Hoppa yfir valmynd

Nr. 79/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 79/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20020030 og KNU20020031

 

Beiðni [...], [...]

og barna þeirra um endurupptöku

 

Þann 14. nóvember 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2019, um að synja einstaklingum er heita [...], fd. [...], og [...], fd. [...], ríkisborgarar Egyptalands, og börnum þeirra [...], fd. [...], [...], fd. [...], [...], fd. [...], og [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðilum þann 18. nóvember 2019. Þann 25. nóvember 2019 lögðu aðilar fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 3. desember 2019 barst kærunefnd skriflegur rökstuðningur aðila. Þann 8. janúar 2020 synjaði kærunefnd aðilum um frestun réttaráhrifa á máli þeirra. Niðurstaða um synjun kærunefndar á frestun réttaráhrifa í máli aðila var boðsend talsmanni þeirra þann 10. janúar 2020.

Þann 11. febrúar 2020 barst kærunefnd beiðni aðila um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 8. janúar 2020 um synjun á frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar frá 14. nóvember 2019 í kærumáli aðila.

Af beiðni aðila má skilja að krafa þeirra um endurupptöku máls þeirra byggi á því að aðstæður hafi breyst frá því að kærunefnd úrskurðaði í máli þeirra. Aðilar krefjast þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 14. nóvember 2019 verði frestað á meðan þau fara með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

I.                    I.        Málsástæður og rök kærenda

Krafa aðila um endurupptöku á úrskurði kærunefndar um synjun á frestun réttaráhrifa í máli þeirra er byggð á þeirri þróun sem hafi orðið í málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd og þær breytingar sem dómsmálaráðherra hafi boðað varðandi lengd málsmeðferðartíma á afgreiðslu stjórnvalda á kröfum umsækjenda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Telja aðilar framangreint leiða til þess að ástæða sé til þess að kærunefnd fresti réttaráhrifum í máli aðila á meðan þau fara með málið fyrir dómstóla.

II.                  II.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Líkt og áður hefur verið rakið barst beiðni um frestun réttaráhrifa í máli þeirra þann 25. nóvember 2019. Kærendur byggðu þá beiðni m.a. á því að framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli þeirra og barna þeirra geti valdið óafturkræfum skaða. Þá gagnrýndu kærendur hversu sjaldan kærunefnd fallist á beiðnir um frestun réttaráhrifa. Töldu kærendur að frekari gagnaöflun og meðferð íslenskra dómstóla yrði að fara fram áður en framkvæmd ákvörðunar kæmi til. Kærendur töldu ástæður vera til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í máli þeirra og barna þeirra þar sem úrskurðurinn væri ógildanlegur og myndi í máli fyrir dómstólum aðallega verða byggt á því að ólíkt því sem stjórnvöld hefðu komist að í máli þeirra þá væru skilyrði uppfyllt til að veita þeim dvalarleyfi hér á landi. Þá töldu kærendur að mikilvægt væri að þau fengju að vera viðstödd réttarhöld í máli þeirra og gefa skýrslu í eigin persónu enda myndi símaskýrsla ekki vera jafn áhrifamikil. Þá kváðu kærendur að það myndi reynast erfitt að halda sambandi við lögmann þeirra hér á landi kæmi til endursendingar. Það var niðurstaða kærunefndar í úrskurði frá 8. janúar 2020 að ekki væri ástæða til að fallast á beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa úrskurðar í kærumáli þeirra. Taldi kærunefnd að eftir skoðun á beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa að athugasemdir sem í beiðninni kæmu fram væru ekki þess eðlis að ástæða væri til að ætla að niðurstaða kærunefndar í máli þeirra væri haldin annmarka sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins. Þá tók kærunefnd það fram að við meðferð málsins hafi nefndin litið til hagsmuna barna kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Við meðferð máls kærenda sem lauk með framangreindum úrskurði mat kærunefnd aðstæður kærenda á heildstæðan hátt og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að fresta réttaráhrifum.

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á synjun kærunefndar um frestun réttaráhrifa í málum sínum á því að aðstæður hafi breyst frá því að kærunefnd úrskurðaði í málum þeirra og vísa þau til þess í beiðni sinni að ákveðin þróun hafi orðið í málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá hafi dómsmálaráðherra boðað breytingar varðandi lengd málsmeðferðartíma á afgreiðslu stjórnvalda á kröfum umsækjenda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þann 17. febrúar setti dómsmálaráðherra reglugerð nr. 122/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að „[þ]rátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Börn kærenda sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. ágúst 2018. Niðurstaða kærunefndar í máli þeirra var birt 18. nóvember 2019, eða 15 mánuðum og 11 dögum eftir að þau sóttu um vernd. Af því leiðir að ljóst er að börn kærenda uppfylla ekki skilyrði ofangreindrar reglugerðar til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd telur því að reglugerð nr. 122/2020 leiði ekki til þess að aðstæður kærenda og barna þeirra teljist hafa breyst verulega í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærunefnd að ekkert bendi til þess að önnur þróun í málaflokknum, eða önnur framlögð gögn, leiði til þess að heimilt sé að endurupptaka beiðni kærenda og barna þeirra um frestun réttaráhrifa.

Þann 24. janúar 2020 lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku á kærumáli þeirra. Með úrskurði nr. 107/2020 uppkveðnum þann 19. mars 2020 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa skoðað beiðni og fylgigögn, að ekki væri hægt að fallast á að úrskurður nefndarinnar frá 14. nóvember 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Að framangreindu virtu, þ.m.t. með vísan til forsendna niðurstöðu kærunefndar í máli kærenda og barna þeirra vegna beiðni á endurupptöku á kærumáli þeirra, er það því mat kærunefndar að atvik í máli kærenda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri beiðni þeirra um frestun réttaráhrifa upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda og barna þeirra hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku beiðni þeirra um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar frá 8. janúar 2020.

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Kröfu kærenda er hafnað.

The request of the appellants is denied.

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

                            

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir           


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta