Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 394/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 394/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. maí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. apríl 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd frá [...], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 78. gr. sömu laga. Þunguð eiginkona kæranda kom með honum hingað til lands og sótti einnig um alþjóðlega vernd. Hjónunum fæddist barn þann [...] og úrskurðir í máli sonar og móður haldast í hendur.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 2. nóvember 2016. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 19. janúar og 8. mars 2017 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þann 25. apríl 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 2. maí 2017. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 22. maí 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi auk þess sem hann hefði fengið útgefið dvalarleyfi á Grikklandi sem gilti til 3. júní 2018.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig bágar aðstæður í Grikklandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Var það mat Útlendingastofnunar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Grikklands. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi þar sem kærandi, sem ríkisborgari [...], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Grikklandi. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 78. gr. sömu laga. Honum var jafnframt vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann taldi sig ekki hafa sótt um alþjóðlega vernd í Grikklandi. Kærandi hafi enga aðstoð fengið þar í landi en búið í hrörlegum og sjálfsprottnum flóttamannabúðum auk þess sem hann hafi hafst við í yfirgefnu verksmiðjuhúsnæði ásamt öðrum flóttamönnum.

Til stuðnings aðalkröfu kæranda segir í greinargerð að rétt sé að undirstrika að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild stjórnvalda til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd, en ekki skyldu. Meginregla laganna sé að allar umsóknir skuli teknar til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við og í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur þröngt. Þá er gerð grein fyrir ýmsum atriðum er varða aðstæður, aðbúnað og réttarstöðu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og er í því sambandi vísað til fjölda skýrslna alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að vegna aðbúnaðar og aðstæðna hans á Grikklandi myndi endursending þangað brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings varakröfu kæranda, um að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, vísar kærandi til þess að rannsókn málsins og rökstuðningur hafi ekki verið í samræmi við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar og vísa honum til Grikklands þar sem honum hefur verið veitt alþjóðleg vernd.

Í 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi og hefur hann gilt dvalarleyfi til 3. júní 2018. Liggur þannig fyrir að kærandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd í Grikklandi og eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Réttindi barna eru tryggð í stjórnarskrá, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og barnalögum. Í lögum um útlendinga er fjallað um hvernig hagsmunir barnsins eiga að koma til mats þegar stjórnvöld taka ákvarðanir í málum barna. Þannig segir í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Meginreglan um það sem barninu er fyrir bestu verður því ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess og er ríkur þáttur í mati umsókna barna um alþjóðlega vernd. Taka skal sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd foreldra sinna og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. apríl 2017, í máli barns kæranda er vísað til niðurstöðu í máli foreldra barnsins hvað umsókn hans um alþjóðlega vernd varðar og tekið fram að hagsmunum barnsins sé ekki stefnt í hættu með því að hann fylgi foreldrum sínum til Grikklands.

Af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að stjórnvöld þurfa að leggja fullnægjandi grundvöll að mati á þeim sjónarmiðum sem lög kveða á um að séu þáttur í því. Þá verður efni rökstuðnings ákvarðananna að endurspegla þessi sjónarmið enda segir m.a. í 22. gr. stjórnsýslulaga að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Þegar farin er sú leið að vísa í úrskurð foreldris í rökstuðningi úrskurðar barns verða ákvarðanir fjölskyldunnar, þegar litið er á þær í heild, að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti settar fram á þann hátt að af lestri þeirra megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti kærandi því að hann og eiginkona hans hafi búið við afar slæmar aðstæður í Grikklandi þar sem enga aðstoð hafi verið að fá frá grískum yfirvöldum. Eiginkona kæranda hafi ekki fengið heilbrigðisþjónustu í Grikklandi þrátt fyrir þungun hennar en kærandi hafi ítrekað óskað eftir læknisþjónustu fyrir eiginkonu sína. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli barns kæranda er með almennum hætti vísað til barnaverndarlaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ákvæða útlendingalaga. Þá eru færð rök fyrir efnislegri niðurstöðu um synjun á umsókn barnsins um alþjóðlega vernd með vísan í niðurstöður í málum foreldra barnsins. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 25. apríl 2017, í málum foreldra barnsins er hins vegar engin almenn umfjöllun um aðstæður barna einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi eða einstaklingsbundin umfjöllun um þær aðstæður sem bíða barns kæranda þar í landi.

Af gögnum sem vísað er til í ákvörðun Útlendingastofnunar og skýrslum sem lágu fyrir þegar ákvörðunin var tekin, sjá einkum Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, mars 2017) og 2016 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 3. mars 2017), má ráða að einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi séu í erfiðum aðstæðum. Meðal annars sé viðvarandi vandi að þeir njóti ekki ávallt þeirra réttinda í reynd sem þeim á að vera tryggð í lögum. Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Grikklandi og lagagrundvallar málsins telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi borið að leggja sérstakt mat á það hvernig hagsmunir barns kæranda horfa við í málinu og rökstyðja það mat í ákvörðun í málum fjölskyldunnar. Þar sem í ákvörðunum í málum fjölskyldunnar kemur hvergi fram að lagt hafi verið mat á hagsmuni barnsins varðandi endursendingu þess til Grikklands eða mat lagt á aðstæður barnsins í viðtökuríki telur kærunefnd ekki liggja fyrir hvort Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun málsins, að því er varðar son kæranda, þannig að tillit hafi verið tekið til aðstæðna og hagsmuna barnsins. Það er afstaða kærunefndar að rökstuðningur í máli barns kæranda sé að þessu leyti háður annmörkum.

Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rökstuðningi í máli barns kæranda. Það er jafnframt afstaða nefndarinnar að þegar rökstuðningurinn og gögn málsins eru virt í heild verði ekki lagt til grundvallar af hálfu nefndarinnar að farið hafi fram viðhlítandi mat á hagsmunum barns kæranda varðandi endursendingu til Grikklands í ljósi þeirra sjónarmiða sem að lögum er skylt að líta til við meðferð mála þegar um börn er að ræða. Nefndin telur að ekki sé sannanlegt að þessir annmarkar hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar. Verður því ekki, eins og hér stendur á, hjá því komist að fella ákvörðun í máli kæranda úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda aftur til meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli [...], er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate of Immigration shall reexamine his applications for asylum in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta