Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2016.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. maí 2016

í máli nr. 4/2016:

Kongsberg Maritime AS

gegn

Ríkiskaupum

Tækniskólanum

Verkmenntaskólanum á Akureyri

og

Transas Marine Ltd.

Kærandi, Kongsberg Maritime AS, sendi Ríkiskaupum erindi 29. mars sl. vegna útboðs Ríkiskaupa, fyrir hönd Tækniskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, nr. 20149 (hér eftir „varnaraðila“) „Bridge and Engine Room Simulators“. Ríkiskaup framsendu erindið til kærunefndar útboðsmála sem taldi rétt að túlka efni þess sem kæru en þar sem erindið uppfyllti ekki kröfur 2. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, var kæranda gefinn frestur til úrbóta. Endurbætt kæra barst 7. apríl sl. þar sem þess er krafist að samningsgerð verði stöðvuð og ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Transas Marine Ltd. verði ógilt en varnaraðila gert að semja við kæranda. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og úrskurði kæranda málskostnað. Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Transas Marine Ltd. var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og bárust þær ásamt fylgigögnum 22. apríl sl. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Í nóvember 2015 auglýstu Ríkiskaup fyrir hönd Tækniskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri útboð nr. 20149 „Bridge and Engine Room Simulators“. Með útboðinu var óskað eftir tilboðum í brúar- og vélarrúmsherma sem nota á við kennslu í vélstjórn og skipstjórn í skólunum. Í útboðsgögnum voru gerðar ýmsar kröfur til boðinna vara, m.a. að þær væru í samræmi við tiltekna staðla og vottaðar af tilteknum aðilum. Þannig var m.a. gerð eftirfarandi krafa í grein 5.3.1.: „The simulator shall be compliant with IMO STCW´95 and type approved by Det Norske Veritas/Germanischer Lloyd (DNV-GL – www.dnvgl.com) Standard for Certification of Maritime Simulator Systems DNV-GL standard number ST-0033:2014-08“. Þá sagði í kafla 2.3 að val tilboða byggðist alfarið á lægsta verði.

            Þrír bjóðendur skiluðu tilboðum: tilboð kæranda var að fjárhæð 337.979.955 krónur, tilboð Applied Research International Private Limited var að fjárhæð 351.891.500 krónur og tilboð Transas Marine Ltd. var að fjárhæð 173.700.000 krónur. Hinn 14. mars 2016 tilkynnti Ríkiskaup að tilboð Transas Marine Ltd. hefði verið valið. Í tilkynningunni kom fram að biðtími samningsgerðar yrði til 29. mars 2016 og endanlegur samningur yrði undirritaður 30. mars sama ár.

            Kærandi telur að óheimilt hafi verið að taka tilboði Transas Marine Ltd. þar sem það hafi ekki uppfyllt óundanþægar kröfur greinar 5.3.1. í útboðinu en auk þess hafi verðtilboðið verið óeðlilega lágt. Varnaraðilar telja að kæran sé of seint fram komin enda hafi verið tilkynnt um val tilboðs 14. mars 2016 en endanleg kæra borist 7. apríl sama ár. Þá vísa varnaraðilar til þess að tilboð Transas Marine Ltd. hafi uppfyllt áskildar kröfur þar sem bjóðandinn hafi lagt fram vottorð sem teljist jafngilt því sem áskilið hafi verið í útboðsgögnum. Einnig hafi verðtilboðið ekki verið óeðlilegt enda í samræmi við kostnaðaráætlun varnaraðila.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Óumdeilt er að erindi kæranda barst kærunefnd útboðsmála eftir framsendingu varnaraðila 30. mars sl. Nefndinni var rétt að líta á erindið sem kæru og var hún þannig borin undir nefndina innan kærufrests.

Í 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, segir að þegar val tilboðs er kært innan lögboðins biðtíma skv. 76. gr. laganna þá sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hafi endanlega leyst úr kærunni. Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar tekur gildi þegar kaupanda má vera kunnugt um kæruna. Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru til fyllingar fyrirmælum laga um opinber innkaup um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála, sbr. 8. mgr. 95. gr. laganna. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga telst kæra fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. laganna að þegar stjórnvaldi berst erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, beri því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er. Af framangreindum ákvæðum leiðir að rétt er að líta svo á að kæran hafi leitt til sjálfkrafa stöðvunar þegar hún barst Ríkiskaupum 29. mars sl. enda var stofnuninni þá kunnugt um kæruna innan þess biðtíma sem hún hafði mælt fyrir um. Eins og málið liggur fyrir kemur því í reynd til úrlausnar hvort rétt sé að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar í ljósi afstöðu varnaraðilans.

Með tilboði Transas Marine Ltd. fylgdu ekki þau gögn sem áskilin voru í grein 5.3.1. í útboðinu en aftur á móti fylgdu önnur gögn sem bjóðandinn telur að sýni fram á sömu eiginleika vöru sinnar. Í 51. gr. laga um opinber innkaup segir að kaupendur skuli taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til gæðakrafna. Með tilboði Transas Marine Ltd. fylgdi vottun um þá staðla sem boðnar vörur fyrirtækisins uppfylla en vottunin var ekki frá því fyrirtæki sem tilgreint var í grein 5.3.1. í útboðsgögnum. Transas Marine Ltd. sendi nefndinni gögn sem bjóðandinn telur sýna fram á að vottun og staðlar sem vörur hans miðast við séu sambærileg þeim vottunum og stöðlum sem útboðsgögn voru miðuð við. Af framangreindum gögnum verður ekki annað ráðið en að boðnar vörur Transas Marine Ltd. uppfylli öll þau skilyrði sem varnaraðili gerði til tækjanna í grein 5.3.1. í útboðsgögnum.

Varnaraðilar hafa sent nefndinni afrit af kostnaðaráætlun Tækniskólans 16. desember 2015 þar sem gert er ráð fyrir að kostnaður við kaup á vörunum verði 165.000.000 krónur en eins og áður segir nam tilboð Transas Marine Ltd. 173.700.000 króna. Þá hefur Transas Marine Ltd. skýrt fyrir nefndinni ástæður þess að fyrirtækið getur boðið lágt verð, en samkvæmt 1. mgr. 73. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 3. gr. laga nr. 58/2013, skal kaupandi leita eftir slíkum skýringum áður en hann hafnar því sem óeðlilega lágu. Af framangreindum gögnum telur kærunefndin að ekki séu komnar fram verulegar líkur fyrir því að varnaraðili hafi átt að hafna tilboði Transas Marine Ltd. sem óeðlilega lágu.

Samkvæmt framangreindu telur nefndin ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um opinber innkaup við val á tilboði í hinu umdeilda útboði. Er því fullnægt skilyrði 2. mgr. 94. gr. a laga um opinber innkaup, sbr. 1. mgr. 96. gr. laganna, til að aflétta stöðvun samningsgerðar að kröfu varnaraðila. 

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Ríkiskaupa, fyrir hönd Tækniskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, við Transas Marine Ltd. í kjölfar útboðs nr. 20149 „Bridge and Engine Room Simulators“.

               Reykjavík, 17. maí 2016.

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta