Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 2/2023

Miðvikudaginn 19. apríl 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. desember 2022, kærði B, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. desember 2022 þar sem umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða var samþykkt frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 29. apríl 2021, sótti kærandi um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá 1. júlí 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. júní 2021, var umsókn kæranda samþykkt frá 1. janúar 2021 til 1. janúar 2022. Með umsókn, dags. 13. október 2022, sótti kærandi á ný um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá janúar 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. desember 2022, var umsókn kæranda samþykkt frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023 en frekari afturvirkni var synjað á þeim forsendum að einungis væri heimilt að greiða þrjá mánuði afturvirkt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. janúar 2023. Með bréfi, dags. 26. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. febrúar 2023. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 9. mars 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. mars 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ósanngjörn meðferð á viðbótarstuðningi við aldraðra til kæranda.

Kærandi hafi sótt um viðbótarstuðning aldraðra árið 2021 sem hann hafi fengið. Þegar umboðsmaður kæranda hafi komið til Íslands síðastliðið haust hafi komið í ljós að kærandi hafi ekki fengið þessar greiðslur frá því í janúar 2022. Umboðsmaður kæranda hafi þá haft samband við Tryggingastofnun og fengið þær upplýsingar að hann þyrfti að sækja um aftur og að það þyrfti að gera á tólf mánaða fresti. Stofnunin hafi hætt að greiða kæranda í janúar 2022 vegna þess að ekki hafi borist ný umsókn. Umboðsmaður kæranda hafi í lok september 2022 farið með nýja umsókn fyrir hann til Tryggingastofnunar. Stofnunin hafi viljað að kærandi kæmi sjálfur og sýndi sig en kærandi hafi ekki getað komist þar sem hann sé rúmliggjandi. Hann fari ekki út úr húsi nema á sjúkrahús og þá með sjúkrabíl og auk þess hafi hann á þessum tíma verið á sjúkrahúsi. Að lokum hafi stofnunin tekið gilt vottorð frá heimilisþjónustu kæranda um að hann kæmist ekki sjálfur. Tryggingastofnun hafi samþykkt að borga kæranda þrjá mánuði aftur í tímann, eða frá 1. júlí 2022. Kærandi hafi því ekki fengið neinar greiðslur frá janúar til og með júní 2022.

Þess sé óskað að úrskurðarnefndin leiðrétti það og samþykki einnig þær greiðslur sem upp á vanti á þessu ári eða frá janúar til og með júní 2022 vegna þess að kærandi hafi ekki vitað að hann þyrfti að sækja um aftur. Kærandi hafi sótt um árið 2021 og hafi talið að þá fengi hann áframhaldandi greiðslur. Kærandi sé xx árs og noti ekki tölvur eða slík tæki, hann þurfi að fá bréf send í pósti eða símhringingar til að fá upplýsingar þegar eitthvað sé að breytast varðandi hans kjör eða greiðslur. Í dag viti hann það og muni framvegis leita sér aðstoðar við að sækja um aftur á tveggja mánaða fresti. Þess sé óskað að úrskurðarnefndin sýni því skilning svo að kærandi tapi ekki sex mánaða greiðslu vegna þess að hann sé orðinn fullorðinn og hafi ekki áttað sig á því.

Kærandi hafi búið í sömu íbúðinni í xx ár og hafi ekki farið úr landi í xx ár. Hann hafi verið rúmliggjandi síðustu ár og þess á milli hafi hann dvalið á spítala. Greiðsla til hans hefði því ekki átt að falla niður í janúar 2022 þar sem hann hafi átt rétt á greiðslum.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 9. mars 2023 kemur fram að í greinargerð Tryggingastofnunar sé greint frá bréfum stofnunarinnar sem séu sum mjög mikilvæg og nauðsynleg. Kærandi hafi hvorki fengið bréf, dags. 6. janúar 2021, né bréf, dags. 25. júní 2021, sem séu tvö mikilvægustu bréfin. Bréfin hafi innihaldið upplýsingar sem kærandi hafi þurft að sjá og hann sé að sjá þau nú í fyrsta sinn. 

Kærandi hafi fengið hin bréfin. Hefði kærandi fengið bréf, dags. 6. janúar 2021, hefði hann sótt um styrkinn fyrr, eða í janúar 2021. Umboðsmaður kæranda hafi komist að þessu í apríl 2021 þegar hún hafi verið á landinu og hafi þá hringt í Tryggingastofnun fyrir kæranda til að tala við stofnunina almennt um hans mál. Í lok samtalsins hafi þjónustufulltrúinn nefnt að það væru nýjar reglur sem hefðu komið út 1. nóvember 2020 fyrir fólk sem væri með lágan lífeyri og hefði búið í útlöndum. Umboðsmaður kæranda hafi þá látið kæranda vita og hann hafi sótt um. Það hafi allt komið fram í bréfi, dags. 6. janúar 2021, sem og fleiri upplýsingar sem kærandi hafi aldrei fengið. 

Það sé mjög óheppilegt að kærandi hafi ekki fengið öll bréfin, þeirra á meðal bréf, dags. 6. janúar og 25. júní 2021, þar sem fram komi mikilvægar og nauðsynlegar upplýsingar. Kærandi vonar að tekið verði tillit til þessara aðstæðna og hann verði ekki látinn gjalda þess og missa af þeim réttindum sem hann hafi átt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 13. desember 2022, þar sem umsókn um greiðslur á félagslegum viðbótarstuðningi, dags. 13. október 2022, hafi verið ákvarðaðar frá 1. júlí 2022 til 30 júní 2023. Ekki hafi verið fallist á frekari afturvirkni greiðslna en bent hafi verið á að sækja þurfi um viðbótarstuðning að loknu hverju greiðslutímabili.

Viðbótarstuðningur taki til þeirra einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri og hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og dvelji varanlega á Íslandi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.

Þeir sem uppfylli skilyrði laga um félagslegan viðbótarstuðning geti fengið greiddan félagslegan viðbótarstuðning sér til framfærslu, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða komi fram að viðbótarstuðningur greiðist eftir á fyrir einn mánuð í senn. Heimilt sé þó að ákvarða viðbótarstuðning í allt að 12 mánuði í einu. Sækja þurfi um viðbótargreiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.

Í 2. mgr. 9. gr. laganna komi fram að greiðslur hefjist frá og með mánuðinum eftir að skilyrði greiðslna teljist uppfyllt. Einnig komi fram að greiðslur stöðvist frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er skilyrði greiðslna teljist ekki lengur uppfyllt.

Í 3. mgr. 9. gr. laganna komi fram að hafi fjárhæð viðbótarstuðningsins tekið breytingum í samræmi við 2. mgr. 6. gr. á greiðslutímabilinu greiðist breytt fjárhæð frá og með næsta mánuði eftir að breytingin hafi tekið gildi.

Í 4. mgr. 9. gr. komi fram að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Jafnframt sé tekið fram að ekki séu greiddir vextir ef um greiðslur aftur í tímann sé að ræða.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um greiðslur á félagslegum viðbótarstuðningi með umsókn, dags. 13. október 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. desember 2022, hafi greiðslur verið ákvarðaðar frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Ekki hafi verið fallist á greiðslur lengra aftur í tímann en sem nemi þremur mánuðum frá því að umsókn um félagslegan viðbótarstuðning hafi borist Tryggingastofnun, sbr. ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning.

Áður hafi kærandi sótt um greiðslur á félagslegum viðbótarstuðningi með umsókn, dags. 29. apríl 2021, þar sem óskað hafi verið eftir afturvirkum greiðslum. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 25. júní 2021, hafi greiðslur verið ákvarðaðar frá 1. janúar 2021 til 1. janúar 2022. Jafnframt hafi verið tekið fram í bréfinu að sækja þurfi um viðbótarstuðning að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.

Með upplýsingabréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. janúar 2021, til umboðsmanns kæranda hafi verið vakin athygli á því að lög um félagslegan viðbótarstuðning hafi komið til framkvæmda og markmið þeirra séu að styrkja framfærslu aldraðra einstaklinga sem búsettir séu hér á landi og eigi engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Lögin taki til þeirra einstaklinga sem séu 67 ára og eldri og hafi fasta búsetu og lögheimili hér á landi og þeir einir geti sótt um á grundvelli laganna. 

Í fyrrgreindu upplýsingabréfi komi fram upplýsingar um að umsækjandi um félagslegan viðbótarstuðning þurfi að gera grein fyrir dvöl sinni hér á landi með því að koma í eigin persónu til Tryggingastofnunar eða umboða hennar um land allt. Einnig komi fram upplýsingar um að viðbótarstuðningur greiðist eingöngu í einn mánuð í senn en heimilt sé þó að ákvarða greiðslutímabil allt að 12 mánuði í einu en sækja þurfi um greiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.

Samkvæmt 15. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða skuli sækja um greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun ríkisins og hið sama gildi um endurnýjun á umsókn samkvæmt 9. gr. laganna. Þó segi að Tryggingastofnun sé heimilt að taka við umsóknum með öðrum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi hvað varði staðfestingu á varanlegri dvöl eða búsetu hér á landi.

Við afgreiðslu á umsókn kæranda frá 13. október 2022 hafi Tryggingastofnun gert undanþágu frá því að kærandi kæmi í eigin persónu til stofnunarinnar þegar upplýsingar frá velferðarsviði C hafi borist stofnuninni. Í tölvupósti frá 23. nóvember 2022 segi að kærandi fái heimahjúkrun kvölds og morgna, auk þess að fá heimsendan mat og aðstoð frá félagsþjónustu um miðjan daginn. Í tölvupóstinum komi fram að kærandi fari nánast ekkert út úr húsi og liggi mest fyrir uppi í rúmi. Mikil mæði og þreyta hrjái kæranda og að hann gangi einungis innan íbúðar á salerni og síðan aftur upp í rúm. Kærandi notist við lága göngugrind en sé mjög óstöðugur til gangs. Kærandi hafi fengið aðkomu frá D þar sem hann hafi ekki treyst sér á heilsugæslu í langan tíma. Þegar hann hafi farið í innlögn á Landspítala þá hafi hann farið með sjúkrabíl.

Í 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning komi fram að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Jafnframt sé tekið fram að ekki séu greiddir vextir ef um greiðslur aftur í tímann er að ræða.

Í frumvarpi með lögum um viðbótarstuðning við aldraða komi meðal annars fram að heimilt verði að hámarki að ákvarða greiðslur til allt að 12 mánaða í senn en það fari eftir atvikum í hverju máli til hversu langs tíma greiðslur verði ákvarðaðar. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir að sækja þurfi um viðbótargreiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili og sé það í samræmi við tillögur starfshóps um kjör aldraða.

Tryggingastofnun hafi verið falið að annast framkvæmd laga um viðbótarstuðning, sbr. 17. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Varðandi málsmeðferð skuli sækja um greiðslurnar í eigin persónu hjá Tryggingastofnun og gildi hið sama um endurnýjun umsókna samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna. Þetta séu skýr lagafyrirmæli sem stofnunin þurfi að fara eftir. Tryggingastofnun telji að umboðsmaður kæranda hafi verið upplýstur um þau lagaskilyrði sem uppfylla þurfi til að eiga rétt á viðbótarstuðningi og einnig að það þurfi að sækja um að nýju að loknu hverju greiðslutímabili. Upplýsingar í bréfi til umboðsmanns kæranda, dags. 26. janúar 2021, auk skýrra lagafyrirmæla í lögum um félagslegan viðbótarstuðning, sbr. 15. gr. laganna, kveði skýrt á um það að umsækjandi um viðbótarstuðning skuli sækja um greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun og gildi hið sama um endurnýjun á umsókn samkvæmt 9. gr. laganna.

Ágreiningur í máli þessu snúi að því að greiddur verði viðbótarstuðningur lengra aftur í tímann en sem nemi þremur mánuðum. Tryggingastofnun telji að umsókn kæranda hafi verið afgreidd á réttmætan hátt og telji ekki vera heimild í lögum til að greiða lengra afturvirkt en sem nemi þremur mánuðum frá því að umsókn um félagslegan viðbótarstuðning hafi borist stofnuninni. Löggjafinn hafi sett mjög skýr lagafyrirmæli þar um og hafi meðal annars tekið það skýrt fram í 9. gr. laganna um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða að umsækjandi skuli sækja um þær greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun og gildi hið sama um endurnýjun umsókna.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. desember 2022 þar sem umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða var samþykkt frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Ekki var fallist á frekari afturvirkni greiðslna.

Um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða er fjallað í lögum nr. 74/2020. Í 1. mgr. 2. gr. laganna segir svo um gildissvið laganna:

„Lög þessi taka til einstaklinga sem eru 67 ára eða eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelja varanlega á Íslandi.“

Ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna kveður á um að þeir sem uppfylla skilyrði laganna geti fengið greiddan félagslegan viðbótarstuðning sér til framfærslu í samræmi við nánari ákvæði laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna greiðist viðbótarstuðningur eftir á fyrir einn mánuð í senn. Heimilt er að ákvarða viðbótarstuðning til allt að 12 mánaða í einu. Sækja þarf um viðbótargreiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að greiðslur hefjist frá og með mánuðinum eftir að skilyrði greiðslna teljist uppfyllt. Greiðslur stöðvast frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð þegar skilyrði greiðslna teljast ekki lengur uppfyllt. Í 4. mgr. ákvæðisins segir svo að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Ekki séu greiddir vextir ef um greiðslur aftur í tímann er að ræða.

Kærandi sótti um félagslegan viðbótarstuðning frá janúar 2022 með umsókn, dags. 13. október 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. desember 2022, voru greiðslur til kæranda ákvarðaðar frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Frekari afturvirkni greiðslna var ekki samþykkt. Samkvæmt framangreindu fékk kærandi greiddan félagslegan viðbótarstuðning þrjá mánuði aftur í tímann frá umsókn í samræmi við 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Engin heimild er í lögum til að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann.

Kærandi byggir á því að hann hafi ekki haft vitneskju um að sækja þyrfti um greiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili þar sem hann hafi ekki fengið bréf þess efnis frá Tryggingastofnun. Samkvæmt gögnum málsins var þáverandi umboðsmanni kæranda, sem hafði gilt umboð til að gæta hagsmuna kæranda vegna umsóknar hans um ellilífeyri, send bréf frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 6. janúar 2021 og 25. júní 2021, sem kærandi kveðst ekki hafa fengið. Í bréfi, dags. 6. janúar 2021, kemur meðal annars fram að heimilt væri að ákvarða allt að 12 mánaða greiðslutímabil félagslegs viðbótarstuðnings í einu. Þá segir að sækja þurfi um greiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili. Í bréfi, dags. 25. júní 2021, kemur fram að samþykktar hefðu verið greiðslur viðbótarstuðnings vegna tímabilsins 1. janúar 2021 til 1. janúar 2022 og að sækja þurfi um viðbótarstuðning að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.

Fyrir liggur að þáverandi umboðsmaður kæranda var með umboð til að gæta hagsmuna kæranda vegna umsóknar hans um ellilífeyri þegar framangreind bréf voru send. Þar sem umboðið nær ekki til umsóknar um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða telur úrskurðarnefndin að heppilegra hefði verið að senda kæranda einnig bréfin. Aftur á móti telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að breyta hinni kærðu ákvörðun á grundvelli framangreindrar málsástæðu kæranda í ljósi skýrs ákvæðis 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða um að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. desember 2022, um að samþykkja umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá 1. júlí 2022, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. desember 2022, um upphafstíma greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta