Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 390/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 390/2017

Fimmtudaginn 30. nóvember 2017

AgegnHafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. október 2017, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 18. september 2017, á umsókn hennar um styrk á grundvelli 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 23. júlí 2017, sótti kærandi um styrk vegna [...] í C. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði, dags. 1. ágúst 2017, með þeim rökum að tekjur hennar væru yfir viðmiðunarmörkum 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 8. september 2017 og staðfesti synjunina. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi fjölskylduráðs, dags. 18. september 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. október 2017. Með bréfi, dags. 24. október 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 31. október 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og tekur fram að hún hafi sótt um styrk hjá Hafnarfjarðarbæ til að greiða fyrir [...] í C. Hún hafi reynt flest [...] sem boðið sé upp á hérlendis en án árangurs. Kærandi bendir á að það sé álit barnaverndar og [...] að [...] sé að nýtast vel en hún þurfi mun lengri tíma, eða að minnsta kosti sex mánuði. Ef beiðni kæranda um styrk verði hafnað þá þurfi hún að yfirgefa [...] en það sé miður þar sem ákveðinn árangur hafi náðst.
III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Samkvæmt lið II. í 18. gr. reglnanna sé heimilt við tilteknar aðstæður að veita einstaklingum með tekjur við eða undir grunnfjárhæð undangengna fjóra mánuði fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá viðurkenndum fagaðilum með lögvernduð starfsheiti og siðareglur ef það sé liður í umfangsmeiri aðstoð og fyrirsjáanlegt að ekki sé unnt að veita þjónustuna innan fjölskylduþjónustunnar eða á vegum heilbrigðisstofnana. Grunnfjárhæð samkvæmt reglunum sé nú 165.600 kr. en samkvæmt greiðsluskjali frá Tryggingastofnun vegna júlímánaðar 2017 hafi kærandi fengið greiddar örorkubætur að fjárhæð 254.163 kr. fyrir skatt og mánuðina þar á undan 227.880 kr. Kærandi hafi því verið talsvert langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem framangreindar reglur kveði á um. Skilyrði reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð hafi því ekki verið uppfyllt og beiðni kæranda því synjað.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk á grundvelli 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um fjárhagsaðstoð til greiðslu sérfræðiaðstoðar. Þar segir í II. kafla ákvæðisins:

Heimilt er að veita einstaklingum með tekjur við eða undir grunnfjárhæð undangengna fjóra mánuði í eftirtöldum aðstæðum fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá viðurkenndum fagaðilum með lögvernduð starfsheiti og siðareglur ef það er liður í umfangsmeiri aðstoð og fyrirsjáanlegt að ekki sé unnt að veita þjónustuna innan Félagsþjónustunnar eða á vegum heilbrigðisstofnana.

a) einstaklingum sem hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða,

b) einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndilegum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.

Samkvæmt 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ skal grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 11. gr., lögð til grundvallar við ákvörðun á fjárhagsaðstoð og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Í 11. gr. reglnanna er kveðið á um grunnfjárhæð. Þar segir að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og breytist 1. janúar ár hvert miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ er grunnfjárhæð nú 165.600 kr. Í 12. gr. reglnanna er nánar fjallað um tekjur umsækjanda. Þar segir að við mat á fjárþörf séu allar tekjur umsækjanda í þeim mánuði er sótt er um og mánuðinum á undan taldar með. Með tekjum sé átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda, þ.e. atvinnutekjur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að undanskildum greiðslum með börnum, og svo framvegis og komi þær til frádráttar. Við matið beri að miða við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Jafnframt segir að húsaleigu- og vaxtabætur teljist ekki til tekna.

Samkvæmt gögnum málsins fær kærandi greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og eru þær greiðslur hærri en framangreind grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Tekjur kæranda voru því ekki við eða undir grunnfjárhæðinni líkt og gert er að skilyrði fyrir greiðslu fjárhagsaðstoðar til greiðslu sérfræðiaðstoðar í 18. gr. reglnanna. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu styrks vegna […]. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 18. september 2017, um synjun á umsókn A, um styrk á grundvelli 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta