Mál nr. 3/2013
Fimmtudaginn 26. febrúar 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 2. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. desember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 30. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. febrúar 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. febrúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 27. mars 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 8. apríl 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1973. Hann er giftur og býr ásamt eiginkonu og tveimur börnum í eigin 229,4 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu E. Kærandi á einnig tvö börn af fyrra sambandi sem búa hjá honum aðra hverja viku.
Kærandi er með háskólapróf í viðskiptafræði. Hann vann hjá fjármálafyrirtækjum um tíu ára skeið, síðast hjá X. Þar hætti hann í ágúst 2010 til að vinna við sjálfstæða ráðgjöf. Frá því í mars 2011 hefur kærandi verið atvinnulaus. Kærandi þiggur atvinnuleysisbætur að fjárhæð 163.184 krónur á mánuði og fær auk þess mánaðarlega að meðaltali barnabætur að fjárhæð 13.569 krónur, vaxtabætur að fjárhæð 25.000 krónur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 12.500 krónur. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans því 214.253 krónum.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ábyrgðarskuldbindinga og atvinnuleysis.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 90.106.154 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ábyrgðarskuldbindingar kæranda samkvæmt ábyrgðaryfirliti umboðsmanns skuldara eru 221.821.004 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði snúið við og greiðsluaðlögun samþykkt. Kærandi krefst þess einnig að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði tekin út frá réttum forsendum og staðreyndum og með hagsmuni hans að leiðarljósi.
Kærandi mótmælir því mati embættis umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hann telur umboðsmann ekki hafa tekið tillit til þess að hann hafi haft verulega háar tekjur á árunum 2005 til 2010 eða um 179.000.000 króna. Einnig hafi umboðsmaður horft fram hjá því að kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar vegna tryggingarbréfs sem upphaflega hafi verið að fjárhæð 12.000.000 króna. Hafi tryggingarbréfið verið veitt með veði á 4. veðrétti í fasteign kæranda til tryggingar skuldum Z ehf. Félagið hafi verið í eigu bróður kæranda. Ekkert greiðslumat hafi verið gert á kæranda vegna veðleyfisins og ekkert greiðslumat virðist hafa verið gert á lántaka. Skoða þurfi réttarstöðu kæranda með tilliti til laga um ábyrgðir nr. 32/2009 og dóma um ábyrgðir og/eða veð í fasteign fjölskyldna til þriðja aðila.
Að mati kæranda hafi umboðsmaður skuldara horft fram hjá meginstaðreyndum málsins til að réttlæta ákvörðun sem virtist byggjast á fljótfærni og óöguðum vinnubrögðum. Það sé rétt að kærandi sé ábyrgur fyrir lánum Y ehf. en félagið sé í eigu eiginkonu kæranda. Það lán sem umboðsmaður skuldara geri að umtalsefni hafi upphaflega verið að fjárhæð 100.000.000 króna í erlendum myntum og tekið í ágúst 2007. Umboðsmaður hafi á hinn bóginn litið framhjá því að fyrir umræddu láni séu aðrar tryggingar sem munu greiða það að fullu. Einnig sé mikil óvissa um stöðu lánanna vegna fallinna gengisdóma en lánveitandi hafi boðað endurútreikning þeirra. Engar innheimtuaðgerðir hafi farið fram á hendur kæranda og alls óvíst sé hvort þær fari nokkurn tímann fram. Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara ósanngjarna meðal annars vegna þess að embættið hafi viðurkennt að kærandi hafi haft sterka og góða fjárhagsstöðu þegar lánið hafi verið tekið.
Með vísan til framangreinds telji kærandi miður að umboðsmaður skuldara álíti að hann hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans er hann gekk í ábyrgð á lánum sem ekki hafi verið forsendur til að innheimta.
Kærandi bendi á rangfærslur í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í fyrsta lagi telji umboðsmaður skuldara ábyrgðarskuldbindingar kæranda vera 164.985.436 krónur. Þetta sé ekki rétt fjárhæð þar sem beðið sé endurútreiknings lána frá Íslandsbanka hf. Í framangreindri fjárhæð sé meðtalin ábyrgðarskuldbinding kæranda vegna láns til Z ehf. að fjárhæð 19.475.091 króna en kærandi hafi aldrei gengist í ábyrgð fyrir láninu. Í öðru lagi telji umboðsmaður skuldara að heildarskuldir kæranda séu 93.365.081 króna. Þetta sé langt frá því að vera rétt fjárhæð en raunverulegar skuldir séu mun lægri. Í þriðja lagi fullyrði umboðsmaður að kærandi sé stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Y ehf. Þetta sé rangt. Í fjórða lagi sé í skuldayfirliti umboðsmanns skuldara tvítalin fjárhæð yfirdráttarheimildar við Íslandsbanka hf. Í fimmta lagi sé á sama skuldayfirliti tvívegis tilgreind fjárhæð sömu greiðslukortaskuldar við Íslandsbanka hf. Í sjötta lagi sé skuld kæranda við sýslumanninn í Hafnarfirði ranglega tilgreind á fyrrgreindu skuldayfirliti. Umboðsmaður telji fjárhæðina 1.521.734 krónur en rétt fjárhæð sé rúmlega helmingi lægri.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi tekið lán hjá Sparisjóði Kópavogs (nú Íslandsbanka hf.) 15. ágúst 2007 að jafnvirði 100.000.000 króna í erlendum myntum. Lánið hafi verið tryggt með handveði í hlutum í MP fjárfestingarbanka og Saga Capital fjárfestingarbanka. Félagið Y ehf. hafi yfirtekið skuldina 2. september 2009 og kærandi gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna lánsins en kærandi hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og stofnandi félagsins. Að sögn kæranda hafi lánið upphaflega verið tekið vegna kaupa á hlutabréfum í X hf. en kærandi hafi tekið þátt í stofnun bankans.
Það sé mat umboðsmanns skuldara að fjárfestingar í hlutabréfum feli almennt í sér fjárhagslega áhættu enda geti kaupandi þeirra almennt hvorki gengið út frá því að slík fjárfesting skili hagnaði eða tapi. Þannig geti miklar og ófyrirsjáanlegar sveiflur orðið á verðmæti hlutabréfa bæði vegna þróunar á mörkuðum og gengisbreytinga viðkomandi hlutabréfa. Til þess geti komið að fjárfestingin verði verðlítil eða jafnvel verðlaus. Ýmsir áhættuþættir felist í skuldsettum hlutabréfakaupum, svo sem eftir atvikum þróun lána, til dæmis vegna gengissveiflna gjaldmiðla eða verðbólgu, sveiflur á hlutabréfamörkuðum og gengi félaga sem keypt sé í. Það sé matsatriði í hverju tilviki fyrir sig hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun en í máli kæranda sé ljóst að stærsti hluti ábyrgðarskuldbindinga hans stafi frá hlutabréfakaupum. Telja verði að til þess að unnt sé að líta svo á að hlutabréfakaup hafi samræmst fjárhagsstöðu einstaklings þegar til þeirra var stofnað þurfi fjárhagur viðkomandi að hafa verið þannig að hann hafi mátt við því að tapa að miklu leyti því fé sem hann varði til kaupanna. Þegar ráðist sé í skuldsett kaup á hlutabréfum sé áhættan töluvert meiri en þegar sparnaður sé notaður til kaupanna enda taki kaupandinn við þær aðstæður ekki aðeins áhættuna af því að glata sparifé sínu heldur þurfi arðsemi af fjárfestingunni einnig að standa undir fjármagnskostnaði. Þá verði að telja að kærandi hafi tekið talsverða fjárhagslega áhættu er hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir Y ehf. er félagið yfirtók lánið.
Að mati embættisins sé ekki unnt að horfa fram hjá nefndri ábyrgðarskuldbindingu sem standi í 104.962.459 krónum þrátt fyrir góða fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er hann tók umrætt lán. Óhjákvæmilegt sé því að líta til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þegar ákvörðun í máli hans sé tekin.
Í greinargerð frumvarps til lge. sé tekið fram að lögunum sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vandræðum vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði. Í tilviki kæranda sé ljóst að ábyrgðarskuldbindingar séu mun meiri en persónulegar skuldir. Þá séu ábyrgðarskuldbindingarnar ekki vegna heimilisrekstrar heldur vegna lántöku Z ehf., Y ehf. og hlutabréfakaupa.
Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið sent bréf 24. febrúar 2012 þar sem honum hafi verið tilkynnt um hugsanlega synjun á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í bréfinu hafi bæði verið vísað til persónulegra skulda kæranda og ábyrgðarskuldbindinga. Hafi honum verið gefið tækifæri til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum innan 15 daga frá móttöku bréfsins. Kærandi hafi svarað með bréfi 12. mars 2012. Þar komi fram að heildarskuldir hans séu lægri en fram komi í bréfi embættisins þar sem samkomulag hafi verið gert við Landsbankann en bankinn ætti eftir að leiðrétta skuldastöðu kæranda í bókum sínum. Þá hafi kærandi greint frá því að ábyrgðarskuldbindingar hans séu samkvæmt yfirliti frá Íslandsbanka hf. mun lægri en fram komi í bréfi embættisins. Kærandi hafi bent á að ekki sé rétt að vanskil væru á ábyrgðarskuldbindingum hans hjá Íslandsbanka hf. þar sem annað lánið sé í erlendum myntum og beðið sé leiðréttingar á því í samræmi við gengislánadóma Hæstaréttar. Hitt lánið sé í krónum og ekki á gjalddaga fyrr en í desember 2012. Kærandi taki fram að engar innheimtuaðgerðir hafi farið fram vegna ábyrgðarskuldbindinganna. Tryggingar séu fyrir báðum skuldbindingunum og engin rök fyrir því að bankinn láti reyna á ábyrgð kæranda að svo stöddu. Hann hafi verið fjárhagslega stöndugur þegar hann hafi gengist undir ábyrgðirnar og telji að því fari fjarri að hann hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Af þessu tilefni bendi umboðsmaður skuldara á að þær fjárhæðir sem hann byggi ákvörðun sína á komi beint frá viðkomandi fjármálastofnunum. Ekki sé mögulegt að byggja á öðrum upplýsingum en þeim sem þar komi fram. Telji kærandi þetta rangar fjárhæðir sé honum í lófa lagið að leggja fram gögn því til staðfestingar.
Kærandi hafi gert athugasemdir við að skuldir hans séu tvíteknar í skuldayfirliti, annars vegar skuld vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi og hins vegar skuld vegna kreditkorts, báðar hjá Íslandsbanka. Við skoðun málsins hafi komið í ljós að þetta hafi verið rétt hjá kæranda og biðji embættið afsökunar á því. Þetta hafi þó ekki áhrif á niðurstöðu málsins.
Kærandi geri einnig athugasemdir við fjárhæð kröfu frá sýslumanninum í Hafnarfirði. Hann telji kröfuna í raun mun lægri. Í gögnum málsins liggi fyrir þær upplýsingar frá tollstjóra að skuld kæranda vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda hafi verið 1.521.734 krónur 13. febrúar 2012 þegar gagnaöflun í máli kæranda fór fram. Þó að krafan hafi lækkað síðan hafi það ekki áhrif á niðurstöðu málsins.
Kærandi geri enn fremur athugasemdir við fjárhæðir ábyrgðarskuldbindinga samkvæmt yfirliti embættisins um ábyrgðarskuldbindingar. Hann bendi á að þar sé talin fram ábyrgðarskuldbinding vegna Z ehf. að fjárhæð 19.475.091 króna en hann hafi aldrei gengist í ábyrgð fyrir láni félagsins. Kærandi hafi samkvæmt gögnum málsins veitt veð í fasteign sinni að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu D vegna tryggingarbréfs upphaflega að fjárhæð 12.000.000 króna. Þar sem hann sé veðsali tryggingarbréfsins flokki embættið kröfuna sem ábyrgðarskuldbindingu.
Þá kveði kærandi það rangt sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun að hann sé talinn stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Y ehf. Kærandi hafi verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins frá 20. mars 2007 til 20. ágúst 2012. Þegar félagið hafi tekið yfir lán hjá Íslandsbanka hf. 2. september 2009 hafi kærandi því verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og hafi skráningin verið óbreytt þegar mál kæranda fór til vinnslu hjá embættinu. Það sé þó rétt að þegar ákvörðun var tekin um afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi hann ekki verið skráður í stjórn félagsins. Biðjist embættið velvirðingar á þessu en taki þó fram að eiginkona kæranda hafi tekið við framkvæmdastjórn.
Ekkert þeirra atriða sem kærandi hafi gert athugasemdir við eða upplýsingar frá honum geti breytt ákvörðun embættisins um að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Að öllu ofangreindu virtu og með sérstöku tilliti til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat embættis umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess meðal annars að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði snúið við og greiðsluaðlögun samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Felli kærunefndin synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi leiðir af því að umboðsmanni skuldara ber að taka ákvörðun að nýju enda er það hlutverk umboðsmanns skuldara að veita heimild til greiðsluaðlögunar en ekki kærunefndarinnar. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Ákvörðun umboðsmanns skuldara verður ekki skilin öðruvísi en svo að embættið telji kæranda hafa sýnt af sér framangreinda háttsemi árið 2009 með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni að fjárhæð 100.000.000 króna sem upphaflega var tekið til hlutabréfakaupa. Kærandi var sjálfur skuldari lánsins fram í september 2009 er því var skuldskeytt á félagið Y ehf. Jafnframt því að kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir því.
Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2007 til 2009 en í neðangreindri töflu má sjá skuldir kæranda samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | 2012 | frá | |||
Landsbankinn | 2007 | Lánasamningur | 50.000.000 | 78.460.512 | |
Landsbankinn | 2008 | Yfirdráttur | 5.708.180 | 2008 | |
Arion banki | 2009 | Yfirdráttur | 1.217.540 | 1.319.027 | |
Tollstjóri | 2009 | Opinber gjöld | 1.415.491 | 1.521.734 | 2009 |
Íslandsbanki | Greiðslukort | 1.516.922 | |||
Íslandsbanki | Yfirdráttur | 1.552.898 | |||
Ýmsir | 2011 | Reikningar | 10.550 | 26.881 | 2011 |
Alls | 52.643.581 | 90.106.154 |
Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ábyrgðarskuldbindingar kæranda að höfuðstól, tekjur hans, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:
2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | |
Meðaltekjur* á mánuði (nettó) | 1.511.668 | 2.472.112 | 2.291.168 | 1.726.765 | 1.636.234 | 562.564 |
Eignir alls | 59.974.510 | 169.341.294 | 234.598.095 | 56.201.168 | 49.945.941 | 60.638.382 |
· Fasteignir** | 26.390.000 | 114.185.000 | 85.000.000 | 55.650.000 | 49.400.000 | 58.700.000 |
· Bifreiðir o.fl. | 5.580.000 | 5.022.000 | 500.000 | |||
· Verðbréf og kröfur | 148.545.291 | 560 | 42.619 | |||
· Hlutir í félögum** | 28.004.510 | 50.134.294 | 1.000.035 | 500.035 | 500.035 | 500.035 |
· Bankainnstæður | 52.769 | 51.133 | 45.346 | 895.728 | ||
Skuldir | 43.151.876 | 67.527.887 | 204.463.120 | 147.049.596 | 151.606.153 | 87.758.338 |
Nettóeignastaða | 16.822.634 | 101.813.407 | 30.134.975 | -90.848.428 | -101.660.212 | -27.119.956 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga | 200.000.000 | 200.000.000 | 200.000.000 |
*Samanlagðar nettótekjur kæranda og maka, þ.m.t. fjármagnstekjur og bætur.
**Miðað er við kaupverð fasteignar þar sem það liggur fyrir.
***Skráð hlutabréf eru tilgreind á kaupverði.
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda samkvæmt gögnum málsins eru þessar í krónum:
Kröfuhafi | Útgefið | Tegund | Upphafleg | Fjárhæð | Skuldari |
fjárhæð | 2012 | ||||
Íslandsbanki | 2007 | Skuldabréf | 100.000.000 | 97.489.174 | Y ehf. |
Íslandsbanki | 2007 | Lánasamningur | 100.000.000 | 124.338.830 | Y ehf. |
200.000.000 | 221.828.004 |
Að því er varðar fyrri ábyrgðarskuldbindinguna hér að framan var kærandi upphaflegur skuldari lánsins en tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð í janúar 2009 þegar skuldskeyting var gerð og Y ehf. tók yfir lánið sem skuldari.
Kærandi var einnig upphaflegur skuldari seinni ábyrgðarskuldbindingarinnar en tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð í september 2009 þegar skuldskeyting var gerð og Y ehf. tók yfir lánið sem skuldari. Fram kemur í lánasamningi að láninu hafi verið ráðstafað til að greiða upp yfirdráttarskuld kæranda.
Þá veðsetti kærandi fasteign sína fyrir eftirtöldum skuldbindingum á árunum 2005 og 2007 í krónum:
Kröfuhafi | Útgefið | Eign | Upphafleg | Skuldari |
fjárhæð | ||||
Íslandsbanki | 2005 | B gata nr. 9 | 12.000.000 | Z ehf. |
Íslandsbanki* | 2007 | B gata nr. 9 | 28.000.000 | Y ehf. |
Alls | 40.000.000 |
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í lagaákvæðinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.
Kærandi bendir á háar tekjur sínar á umræddu tímabili. Hann kveður umboðsmann skuldara einnig hafa horft fram hjá því að „aðrar tryggingar“ séu fyrir lánum Y ehf. en þær muni greiða umrætt lán að fullu. Samkvæmt lánasamningi eru handveð í hlutabréfum MP fjárfestingarbanka hf. og Saga Capital fjárfestingarbanka hf. til tryggingar láninu en kærandi hefur ekki lagt fram neitt til stuðnings því að fyrir hendi séu aðrar tryggingar. Við þessar aðstæður telur kærunefndin ekki annað unnt en að miða við framangreindar forsendur og fyrirliggjandi skuldaskjöl.
Samkvæmt gögnum málsins voru eignir kæranda umtalsverðar árið 2007 er hann tókst á hendur skuldbindingar alls að fjárhæð 250.000.000 króna. Var þar í fyrsta lagi um að ræða lánasamning að fjárhæð 50.000.000 króna útgefinn 17. júlí 2007. Í öðru lagi lánasamning útgefinn 5. ágúst 2007 að fjárhæð 100.000.000 króna og í þriðja lagi skuldabréf útgefið 24. október 2007 að fjárhæð 100.000.000 króna. Tvö síðastnefndu lánin voru yfirtekin af Y ehf. árið 2009 með sjálfskuldarábyrgð kæranda. Samkvæmt þessu liggur fyrir að skuldbinding kæranda vegna fyrrnefndra lána stafar frá árinu 2007. Telur kærunefndin því að þegar kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á lánum Y ehf., þar sem hann var áður greiðandi, hafi hann ekki tekist á hendur nýjar skuldbindingar. Hafi hann því ekki hagað fjármálum sínum á þann hátt er greinir í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. á árinu 2009.
Það athugast að í ákvörðun umboðsmanns skuldara er ekki lagt mat á hvort kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á árinu 2007 er hann stofnaði til fyrrgreindra skuldbindinga. Þá hefur heldur ekki verið lagt mat á greiðslugetu, eignastöðu eða skuldir kæranda árið 2007.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að fyrir því væri viðhlítandi lagastoð. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir