Hoppa yfir valmynd

Nr. 417/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 417/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080006

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 12. júlí 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. mars 2018 um að synja […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefnd kærandi), um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þann 3. ágúst 2018 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 2. máls. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdi greinargerð ásamt fylgigögnum. Þann 4. september sl. bárust viðbótarupplýsingar frá kæranda til kærunefndar.II. Málsástæður og rök kærandaÍ greinargerð kæranda er vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 229/2018 frá 12. júlí 2018. Með þeim úrskurði hafi kærunefnd staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Sá úrskurður kærunefndar hafi grundvallast á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki lagt fram gögn er sýnt gætu fram á framfærslu hennar hér á landi og því væri skilyrðum 55. og 56. gr. laga um útlendinga ekki fullnægt. Kærandi hafi nú lagt fram ráðningarsamning ásamt umsókn um atvinnuleyfi á grundvelli 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Samkvæmt ráðningarsamningnum muni kærandi hafa tekjur sem nemi fjárhæð langt umfram framfærsluviðmið sveitarfélaga fyrir einstaklinga. Með vísan til þessara nýju gagna telur kærandi að skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Því beri kærunefnd að endurupptaka mál hennar sem lauk með úrskurði nr. 229/2018 og veita henni dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda þann 4. september sl., þar sem m.a. er fjallað um aðstæður í heimaríki hennar.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Með úrskurði nr. 229/2018 frá 12. júlí 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að synja bæri kæranda um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum benti kærunefnd m.a. á að svo heimilt væri að veita dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið þyrfti skilyrðum 55. og 56. gr. laganna hvað varðar framfærslu útlendings að vera fullnægt. Taldi nefndin að þar sem kærandi hefði ekki lagt fram fullnægjandi gögn er sýnt gætu fram á framfærslu hennar hér á landi, t.d. innstæðu á bankareikningi eða ráðningarsamning, teldust skilyrði 55. og 56. gr. laganna ekki uppfyllt og því rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Eins og að framan greinir hefur kærandi nú lagt fram ný gögn til kærunefndar, þ.e. ráðningarsamning, dags. […], ásamt umsókn til Vinnumálastofnunar um tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Hafa atvik málsins því breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í málinu þann 12. júlí sl. Að mati kærunefndar eru upplýsingarnar þess eðlis, í ljósi lagagrundvallar málsins, að tilefni sé til að mál kæranda sé tekið upp á ný hjá kærunefnd.

Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi umsókn um dvalarleyfi

Í 78. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Í 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.-IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann m.a. það skilyrði að framfærsla hans samkvæmt 56. gr. og sjúkratrygging sé örugg, sbr. a. lið 1. mgr. 55. gr.

Í 1. mgr. 56. gr. laganna er fjallað um hvenær framfærsla útlendings sé trygg. Þar kemur fram að útlendingur sem sé eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi hér á landi skuli sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 56. gr. segir m.a. að sýna þurfi fram á framfærslu í gjaldmiðli sem skráður sé hjá Seðlabanka Íslands. Þá er sérstaklega tekið fram í 3. mgr. 56. gr. laganna að greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga teljist ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. laganna er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um trygga framfærslu.

Eins og kærunefnd benti á í úrskurði nr. 229/2018 verða ákvæði 55. og 56. gr. laga um útlendinga skilin sem svo að útlendingur þurfi að geta framfleytt sér hér á landi með eigin framfærslu eða frá einstaklingi sem ber framfærsluskyldu gagnvart honum. Kærandi hefur lagt fram ný gögn til kærunefndar með beiðni sinni um endurupptöku sem varpa ljósi á að kærandi hyggist framfleyta sér hér á landi með ástundun atvinnu og öflun eigin tekna. Telur kærunefnd því ljóst að skilyrði 55. og 56. gr. laga um útlendinga hvað varðar framfærslu kæranda séu uppfyllt.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. mars sl. var umsókn kæranda um dvalarleyfi synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Tók stofnunin því ekki afstöðu til þess hvort kærandi uppfyllti önnur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að stuðla að réttaröryggi aðila máls með skoðun máls hans á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er því rétt að mál kæranda verði tekið til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun þar sem mat verði lagt á hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr. laganna. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað endurskoðunar á ákvörðun Útlendingastofnunar hjá kærunefnd útlendingamála. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to re-examine the appellant‘s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                        Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta