Nr. 197/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 197/2019
í stjórnsýslumálum nr. KNU19030018 og KNU19030017
Kæra […],
[…]
og barns þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 7. mars 2019 kærðu […], […], ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2019 um að synja kærendum og barni þeirra, […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar út gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kærendum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að þeim verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vísað er til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þar sem kemur fram að maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára eigi einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. desember 2017. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 26. september 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 15. febrúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 7. mars 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 22. mars 2019, ásamt fylgigögnum. Þann 17. apríl 2019 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kærenda ásamt fylgigögnum.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærendur séu í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að hagsmunum barns kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu.
Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að K sé af þjóðarbroti […] og fædd og uppalin í […] í […] en áður en hún hafi komið til Íslands hafi hún búið í […]. Þar sem fjölskylda K búi við mikinn ótta hafi hún ekki greint að öllu leyti rétt frá um hagi sína í viðtali hjá Útlendingastofnun, en kærendur óttist að verða send aftur til heimaríkis. Frásögn kærenda sé að öllu leyti sönn að undanskilinni frásögn þeirra um að nánasta fjölskylda þeirra sé á móti hjónabandi þeirra og að þau séu ekki í samskiptum við fjölskyldur sínar. K hafi dvalið tímabundið í […] árið 2011 ásamt foreldrum sínum vegna vinnu föður hennar hjá utanríkisþjónustu […], en fjölskylda K sé vel stæð. K hafi unnið þar í banka og hafi hún kynnst M í […]. M hafi séð myndir af K úr brúðkaupsveislu vinar síns og hafi M og K fyrst um sinn verið eingöngu í samskiptum gegnum samskiptarforritið Skype en árið 2012 hafi þau hist í fyrsta sinn og í júní/júlí sama ár hafi þau gengið í hjúskap. Frá því að K hafi verið barn hafi legið fyrir að hún ætti að giftast manni að nafni […], sem sé sonur frænda K að nafni […], en hann sé valdamikill maður sem starfi fyrir stjórnmálaflokkinn […] í […]. Þá starfi bróðir hans […] fyrir leyniþjónustuna […] í […]. Eftir að M og K hafi gengið í hjúskap hafi K og fjölskylda hennar óttast um hefndaraðgerðir af hálfu […] og hafi K ekki þorað að ferðast til […]. Mikil vanvirðing felist í að fara ekki eftir fyrirmælum fjölskyldunnar varðandi hjúskap og sá sem sé svikinn í þessum efnum telji sig verða fyrir ærumissi og niðurlægingu. Af þessum sökum óttist K mjög […] og hugsanlegar hefndaraðgerðir hans í hennar garð. Kærendum hafi liðið vel í […] en dvalarleyfi þeirra hafi verið háð atvinnu þeirra þar í landi. Ótti um að missa vinnuna hafi vofað yfir kærendum og þau óttist að þurfa snúa aftur til […]. K sé fullviss um að kærendur verði öll drepin af frænda hennar verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis, en […] sé valdameiri heldur en faðir K jafnframt sem hann njóti stuðnings bróður síns í leyniþjónustunni. Þá komist valdamenn í […] upp með glæpi í skjóli refsileysis. Faðir K hafi sagt henni að ef hún myndi giftast utan fjölskyldunnar þá væri ógerningur fyrir hana að dvelja í […]. Faðir K geti ekki verndað hana og fjölskyldu hennar í heimaríki, en þegar faðir K hafi sagt […] frá hjónabandi kærenda hafi hann brugðist mjög illa við. K kveður […] vera ofbeldismann og að hann bíði eftir að kærendur snúi aftur til […] svo hann geti náð til þeirra.
M kveðst vera fæddur og uppalinn í […] í […] jafnframt sem hann sé af þjóðarbroti […] sem sé í minnihluta í […]. Fjölskylda M sé millistéttarfjölskylda og ekki í miklum efnum. Hafi það verið hefð bæði í hans fjölskyldu og fjölskyldu K að ganga í hjúskap innan fjölskyldunnar. Hafi M átt að ganga að eiga frænku sína, en sem syni leyfist honum meira gagnvart fjölskyldu sinni heldur en K sem dóttur. M kveðst óttast um líf sitt, konu sinnar og barns síns jafnframt sem þau óttist að verða þolendur heiðursglæps. Það sé tilgangslaust að óska eftir aðstoð lögreglu í […] í slíkum málum, sérstaklega ef maður sé valdalaus og hafi ekkert tengslanet.
Í greinargerð kærenda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki þeirra. Þá er einnig fjallað um heiðursglæpi í […] sem og stjórnmálaflokkinn […]. Kærendur vísa til skýrslna sem þau telji styðja mál sitt.
Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem þau eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar kærenda að tilteknum þjóðfélagshópi. Í greinargerð kærenda kemur fram að kærendur tilheyri hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Hafi þessi hópur einstaklinga ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna umrædds athæfis. Kærendur telji að líta beri svo á að þessir einstaklingar séu sérstakur þjóðfélagshópur í […] samkvæmt skilgreiningu b-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá halda kærendur því fram að ótti þeirra við ofsóknir sé ástæðuríkur enda tengist sá einstaklingur sem þau óttist stjórnmálaflokknum […] og geti hann beitt áhrifum sínum til að ná til kærenda án þess að þurfa óttast refsingar. Verði kærendum gert að snúa aftur til heimaríkis telji þau að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Til vara halda kærendur því fram í greinargerð að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju ríkja eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjalla kærendur um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærendur óttist um líf sitt og sonar þeirra og að þau verði beitt ofbeldi af hálfu áhrifamikils einstaklings og annarra sem honum tengist í heimaríki. Yfirvöld í […] hafi hvorki vilja né getu til að veita þeim vernd. Enn fremur beri heimildir með sér að almennt öryggisástand í […] sé mjög ótryggt og að yfirvöld beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum borgaranna. Verði kærendum gert að snúa aftur til heimaríkis eigi þau á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Til þrautavara gera kærendur kröfu um að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. átt við aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem sé hefðbundið í heimaríki þeirra og eigi á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Falli K þar undir en hún sé kona sem ekki felli sig við hefðbundið kynhlutverk kvenna í […]. Gegn vilja hennar og sannfæringu sé ætlast til þess af henni á grundvelli hefða að hún giftist frænda sínum. Vegna þessa óttist kærendur að verða þolendur ofbeldis og útskúfunar við endursendingu til heimaríkis.
Þá komi fram í lögskýringargögnum að í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og ákvæði almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um sé að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Því komi til greina að minni kröfur séu gerðar til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt þurfi að taka tillit til þess hvernig aðstæður séu í heimaríki þ.m.t. hvort framfærsla barns sé örugg og forsjáraðili til staðar ef barni er synjað um dvalarleyfi, einkum ef um fylgdarlaust barn er að ræða. Í greinargerð er fjallað um það sem sé börnum fyrir bestu. Börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé þess krafist fyrir hönd barns kærenda að tekið verði tillit til þeirrar verndar sem það eigi rétt á samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu skuldbundin samkvæmt þjóðarrétti til að virða. Kærendur vísa til ákvæða stjórnarskrárinnar, barnalaga nr. 76/2003, barnasáttmálans, laga um útlendinga og tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2011/95/ESB varðandi hagsmuni barns kærenda og þeirrar meginreglu að ávallt skuli hafa það sem barni sé fyrir bestu að leiðarljósi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. A sé sex ára gamall og vegna stöðu M og K í skugga þeirrar ógnar sem vofi yfir þeim sé öryggi og framfærsla A ekki tryggð í […]. Þá beri að líta til þess að A hafi komið hingað til lands ungur að árum og hafi honum tekist að mynda sterk tengsl við landið, en A gangi í skóla hér jafnframt sem hann eigi sína bestu vini hér. Þá sé A nær altalandi á íslensku. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur í bréf, dags. 22. mars 2019, ritað bæði af leikskóla- og deildarstjóra á […] sem feli í sér vitnisburð um umrædd tengsl A við Ísland. Yfir 15 mánuðir séu liðnir síðan kærendur hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og hafi löggjafinn álitið rétt að veita börnum dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem dvalið hafi hér á landi lengur en 15 mánuði, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum um útlendinga nr. 81/2017. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærendur ljóst að þau uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þrátt fyrir að kærendur hafi ekki greint satt og rétt frá tilteknum atriðum í frásögn þeirra þá hafi þau greint á trúverðugan hátt frá ástæðu flótta þeirra frá heimaríki. Kærendur geri því athugasemd við að í hinum kærðu ákvörðunum hafi ekki verið lögð til grundvallar atvik sem framburður kærenda hafi verið stöðugur um. Kærendur hafi lagt fram upplýsingar um Facebook síðu bæði […] og bróður hans.
Þann 17. apríl 2019 skiluðu kærendur inn viðbótargreinargerð ásamt fimm ljósmyndum sem kærendur kveða vera af […] sem þau óttist í heimaríki. Þá lögðu kærendur einnig fram meðmælabréf ritað af fjölskylduvini kærenda hér á landi, […], rithöfundi og […]. Í greinargerðinni kemur fram að á sumum framlagðra ljósmynda megi sjá samkomur […] stjórnmálaflokksins. Þá veki kærendur athygli á skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um […] fyrir árið 2018, en af efni skýrslunnar sé ekki hægt að sjá að aðstæður þolenda heiðursglæpa hafi á nokkurn hátt breyst til batnaðar á síðustu árum. Þá vísa kærendur jafnframt í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2016 þar sem komi fram að í þeim tilvikum þar sem par giftist á skjön við vilja fjölskyldunnar og karlmaðurinn sé talinn vera af síðri ættum en konan þá eigi karlmaðurinn á hættu ofbeldisfullar refsiaðgerðir til jafns við konuna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi K og M framvísað ýmsum gögnum, m.a. ljósriti af prófskírteini og kennivottorðum frá […]. Þar að auki hafi M framvísað ráðningar- og leigusamningi. Til að sanna deili á A hafi verið lagt fram ljósrit af fæðingarvottorði. Þá hafi vegabréf kærenda fundist rifin inni á karlaklósetti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en um sé að ræða þrjú […] vegabréf. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki sannað með fullnægjandi hætti hver þau væru og að leysa yrði úr auðkenni þeirra á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðunum Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærendur séu ríkisborgarar […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málunum sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kærenda og verður því lagt til grundvallar að þau séu […] ríkisborgarar.
Réttarstaða barns kærenda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
[…]
Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að […] löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í […], en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri […]. […] sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. […] veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í […]. Þá hafi lögreglan í […] sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að […] hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.
Þrátt fyrir að [...] lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum einkum á sviði trúar eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í […] þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. […] hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns […] að láta einstakling lausan.
Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í […] sé starfandi umboðsmaður sem hafi það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að […] stjórnmálaflokkurinn í […] hafi upphaflega verið stofnaður til að standa vörð um réttindi […] einstaklinga sem hafi átt undir högg að sækja síðastliðin ár. Eftir að formaður flokksins hafi árið […] haldið umdeilda ræðu þar sem hann hafi m.a. gagnrýnt […] herinn harðlega þá hafi skrifstofum flokksins verið lokað jafnframt sem háttsettir einstaklingar innan flokksins hafi verið handteknir. Af gögnum sé ljóst að meðlimir […] eigi á hættu að verða fyrir áreiti og ofsóknum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Eins og að framan greinir óttast kærendur um líf sitt verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærendur hafa borið fyrir sig að þau eigi á hættu ofsóknir í heimaríki af hálfu frænda K að nafni […] sem sé valdamikill maður sem starfi fyrir stjórnmálaflokkinn […] í […]. K hafi átt að giftast syni […], […], en K hafi ákveðið að ganga frekar í hjúskap með M. Þá sé […] tengdur valdamiklum einstaklingum í […] og sé t.d. bróðir hans […] starfsmaður leyniþjónustunnar […] í […]. Kærendur óttist hefndaraðgerðir af hálfu […] verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis.
Í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að framburðir kærenda stangist á við gögn sem stofnunin hafi undir höndum af samfélagsmiðlinum Facebook. Kærendur hafi haldið því fram hjá Útlendingastofnun að ástæða flótta þeirra frá heimaríki hafi verið ótti við hefndarglæpi af hendi nánustu fjölskyldu þeirra þar sem hún hafi verið mótfallin hjónabandi kærenda. Af ljósmyndum og samskiptum á samfélagsmiðlinum Facebook og framburði kærenda megi ráða að foreldrar kærenda hafi verið viðstödd brúðkaup þeirra. Þá verði ekki annað ráðið af ljósmyndum og samskiptum á Facebook en að gott samband sé á milli fjölskyldna M og K og kærenda. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hafi ekki gert sennilegt að þau hafi stofnað til hjónabands í óþökk fjölskyldna þeirra. Þá hafi K ekki gert sennilegt að hún hafi átt að giftast áðurnefndum […]. Ennfremur hafi kærendur ekki lagt fram gögn sem tengja K við þá menn sem kærendur kveði að þau óttist. Frásögn kærenda um að þau eigi á hættu að verða þolendur heiðurstengds ofbeldis af hálfu frænda K, […], sé eingöngu studd framburði kærenda, en þau hafi ekki fengið hótanir frá framangreindum einstaklingi sjálf. Þá greinir Útlendingastofnun frá því í ákvörðun sinni að kærendur hafi ítrekað gerst uppvís að því að veita Útlendingastofnun rangar upplýsingar um ástæður flótta frá heimaríki.
Í greinargerð kærenda hjá kærunefnd kemur fram að þrátt fyrir að M og K hafi ekki greint satt og rétt frá tilteknum atriðum í frásögn þeirra þá hafi þau greint á trúverðugan hátt frá ástæðu flótta þeirra frá heimaríki. Í greinargerð kærenda hjá kærunefnd halda þau fram að þau óttist hefndarglæpi frænda K, […], þar sem K hafi átt að giftast syni hans. Kærendur hafi lagt fram upplýsingar hjá kærunefnd um Facebook reikninga bæði […] og bróður hans.
Kærunefnd hefur skoðað gögn málsins m.a. þau gögn sem Útlendingastofnun aflaði frá samfélagsmiðlum kærenda. Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til annars en að tilteknir reikningar á samfélagsmiðlum, sem vísað er til í ákvörðun Útlendingastofnunar, stafi frá kærendum sjálfum enda hafa þau ekki haldið öðru fram. Kærendur fengu aðgang að öllum gögnum málsins og hafa þau komið að andmælum, sem áður hafa verið rakin.
Frásögnum sínum til stuðnings hafa kærendur lagt fram ýmis gögn m.a. Facebook síður […] og […]. Þann 17. apríl 2019 lögðu kærendur fram fimm ljósmyndir sem kærendur kveða vera af […] og má sjá merki […] flokksins á einni myndanna. Séu um að ræða myndir af framkölluðum ljósmyndum í albúmi. Þegar forsíðumynd á fyrrnefndum Facebook reikningi […] er skoðuð má sjá að um sama manninn sé að ræða á samfélagsmiðlinum og á ljósmyndunum. Kærunefndin hefur skoðað umræddar síður og ljósmyndir og þó svo að […] og […] séu vinir á samfélagsmiðlinum þá hafa kærendur ekki sýnt fram á tengingu þeirra við umrædda menn. Þessi gögn hafa því takmarkað gildi við úrlausn mála kærenda. Þá hafa kærendur einnig lagt fram ýmis gögn er snúa að náms- og starfsferli M og K og leigusamning kærenda frá […]. Þrátt fyrir að fallist verði á sannleiksgildi þeirra gagna þá styðji þau ekki frásagnir kærenda hvað varðar ástæðu flótta þeirra frá heimaríki.
Kærunefnd telur að kærendur hafi með frásögnum sínum og framlögðum gögnum sýnt fram á að þau hafi búið og starfað í […] í nokkur ár eða þar til þau komu til Íslands. Kærendur hafa ekki lagt fram önnur haldbær gögn sem tengja þau við umrædda menn eða að þeir hafi haft í hótunum við kærendur eða fjölskyldur þeirra. Eins og komið hefur fram þá hafa frásagnir kæranda tekið talsverðum breytingum eftir því sem leið á meðferð mála þeirra hjá íslenskum stjórnvöldum. Verulegt misræmi hafi verið í þeim og þær stangast á við gögn sem Útlendingastofnun hafi aflað m.a. frá samfélagsmiðlinum Facebook. Þá eru útskýringar kærenda á ástæðum þess að þau gáfu íslenskum stjórnvöldum villandi upplýsingar um ástæður flótta ekki til þess fallnar að byggja undir trúverðugleika annarra þátta frásagnar þeirra. Kærendur hafa ennfremur engin gögn fært fram sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn þeirra af aðstæðum þeirra í heimaríki. Það er því mat kærunefndar að framburður kærenda um þær aðstæður í heimaríki sem styðja við kröfu þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða teljist ótrúverðugur í heild og því verður hann ekki lagður til grundvallar í máli þessu.
Í greinargerð kærenda er lögð áhersla að sérstakt tillit skuli vera tekið til A og vísa kærendur til ýmissa lagaákvæði máli sínu til stuðnings. Samkvæmt 25. gr. A í stjórnarskrá […] eiga öll börn á aldrinum fimm til sextán ára rétt á menntun í landinu. Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytinu kemur fram að þrátt fyrir að allir […] eigi rétt á heilbrigðisþjónustu án endurgjalds á opinberum sjúkrahúsum þá sé algengt að millistétt landsins greiði fyrir heilbrigðisþjónustu hjá einkareknum sjúkrahúsum þar sem gæði þjónustunnar séu talin betri þar. Kærendur hafa greint frá því að fjölskylda K sé vel efnuð og fjölskylda M sé millistéttarfjölskylda í […]. Með tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að A hafi aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu við endursendingu til […]. Þá séu fjölskyldur kærenda í góðu sambandi við kærendur og verði því gengið út frá að A geti treyst á félagslegan stuðning skyldmenna sinna í […], þá sérstaklega [...].
Því er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barns kærenda, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska.
Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barns þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Kærendur byggja á því að K falli þar undir en hún sé kona sem ekki felli sig við hefðbundið kynhlutverk kvenna í […]. Gegn vilja hennar og sannfæringu sé ætlast til að hún giftist frænda sínum. Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja frásögn kærenda af ástæðum flótta þeirra frá heimaríki ekki til grundvallar verður ekki talið að þau eigi á hættu fordóma eða mismunun í heimaríki af þeim toga sem gæti verið grundvöllur dvalarleyfis skv. 1. mgr. 74. gr. eða að félagslegar aðstæður kærenda þar í landi séu að öðru leyti þess eðlis að þær nái því alvarleikastigi að kærendur og barn þeirra teljist hafa ríka þörf á vernd.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Eins og áður hefur komið fram um heimaríki kærenda sé skólaskylda fram að sextán ára aldri tryggð samkvæmt stjórnarskrá landsins jafnframt sem heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg öllum.
Þá hefur ekki komið annað fram í viðtölum við kærendur en að þau og barn þeirra séu við góða heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málanna eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barns þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og barn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barns þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Vegna umfjöllunar í greinargerð tekur kærunefnd fram að kærendur og barn þeirra sóttu um alþjóðlega vernd þann 1. desember 2017 og gilda ákvæði laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, því ekki um umsóknir þeirra. Að öðru leyti fellst kærunefnd ekki á að setning laga nr. 81/2017 bendi til þess að löggjafinn telji almennt rétt að veita börnum dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem hafi dvalið hér á landi vegna umsókna um alþjóðlega vernd lengur en í 15 mánuði enda er skýrt af lögunum að þau giltu eingöngu um afmarkaðan hóp umsækjenda. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þessa málsástæðu kæranda.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í málum kærenda og barns þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barns þeirra þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærendur komu hingað til lands 1. desember 2017 og sóttu um alþjóðlega vernd sama dag ásamt barni sínu. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra og barns þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum og barni þeirra því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærendur og barn þeirra eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra.
Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur og barn þeirra að hverfa af landi brott. Kærendum og barni þeirra er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child are affirmed. The appellants and their child are requested to leave the country. The appellants and their child have 15 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Ívar Örn Ívarsson