Mál nr. 350/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 350/2015
Miðvikudaginn 20. apríl 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 30. nóvember 2015, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2014, um stöðvun og endurkröfu meðlagsgreiðslna.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Tryggingastofnun ríkisins hefur annast milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda. Með bréfi, dags. 1. desember 2014, tilkynnti stofnunin kæranda að ekki væri lengur heimilt að greiða henni meðlag þar sem meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi væru skráð með sama lögheimili, sbr. 4. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Kærandi var krafin um endurgreiðslu meðlagsgreiðslna vegna tímabilsins 19. desember 2013 til 31. desember 2014.
Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga 8. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 17. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. desember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá aðstæðum sínum og barnsföður. Kærandi fer fram á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hún hafi þegar greitt Tryggingastofnun til baka.
II. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Tryggingastofnun ríkisins fer fram á að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn. Bréf Tryggingastofnunar um stöðvun og endurkröfu meðlagsgreiðslna sé dagsett 1. desember 2014 en kæran hafi verið móttekin 8. desember 2015 hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt sé talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna komi fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Ekki verði séð að nein rök mæli með því að í málinu verði vikið frá meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé meira en ár liðið frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2014, um stöðvun og endurkröfu meðlagsgreiðslna.
Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests.
Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga 8. desember 2015 eða eftir að kærufrestur samkvæmt þágildandi 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar var liðinn, sbr. nú 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar.
Í þágildandi 9. mgr. 8. gr. almannatryggingalaga er vísað til þess að um málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
-
afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
-
veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
Samkvæmt gögnum málsins leið rúmlega eitt ár frá því að ákvörðun Tryggingastofnunar var kynnt kæranda og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993. Kæru er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir