Hoppa yfir valmynd

Nr. 492/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 492/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080007

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. ágúst 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi krefst þess til vara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, í fyrsta lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. september 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 9. september 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi og að honum hefði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi þann 2. maí 2019. Með umsókn framvísaði kærandi dvalarleyfisskírteini frá Grikklandi með gildistíma frá 15. maí 2019 til 14. maí 2022 og grísku flóttamannavegabréfi með gildistíma til 8. mars 2025. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, þann 29. september 2020, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 26. janúar 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Kærði kærandi ákvörðunina þann 12. febrúar 2021 til kærunefndar útlendingamála. Þann 21. apríl 2021 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun að nýju þann 7. maí 2021. Með ákvörðun, dags. 16. júlí 2021, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 20. júlí 2021. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar þann 4. ágúst 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 13. ágúst 2021, ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda þann 13. september 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda vísar hann til fyrri greinargerða sinna og annarra gagna málsins, sérstaklega viðtala hans hvað varðar málavexti. Í fyrri greinargerð kæranda til kærunefndar kemur m.a. fram að hann hafi þjáðst af brjósklosi og krónískum blóðflæðisvanda í fótum sem valdi honum miklum óþægindum og verkjum, sérstaklega þegar hann hreyfi sig auk þess sem hann sé með gallsteina. Aðspurður um andlega heilsu sína hafi kærandi greint frá því að vera kvíðinn og að hann hafi átt erfitt með svefn. Kærandi hafi greint frá því að vilja ekki snúa aftur til Grikklands og verða þar aftur heimilislaus.

Kærandi telur að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og viðkvæmur einstaklingur í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga með vísan til framlagðra læknisfræðilegra gagna frá íslenskum heilbrigðisstofnunum. Í þeim komi fram upplýsingar um gríðarlega alvarlegan og margþættan heilsufarsvanda hans. Þá gagnrýnir kærandi skort á vandaðri umfjöllun um stöðu hans í hinni kærðu ákvörðun þar sem framlagðra gagna sé ekki getið og vísað sé á villandi máta til annarra gagna auk þess sé ekki að finna umfjöllun um það í hinni kærðu ákvörðun hvort kæranda standi til boða nauðsynleg sérhæfð heilbrigðisþjónusta í Grikklandi sem íslensk heilbrigðisgögn staðfesti að hann muni þurfa. Því sé enga heildstæða og einstaklingsbundna umfjöllun eða mat að finna í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi sé á biðlista eftir að komast í aðgerð en aðgerðin hafi frestast vegna þeirrar óvissu sem hafi verið á Landspítalanum m.a. vegna Covid-19 faraldursins. Það sé því villandi af hálfu Útlendingastofnunar að telja einhvern vafa liggja á því hvort aðgerðin muni fara fram enda sé það á forræði stofnunarinnar sem þjónustuveitanda, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga að tryggja að kærandi fái þessa nauðsynlegu aðgerð. Þá sé kærandi á biðlista vegna vandamála í hné og fæti og panta þurfi tíma fyrir hann hjá bæklunarskurðlækni.

Kærandi vísar til þess að heimildir beri með sér að þeir sem hljóti alþjóðlega vernd í Grikklandi verði fyrir alvarlegri mismunun af hálfu grískra stjórnvalda og séu á margvíslegan hátt útilokaðir frá nauðsynlegri skráningu í Grikklandi, s.s. við útgáfu dvalarleyfa, skattnúmera og almannatrygginga­númera. Kærandi hafi fengið almanntrygginganúmer sem hann hafi tapað og ekki tekist að fá endurnýjað þar sem hann hafi ekki getað gefið upp heimilisfang enda heimilislaus. Þá gerir kærandi m.a. athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á aðstæðum hans í Grikklandi, s.s. umfjöllun stofnunarinnar um þá heilbrigðis- og félagsþjónustu, atvinnumöguleika og húsnæði sem honum standi til boða í Grikklandi. Kærandi vísar í greinargerð sinni til fjölmargra heimilda sem hann telur að gefi til kynna að raunveruleg staða flóttafólks í Grikklandi sé önnur en Útlendingastofnun leggi til grundvallar í máli kæranda. Þá gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að honum standi raunhæf úrræði til boða vegna kynþáttarfordóma og mismununar. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar þegar kemur að möguleikum hans á fjölskyldusameiningu.

Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um framlögð læknisfræðileg gögn sem ekki hafi komið til skoðunar við mat Útlendingastofnunar á líkamlegri heilsu kæranda og hvernig vísað hafi verið á villandi hátt til annarra gagna í hinni kærðu ákvörðun.

Þess er krafist til vara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi verði tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Kærandi telur að í ljósi frásagnar af aðstæðum sínum í Grikklandi og fjölmargra heimilda sem beri saman um óviðunandi aðstæður fólks með alþjóðlega vernd í Grikklandi, að endursending hans til Grikklands feli í sér verulega hættu á því að hann verði fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sem og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi vísar til þess að hann hafi verið án framfærslu og atvinnu auk þess sem hann hafi búið á götunni.

Fallist kærunefnd útlendingamála ekki á framangreint byggir kærandi í öðru lagi á því í varakröfu að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærandi fjallar um reglugerð nr. 276/2018 sem breytti reglugerð um útlendinga. Kærandi telur að ákvæði reglugerðarinnar gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga og gangi í raun gegn vilja löggjafans.

Kærandi telur að aðstæður hans í Grikklandi falli undir túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi telur að sú beina og óbeina mismunun sem fólk með alþjóðlega vernd verði fyrir í Grikklandi af hálfu grískra stjórnvalda sé alvarleg. Þá áréttar kærandi að hann sé útilokaður frá fjölskyldusameiningu í Grikklandi. Staða kæranda verði því verulega síðri en staða almennings í viðtökuríkinu. Kærandi fer því fram á að kærunefnd felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggi fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar. Þá telur kærandi að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Jafnframt beri að líta til þess fordæmalausa ástands sem nú ríki í Grikklandi vegna Covid-19 faraldursins og setji kæranda í enn viðkvæmari stöðu. Í ljósi alls framangreinds séu sérstakar ástæður uppi í máli kæranda í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Því beri íslenskum stjórnvöldum að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 13. september 2021, kemur fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. september 2020 því hafi þann 4. september 2021 verið liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Kærandi vísar til þess að tafir á afgreiðslu umsóknar hans séu ekki á hans ábyrgð. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga beri því kærunefnd að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður samkvæmt 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. september 2020 og voru þann 4. september 2021 liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum án þess að hann hefði fengið endanlega niðurstöðu frá stjórnvöldum í máli sínu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 6. september 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd þann 10. september 2021. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki tafið mál sitt að nokkru leyti.

Af framangreindum upplýsingum frá Útlendingastofnun má því ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli hans og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að hann verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 4. september 2020, er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er ekki tilefni til að taka aðrar málsástæður kæranda til umfjöllunar í máli þessu.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Sandra Hlíf Ocares

                                                                                             

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta