Mál nr. 229/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 229/2023
Miðvikudaginn 5. júlí 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, móttekinni 5. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. mars 2023 um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn 10. janúar 2023 sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá 1. janúar 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 8. mars 2023, var kæranda metinn endurhæfingarlífeyrir vegna tímabilsins 1. febrúar 2023 til 31. ágúst 2023.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. maí 2023. Með bréfi, dags. 24. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. júní 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins. Kærandi hafi verið að glíma við veikindi frá því í janúar 2021 og hún hafi sótt um endurhæfingarlífeyri frá og með janúar 2021. Þar sem stofnunin hafi ekki talið að nægilega miklar upplýsingar hafi legið fyrir um endurhæfingu kæranda hafi ekki verið samþykktur afturvirkur endurhæfingarlífeyrir. Tryggingastofnun hafi samþykkt endurhæfingarlífeyri frá og með 1. febrúar 2023 til 31. ágúst 2023. Ljóst sé að endurhæfing kæranda hafi byrjað 7. júní 2021 á vegum VIRK. Kærandi óski eftir að endurhæfing hennar verði samþykkt afturvirkt frá og með þeim tíma þar sem að hún hafi sannanlega stundað endurhæfingu. Þau úrræði sem kærandi hafi sinnt frá árinu 2021 hafi verið kostnaðarsöm og hún hafi þurft að leita til sinna nánustu eftir fjárhagslegri aðstoð sem ekki sé boðlegt í langan tíma.
Frá janúar 2021 hafi kærandi leitað læknisfræðilegrar ráðgjafar hjá B, heimilislækni. Í þrígang hafi verið sótt um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar sem í raun hefði átt að vera endurhæfingarlífeyrir. Niðurstaða Tryggingastofnunar hafi verið sú synja þeim umsóknum með bréfum, dags. 9. júní, 4. ágúst og 1. september 2022. Sótt hafi verið um örorkulífeyri frá […] lífeyrissjóði sem hafi samþykkt tímabundið örorkumat og fái kærandi greiðslur frá þeim. Það séu lágar greiðslur og hafi kærandi því verið mjög tekjulág frá því í janúar 2021 þrátt fyrir að hafa sinnt endurhæfingarúrræðum.
Hægt sé að fá staðfest að kærandi hafi sinnt eftirfarandi endurhæfingarúrræðum frá árinu 2021. Í fyrsta lagi fari kærandi í sjúkraþjálfun hjá C sjúkraþjálfara. Kærandi hafi í yfir tíu ár verið í reglubundinni sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfari kæranda hafi unnið með alls kyns bekkjameðferðir vegna stoðkerfisvanda í hálsi, mjöðmum, baki og fleira. Einnig hafi kærandi farið til D sjúkraþjálfara sem hafi útbúið sérhæft prógramm fyrir hana sem hún fari eftir enn þann dag í dag.
Í öðru lagi fari kærandi tvisvar í viku í vatnsleikfimi á Reykjalundi og hafi í rauninni stundað það í fjölmörg ár.
Í þriðja lagi sé kærandi með endurhæfingarþjálfunarprógramm frá E sjúkraþjálfara sem hún fylgi eftir á Reykjalundi þar sem hún sé er í endurhæfingu á gigtarsviði Reykjalundar. Auk þess fari hún eftir prógrammi frá D sjúkraþjálfara.
Í fjórða lagi hafi kærandi verið í VIRK í sex mánuði frá júní 2021 til desember 2021. F í VIRK hafi verið ráðgjafi hennar á vegum G.
Í fimmta lagi sé kærandi að hefja ReDO (Redesigning Daily Occupation programm) meðferð hjá H iðjuþjálfa á Reykjalundi. Grunnhugmynd ReDO sé að breyta iðjumynstri og lífsstíl sem leiði til heilbrigðara og viðráðanlegra jafnvægis milli daglegra verkefna. Um sé að ræða hópmeðferð sem talin sé gagnleg fyrir fólk sem lifi og starfi í streitutengdu umhverfi. Sú meðferð hafi byrjað í maí 2023 og standi yfir, tvisvar í viku yfir 16 vikna tímabil.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði synjun á afturvirkum greiðslum endurhæfingarlífeyris. Málið varði ákvörðun Tryggingastofnunar frá 8. mars 2023 þar sem samþykkt hafi verið að meta endurhæfingartímabil frá upphafi í samtals sjö mánuði, eða frá 1. febrúar til 31. ágúst 2023. Kæranda hafi verið synjað um afturvirkar greiðslur frá 1. janúar 2021.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Lagaákvæðið hljóði svo:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.
Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“
Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hafi ekki áhrif á bótagreiðslur.
Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skýrt kveðið á um að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Tiltekið sé í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. sömu reglugerðar komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega ávallt skoðuð heildstætt í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem í 11. gr. laganna sé kveðið á um samræmi og jafnræði í lagalegu tilliti við úrlausn sambærilegra mála. Stofnunin skuli í kjölfarið leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins, sbr. leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem fram komi í 7. gr. stjórnsýslulaga. Því hafi öllu verið sinnt í þessu máli.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð, þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði. Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri afturvirkt frá og með 1. janúar 2021 en samþykkt hafi verið styttra tímabil eða um sjö mánuði aftur í tímann þar sem ekki hafi ástæður til annars, sbr. læknisvottorð, dags. 26. janúar 2023, og bréf Tryggingastofnunar um mat á endurhæfingu frá 8. mars 2023 þar sem óljóst hafi verið hvort virk endurhæfing hafi verið í gangi á tímabilinu.
Fram hafi komið að Hugarafl og Hlutverkasetur gætu mögulega verið viðeigandi endurhæfingarstaðir fyrir kæranda og einnig meiri og stöðugri mætingar til sjúkraþjálfara, sundsjúkraþjálfara og í sundleikfimi með það að markmiði að ná aftur upp orkutapi með þverfaglegu teymi þar sem ljóst sé að hún þurfi margþætta endurhæfingu. Hún þurfi ekki síst að huga að andlegu hliðinni sem hafi versnað mikið í þessari þrautargöngu, sbr. læknisvottorð vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri frá [10.] janúar 2023. Samþykktur hafi verið endurhæfingarlífeyrir frá og með [1. febrúar 2023 til 31. ágúst 2023].
Í greinargerðinni er gerð grein fyrir því sem fram kemur í læknisvottorði B. Við nánari skoðun málsins þyki ekki rök fyrir að meta afturvirkt endurhæfingartímabil kæranda þar sem virk starfsendurhæfing hafi ekki verið talin hafa verið í gangi á umbeðnu tímabili, þ.e. frá 1. janúar 2021, sbr. umsókn um endurhæfingarlífeyri, dags. 10. janúar [2023]. Ekki hafi legið fyrir endurhæfingaráætlun þegar sótt hafi verið um afturvirkan endurhæfingarlífeyri og hafi verið óljóst hvort virk endurhæfingaráætlun hafi þá átt sér stað, þ.e.a.s. á því tímabili. Fram komi að greiðslur endurhæfingartímabils taki ekki mið af því tímabili sem viðkomandi sé óvinnufær heldur þurfi virk starfsendurhæfing að vera hafin sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris að umsækjandi taki þátt í starfsendurhæfingu með það að markmiði að stuðla að aukinni starfshæfni einstaklings.
Í 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 komi fram að endurhæfingaráætlun skuli ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.
Umsókn um afturvirkar greiðslur frá 1. janúar 2021 hafi verið synjað þar sem ekki hafi þótt liggja fyrri endurhæfingaráætlun fyrir umbeðið tímabil og óljóst hafi þótt hvort virk endurhæfing hafi verið í gangi á tímabilinu. Bent hafi verið á að greiðslur endurhæfingarlífeyris ættu ekki að taka mið af því tímabili sem viðkomandi væri hreinlega óvinnufær heldur þyrfti virk starfsendurhæfing að vera hafin, sem hafi ekki legið fyrir á þessum tímapunkti í máli þessu, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Það sé því mat Tryggingarstofnunar að óljóst sé hvernig sú endurhæfing sem lagt hafi verið upp með muni koma til með að stuðla að þátttöku á vinnumarkaði og uppfyllir því ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem segi að umsækjandi þurfi að stunda virka endurhæfingu út frá heilsufarsvanda með starfshæfni að markmiði.
V. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. mars 2023, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði endurhæfingarlífeyris á tímabilinu 1. janúar 2021 til 31. janúar 2023, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“
Á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:
„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“
Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar segir um upphaf greiðslna:
„Grundvöllur greiðslna er að endurhæfingaráætlun liggi fyrir og er heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi hafi formlega hafið endurhæfingu hjá viðurkenndum umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar, sbr. 6. gr.“
Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:
„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heildstætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt.“
Endurhæfingarlífeyrir er samkvæmt framangreindu bundinn ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur séu heimilar.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 26. janúar 2023. Þar eru tilgreindar eftirtaldar sjúkdómsgreiningar:
„Vefjagigt
Spennuhöfuðverkur
Rheumatism, unspecified
Myalgia
Migraine
Maga-vélinda-bakflæðissjúkdómur með vélindabólgu
Pain in limb
Sleep disorders
Low back pain
Kvíði
Þunglyndi“
Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:
„Hún A er X ára gömul kona, starfaði sem […] alla tíð, sem kom til mín fyrst á miðju ári 2020. Var síðast að vinna fulla vinnu í desember 2019 en var þá sagt upp […]. Var svo atvinnulaus þar til í sumar 2020 að hún fékk vinnu sem hún sótti um en var svolítið hrædd um að hún gæti ráðið við vinnuna sökum hennar stoðkerfisverkja en hún hvefur margra ára sögu um verki í hálsi og öxlum […] Hún var mjög þreytt eftir vinnu en telur það mjög óljóst hvenær hennar verkir fóru að gera vart við sig. Segir að fyrir um 2 árum hafi hún gefist upp og var þá öll í verkjum, herðum auk golf og tennisolnboga en sl. mánuðir hafa verið sérstaklega erfiðir. Hafði velt fyrir sér vefjagigt og fékk þá greiningu. Aðgerð á báðum öxlum fyrir fimm árum og segist hafa verið betri á eftir. Finnur fyrir togi og þunga í báðum handleggjum sem eykst við álag. Segist upplifa höfuð eins og í fiskabúri og sjái ekki skýrt. Nú kalt á hvirfli. Stíf í hnakka og fram í enni, eins og þröng húfa, sem er álagstengt. Segist áður hafa verið með migraineköst en ekki fengið þau eftir að hún fékk Gabapentin fyrir þremur til fjórum mánuðum. Síðan lýsir hún "taugaverkjum" sem milljón maurar allsstaðar um líkamann, þyngsli yfir bringu. Hún lýsir dofa í í efri og neðri kjálkum beggja hliða sem hún vaknar með á morgnana en hverfa er líða tekur á morguninn. Doði í höndum og skyntruflun á blettum hér og þar um líkamann, t.d. á sköflungi, undir brjóstum og hringsvæði aftan á baki. Verkur undir il á morgnana sem hverfur. Ef hún bakar köku heima eða tekur til er hún "búin" á eftir. Hún segir mauraóþægindi hafa horfið við Gabapentin. Tekur einnig LDN vökva á kvöldin og eitthvað minni verkir. Hefur einnig verið ávísað Decortin af heimilislækni.Nefnir sem dæmi að það hafi verið erfitt að taka rúmfötin af og jafnvel erfitt að opna hurðir með "kúlu"-hurðarhún. Hún segist hafa verið greind með migreni fyrir circa 11 árum síðan af I lækni sem var hjá Hg.J. Hefur notað 1 Parkodin forte og 1 Ibufen sem hefur dugað en henni finnst þetta hafa aukist undanfarið og verkjalyfjun fafnvel ekki að virka nógu vel. Nefnir að hún verði ljósfælin, lyktfælin, ógleði, sjóntruflanir og svo fái hún einhvers konar höfuðverk og bendir hún á bak við vinstra augað en þó aðeins óljóst. Hefur sofið illa í tugi ára en finnst nú ná samfelldum svefni fram undir morgun á Imovane eða Phenergan og segist nú sofa betur, sefur allt að sex til sjö tíma á nóttu. Hefur í sextán ár reglulega stundað heilsurækt, bæði farið í ræktina og í sundleikfimi, gengur. Árið 2020 lokaði ræktin og hún hefur hreyft sig minna og aðspurð telur hún að einkenni gætu hafa versnað á þeim tímapunkti.Félagssaga Er gift og X fullorðnir í heimilil[…]. Prjónaði og saumaði fyrir meira en X árum en gerir lítið af því nú. Eyðir deginum mikið í síma, taka til og fara í heimsóknir.“
Um niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið vegna núverandi sjúkdóms segir:
„Við skoðun hér er hún ekkert sérstaklega slæm yfir vöðvafestum í hnakka en hún segist oft vera það og samræmist þetta spennuhöfuðverk. Taugaskoðun Kemur eðlilega fyrir, tal og frásögn eðlileg. Áttun eðlileg og raunsæ. Lækkað geðslag. grætur/ tárast. Heilataugar II - XII Eðlilegt Hreyfikerfi/kraftur Eðlilegur gangur. Eðlilegur kraftur í efri og neðri útlimum. Fingrafimi eðlileg. Sinaviðbrögð/ tónus Viðbrögð og tónus í útlimum er eðlilegt. Babinski er neikvæður. Samhæfing Romberg neikvæður. Hæl-hné og fingur-nef próf eðlileg. Skyn Eðlilegt. Titringsskyn finnst í ökklum bilat. Er með eymsli yfir helstu vöðvafestum. Þónokkur framan á sköflungum, hálsi og herðum og sérstaklega í hnakka, yfir höfði og í gagnauga.“
Í samantekt segir meðal annars:
„Framtíðar vinnufærni: Ekki nein einsog er
Samantekt: Taugaskoðun sýnir ekki merki um taugaröskun og dreifð og víðtæk einkenni gefa ekki grun um helstu taugasjúkdóma. Sérstaklega ekki MS, sem er rætt við hana. Mörg einkenni hennar, verkir og dofi, spenna í kjálka og höfuðverkur getur tengst vöðvaspennueinkennum. Hún er hvött til að halda áfram andlegri meðferð og líkamlegri hreyfingu sem hún hefur gert og nýta sér sjúkraþjálfara sem stuðning og hafa teygjur og styrktaræfingar markvissari út frá einkennum hennar.“
Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi tillögu að meðferð sem áætlað er að vari í átta mánuði:
„100% orkutap, sækja aftur um, er með endurhæfingaráætlun sem er á viku: , sjúkraþjálfun x2, sundsjúkraþjálfun x2, og leikfimix2 með það að markmiði að ná til baka hennar orkutapi með þverfaglegu teymi, þar sem ljóst er að hún þarf margþætta endurhæfingu og ekki síst huga að andlegu hliðinni sem hefur versnað mikið í þessari þrautargöngu.“
Fyrir liggur að kærandi fékk samþykktan endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins 1. febrúar 2023 til 31. ágúst 2023 á grundvelli framangreinds læknisvottorðs. Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. janúar 2021 til 31. janúar 2023. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð greiðist endurhæfingarlífeyri á grundvelli endurhæfingaráætlunar og tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Það er því skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris að fyrir liggi endurhæfingaráætlun, sbr. einnig 1. mgr. 3., 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun liggur ekki fyrir endurhæfingaráætlun vegna tímabilsins 1. janúar 2021 til 31. janúar 2023. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris staðfest.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að hún geti freistað þess að sækja um afturvirkan endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar að nýju leggi hún fram endurhæfingaráætlun vegna umdeilds tímabils.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir