Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 311/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 311/2015

Miðvikudaginn 27. apríl 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 26. október 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. júlí 2015 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 22. júlí 2014. Með ákvörðun, dags. 4. september 2014, var umsókn kæranda vísað frá Tryggingastofnun þar sem endurhæfing var ekki talin fullreynd. Kærandi kærði þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar almannatrygginga með kæru, dags. 24. nóvember 2014. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni barst starfsgetumat VIRK, dags. 22. janúar 2015, þar sem fram kom að starfsendurhæfing kæranda væri fullreynd. Úrskurðarnefndin felldi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins úr gildi með úrskurði, dags. 11. mars 2015, nr. 343/2014, á þeim grundvelli að stofnunin hefði ekki tekið efnislega afstöðu til framangreinds starfsgetumats og vísaði málinu aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Í kjölfarið tók Tryggingastofnun umsókn kæranda fyrir að nýju. Með örorkumati, dags. 22. júlí 2015, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. september 2014 til 30. júní 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 26. október 2015. Með bréfi, dags. 27. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að örorkumat hennar verði endurskoðað. Kærandi greinir frá því í kæru að henni hafi gengið illa í endurhæfingu vegna þess hve stuttan tíma hún hafi fengið til þess í hvert skipti. Það hafi valdið henni miklum kvíða að vera sífellt að sækja um endurhæfingarlífeyri auk þess sem það hafi aukið á þunglyndið. Það hafi orðið til þess að hún hafi sótt um örorku í samráði við heimilislækni og VIRK ráðgjafa sína. Hún hafi verið misslæm af þunglyndi og kvíða frá því hún hafi fyrst sótt um örorkulífeyri í X. Hún hafi verið óvinnufær vegna veikinda sinna auk þess sem það hafi tekið mikið á hana andlega að sækja um viðbótarmeðlag frá fyrrverandi maka. Þá hafi hún verið tilkynnt til barnaverndar vegna barna sinna. Hún hafi loks fengið úrskurð úr meðlagsmáli sínu þar sem samþykkt hafi verið að greiða henni tvöfalt meðlag með börnunum sem hafi létt mjög á fjárhaginum og auk þess verið léttir andlega að hafa ekki eins miklar fjárhagsáhyggjur. Barnaverndarmáli eldra barnsins hafi verið lokað eftir nokkurra mánaða skoðun. Það mál hafi tekið mikið á hana andlega, sérstaklega vegna þess að reynt hafi verið að fá hana til þess að samþykkja að láta yngra barnið frá sér í einhvern tíma.

Eldra barn hennar sé með[…]. Það hafi tekið mörg ár fyrir kæranda að fá viðeigandi aðstoð og greiningar fyrir barnið en eftir að það hafi tekist hafi honum gengið vel og hann sé nú kominn í […]. Yngra barnið hafi engar greiningar en hafi frá því hún var ungabarn verið gjörn á að vera oft veik. Það hafi komið niður á mætingu hennar í skóla og unnið sé að því í dag að bæta mætingar hennar. Skilnaður kæranda og léleg samskipti við barnsföður hafi haft slæm áhrif á dótturina og valdið henni kvíða sem unnið sé í að fá aðstoð við. Mikill tími fari í það hjá kæranda að sinna börnum sínum og því sem þau þarfnist. Það hafi haft áhrif á getu hennar til þess að sinna atvinnu. Eftir að hún hafi fengið lögfræðing í barnaverndarmálið hafi […] og barnavernd ákveðið að veita henni aukinn stuðning til þess að geta haft bæði börnin hjá sér, auk þess að byggja hana upp andlega með ráðgjöf og sálfræðitímum.

Kærandi telji að örorka sé ekki varanleg lausn á hennar málum heldur sé hún hækja út í atvinnulífið. Kærandi eigi nokkurra ára sögu um að þegar henni fari að líða betur ætli hún sér of mikið sem verði til þess að hún detti út af vinnumarkaði og lendi í að fara niður á við andlega. Núna líði henni betur og hún sé tilbúin í hlutavinnu. Hún vilji byrja mjög hægt til þess að fyrirbyggja bakslag. Hún nái ekki að framfleyta sér og börnum sínum á hlutavinnu. Hún óski því eftir því að örorkumat sitt verði endurmetið þannig að hún geti farið hægt út á vinnumarkað, auk þess að geta sinnt börnum sínum. Örorkustyrkur sé of lágur því hún hafi verið óvinnufær í rúmt ár.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að örorkulífeyrir samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar greiðist þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga sé greiddur þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi sótt um örorku með umsókn, dags. 22. júlí 2014. Áður hafi hún notið endurhæfingarlífeyris og tengdra bóta yfir tvö tímabil, frá 1. desember 2009 til 31. maí 2010 og aftur 1. september 2013 til 31. ágúst 2014. Umsókn kæranda hafi fyrst verið tekin til örorkumats þann 4. september 2014. Miðað við fyrirliggjandi gögn hafi stofnunin metið stöðu kæranda á þann veg að endurhæfing væri ekki fullreynd og ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku. Ný gögn hafi borist stofnuninni og í framhaldinu hafi verið ákveðið að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Niðurstaða örorkumatsins hafi verið sú að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyfi samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, en hún hafi hins vegar verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Matið sé í gildi frá 1. september 2014 til 30. júní 2017.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 22. júlí 2015 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. X, svör við spurningalista, dags. X, afrit af starfsgetumati VIRK, dags. X, skoðunarskýrsla, dags. X og umsókn, dags. 22. júlí 2014, auk eldri gagna.

Við mat á örorku styðjist stofnunin við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í andlega hlutanum. Þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi stríði við geðrænan vanda. Henni hafi verið metið endurhæfingartímabil frá 1. desember 2009 til 31. maí 2010 og frá 1. september 2013 til 31. ágúst 2014. Frekari endurhæfing hafi ekki virst líkleg til að skila aukinni vinnufærni að sinni og hafi því komið til örorkumats.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Geðsveiflur valdi henni óþægindum einhvern hluta dagsins og svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Einnig komi fram að andlegt álag hafi átt þátt í að hún hafi lagt niður starf, henni finnist oft eins og hún hafi svo miklu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og geðræn vandamál valdi henni erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt en kærandi hafi fengið níu stig í andlega hlutanum. Færni kæranda til almennra starfa teljist skert að hluta og henni hafi verið metinn örorkustyrkur frá 1. september 2014 til 30. júní 2017. Það sé niðurstaða stofnunarinnar að sú afgreiðsla á umsókn kæranda að synja henni um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. júlí 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. september 2014 til 30. júní 2017. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. X, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Endurtekin geðlægðarröskun, yfirstandandi lota alvarleg án geðrofseinkenna

Streita, ekki flokkuð annars staðar

Kvíði

Fjölskylduaðstæður valda vanda“

Í læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

„Verið þunglynd í nokkur ár. Greindist X, mikill kvíði, stöðug grátköst. Mikil vanlíðan og depurð Var sett þá á Sertral. Endurhæfing á C árið X og bætt þá við Welbutrin, var þá á endurhæfingarlífeyri í hálft ár. Gekk ágætlega eftir það í nokkur ár en sveiflukennt og óvíst hvort fullur klínískur bati náðist nokkru sinni. Greind með vanstarfsemi á skjaldkirtli X og síðanverið á Euthyrox. Fékk akút cholecystit sumarið X, gallblaðra fjarlægð þá um haustið.

[…]

Síðastliðið ár hefur verið erfitt, mikið álag. Missti vinnuna og húsnæði. Flutti til D haustið X. Fékk tímabundna vinnu sem gekk ágætlega til að byrja með en illa getað mætt vegna andlegrar vanlíðunar. Fékk ekki áframhaldandi samning og verið í starfsendurhæfingu, verið í hópeflingu, sjálfseflingu og vinnusmiðju ásamt fyrirlestrum. Reglulegir tímar hjá sálfræðingi. Hefur gengið brösulega og í raun verið alveg óvinnufær frá vorinu.“

Um skoðun á kæranda þann X segir svo í vottorðinu:

„Er X cm og X kg og því X BMI.

Meyr í viðtali, vel til höfð og heldur vel þræði og augnsambandi. Geðslag markvert lækkað. Svefninn misjafn, mikið orkuleysi, verkkvíði og kvíði fyrir framtíðinni og aðstæðum, brýst einnig fram í pirringi. Matarlyst til staðar. Lítil rútína í daglega lífinu. Mikil sektarkennd gagnvart endurhæfingu og heimili, finnst hún ekki ná að sinna hvoru tveggja svo vel sé. Ber á einbeitningarskorti. Legg fyrir handa DASS matslista á einkennum kvíða og þunglyndis og samræmast svör hennar alvarlegu þunglyndi (MDD) og almennri kvíðaröskun (GAD)“

Í athugasemdum læknisvottorðsins segir svo:

„Heimilisástand er mjög erfitt. Er með […]X ára strák og X ára gamla stelpu sem er í greiningarferli fyrir […]. Tíðar pestir stúlkunnar og vanlíðan, tíðar fjarvistir úr skóla og erfið hegðun sem aukið hefur á erfiðleika A. Mál fjölskyldunnar er nú á borði barnaverndarnefndar og úrræði sem til stendur að beita er fyrst og fremst aukinn stuðningur við A í móðurhlutverkinu. Það er mat undirritaðs að A sé of veik núna til að geta sinnt bæði eigin endurhæfingu og velferð barna sinna og er því sótt um tímabundna örorku. Að því hníga bæði læknisfræðileg rök sem og rök vegna barnaverndar.“

Einnig liggur fyrir sérhæft mat frá VIRK, dags. A. Í niðurstöðu sérfræðings segir svo:

„Sveiflukennd andleg líðan í allt að X ár. Depurð og kvíðatímabil. Átt erfitt með að takast á við álag. Viðkvæm í stoðkerfi eftir að hafa lent í árekstri þegar hún var X. Þyngdin oft verið að stríða en gengið þokkalega að glíma við það. Er með vanstarfsemi á skjaldkirtli. Gallblöðruaðgerð fyrir rúmu ári síðna og þarf að passa sig.

Mikið álag undanfarið ár tengt umönnunarþörf barna sem eiga við hegðunarvandkvæði að stríða. Þar reyndar komin inn aðstoð félagsmálayfirvalda og því heldur léttara. Einnig fjárhagsáhyggjur, einstæð móðir óörugg framfærsla og í leiguhúsnæði og fengið synjun á örorku. Reynt síðan að standa sig í starfsendurhæfingu og viðtölum hjá sálfræðingi og hreyfingu. Orðið um megn og árangur því lítill sem enginn. […]
Eins og staðan er í dag leyfir heilsan ekki starfsendurhæfingu. Nóg að þurfa að sinna velferð barna sinna og hafa einhvern kraft til að sinna sjálfri sér smávegis. Samt von til að á því geti orðið breyting eftir X ár.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. X, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé haldin þunglyndi og kvíða. Spurningu um það hvort kærandi eigi við geðræn vandamál að stríða svarar hún játandi. Fram kemur að hún sé með mikið þunglynd og kvíða sem sé hamlandi í daglegu lífi og komi í veg fyrir getu hennar til þess að vinna.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi eigi ekki við líkamlega færniskerðingu að etja. Hvað varðar  andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kæranda finnist hún hafa svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Þá valdi geðræn vandamál kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Hreyfir sig tiltölulega lipurlega. Vöðvabólga í herðum.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Þunglyndis-, kvíða- og fælnieinkenni.“

Í athugasemdum skoðunarskýrslunnar segir svo:

„Kona sem ætti að geta unnið í hálfu starfi sem [...] eða [...] sem hún er menntuð til.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, engin. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kæranda finnist hún oft hafa svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að geðræn vandamál kæranda valdi erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til níu stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda. Þannig virðist vera nokkur munur á læknisvottorði, starfsgetumati VIRK og mati í skoðunarskýrslu. Í mati skoðunarlæknis kemur fram að kærandi forðist ekki hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Í rökstuðningi fyrir því svari segir skoðunarlæknir að það komi ekki fram í viðtali og gögnum málsins. Hins vegar segir í læknisvottorði B að kærandi hafi illa getað mætt í vinnu sem hún hafi verið í tímabundið árið X, vegna andlegrar vanlíðanar. Þá kemur fram að hún sé haldin verkkvíða. Einnig segir að hún sé með mikla sektarkennd gagnvart endurhæfingu og heimili og finnist hún ekki ná að sinna hvoru tveggja svo vel sé. Starfsendurhæfing hafi gengið brösuglega. Mat B er að kærandi sé of veik núna til þess að geta sinnt bæði eigin endurhæfingu og velferð barna sinna. Í starfsgetumati Virk, dags. X, kemur fram að kærandi hafi átt erfitt með að ná utan um að sinna heimilinu og að standast kröfur varðandi starfsendurhæfingu. Ef fallist yrði á að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Í mati skoðunarlæknis kemur fram að kærandi ergi sig ekki yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Í rökstuðningi fyrir því svari segir skoðunarlæknir að það komi hvorki fram í viðtali né gögnum málsins. Hins vegar segir í læknisvottorði B að kærandi sé með verkkvíða og kvíði fyrir framtíðinni og aðstæðum, sem brjótist einnig fram í pirringi. Ef fallist yrði á að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli.

Kærandi fengi því ellefu stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris. Með hliðsjón af framangreindu misræmi er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Af framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta