Mál nr. 18/2014
Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 21. október 2014 var tekið fyrir mál nr. 18/2014:
Kæra A
á ákvörðun
Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með kæru, dags. 15. september 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 18. júní 2014, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. apríl 2014. Á meðgöngunni þjáðist kærandi af grindargliðnun og leiddi hún til fullrar óvinnufærni þann 11. febrúar 2014. Grindarverkirnir gengu ekki yfir við fæðinguna og við læknisskoðun um sex vikum eftir fæðingu hafði hún ekki jafnað sig af þeim.
Kærandi sótti um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu barns með læknisvottorði, dags. 4. júní 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. júní 2014, þar sem ekki hafi verið ráðið að veikindi móður mætti rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar og hún hafi af þeim völdum verið ófær að annast um barn sitt.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 15. september 2014. Með bréfi, dags. 17. september 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 19. september 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi kveðst hafa verið með meðgöngutengdan sjúkdóm sem hafi haft áhrif fyrir fæðingu barns hennar, í fæðingunni og eftir fæðinguna en það sé ekki hægt að stía í sundur meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Í fæðingunni hafi grind hennar gliðnað enn meira í sundur og því hafi hún verið verri í grindinni eftir fæðinguna. Hún hafi þurft að styðjast við hækjur fyrstu vikurnar eftir fæðinguna til að komast ferða sinna og verið ófær um að sinna barninu án aðstoðar. Hún hafi hvorki getað haldið á barninu standandi né gengið með það milli staða og því hafi hún ekki getað fært barnið á milli staða. Þá hafi hún hvorki getað gefið barninu að drekka né skipt á því nema einhver rétti sér barnið þar sem hún væri í sitjandi stöðu.
III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs
Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vegna málsins er vísað til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 6. gr. laga nr. 136/2011 og 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, þar sem fram komi að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í 5. mgr. 17. gr. laganna komi fram að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Í athugasemdum við 6. gr. laga nr. 136/2011, sem breytt hafi 3. mgr. 17. gr. ffl., komi síðan fram að lagt sé til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði skýrt kveðið á um að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008.
Í samræmi við framangreint hafi það verið skilningur Fæðingarorlofssjóðs að einungis sé átt við þau veikindi móður sem hægt sé að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunni að koma upp síðar og ekki sé hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar svo og veikindi móður sem komi upp á meðgöngu en ekki í fæðingunni sjálfri, jafnvel þó þau haldi áfram eftir fæðingu, falli þá utan umrædds ákvæðis. Jafnframt þurfi veikindin síðan að valda því að móðir sé ófær um að annast um barn sitt í fæðingarorlofinu eigi að geta komið til framlengingar fæðingarorlofs. Hafi þetta til dæmis verið staðfest í úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 7/2014 en atvik þess máls séu sambærileg og í máli kæranda.
Í læknisvottorði, dags. 4. júní 2014, sé að finna lýsingu á veikindum móður á meðgöngunni. Þar komi fram að hún hafi fengið mjög slæma grindargliðnun og hafi verið orðin slæm af verkjum seinnipartinn í október. Hún hafi farið strax í sjúkraþjálfun og meðgöngusund, fengið snúningslak og meðgöngubelti en snarversnað. Kærandi hafi þurft að minnka við sig vinnu og farið í 50% starfshlutfall 29. október 2013. Það hafi þó ekki gengið og hafi hún endað með að reyna að vinna heima þar sem hún hafi ekki getað gengið vegna verkja. Kærandi hafi endað með P-kort þar sem hún hafi í raun ekki getað gengið nema nokkra metra. Hún hafi reynt að vinna heima og minnkað við sig vinnu en ástandið hafi bara versnað og hún hafi þurft að hætta alveg vinnu þann 11. febrúar 2014. Í lýsingu á sjúkdómi móður eftir fæðingu segi: „Fæddi dreng Y. apríl, fæðing gekk vel en grindarverkir gengu ekki yfir. Gat í raun ekki gengið nema með hækjum og gat ekki haldið á barni, þurfti að rétta henni til að gefa brjóst. Gat ekki skipt á barninu. Eiginmaður varð að vera 24/7 með heima til að þetta gengi. Verið í sjúkraþjálfun áfram eftir fæðingu og fer á morgun.“ Læknirinn telji að kærandi eigi rétt á lengingu á fæðingarorlofi vegna þessa alls. Niðurstaða skoðunar er: „Gengur um með vaggandi göngulagi, gleiðspora. Gengur hægt. Auðsjáanlega ekki búin að jafna sig á grindargliðnuninni en mjakast í rétta átt. Getur ekki sett barnið í stól, getur ekki beygt sig.“
Samkvæmt læknisvottorðinu sé óumdeilt að kærandi hafi verið með mjög slæma grindargliðnun á meðgöngunni sem hafi leitt til fullrar óvinnufærni þann 11. febrúar 2014. Vottorðið staðfesti einnig að fæðingin sjálf hafi gengið vel en grindarverkirnir ekki gengið yfir og við læknisskoðun hafi auðsjáanlega komið fram að kærandi væri ekki búin að jafna sig af þeim. Þannig verði ekki séð af læknisvottorðinu að neitt hafi komið upp í fæðingunni sjálfri sem skýrt geti núverandi grindarverki kæranda eða að ástand hennar hafi versnað vegna fæðingarinnar sjálfrar. Að mati Fæðingarorlofssjóðs uppfylli kærandi því ekki skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. um alvarleg veikindi í tengslum við fæðingu. Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf dags. 18. júní 2014.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.
Í 3. mgr. 17. gr. ffl. kemur fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Þá kemur einnig fram að styðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði 17. gr. með vottorði læknis en það sé lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Enn fremur segir að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Með 6. gr. laga nr. 136/2011 var ákvæði 17. gr. ffl. breytt og kveðið á með skýrari hætti að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Kærandi ól barn Y. apríl 2014. Í læknisvottorði B, dags. 4. júní 2014, kemur fram að kærandi hafi fengið mjög slæma grindargliðnun á meðgöngunni og hafi verið óvinnufær frá 11. febrúar 2014. Kærandi hafi farið í sjúkraþjálfun og meðgöngusund en snarversnað. Í læknisvottorðinu segir um sjúkdóm móður eftir fæðingu að grindarverkir hafi ekki gengið yfir og hún hafi ekki getað gengið nema með hækjum. Kærandi hafi verið áfram í sjúkraþjálfun eftir fæðinguna.
Til þess að veikindi veiti heimild til framlengingar fæðingarorlofs þurfa þau tvímælalaust að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í 3. mgr. 17. gr. ffl. Löggjafinn hefur kosið að takmarka heimildir til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda við þau veikindi ein sem rekja má til fæðingarinnar en hefur ekki sett meðgöngutengd veikindi undir sama hatt. Af framangreindu læknisvottorði verður hins vegar ekki séð að mati nefndarinnar að þau veikindi kæranda sem þar eru greind megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar. Með hliðsjón framangreindu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. um rétt til lengingar fæðingarorlofs í tilviki kæranda. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. júní 2014, um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.
Haukur Guðmundsson formaður
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson