Hoppa yfir valmynd

Nr. 423/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 423/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080028

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. ágúst 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...](hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. ágúst 2018, um að synja beiðni kæranda um að dveljast hér á landi meðan umsókn hennar um dvalarleyfi er til meðferðar og synja henni um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka málið til meðferðar að nýju þar sem kærandi fái að dveljast á landinu á meðan umsókn hennar um dvalarleyfi er til meðferðar.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefna vegabréfsáritun til Íslands með gildistíma frá 5. mars 2018 til 5. júní 2018. Þann 30. maí 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Með umsókninni fylgdi með greinargerð kæranda, dags 27. apríl 2018, þar sem hún óskaði eftir heimild til að dvelja hér á landi meðan umsóknin væri til meðferðar. Með ákvörðun, dags. 15. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun beiðni kæranda um að dvelja á landinu meðan umsókn hennar um dvalarleyfi væri til meðferðar. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Fyrirsvarsmaður kæranda móttók ákvörðunina 17. ágúst 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 22. ágúst sl.

Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 6. september 2018. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni. Þann 11. september 2018 féllst kærunefndin á að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar á meðan málið væri til kærumeðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga komi fram að útlendingur sem sæki um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu sé heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann sé staddur hér á landi og uppfylli eitt af skilyrðum a-c. liðar 1. mgr. 51. gr. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. sé heimilt að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar séu upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því en ákvæðið sé undantekning frá meginreglu 1. mgr. 51. gr. og skýra beri hana þröngri lögskýringu. Vísar stofnunin næst til lögskýringargagna með ákvæði 3. mgr. 51. gr.

Að mati Útlendingastofnunar ættu undantekningarákvæði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga ekki við um aðstæður kæranda og kæmi því til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður mæltu með því að hún fengi að dveljast á landinu meðan umsókn hennar væri til meðferðar. Ljóst væri af gögnum málsins að kærandi hafi fengið vegabréfsáritun til Íslands og hafi hún komið til landsins með maka sínum. Þeir sjúkdómar sem taldir séu upp í greinargerð kæranda hafi ekki komið í veg fyrir að hún kæmist til Íslands ásamt maka sínum. Þá lægju ekki fyrir nein gögn í málinu sem bentu til þess að ferð til heimaríkis myndi hafa óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar kæranda. Benti stofnunin á að kærandi væri [...] ára gömul og hún myndi uppfylla aldursskilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þann[...], en þangað til gæti hún sótt um vegabréfsáritun og heimsótt fjölskyldu sína. Með hliðsjón af því væri það mat Útlendingastofnunar að ekki væru fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður sem réttlættu undanþágu frá meginreglu 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi því hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda veitt færi á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum innan 15 daga frá móttöku ákvörðunarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda eru reifuð skilyrði 51. gr. laga um útlendinga en samkvæmt 3. mgr. 51. gr. sé heimilt að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar séu upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Vísar kærandi til lögskýringargagna með 3. mgr. 51. gr. laganna. Kærunefnd útlendingamála hafi áður fjallað um í hvaða tilvikum ríkar sanngirnisástæður mæli fyrir því að umsækjanda sé heimiluð áframhaldandi dvöl á Íslandi þar til ákvörðun hafi verið tekin um umsókn hans. Reifar kærandi í því skyni í úrskurð kærunefndarinnar nr. 627/2017 þar sem aðila þess máls var veitt heimild til að dvelja hér á landi meðan umsókn um dvalarleyfi var til meðferðar vegna ríkra sanngirnisástæðna sem vörðuðu samvistir fjölskyldu. Telur kærandi að atvik í máli hennar séu um margt sambærileg atvikum í því máli.

Þá segir að kærandi sé [...] ára kona sem búi í [...]. Hún hafi búið þar alla ævi og verið gift eiginmanni sínum í næstum [...] ár. Kærandi eigi einnig [...] börn. Eiginmaður kæranda hafi fengið dvalarleyfi á Íslandi og [...] barna hennar búi hér á landi, þar af sé eitt íslenskur ríkisborgari. Þá búi eitt barna kæranda í [...]. Yngsta barn kæranda búi í [...]en í um 300 kílómetra fjarlægð frá kæranda, auk þess sem [...] og sé því ekki í aðstöðu til að aðstoða kæranda. Þá sé kærandi sjúklingur og hafi heilsu hennar hrakað mikið síðustu ár. Hafi kærandi m.a. fengið [...] og hafi hún ekki enn náð sér eftir það. Þannig geti hún [...]. Hún eigi þannig erfitt með að vera ein og nú sé farið að bera á [...]. [...]. Í dag sjái dóttir hennar, sem sé menntaður öldrunarhjúkrunarfræðingur, um að skammta lyfin hennar hér á landi. Á síðustu árum hafi hún þurft [...]. Kærandi treysti sér núna ekki sjálf ein í það ferðalag en eiginmaður hennar hafi hingað til aðstoðað hana og fylgt henni þangað. Kærandi hafi þannig búið lengi með eiginmanni sínum sem hafi aðstoðað hana við að fara á spítala til að tryggja að hún fengi nauðsynlega hjúkrun og aðhlynningu. Nú sé eiginmaður hennar fluttur til Íslands og því fái hún enga aðstoð lengur í heimalandi sínu. Þá liggi einnig fyrir að hún hafi komið til Íslands í fylgd eiginmanns síns og treysti sér hvorki til að fljúga ein aftur til [...], hvað þá heimsækja Ísland reglulega, eins og gefið sé til kynna í ákvörðun Útlendingastofnunar.

Telur kærandi að Útlendingastofnun hefði hæglega getað óskað eftir viðbótargögnum um heilsufar kæranda og getu hennar til ferðarlaga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í stað þess að byggja ákvörðun sína á framlögðum gögnum með umsókninni. Ljóst sé að kærandi mun eiga mjög erfitt með að ferðast til og frá Íslandi á næstu árum til að hitta fjölskyldu sína, enda treysti hún sér ekki til að ferðast ein og hafi komið til Íslands með eiginmanni sínum. Verði því að telja afar ríkar sanngirnisástæður fyrir því að kærandi fái að dveljast hér á landi og njóta stuðnings fjölskyldu sinnar þar til umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi verið afgreidd af Útlendingastofnum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögunum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá þessu er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og fellur undir a- til -c-lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. í sérstökum athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 51. gr. að meginreglan við umsókn um dvalarleyfi sé að útlendingur megi ekki vera staddur á Íslandi þegar sótt er um heimild til dvalar í upphafi líkt og fram komi í 1. mgr. Þannig sé almennt ekki ætlast til þess að útlendingur sem dvelur hér á landi á grundvelli vegabréfsáritunar sæki um dvalarleyfi meðan á dvöl stendur nema í sérstökum tilvikum. Sé þetta m.a. gert til að gæta þess að útlendingur gefi upp raunverulegan tilgang fyrir dvöl hér á landi strax í upphafi en reyni ekki að komast fram hjá reglum með því að koma fyrst inn í landið á grundvelli annars leyfis þar sem gerðar séu minni kröfur.

Í 3. mgr. 51. gr. segir að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar séu upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Í lögskýringargögnum með ákvæðinu segir m.a. að í 3. mgr. sé almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því og sé ætlunin að þessu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Eins og fram hefur komið er eiginmaður kæranda búsettur hér á landi ásamt [...] barna þeirra. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að eftir að eiginmaður hennar hafi fengið dvalarleyfi hér á landi búi kærandi ein í heimabæ sínum en dóttir hennar búi í um 300 kílómetra fjarlægð. Samkvæmt framansögðu er því ljóst að nánasta fjölskylda kæranda, þ.e. eiginmaður hennar, er búsettur hér á landi auk þess sem meiri hluti barna kæranda býr hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins glímir kærandi jafnframt við ýmsa heilsukvilla, [...]. Þótt kærunefnd taki undir að gögn málsins bendi ekki til þess að ferð til heimaríkis muni hafa óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar kæranda telur nefndin að líta verði til þess að kærandi hefur reitt sig á aðstoð eiginmanns síns í heimaríki sem nú hefur flutt búferlum hingað til lands. Þegar litið er með heildstæðum hætti á aðstæður kæranda telur kærunefnd, með hliðsjón af fyrrnefndum athugasemdum við 3. mgr. 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga varðandi samvistir fjölskyldna og hagsmuni kæranda, að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir því að kæranda verði veitt heimild til að dveljast hér á landi þar til efnisleg ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laganna. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re- examine the case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson               Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta