Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 223/2012

Fimmtudaginn 15. janúar 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 29. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. nóvember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 6. desember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. janúar 2013. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 1. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 25. febrúar 2013 og tölvupósti 18. mars 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 21. mars 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1955 og 1960. Þau eru gift og búa ásamt uppkomnum syni sínum í eigin 352 fermetra einbýlishúsi að D götu nr. 58 í sveitarfélaginu E.

Kærendur eru bæði atvinnulaus en áður rak kærandi B X ehf. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra 300.410 krónum.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2005. Kærandi B hafi stofnað X ehf. Í apríl 2006 hafi hann í félagi við aðra keypt fasteign að F götu nr. 68 í sveitarfélaginu E. Hafi þau fengið lán fyrir kaupunum. Eignin var þó fljótlega seld gegn 85.000.000 króna greiðslu í peningum og tíu fasteignum á Spáni sem metnar hafi verið á 50.000.000 króna. Þegar afhending eignanna á Spáni átti að fara fram 1. apríl 2008 hafi ekki verið unnt að afhenda þær en einnig kom í ljós að meira hafi verið áhvílandi á eignunum en tilgreint var í kaupsamningi. Afhendingin hafi ekki farið fram fyrr en haustið 2008 og þá hafi besti sölutíminn verið liðinn. Þá hafi verð eignanna lækkað og þær hafi verið orðnar yfirveðsettar. Einnig hafi gengið illa að fá peningagreiðsluna en 10.000.000 króna hafi verið greiddar við undirritun kaupsamnings og ekkert eftir það. Fasteignin í F götu hafi verið tekin upp í skuldir. Árið 2007 hafi X ehf. keypt lóð að G götu nr. 53 í sveitarfélaginu H til að byggja á. Hafi félagið fjármagnað kaupin með lánum sem kærendur hafi gengist í ábyrgð fyrir. Ekkert hafi orðið af byggingarframkvæmdum og hafi lánveitandi tekið til sín lóðina. Félagið hafi setið eftir með skuldir vegna þessa. Hafi X ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta í júní 2009. Eftir efnahagshrunið 2008 hafi verið erfitt að fá atvinnu í byggingargeiranum og hafi kærendur verið meira og minna atvinnulaus síðan.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 68.729.129 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 4. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. nóvember 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir því að málið verði tekið upp aftur. Verður að skilja það svo að krafa þeirra sé sú að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur mótmæla því mati umboðsmanns skuldara að þau hafi farið óvarlega í fjármálum. Telja þau að embættið hafi ekki skilið stöðu þeirra til fulls. Kærendur hafi talið sig standa vel en ekki hafi verið hægt að reka fyrirtæki á Íslandi nema taka persónulega ábyrgð á öllum skuldum fyrirtækisins. Hafi kærendur talið sig hafa haft burði til þess og hafi bæði þau og lánardrottnar talið að þau veð sem sett hafi verið til tryggingar skuldum væru meira en nægileg fyrir ábyrgðum þeirra.

Að mati kærenda hafi erfiðleikar þeirra byrjað árið 2008 er félag þeirra X ehf. seldi fasteign fyrir 135.000.000 króna en kaupandi hafi ekki staðið við kaupsamninginn. Hefði þetta ekki gerst væru þau ekki í núverandi stöðu.

Kærendur kveði eignir sínar hafi verið 322.000.000 króna virði og sé það langt umfram skuldbindingar. Fasteign þeirra að D götu nr. 58 hafi verið verðlögð á 115.000.000 króna en þau geti sýnt fram á það með tilboðum sem þau hafi fengið í eignina árið 2008. Ekki hafi þó verið hægt að selja eignina þar sem enginn tilboðsgjafa hafi fengið lánafyrirgreiðslu. Eignin að G götu nr.  53 í sveitarfélaginu H hafi verið metin á 72.000.000 króna árið 2008. Fasteignasalan sem matið hafi gert sé nú gjaldþrota svo ekki sé víst að kærendur geti sýnt fram á verðmætið.

Telji kærendur að aðilar sem hafi átt að gæta hagsmuna þeirra í þessari stöðu hafi brugðist þeim, til dæmis með því að leyfa Landsbankanum að leysa til sín fasteignina að F götu nr. 68 á 60.000.000 króna. Sömuleiðis hafi Landsbankinn eignast G götu nr.  53 fyrir 20.000.000 króna. Þannig hafi fengist 80.000.000 króna fyrir eignir sem í raun hafi verið 207.000.000 króna virði við hrun. Hafi félag þeirra X ehf. vitanlega ekki þolað þetta og verið gert gjaldþrota í júlí 2009. Meti kærendur það svo að allir, þ.e. kröfuhafar, bankar, skiptastjóri X ehf. og umboðsmaður skuldara, hafi tekið afstöðu með fjármagnseigendum og bönkum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtali kærenda fyrir tekjuárið 2007 hafi fjárhagsstaða þeirra verið þessi í krónum:

 

Tekjuár 2007
Eignir kærenda 73.951.812
Skuldir kærenda 37.623.871
Nettóeignastaða kærenda 36.327.941
Ráðstöfunartekjur kærenda á mánuði* 693.071

*Ráðstöfunartekjur á mánuði, þar með taldar fjármagnstekjur.

 

Á árinu 2007 hafi kærandi B gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir X ehf. samtals að fjárhæð 7.500.000 krónur. Einnig hafi fasteign kærenda verið veðsett fyrir 20.000.000 króna vegna skulda félagsins við Landsbankann. Þá hafi félagið keypt bifreið fyrir 3.419.689 krónur og hafi kærandi A gengist í ábyrgð fyrir þau kaup. Ekki hafi verið gerður ársreikningur fyrir félagið þetta ár.

 

Samkvæmt skattframtali kærenda fyrir tekjuárið 2008 hafi fjárhagsstaða þeirra verið þessi í krónum:

 

Tekjuár 2008
Eignir kærenda 73.137.483
Skuldir kærenda 47.420.959
Nettóeignastaða kærenda 25.716.524
Ráðstöfunartekjur kærenda á mánuði* 530.581

 

Árið 2008 hafi kærandi B gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir annan mann vegna skuldar að fjárhæð 3.500.000 krónur. Hann hafi einnig gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna úttekta félagsins hjá Húsasmiðjunni að fjárhæð 139.233 krónur. Þá hafi kærendur bæði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir X ehf. vegna skuldabréfs að fjárhæð 1.850.000 krónur. Ekki hafi verið gerður ársreikningur fyrir félagið vegna ársins 2008.

 

Samkvæmt skattframtali kærenda fyrir tekjuárið 2009 hafi fjárhagsstaða þeirra verið þessi í krónum:

 

Tekjuár 2009
Eignir kærenda 73.503.976
Skuldir kærenda 70.798.066
Nettóeignastaða kærenda 2.705.910
Ráðstöfunartekjur kærenda á mánuði* 130.280

 

Í febrúar 2009 hafi kærandi B gengist í ábyrgð fyrir reikningi X ehf. hjá Húsasmiðjunni að fjárhæð 6.706.278 krónur. Félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í júlí 2009. Kærandi B hafi upplýst að félagið sé undir gjaldþrotaskiptum og það sé eignalaust. Því sé ljóst að ekkert muni koma upp í kröfur á hendur félaginu.

Á árunum 2007 til 2009 hafi kærendur samkvæmt framansögðu gengist í ábyrgðir og veðsett hús sitt fyrir 43.115.200 krónur vegna skulda X ehf.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið sent ábyrgðarbréf 12. september 2012 um hugsanlega synjun á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi þeim verið gefið tækifæri til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum innan 15 daga frá móttöku bréfsins. Engin svör hafi borist.

Ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila verði ekki alltaf lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá sem tekst á hendur ábyrgðarskuldbindingar þurfi þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011. Verði ávallt að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Við mat á því hvort kærendur hafi tekið fjárhagslega áhættu með því að takast á hendur áðurgreindar ábyrgðarskuldbindingar og að veðsetja fasteign sína vegna skulda X ehf. verði að líta til fjárhæða ábyrgðarskuldanna og möguleika kærenda á að greiða skuldbindingarnar ef á reyndi. Þá sé miðað við þann tíma er gengist var í ábyrgðirnar en fjárhagsstaða félagsins á þeim tíma skipti miklu máli við matið. Áhætta fylgi ábyrgðarskuldbindingum í atvinnurekstri. Miðað við eigna- og skuldastöðu kærenda fram til ársins 2007 megi ráða að þau hefðu hugsanlega getað staðið skil á ábyrgðarskuldbindingum sínum með sölu eigna. Árið 2007 hafi þau tekist á hendur ábyrgðarskuldir að fjárhæð 30.919.689 krónur en það hafi orðið til þess að fjárhæð persónulegra skuldbindinga og ábyrgðarskuldbindinga hafi orðið um 23.000.000 króna umfram eignir. Þrátt fyrir þetta hafi kærendur áfram gengist í ábyrgðarskuldbindingar fyrir X ehf. árin 2008 og 2009 en nýjar ábyrgðarskuldbindingar þeirra þau ár hafi numið 12.195.511 krónum.

Af gögnum málsins verði ráðið að kærendur hafi veðsett fasteign sína og gengist í ofangreindar ábyrgðir fyrir X ehf. í þeirri trú að fasteignin sem félagið hafi verið að reisa yrði seld með hagnaði. Umboðsmaður taki undir að ýmislegt hafi sett strik í reikninginn en inn í mat samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. verði að taka tillit til fjárhagsstöðu félagsins sem hafi ekki verið góð miðað við fyrirliggjandi ársreikninga félagsins vegna áranna 2005 og 2006. Því hafi verið líklegra en ella að ábyrgðirnar myndu að lokum falla á kærendur. Einnig veiti það vísbendingar um að staða félagsins hafi ekki verið góð að ársreikningar hafi ekki verið gerðir fyrir félagið vegna áranna 2007 og 2008.

Í greinargerð frumvarps til lge. sé tekið fram að lögunum sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri, til dæmis einyrkja, bænda og þeirra sem séu með atvinnurekstur á eigin kennitölu. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vandræðum vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögun.

Kærendur telji að eignir sínar á móti skuldum hafi verið 322.000.000 króna og sé sú fjárhæð langt umfram skuldbindingar. Við ákvarðanatöku í málinu hafi verið miðað við verðmat eigna samkvæmt fasteignamati. Kærendum hafi gefist tækifæri til að skýra stöðu sína, þar á meðal eigna og skuldastöðu, með því að svara fyrrnefndu bréfi embættisins 12. september 2012 en það hafi þau ekki gert.

Það sé mat embættisins að með því að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir X ehf. hafi kærendur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á árunum 2007 til 2009.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um skuldir kærenda frá þeim tíma er umboðsmaður skuldara tók ákvörðun í málinu en meðal gagna málsins eru gögn um skuldir kærenda árið 2011 í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2011 frá
Arion banki 2004 Veðskuldabréf 18.500.000 31.624.585 2010
Arion banki 2005 Veðskuldabréf 9.500.000 15.882.308 2010
Avant 2007 Bílalán 4.328.497 4.754.536 2011
Arion banki 2008 Skuldabréf 1.544.128 1.619.743 2010
Trékross ehf. 2008 Víxill 2.150.000 3.773.766 2008
Landsbankinn 2008 Yfirdráttur   9.167.220 2008
Húsasmiðjan 2009 Reikningur 125.310 254.867 2009
Arion banki 2010 Yfirdráttur   1.588.872 2011
Arion banki 2011 Greiðslukort   63.232 2011
    Alls 36.147.935 68.729.129  

 

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ábyrgðarskuldbindingar kærenda að höfuðstól, tekjur þeirra, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:

 

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mán. (nettó) 768.141 693.071 530.781 130.280 2.951.299 233.707
Eignir 83.004.707 74.311.812 73.137.483 73.503.976 65.406.099 68.971.706
· Fasteignir 66.993.500 56.700.000 56.700.000 67.850.000 59.800.000 64.600.000
· Bifreiðir o.fl. 5.461.958 6.622.022 6.065.819 3.782.700 3.904.430 3.063.987
· Verðbréf og kröfur 9.478.018 9.434.785 8.800.000      
· Hlutir í félögum 1.004.773 1.505.256 1.500.966 1.500.966 1.500.483 1.000.483
· Bankainnstæður 66.458 49.749 70.698 370.310 201.186 307.236
Skuldir 62.276.808 37.623.871 47.420.959 70.798.066 51.744.811 58.689.206
Nettóeignastaða 20.727.899 36.687.941 25.716.524 2.705.910 13.661.288 10.282.500

 




Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 10.500.000 21.419.689 26.908.922 33.615.200 33.615.200 33.615.200

*Þ.m.t. fjármagnstekjur.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda samkvæmt gögnum málsins eru þessar í krónum:

 

Kröfuhafi Útgefið Tegund Upphafleg Fjárhæð Skuldari
      fjárhæð 2011  
Landsbankinn 2005 Ábyrgðaryfirlýsing 500.000 500.000 X ehf.
Landsbankinn 2006 Ábyrgðaryfirlýsing 10.000.000 10.000.000 X ehf.
Landsbankinn 2007 Ábyrgðaryfirlýsing 2.500.000 2.500.000 X ehf.
Landsbankinn 2007 Ábyrgðaryfirlýsing 5.000.000 5.000.000 X ehf.
Avant 2007 Bílalán 3.419.689 3.112.386 X ehf.
Landsbankinn 2008 Skuldabréf 3.500.000 5.283.112 Haraldur Bjargmundsson
Húsasmiðjan 2008 Reikningur 139.233 264.975 X ehf.
Húsasmiðjan 2008 Skuldabréf 1.850.000 3.743.227 X ehf.
Húsasmiðjan 2009 Reikningur 6.706.278 10.389.522 Xehf.
      33.615.200 40.793.222  

 

Þá veðsettu kærendur fasteign sína fyrir eftirtöldum skuldbindingum X ehf. á árunum 2005 til 2007 í krónum:

 

Kröfuhafi Útgefið Eign Upphafleg Skuldari
      fjárhæð  
Landsbankinn 2005 D götu nr. 58 10.000.000 X ehf.
Landsbankinn 2006 D götu nr. 58 10.000.000 X ehf.
Landsbankinn 2007 D götu nr. 58 20.000.000 X ehf.
    Alls 40.000.000  

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í lagaákvæðinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Kærendur kveða eignir sínar hafa verið langt umfram skuldbindingar. Hafa þau ekki lagt fram annað því til stuðnings en óundirritað tilboð í fasteign þeirra að D götu nr. 58 þrátt fyrir að hafa fengið til þess tækifæri bæði við málsmeðferð hjá umboðsmanni skuldara og hjá kærunefndinni. Við þær aðstæður telur kærunefndin ekki annað unnt en að miða við eignastöðu samkvæmt skattframtölum.

Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2007 voru tekjur kærenda 693.071 króna á mánuði að meðaltali. Í lok árs 2007 var eignastaða kærenda jákvæð um tæpar 37.000.000 króna. Ábyrgðarskuldbindingar þeirra vegna X ehf. námu rúmri 21.000.000 króna. Í lok ársins höfðu þau einnig veðsett fasteign sína fyrir 40.000.000 króna til tryggingar skuldum félagsins. Námu því fjárhagslegar skuldbindingar kærenda vegna félagsins á þeim tíma alls rúmum 61.000.000 króna.

Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2008 voru tekjur kærenda 530.781 króna á mánuði að meðaltali. Í lok ársins var eignastaða þeirra jákvæð um tæpar 26.000.000 króna. Ábyrgðarskuldbindingar þeirra námu tæpum 27.000.000 króna. Að auki var fasteign þeirra veðsett í þágu X ehf. fyrir 40.000.000 króna eins og að framan greinir. Fjárhagslegar skuldbindingar kærenda vegna félagsins námu alls rúmum 63.000.000 króna í lok árs 2008.

Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2009 voru tekjur kærenda 130.280 krónur á mánuði að meðaltali. Í lok árs 2009 var eignastaða kærenda jákvæð um tæpar 3.000.000 króna. Ábyrgðarskuldbindingar þeirra vegna X ehf. námu rúmum 30.000.000 króna. Í lok ársins var veðsetning kærenda á fasteign sinni til tryggingar skuldum félagsins 40.000.000 króna sem fyrr. Námu því fjárhagslegar skuldbindingar kærenda vegna félagsins alls rúmum 70.000.000 króna í lok ársins 2009.

Einkahlutafélag kærenda, X ehf., var stofnað í mars árið 2005 og úrskurðað gjaldþrota í júlí 2009. Félagið skilaði aðeins einum ársreikningi til fyrirtækjaskrár, þ.e. vegna ársins 2005. Í málinu liggur þó fyrir ársreikningur vegna ársins 2006 en samkvæmt honum var eigið fé félagsins neikvætt í lok árs og tap varð á rekstrinum. Af þessu er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að félagið hafi verið fjárhagslega veikburða frá upphafi. Þrátt fyrir það greiddu kærendur sér 5.000.000 króna arð úr félaginu þetta ár ef marka má ársreikning 2006.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærendur tókust á hendur fjárhagslegar skuldbindingar vegna félagsins langt umfram greiðslugetu á árinu 2008. Eignastaða kærenda gaf þeim heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar eins og rakið hefur verið. Verður þannig vart séð að kærendur hafi getað framfleytt sér, haldið eigin skuldbindingum í skilum og tekið á sig greiðslu nefndra fjárhagsráðstafana ef á reyndi.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að þær fjárhagsráðstafanir sem kærendur tókust á hendur í þágu X ehf. árin 2007 til 2009 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að framan.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með framangreindum ráðstöfunum hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að mestur hluti ábyrgðarskuldbindinga kærenda og stór hluti veðsetninga á fasteign þeirra eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta