Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 83/2024

Miðvikudaginn 8. maí 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. desember 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 16. nóvember 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 18. desember 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. mars 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið alvarlega veikur frá árinu 2018, hann hafi verið í margskonar endurhæfingu án árangurs. Kærandi hafi nokkrum sinnum sótt um örorkulífeyri sem hafi alltaf verið synjað. Óskað er eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála fari yfir málið þar sem kærandi sé veikur og upplifi niðurlægingu og mismunun vegna ákvörðunarinnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 18. desember 2023, á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 verði til frambúðar eftir slys eða sjúkdóma. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Tiltekið sé í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Kærandi hafi lokið samtals níu mánuðum á greiðslum endurhæfingarlífeyris á árunum 2022 til 2023. Kærandi hafi fyrst sótt fyrst um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 14. desember 2018, sem hafi verið vísað frá með bréfi, dags. 5. mars 2019, þar sem að umbeðnum gögnum hafi ekki verið skilað. Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 26. febrúar 2020, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 29. júlí 2020, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi hafi sótt aftur um örorkulífeyri með umsókn, dags. 16. mars 2022, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 16. mars 2022, á sömu forsendum og áður. Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 31. október 2022, sem hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 7. febrúar 2023, fyrir tímabilið 1. nóvember 2022 til 30. apríl 2023. Þann 3. apríl 2023 hafi kærandi sótt um örorkulífeyri sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 13. apríl 2023, á sömu forsendum og áður. Kærandi hafi þá sótt um greiðslur endurhæfingarlífeyris með umsókn, dags. 14. apríl 2023 sem Tryggingastofnun hafi samþykkt með bréfi, dags. 26. júlí 2023, fyrir tímabilið 1. ágúst 2023 til 31. október 2023. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 16. nóvember 2023, en hann hafði þá þegar sent inn læknisvottorð, dags. 3. nóvember 2023, og Tryggingastofnun hafi óskað eftir frekari gögnum með bréfi, dags. 7. nóvember 2023. Í kjölfarið hafi borist umsókn um örorkulífeyri, endurhæfingaráætlun og skýrsla sjúkraþjálfara. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. [18. desember] 2023, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Sú ákvörðun hafi verið kærð.

Eftir að kæra hafi borist Tryggingastofnun hafi kærandi annars vegar sótt um endurhæfingarlífeyri 19. desember 2023 og hins vegar örorkulífeyri 6. mars 2024.

Við mat á örorku sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Með umsókn um örorkulífeyri, dags. 16. nóvember 2023, hafi fylgt læknisvottorð, dags. 3. nóvember 2023, endurhæfingaráætlun, dags. 9. ágúst 2023, og skýrsla sjúkraþjálfara, dags. 29. nóvember 2023.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði B, dags. 3. nóvember 2023, varðandi sjúkdómsgreiningar og upplýsingar um heilsuvanda og færniskerðingu.

Kærandi hafi skilað inn endurhæfingaráætlun fyrir tímabilið 27. mars 2023 til 5. september 2023. Í endurhæfingaráætlun komi fram að kærandi hafi sótt sálfræðiþjónustu vegna andlegrar vanlíðanar.

Kærandi hafi skilað inn skýrslu sjúkraþjálfara, dags. 29. nóvember 2023. Þar komi fram að kærandi hafi verið hjá sjúkraþjálfara á tímabilinu 12. júlí 2023 til 23. nóvember 2023 og að á því tímabili hafi hann komið í átta tíma vegna höfuðverkja, svimleika og verkja í hálsi og neðra baki. Í skýrslunni komi eftirfarandi fram: „He was diagnosed with neurofibroma and has difficulty to perform even simple task without pain. Treatment was focused on manual therapy, breathing exercises, relaxation techniques, and life style education. He was not responding well to applied treatment, and his symtoms were getting worse. Applied treatment was not effective in this case.“

Tryggingastofnun hafi ekki borist svör við spurningalista vegna færniskerðingar, en meðal annars hafi verið óskað eftir honum með bréfi, dags. 7. nóvember 2023.

Kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri með bréfi, dags. 18. desember 2023, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd, en hægt væri að sækja um endurhæfingu.

Tryggingastofnun ítreki að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem kærandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Í læknisvottorði komi fram að læknir búist við því að færni kæranda geti aukist með tímanum. Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri frá 1. nóvember 2022 til 30. apríl 2023 og 1. ágúst 2023 til 31. október 2023. Í bréfi fyrir seinna tímabilið hafi komið fram að kærandi væri með samþykkt endurhæfingartímabil til 30. apríl 2023 en að samkvæmt endurhæfingaráætlun frá sjúkraþjálfara hafi endurhæfing hafist 12. júlí 2023. Ef óskað væri eftir afturvirkum greiðslum frá maí 2023 til júní 2023 yrði að skila inn staðfestingu frá sálfræðingi og sjúkraþjálfara yfir mætingar á meðferð á því tímabili. Kærandi hafi því aðeins lokið níu mánuðum á endurhæfingarlífeyri. Í því ljósi telji Tryggingastofnun rétt að kærandi reyni aftur endurhæfingu áður en hann verði sendur í örorkumat.

Tryggingastofnun bendi á að í 1. gr. reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999 segi að þeir sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eigi rétt á örorkulífeyri. Það sé því mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir örorkumati að svo stöddu, þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og enn sé talið hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda til þess að auka vinnuhæfni. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við gögn málsins að hafna örorkumati í tilviki kæranda að svo stöddu.

Í því sambandi skuli þó áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Að öllu framangreindu sé niðurstaða mats Tryggingastofnunar sú að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum sé í þessum skilningi átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að hafna umsókn kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum ásamt fyrri sambærilegum fordæmum fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hafi verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 18. desember 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. desember 2023, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 3. nóvember 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„BAKVERKUR

BENIGN NEOPLASM OF PERIPHERAL NERVES AND AUTONOMIC NERVOUS SYSTEM

KVÍÐI“

Um fyrra heilsufar segir:

„Previously well prior to current issues, see below.“

Í lýsingu á heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„This is a X year old man who presented to me having presented several times recently to BIVIT with episodes of vomiting and abdominal pain. On review he complains of burning pain in his back in the area of removal of a benign lesion in his home country, reportedly neurofibroma. He states that it is this pain that is radiating to the abdomen ?neuropathic.

Since then the pain has worsened, he has severe allodynia and is unable to perform simple tasks without severe pain. He was trialed on Gabapentin and Pregabalin but found the side effects intolerable, I have now started Duloxetine. He went through rehabilitation with VIRK but this was not effective.

Also suffers anxiety and insomnia.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir:

„Tender to light touch around 10cm vertical scar overlying right medial scapula. Pain with movement ofshoulder and lumbar spine.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við því að færni aukist með tímanum. Í frekara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Fullreynt endurhæfing VIRK + sjúkraþjálfun“

Í athugasemdum segir:

„Has undergone rehabilitation, conclusion that it is not possible to rehabilitate him to work at the moment.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 5. apríl 2023, vegna fyrri umsóknar um örorkulífeyri sem er að mestu samhljóða framangreindu vottorði ef frá er talið að í vottorðinu kemur fram að líkur séu að færni aukist með tímanum og í athugasemdum segir:

„Has undergone rehabilitation, conclusion that it is not possible to rehabilitate him to work at the moment.“

Í bréfi C sjúkraþjálfara og osteópata, dags. 29. nóvember 2023, segir:

„A was my patient from 12.07.2023-23.11.2023, during that time we had 8 treatments regarding his headaches, dizziness, pain in the neck and lower back. He was diagnosed with neurofibroma and has difficulty to perform even simple task without pain. Treatment was focused on manual therapy, breathing exercises, relaxation techniques, and life style education. He was not responding well to applied treatment, and his symtoms were getting worse. Applied treatment was not effective in this case.“

Einnig liggja fyrir gögn vegna eldri umsókna kæranda. Meðal annars læknisvottorð D, dags. 28. febrúar 2022, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri þar sem segir um heilsuvanda og færniskerðingu:

„Aðalvandamál í dag er verkur undir hæ. herðablað, höfuðverkur og þreyta.

Vegna gruns um neurofibroma undir hæ. herðablöð (sjá fyrirofan), fór A 18.08.2021 í skoðun til taugaskurðlæknis (E […]) sem staðfesta verk í hálsinum, öxlinni, báðum mjöðmum og hnjám, hefur lendað í yfirlið vegna verkjanna í hæ. öxL Hann hefur reynd ýmislegt af verkjalyfjum: NASID, Acetaminofen, parkodin, Tramadol, Gabapentin og einnig Duloxetin ekki neitt virðist að virka fyrir hann. Við skoðun hjá E 18.08.2021 bendir hann á alla líkaman þar sem hann væri með verk. Við þreifingu við æxlisstaðinn öskrar hann upp og dregur sig undan og E má ekki snerta hann aftur. Vandamál hans var metað af E sem „mjög útbreitt og af margvíslegum toga“ sem unrritaður samþykkir.

Að mati E var best að hann ræddi við lækna í heimalandi sem skildu hann betur. A fór svo í aðgerð úti í haust 2021 og neurofibroma var fjarlægð.

A segir líður aðeins betur í dag en væri enn með talsverðan verk undir hæ. herðablað, einnig höfuðverk og þreyta. Segir getur ekki unnið svona.

Trúlega upplifir A verkir sem hafa neikvæð áhrif á lífsgæði. Búinn að fara í aðgerð en eins og kemur fram fyrir ofan, þá er hann enn að glíma með talsverðan verk. Fyrir utan líkamleg einkenni hefur A leitað einnig til sálfræðings hér á Hg og kemur í ljós sterkur grunur um persónuleikaröskun og grunur um kynama. A er nú í bið að komast inn hjá geðheilsuteymi vestur.“

Í nánara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Ýmislegt var reynd að A fer aftur á vinnumarkaði. Í dag, eftir að vera heimilislæknir hans í 2 ár, er mat undirritaður ap einkenni A eru svo útbreitt og af margvíslegum toga að hann er óvinnufær með öllu og undirritaður meta óvinnufærni raunhæfr áfram í amk 1-2 ár. Hann er í bið að komast inn hjá geðheilsuteymi vestur, því að mati undirriatður er eitt stór vandamál hans geðheilsu sem þarf ítarleg skoðun hjá geðlækni og sálfræðingi.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með fyrri umsókn um örorkumat frá 3. apríl 2023, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi fötlun í höfði og huga ásamt takmarkaðri hreyfingu. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með allar daglegar athafnir og vísar hann í því sambandi til aðgerðar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann glími við geðræn vandamál með tilvísun til aðgerðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum og líkamlegum toga og hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í níu mánuði. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 3. nóvember 2023, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni aukist með tímanum en að frekari endurhæfing sé ekki kostur eins og staðan sé í dag. Í læknisvottorði D, dags. 28. febrúar 2022, kemur meðal annars fram að auk líkamlegra verkja sé sterkur grunur um persónuleikaröskun og að þörf sé á aðkomu geðlæknis og sálfræðings.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hvorki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram koma í fyrrgreindum læknisvottorðum né af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í níu mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á áframhaldandi endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. desember 2023, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta