Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

B

gegn

Akureyrarbæ

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Mismunun á grundvelli aldurs. Ekki fallist á brot.

B kærði ákvörðun A um ráðningu á sex slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumar­afleysingar. Fyrir lá að um var að ræða ráðningu á þremur körlum og þremur konum sem bæði voru eldri og yngri en kærandi. Að mati nefndarinnar hafði hvorki verið sýnt fram á að B hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né aldurs, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Var því hvorki fallist á að A hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. júlí 2023 er tekið fyrir mál nr. 11/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 5. maí 2022, kærði B ráðningu Akureyrarbæjar á sex slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumarafleysingar. Af kæru má ráða að kærandi telji að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. maí 2022. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 14. júní 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 20. s.m. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 3. júlí 2022, með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi degi síðar. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 11. júlí 2022, sem voru kynntar kæranda með bréfi sama dag. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 29. s.m., og voru kynntar kærða 9. ágúst 2022.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Hinn 24. janúar 2022 auglýsti kærði eftir slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumarafleysingar. Umsóknarfrestur var til og með 9. febrúar 2022. Fram kom að helstu verkefni væru útköll og æfingar vegna slökkviliðs, sjúkraflutningar, þjálfun, æfingar, endur­menntun og umhirða tækja og búnaðar. Menntunar- og hæfniskröfur voru til­greindar sem gild ökuréttindi til að stjórna vörubifreið, iðnmenntun sem nýtist í starfi slökkviliðs­manna eða sambærileg menntun, jákvætt hugarfar og færni í mannlegum samskiptum. Jafnframt var gerð krafa um góða líkamsburði, andlegt og líkamlegt heilbrigði, reglusemi og háttvísi, góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vammleysi, s.s. að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmdust starfinu. Þá var gerð krafa um að umsækjendur stæðust þrek­próf og læknisskoðun auk annarra inntökuprófa og þá að þeir uppfylltu skilyrði 8. gr. þágildandi reglu­gerðar nr. 792/2001, um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Tekið var fram að menntun og reynsla af störfum slökkviliðs- og sjúkraflutninga­manna væri kostur. Í auglýsingunni voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um þar sem það hallaði á stöðu þeirra hjá slökkviliðinu.
  5. Alls bárust 13 umsóknir um störfin. Átta umsækjendur voru boðaðir í viðtöl, þrír karlar og fimm konur, þar á meðal kærandi. Í störfin voru ráðin þrír karlar og þrjár konur en kærandi var ekki ein þeirra.

     

     

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Kærandi telur að hún hafi uppfyllt öll skilyrði auglýsingar. Þannig hafi hún uppfyllt skilyrði auglýsingar um menntun, ökuleyfi, ökuferil og heilbrigði. Þá hafi hún náð þeim þol- og styrktarprófum sem hafi verið lögð fyrir umsækjendur ásamt innilokunar- og lofthræðsluprófum. Að auki hafi hún 14 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild, bráðamóttöku og heilsugæslu. Þá hafi hún einnig lokið alþjóðlegum endurlífgunarnámskeiðum fyrir börn og fullorðna ásamt samskiptanámskeiðum í meðferð slasaðra sem sjúkraflutningamenn á hærra menntunarstigi (EMT-A) þurfa að hafa.
  7. Kærandi bendir á að slökkviliðsstjóri hafi sagt á fundi sem hún átti með honum, vara­slökkviliðsstjóra og eiginmanni sínum, sem fram fór eftir að ákvörðun um ráðningar í störfin lá fyrir, að hann hafi stigið til hliðar og ekki tekið þátt í mati á henni við ráðn­inguna þar sem hann og eiginmaður hennar hafi verið vinir í 20 ár. Varaslökkvi­liðs­stjóri og annar starfsmaður sem starfar við eldvarnaeftirlit hafi því tekið starfsviðtal við hana og hafi varaslökkviliðsstjóri tekið ákvörðunina. Á fyrrnefndum fundi hafi þeir gefið henni sjö ástæður fyrir því að hún hafi ekki verið ráðin, þ.e. að hún hafi verið of gömul en ætlunin hafi verið að lækka meðalaldurinn, maki hennar væri starfsmaður í slökkviliðinu, ekki hafi verið auglýst eftir hjúkrunarfræðingi, ekki væri meira skápa­pláss í kvennaklefanum, hún væri of mikið menntuð, hún væri feimin og að varðstjórar hefðu ekki þekkt hana. Telur kærandi að vinnubrögð við ráðninguna hafi ekki verið fagmannleg og að ekki hafi verið fylgt jafnréttisstefnu kærða. Tekur hún fram að varaslökkviliðsstjóri hafi talað við eiginmann hennar á fundinum en ekki hana.
  8. Kærandi bendir á að hún sé 40 ára og hefði því meðalaldur hjá slökkviliðinu lækkað ef hún hefði verið ráðin þar sem flestir starfsmenn þess séu eldri en hún. Þá hafi einn umsækjandi verið ráðinn sem sé þremur árum eldri en hún auk annars sem sé fjórum árum yngri. Tekur hún fram að það sé ólöglegt að hafna umsækjendum á grundvelli aldurs. Þá sé ekki heldur löglegt að hafna umsækjendum á þeim forsendum að maki vinni á sama vinnustað, sérstaklega þegar konur eru hvattar til að sækja um störf.
  9. Kærandi tekur fram að hún hefði haldið að menntun hennar sem hjúkrunarfræðingur myndi nýtast í starfi sem sjúkraflutningamaður en slík menntun sé alls ekki síðri en t.d. stúdentspróf, viðskiptafræði eða háriðn. Hún hafi unnið á bráðamóttöku og ætti því að vera vel fær um að vinna við sjúkraflutninga. Þá bendir hún á að á 30 manna vinnu­stað sé nú pláss fyrir átta konur í kvennaklefanum en samkvæmt upplýsingum sem hún hafi aflað sér frá smiðum sé nóg pláss fyrir fleiri skápa. Verið sé að hvetja konur til að sækja um en þeim sé svo hafnað á þeirri forsendu að skápapláss sé búið. Þá hafi verið tekið fram að ekki væri gott fyrir nýútskrifaða atvinnuslökkviliðsmenn að vinna með sjúkraflutningamanni sem hefði meiri reynslu og þekkingu en þeir.
  10. Kærandi bendir á að þrátt fyrir að hlutfall kvenna og karla við ráðningu í sumar­afleysingar hafi verið jafnt hafi aðeins fjórir karlar sótt um og þrír sem hafi staðist inntökupróf verið ráðnir. Hefðu fleiri karlar sótt um og uppfyllt skilyrðin hefði ekki „þurft“ að ráða konur til að ná upp í þann fjölda sem auglýst var eftir. Hún segir kærða ekki hafa svarað því hvers vegna allir þeir karlar sem uppfylltu skilyrði voru ráðnir.
  11. Kærandi bendir á að hún hafi verið eini umsækjandinn sem hafi ekki fengið fullt hús stiga fyrir vammleysi og gott orðspor en hún sé ekki á sakaskrá og ekki vön að eiga í deilum eða gera öðru fólki illt. Kærði hafi ekki svarað því á hvaða upplýsingum hann hafi byggt en ekki hafi verið haft samband við fyrri vinnuveitendur þar sem hún hafi fengið hrós fyrir samskiptahæfni sína. Telur hún skort á gögnum úr viðtali gefa sterk­lega til kynna að um geðþóttaákvarðanir og skoðanir kærða sé að ræða. Þá geti hún ekki fært fram gögn til að hrekja huglægt mat varaslökkviliðsstjóra en áttar sig ekki á því hvar í viðtali hafi komið fram skortur á jákvæðu hugarfari eða að hún hefði átt að skerða samstarfsanda hjá slökkviliðinu, enda þekki hún starfsfólkið vel og segir marga starfsmenn slökkviliðsins hafa komið að máli við sig og furðað sig á því að hún hafi ekki fengið starfið sem hæfasti umsækjandinn.
  12. Jafnframt bendir kærandi á að hún sé skráð hjúkrunarfræðingur í samanburðartöflu undir menntun en ekki sé skráð EMT-B eins og hjá hinum. Þá bendir kærandi á að hún hafi lokið námskeiðum í endurlífgun fullorðinna (ALS) og barna (EPALS) sem séu nám­skeið sem atvinnuslökkviliðsmenn þurfi að hafa lokið. Að auki telur kærandi að það vanti inn í svör hennar í viðtalspunktum úr starfsviðtali. Bendir kærandi á að viðtalið hefði ekki tekið 45 mínútur ef hún hefði svarað öllum opnum spurningum ýmist játandi eða neitandi. Sé því eins og átt hafi verið við svörin og samanburðartöfluna eftir á til að láta kæranda líta einstaklega illa út.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  13. Kærði hafnar því að ráðning í sex sumarafleysingastöður slökkviliðs- og sjúkra­flutninga­manna hafi falið í sér mismunun milli umsækjenda á grundvelli kyns eða aldurs, enda hafi þrír karlar og þrjár konur verið ráðin. Þá hafi tveir þeirra verið eldri en kærandi og fjórir þeirra yngri en hún.
  14. Kærði bendir á að við ráðningar verði ekki hjá því komist að velja milli hæfra ein­staklinga. Við valið undanfarin ár hafi verið lögð mikil áhersla á að velja þá ein­staklinga sem stjórnendur telja tilbúna til að starfa með liðinu, öðrum starfs­mönnum slökkviliðsins og samstarfsfólki, t.d. hjá heilbrigðisstofnunum, lögreglu, landhelgis­gæslu og björgunarsveitum. Færni í mannlegum samskiptum sé mikilvægur þáttur sem sé jafnvel mikilvægari en menntun og reynsla því án þess að alhæfa virðist fólk oftar en ekki eiga erfiðara með að breyta viðhorfi og hegðun sinni en að bæta við sig þekkingu og færni.
  15. Tekur kærði fram að við ráðningar hjá kærða beri í fyrsta lagi að líta til þess hvort umsækjandi uppfylli grunnkröfur til starfsins, sbr. reglugerð nr. 792/2001. Ef svo er, þá sé umsækjandi boðaður í þrek- og styrktarpróf. Ef hann stenst þau fari hann í loft­hræðslu- og innilokunarpróf og að öllum skilyrðum uppfylltum sé hann í framhaldinu boðaður í viðtal þar sem farið er í gegnum staðlaðan spurningalista þar sem umsækj­andinn fær tækifæri til að freista þess að sannfæra stjórnendur liðsins um að hann sé góð viðbót við starfsmannahóp slökkviliðsins og geti tekist á við þær áskoranir sem starfið hefur upp á að bjóða.

     

  16. Kærði tekur fram að alls hafi borist 13 umsóknir um þær sex stöður sem auglýstar voru. Átta hæfustu umsækjendurnir hafi verið boðaðir í viðtöl, þrír karlar og fimm konur. Kærandi hafi staðist þrek- og styrktarpróf og innilokunar- og lofthræðslupróf og hafi henni í framhaldinu verið boðið í viðtal. Í viðtalinu voru staðlaðar spurningar lagð­ar fyrir alla umsækjendurna og skráðu ráðningaraðilar niður svör þeirra og viðhorf og gáfu þeim stig fyrir frammistöðuna. Kærandi hafi ekki komið vel út úr viðtalinu og fengið fæst stig fyrir frammistöðu í matskvarðanum „þjónustulund og jákvæðni“, þ.m.t. tvö af fjórum stigum fyrir jákvæðni og ekkert stig af tveimur mögulegum fyrir starfs­anda og í matskvarðanum „viðtalið“ hafi hún fengið tvö stig af fjórum mögulegum fyrir ástæðu til að ráða.

     

  17. Bendir kærði á að hann hafi nokkurt svigrúm til að meta hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar ráðningu og hvaða umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum. Telur kærði að það mat hans að horfa til frammistöðu í viðtali hafi verið málefnalegt og að þau meginsjónarmið sem unnið hafi verið með hafi miðað að því að finna hæfustu umsækjendurna. Viðtalið hafi verið sá þáttur sem hafi ráðið úrslitum en kærandi hafi verið mjög feimin og svarað spurningum með einsatkvæðisorðum. Aðrir umsækjendur sem hafi staðið sig jafn vel og kærandi í verklegum þáttum hafi staðið sig mun betur í viðtali og sýnt áhuga á starfinu með frekari spurningum og umræðum um starfið. Niðurstaða ráðningarferlis hafi verið að ráða þrjá karla og þrjár konur.
  18. Kærði bendir á að kærandi hafi ekki óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun kærða þrátt fyrir leiðbeiningar þar um. Sökum vinskapar slökkviliðsstjóra við eiginmann kær­anda í yfir 20 ár hafi slökkviliðsstjóri ekki komið að ráðningarferlinu. Varaslökkviliðs­stjóri hafi komið í hans stað og tekið viðtalið með deildarstjóra eldvarnaeftirlits. Eftir að niðurstaðan hafi verið tilkynnt hafi eiginmaður kæranda lýst yfir óánægju sinni við slökkviliðsstjóra. Eftir samtal við varaslökkviliðsstjóra hafi verið ákveðið, til að fyrir­byggja misskilning um ástæður þess að kærandi var ekki ráðin og biðjast afsökunar á orðum sem féllu í samtali eiginmanns kæranda og slökkviliðsstjórans, að óska eftir fundi með kæranda og eiginmanni hennar um ástæður þess að kærandi var ekki ráðin.
  19. Kærði tekur fram að fundurinn hafi verið óformlegur. Það sé rétt að aldur hafi komið fram í samtalinu eins og margt annað en því sé hins vegar hafnað að aldur kæranda hafi verið nefndur sem ástæða þess að hún hafi ekki verið ráðin, enda ekki heimilt að mismuna fólki á grundvelli aldurs. Ástæða þess að aldur hafi verið nefndur hafi verið sú að upplýsa um mikilvægi þess fyrir stjórnendur slökkviliðsins að marka stefnu varð­andi aldursskiptingu liðsins og þá sér í lagi vegna ákvæðis í kjarasamningi Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem kveðið sé á um ákveðin réttindi slökkviliðsmanna sem hafa náð 50 ára lífaldri. Aldursskipting hjá slökkviliðinu fyrir ráðningar sé að meðaltali 42 ár og þar af séu 13 starfsmenn sem munu ná 50 ára aldri á næstu fimm árum. Því sé talið mikilvægt að ráða ungt fólk til starfa til að tryggja endurnýjun starfshópsins. Þá taki það að jafnaði a.m.k. þrjú til fjögur ár að fullmennta atvinnuslökkviliðsmann.
  20. Kærði bendir á að hvergi í matsgögnum komi fram að aldur hafi haft áhrif í ráðningar­ferlinu enda hafi kærandi einungis verið að sækja um sumarstarf og aldur ekki aðal­áhyggjuefnið í þeim ráðningum. Reynt sé þó að ráða ungt fólk í sumar­afleysingar til að meta það fyrir framtíðarstörf en sú stefna sé eingöngu byggð á stjórnunarlegum for­sendum.
  21. Kærði tekur fram að það að eiginmaður kæranda starfi hjá slökkviliðinu hafi ekki haft áhrif á ákvörðun kærða og hafi ekki verið ástæða þess að hún var ekki ráðin. Þessu hafi verið fleygt fram í samtali milli eiginmanns kæranda og slökkviliðsstjóra og hafi yfir­menn beðist afsökunar á því á fundinum með henni og eiginmanni hennar. Í viðtali við kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að hjón yrðu ekki sett saman á vakt.
  22. Kærði tekur fram að hjúkrunarfræði sé reynsla sem nýtist í starfi og teljist kostur við val á umsækjendum. Við valið byggi kærði á tilteknum mælikvörðum varðandi nám, réttindi og starfsreynslu sem slökkviliðsmaður og sjúkraflutningamaður. Engin ástæða sé til þess að efast um getu kæranda til að sinna sjúkraflutningum út frá því mennt­un­ar­stigi hennar, þ.e. grunnmenntun sjúkraflutningamanna. Hins vegar hafi kærði einn­ig verið að ráða í slökkviliðshluta starfsins og þar ráði skilyrði reglugerðar nr. 792/2001.
  23. Kærði tekur fram að hönnun á kvennaklefum hafi ekki verið lögð til grundvallar niðurstöðu um ráðningu. Það hafi hins vegar borist í tal að kærða væri þröngur stakkur sniðinn varðandi aðstöðu fyrir konur á slökkvistöðinni en átta skápar séu fyrir konur sem samsvari 27% af heildarfjölda þeirra. Það hafi verið langvarandi baráttumál að fá bætta aðstöðu, gerðar hafi verið tímabundnar úrbætur en í nýrri hönnun sé gert ráð fyrir jafn stórum kvenna- og karlaklefum.
  24. Kærði bendir á að menntun og reynsla kæranda sé góð en ekki hafi verið gerð krafa um menntun í sérhæfðri endurlífgun í auglýsingu um sumarafleysingar þar sem ekki var þörf á slíku. Kærandi sé með grunnmenntun í sjúkraflutningum og hafi heimildir henn­ar, þrátt fyrir að hafa setið ýmis námskeið og starfað sem hjúkrunarfræðingur, verið þær sömu og annarra grunnmenntaðra sjúkraflutningamanna. Nýráðnir sumar­starfs­menn starfi ætíð undir handleiðslu reynslumeiri og meira menntaðra starfs­manna þótt stundum sé styrkleiki vaktarinnar þannig að óvanir sjúkraflutningamenn séu sendir í lægri forgangsútköll. Nýverið hafi sex starfsmenn lokið framhaldsmenntun sjúkra­flutningamanna, auk þess sem meginhluti þeirra sem eru fastráðnir sé með gilt sér­hæft endurlífgunarskírteini (ALS), ef frá eru taldir nýráðnir starfsmenn.
  25. Kærði tekur fram að framkoma og viðmót í viðtali hafi verið meginástæða þess að kær­andi var ekki ráðin. Hún hafi ekki reynst frambærileg, hún hafi verið feimin, lokuð og viðtalið á margan hátt þvingað en kærandi hafi ekki horft í augu spyrjanda. Áhersla sé lögð á góða samskiptahæfni við ráðningar en það hafi ekki verið upplifunin af kær­anda. Bendir kærði á að á fundi með kæranda, eiginmanni hennar, varaslökkvi­liðs­stjóra sem sá um ráðningarferlið og slökkviliðsstjóra hafi eiginmaðurinn eingöngu tekið til máls sem ýti frekar undir þá sýn að kæranda skorti færni í mannlegum samskiptum.
  26. Kærði bendir á að slökkviliðið starfi samkvæmt leiðbeiningum kærða varðandi jafna meðferð á vinnumarkaði en hafi þó aðlagað ferlið eftir vinnustaðnum sem sé um margt sérstakur, enda starf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna mjög krefjandi og ólíkt öðrum störfum. Slökkviliðið hafi gengið í gegnum erfiða tíma á árunum 2010–2015 þar sem allt hafi logað í illdeilum og kæru- og eineltismálum. Núverandi stjórnendur hafi snúið þessu algjörlega við og starfsandi liðsins sé til fyrirmyndar í dag. Ráðningar nýrra starfsmanna séu stór og veigamikill þáttur í þeirri vegferð. Sú stefna að ráða konur hafi reynst til mikilla bóta. Tekur kærði fram að stjórnendur slökkviliðsins séu sífellt að læra af reynslunni og reyna að bæta vinnubrögð.
  27. Kærði tekur fram að hann hafi unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnu­staðnum frá árinu 2017 en þá hafi engin kona starfað hjá slökkviliðinu. Í aug­lýsingu um sumar­afleysingastörf árið 2018 hafi til að mynda eingöngu verið auglýst eftir um­sóknum frá konum á grundvelli laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Sumarið 2022 hafi konur verið í átta af 29 stöðugildum, þar af fimm fast­ráðnar. Hlutfall kvenna og karla í sumar­störfum sé jafnt en tvær kvennanna séu af erlendum uppruna. Bendir kærði á að hlutfall kvenna hjá bæði slökkviliði höfuðborgar­svæðisins og bruna­vörnum Suðurnesja sé 6,7%. Telur kærði að þessi árangur sé nokkuð góður á vinnustað sem hafi verið karllægur með öllu frá upphafi. Hins vegar sé ljóst að það reynist erfiðara fyrir konur að uppfylla skilyrði slökkviliðshluta starfsins og að hafa reynslu/menntun úr iðngreinum þótt konur standi jafnfætis körlum í sjúkraflutninga­hluta starfsins.
  28. Að lokum tekur kærði fram að athugasemdir kæranda snúist fyrst og fremst að fundi sem ekki hafi verið hluti af ráðningarferlinu en þar hafi verið rætt vítt og breitt um slökkviliðið og aðstæður þess en á engan hátt af hverju kærandi var ekki ráðin. Um hafi verið að ræða óformlegan fund en til hans hafi verið boðað til að kærandi gæti áttað sig betur á stöðu sinni og hvað það var sem vantaði upp á færni hennar. Ráðningaraðilar viðurkenni að formið á umræddum fundi hafi verið óheppilegt og hefur verið ákveðið að láta af slíkum óformlegum fundum enda ljóst að það sem þar var rætt hefur leitt til misskilnings sem er harmað.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  29. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi annars vegar brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og hins vegar gegn 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að byggja á kyni og aldri við ráðningu í sumarstörf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
  30. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar.
  31. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafn­réttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skrif­legan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  32. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í störfin sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  33. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálf­stæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjendur falli best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  34. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu. Þá takmarkast endurskoðun kærunefndar af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. það sem áður er nefnt. Hér ber einnig að hafa í huga að samkvæmt 12. gr. laga nr. 86/2018 telst mismunandi meðferð vegna aldurs ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Er frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs því heimilað að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
  35. Í auglýsingu um störfin kom fram að um væri að ræða sumarafleysingar slökkviliðs- og sjúkraflutninga­manna. Voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um þar sem það hallaði á stöðu kvenna hjá slökkviliðinu. Menntunar- og hæfniskröfur voru tilgreindar sem gild ökuréttindi til að stjórna vörubifreið, iðnmenntun sem nýttist í starfi slökkvi­liðsmanna eða sambærileg menntun, jákvætt hugarfar og færni í mannlegum sam­skiptum, góðir líkamsburðir, andlegt og líkamlegt heilbrigði, reglusemi og háttvísi, góð sjón og heyrn, rétt litaskynjun og að vera ekki haldinn lofthræðslu eða inni­lokunar­kennd, jafnframt sem gerð var krafa um vammleysi, s.s. að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmdust starfinu. Þá var gerð krafa um að umsækjendur stæðust þrekpróf og læknisskoðun, auk annarra inntökuprófa, og uppfylltu skilyrði 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001. Tiltekið var að menntun og reynsla af störfum slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna væri kostur.
  36. Kærði hefur gert grein fyrir því að þrjár konur og þrír karlar hafi verið ráðin í sex stöður sumarafleysinga slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem bæði hafi verið eldri en kærandi og yngri. Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við matið á hæfni kæranda og þeirra sem voru ráðin hafi verið mat á persónubundnum þáttum þar sem þau sem voru ráðin hafi staðið kæranda framar. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum eða reglugerðum að öðru leyti en samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hags­muni hans að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
  37. Fyrir liggur að við mat á frammistöðu í viðtölum voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur. Þau sjónarmið sem komu fram í viðtölum og lutu að sjálfstæði og frumkvæði í starfi, tileinkun á nýjungum, reynslu af vinnu undir álagi, skipulags­hæfileikum, reynslu sem nýtist í starfi, mati á eigin styrkleikum og þjónustulund og jákvæðni, fengu þannig vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að frammistaða umsækjenda í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum. Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum á menntun og réttindum, starfsreynslu sem slökkviliðs­maður og sjúkraflutningamaður, inntökuprófum, þ.e. þrekprófi og innilokunar- og loft­hræðsluprófi, og persónulegum eiginleikum. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjendum sem voru ráðnir hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Í því sambandi er rétt að benda á að munur á einstökum þáttum í stigagjöf á matsblaði er einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum. Þá telst ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í viðtali ekki þess eðlis að hann hafi áhrif á þessa niðurstöðu. Það sama á við um fund aðila ásamt eigin­manni kæranda eftir að ráðningarferli lauk.
  38. Með vísan til alls framangreinds verður að leggja til grundvallar að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann byggði á við val á hæfustu umsækjendunum hafi verið málefna­legt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd að hæfnismatið, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði hvorki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns né aldurs, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018.
  39. Að öllu framangreindu virtu verður talið að hvorki hafi verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í sumarstarf sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá kærða né á grundvelli aldurs. Samkvæmt því verður hvorki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

 


 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Akureyrarbær, braut hvorki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu í sex sumarstörf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta