hana yrði í samræmi við það. Hins vegar hafi verið tekin ákvörðun um það af stofnuninni að endursenda kæranda og son hennar aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Af hálfu kæranda sé talið ljóst að alvarleg mistök hafi átt sér stað við vinnslu málsins hjá Útlendingstofnun og að tilefni sé fyrir stofnunina að afturkalla ákvörðun sína að eigin frumkvæði sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í greinargerð er Útlendingastofnun gagnrýnd fyrir að hafa ekki minnst á greinargerð innanríkisráðuneytisins frá desember 2015 um endursendingu hælisleitenda til Ítalíu. Aðeins hafi verið minnst á minnisblað ítalskra stjórnvalda sem gefið hafi verið út 8. júní 2015 þannig sé ljóst að við töku ákvörðunarinnar hafi stofnunin farið á svig við skýr fyrirmæli frá innanríkisráðuneytinu sem gefin hafi verið út í kjölfar ítarlegrar úttektar á aðstæðum á Ítalíu og lagaumhverfi í Evrópu. Samkvæmt fyrrnefndri greinargerð skuli umsækjendur um hæli, sem metnir séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, ekki sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Til nánari skýringa séu talin upp dæmi um einstaklinga sem teljist sérstaklega viðkvæmir en þar séu m.a. [...]. Konur og stúlkur hafi oft verið flokkaðar sem viðkvæmur hópur þar sem þær hafi færri tækifæri, úrræði, völd og áhrif en karlmenn vegna samfélagslegrar stöðu sinnar. Þær séu því útsettari fyrir hvers konar misnotkun, kúgun eða ofbeldi og þá sérstaklega konur sem lent hafi í kynferðislegu ofbeldi, ungar konur og einstæðar mæður. Ljóst sé að kærandi verði að teljast í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem [...]sem beitt hafi verið [...]. Þá verði ekki ráðið af ákvörðun stofnunarinnar hvort fram hafi farið raunverulegt mat á því hvort að hagsmunum sonar kæranda sé best borgið með endursendingu mæðginanna til Ítalíu.

Ennfremur er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 27725/10 ekki talinn eiga að hafa áhrif á niðurstöðu í máli kæranda þar sem að í 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga sé hvergi minnst á að kerfisbundinn galli þurfi að vera á aðstæðum í móttökuríki til þess að mál verði tekið til efnismeðferðar á Íslandi. Þá er umfjöllun Útlendingastofnunar um búsetuúrræði hælisleitenda á Ítalíu gagnrýnd þar sem að þau úrræði sem stofnunin hafi fjallað um eigi aðeins við um einstaklinga sem þegar hafi óskað eftir hæli í landinu. Kærandi eigi ekki umsókn í vinnslu á Ítalíu og muni því þurfa að leggja fram slíka umsókn og í millitíðinni gæti hún þurft að bíða í langan tíma eftir búsetuúrræði. Sú staða sé sérstaklega alvarleg í tilviki kæranda og sonar hennar í ljósi forsögu kæranda á Ítalíu. Þá er sú staðhæfing Útlendingastofnunar um að kærandi hafi verið veitt dvalarleyfi á Ítalíu og njóti því svipaðra réttinda á Ítalíu og ríkisborgar landsins sögð röng og stofnunin auk þess sögð hafa brotið gegn rannsóknarskyldu sinni með því að kanna ekki hvort kærandi sé með gilt dvalarleyfi á Ítalíu eða ekki. Af samþykki ítalskra stjórnvalda megi ætla að dvalarleyfi kæranda á Ítalíu sé útrunnið þar sem vísað sé til 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Af ofangreindu megi telja ljóst að ákvörðun stofnunarinnar sé ógildanleg og kærunefndinni beri að fella hana úr gildi.

Í greinargerð kæranda er fjallað um slæman aðbúnað og aðstæður fyrir flóttamenn og aðra með alþjóðlega vernd á Ítalíu í tengslum við húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu. Í því sambandi er m.a. vísað til eftirfarandi skýrslna: UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013), Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, október 2013), The Italian Approach to Asylum: System and core problems (NOAS, apríl 2011) og Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, janúar 2015) einnig var vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12). Þar komi fram að ýmis vandkvæði séu á ítalska hæliskerfinu sem staðfest hafi verið af Flóttamannastofnun og mannréttindafulltrúa Evrópu. Vandinn sé ekki nýtilkominn og verði að líta svo á að hælisleitandi sem sendur sé til hælismeðferðar á Ítalíu standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Rými SPRAR kerfisins séu afar takmörkuð og margir neyðist þannig til að búa á götunni og í yfirgefnum húsum. Þá segir í greinargerð að þrátt fyrir að ítölsk löggjöf geri ráð fyrir rétti til atvinnu, sé staðan í raun sú að flóttamenn eigi oft í miklum erfiðleikum með að fá vinnu. Staða efnahagsmála á Ítalíu í dag sé slæm og atvinnuleysi hátt í landinu. Í besta falli geti þeir fengið vinnu á svarta markaðnum þar sem þeir verði oft fyrir misneytingu. Enn fremur segir í greinargerð að félagslega kerfið á Ítalíu sé mjög veikburða; engar reglulegar mánaðarlegar félagslegar bætur séu greiddar út til fólks og kerfið byggi aðallega á aðstoð frá fjölskyldunni. Flóttamenn séu því oft í þeirri stöðu að þurfa að sjá um sig algjörlega sjálfir án nokkurrar aðstoðar. Ítölsk stjórnvöld geti því ekki í framkvæmd tryggt kæranda þau réttindi sem séu henni nauðsynleg til að geta lifað mannsæmandi lífi.

Einnig kemur fram að þrátt fyrir tilraunir ítalskra yfirvalda til þess að mæta þörfum sérstaklega viðkvæmra hælisleitenda séu móttökumiðstöðvar fyrir þennan hóp af skornum skammti og anni ekki eftirspurn. Því hafist [...] og aðrir sérstaklega viðkvæmir hælisleitendur við í ófullkomnum og yfirfullum móttökumiðstöðum án þess að tillit sé tekið til stöðu þeirra. Í ljósi framangreinds sé ljóst að kæranda og syni hennar bíði mikil óvissa um líf sitt við komuna til Ítalíu. Sú óvissa geti varað í langan tíma og leitt til þess að [...]. Kærandi og sonur hennar séu því í raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð sem brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því beri íslenskum stjórnvöldum að taka mál þeirra til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

VI. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Afmörkun úrlausnarefnis

Fyrir liggur í máli þessu að ítölsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa henni til Ítalíu. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og skuli taka hana til efnislegrar meðferðar.

2. Lagarammi

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

3. Niðurstaða

Í máli kæranda er byggt á því að hún tilheyri hópi sérstaklega viðkvæmra einstaklinga. Hún sé ung, [...]kona með [...] barn á sínu framfæri. Kærandi kveðst hafa verið [...]. Á því sé byggt að þær aðstæður sem hún muni eiga vona á, verði hún endursend til Ítalíu, séu slíkar að þær brjóti m.a. gegn non-refoulement reglu þjóðarréttar og 45. gr. laga um útlendinga.

Þann 4. nóvember 2014 var kveðinn upp dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss nr. 29217/2012. Þar reyndi á hvort heimilt væri að senda afganska fjölskyldu til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaða dómsins var sú að ýmis vandamál hafi risið í tengslum við aðstæður flóttamanna á Ítalíu. Þótt þau væru ekki kerfislæg með þeim hætti að þau kæmu almennt séð í veg fyrir endursendingu flóttamanna þangað væri ástæða til alvarlegra efasemda um getu hæliskerfisins á Ítalíu til þess að tryggja viðunandi móttökuskilyrði hælisleitenda. Taldi dómstóllinn að ekki væri hægt að útiloka að töluverður fjöldi flóttamanna gæti átt á hættu að vera annað hvort án húsnæðis eða hýstir í óviðunandi aðstæðum. Í málinu var um að ræða fjölskyldu með börn og taldi dómurinn að vegna viðkvæmrar stöðu þeirra hefði svissneskum yfirvöldum borið að kanna, áður en hún yrði send til Ítalíu, hvort þeim yrði tryggðar viðunandi aðstæður og að fjölskyldunni yrði haldið saman. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011 kemur einnig fram að þótt engin börn fylgi hælisleitanda telji dómstóllinn það geti verið brot á 3. gr. sáttmálans ef hælisleitendur fá enga húsnæðisaðstoð og hafa enga möguleika á að tryggja grunnþarfir sínar.

Í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar hælisleitenda til Ítalíu frá desember 2015 er lagt til að meginreglan verði eftir sem áður sú að hælisleitendur verði endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en hins vegar skuli áfram ávallt skoða hvert tilvik fyrir sig og meta aðstæður viðkomandi einstaklings áður en ákvörðun er tekin. Í þessu felst að kanna verður þær upplýsingar sem liggja fyrir um einstaklingsbundnar aðstæður viðkomandi hælisleitanda og fyrirliggjandi upplýsingar um aðstæður hælisleitenda á Ítalíu. Stjórnvöld þurfi að hafa hliðsjón af aðstæðum sérstaklega viðkvæmra hópa eins og barna og barnafjölskyldna, barnshafandi kvenna, einstæðra foreldra með börn undir lögaldri, fórnarlamba mansals o.fl. Þá segir að áfram skuli miðað við þá framkvæmd íslenskra stjórnvalda að þeir sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ekki sendir til Ítalíu. Verði talið varhugavert með hliðsjón af ofangreindu mati að endursenda viðkomandi til Ítalíu m.a. í ljósi stöðu hans og einstaklingsbundinna aðstæðna er lagt til að undanþáguheimild 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verði beitt þannig að Ísland beri ábyrgð á efnismeðferð hælisumsóknarinnar.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi er ung, [...] kona með [...] barn á framfæri sínu. Þá hafi hún einnig verið [...]og lent í alvarlegu [...]slysi sem hafi haft áhrif á heilsu kæranda. Var framburður kæranda í alla staði mjög trúverðugur og samkvæmur því sem liggur fyrir í málinu. Er það því mat kærunefndar að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Með vísan til framangreinds, og sérstaklega þess sem fram kemur í greinargerð innanríkisráðuneytisins, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að fyrir liggi staðfesting ítalskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og hælisumsókn hennar, þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð hælisumsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld, á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga, sbr. 1.mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Byggist niðurstaða kærunefndar á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda og barns hennar um hæli til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda og barns hennar til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant and her child for asylum in Iceland.

Pétur Dam Leifsson, varaformaður Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta