Hoppa yfir valmynd

Nr. 300/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 300/2018

Miðvikudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. ágúst 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júlí 2018, á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. júlí 2018, var kæranda tilkynnt um að hún uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkulífeyrisgreiðslum. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi búseta kæranda á Íslandi varað í X ár og að 40 ára búseta á aldursbilinu 16-67 ára veiti fullar bætur. Vegna búsetuskerðingar yrðu bæturnar til kæranda 65,68%. Í fylgiskjali með bréfinu var greiðsluáætlun ársins 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 27. ágúst 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 11. september 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að mál hennar verði endurskoðað, endurútreiknað og útreikningar verði útskýrðir á skiljanlegu tungumáli og bætur verði lagðar inn á íslenska bankareikninginn hennar.

Í kæru kemur fram að kærandi vilji kæra niðurstöður útreikninga Tryggingastofnunar ríkisins. Það sé ekkert gagnsæi og kærandi geti ekki áttað sig á hvað sé rétt. Þá sé kærandi ósátt við að upplýsingar sem hún hafi fengið frá Tryggingastofnun hafi ekki staðist.

Í bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 20. júlí 2018, sé það staðfest að hún hafi fengið samþykktar 65,68% örorkubætur á Íslandi. Fram komi að hún muni fá uppgjör og bætur greiddar í gegnum NAV í Noregi. Hún hafi engar bætur fengið og ekki hafi gengið að fá að vita hvenær hún fái þetta greitt.

Kæranda hafi verið sagt að hún gæti fengið greiddar örorkubætur inn á íslenska bankareikninginn sinn en í fyrrnefndu bréfi fái hún í fyrsta skipti að vita að bæturnar greiðist í gegnum NAV í Noregi. Kærandi lendi í tvöföldu „skriffinnsku“ kerfi sem hún hafi enga stjórn á og ekki sé hægt að fylgjast með hvenær hún fái greiðslur og hver beri ábyrgð á því að hún fái þær í tíma. Þetta hafi skapað mikil fjárhagsleg vandræði fyrir hana.

Örorkubætur frá NAV séu reiknaðar 35%, þ.e. 100% örorkubætur séu því Ísland 65% og Noregur 35%. Eins og kærandi skilji útreikninga Tryggingastofnunar sé miðað við árstekjur, þ.e. tekjur á Íslandi og örorkubætur í Noregi. Kærandi fái þetta ekki til þess að passa. Eins og kærandi skilji þetta dragi Tryggingastofnun frá bætur frá NAV þannig að útkoman sé aldrei 100% hjá Tryggingastofnun. NAV greiði út frá 35% af 100% í Noregi og blandi ekkert af því sem hún fái frá Íslandi.

Kærandi eigi réttindi í Lífeyrissjóði B. Út frá upplýsingum frá Tryggingastofnun og innsendum gögnum til stofnunarinnar hafi kærandi gefið upp að lífeyrissjóðurinn skuli nýta persónuafsláttinn hennar. Það hafi því komið henni á óvart að Tryggingastofnun segi að stofnunin muni nýta hann.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að með kæru, dags. 24. ágúst 2018, kæri kærandi afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um örorkulífeyri, þ.e. grundvöll og fjárhæð bóta. Kærandi tiltaki þó önnur atriði sem varði fremur verklag hjá stofnuninni. Ákveðið hafi verið að fjalla örstutt um þau atriði í greinargerð þessari.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar miðast réttur til örorkulífeyris við þá sem séu á aldrinum 18 til 67 og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Við ákvörðun búsetutíma greiðist örorkulífeyrir í samræmi við sömu reglur og ellilífeyrir, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna, skuli því reikna tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda. Líkt og fram komi í 17. gr. teljist fullur ellilífeyrir einstaklings sem hafi verið búsettur hér á landi að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri búsetutíma að ræða þá greiðist ellilífeyrir/örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutíma.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar skuli greiða þeim tekjutryggingu sem fái greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögunum. Um útreikning á tekjutryggingu gildi 16. gr. og 4. mgr. 18. gr. laganna. Tekjur skerði tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Einnig segi að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laganna skuli skerða tekjutryggingu um 38,35% þeirra tekna uns hún falli niður.

Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Eftirlaun og lífeyrir séu þar á meðal, sbr. A-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Í 3. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um tekjur sem ekki hafi áhrif og örorkulífeyri og tekjutryggingu.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar sé meginreglan sú að allar skattskyldar tekjur hafi áhrif á útreikning bóta, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna, en í 3. og 4. mgr. séu taldar upp ívilnandi undanþágur frá þeirri meginreglu þar sem tilgreint sé hvaða tekjur skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega þrátt fyrir 2. mgr.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skuli tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta sé nánar fjallað í fyrrgreindri reglugerð.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar sé ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga.

Með reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, hafi öðlast gildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004.

Í a) lið, 5. gr. fyrrnefndrar reglugerðar segi:

,,ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki,“

Fjallað sé um örorkulífeyri í 4. kafla reglugerðarinnar. Mismunandi kerfisreglur gildi innan EES, sbr. 44. gr. reglugerðarinnar, nánar tiltekið svokölluð A-löggjöf og B-löggjöf. A-löggjöf sé sú löggjöf sem byggist á örorkubótum óháð lengd trygginga- eða búsetutímabils. B-löggjöf byggist á lengd tryggingartímabila (búsetutímabila) og fjárhæð bóta. Ísland sem og Noregur séu lönd sem falli undir B-löggjöf. Þar sem bæði Ísland og Noregur falli undir B-löggjöf skuli taka tillit til lengdar búsetu í ríkinu og greiða hlutfallslegan lífeyri miðað við þá búsetu. 5. kafli reglugerðarinnar taki á framkvæmd greiðslna og horfi Tryggingastofnun til 52. gr. við útreikning á úthlutun bóta innan EES-svæðisins sem og landslöggjafar.

Upplýsingar frá systurstofnuninni NAV í Noregi hafi borist Tryggingastofnun í maí 2018, meðal annars E204, E205 og E207 umsókn um örorkulífeyri ásamt úrskurði frá NAV E213. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 25. maí 2018, að hún uppfyllti skilyrði örorkumats og matið væri varanlegt. Tryggingastofnun hafi sent kæranda greiðsluáætlun 20. júlí 2018 ásamt upplýsingabréfi. Í því bréfi sé kærandi upplýst um að stofnunin hafi afgreitt umsókn hennar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Þar sem kærandi hafi verið búsett annars staðar sé búsetuhlutfall hennar [65,68]%. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi flutt til C X og eftir búsetu í C hafi kærandi flust búferlum til Noregs. Þá segir einnig í bréfi þessu að NAV hafi gert kröfu í fyrstu greiðslu og verði því uppsafnaður lífeyrir fram til X 2018 greiddur beint til þeirra, nánar tiltekið fyrstu þrjár greiðslurnar (X, X og X 2018). Kærandi hafi óskað eftir að greiðslur frá Tryggingastofnun yrðu lagðar inn á íslenskan reikning og hafi stofnunin lagt inn á reikning kæranda hjá D frá og með X 2018.

Kærandi tilgreini enga upphæð inn á tekjuætlun sína varðandi greiðslur frá íslenskum lífeyrissjóði og greiðsluáætlun kæranda sé því ekki með tekjuupplýsingum þaðan. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi þær upplýsingar ekki legið fyrir fyrr en í X 2018. Tryggingastofnun muni því á næstu dögum keyra saman upplýsingar út frá tekjuáætlun kæranda og staðgreiðsluskrá og muni uppfæra greiðsluáætlun út frá upplýsingum frá lífeyrissjóði sem og að senda á kæranda uppfærða tekjuáætlun. Tryggingastofnun hafi verið að nýta persónuafslátt kæranda 100%. Við yfirferð á kæru þessari hafi Tryggingastofnun séð að kærandi hafi verið búinn að óska eftir að persónuafsláttur yrði nýttur til fulls hjá lífeyrissjóði. Tryggingastofnun vilji því biðjast velvirðingar á þessum mistökum og stofnunin muni setja sig í samband við kæranda á næstu dögum til að fara betur yfir skiptingu á persónuafslætti.

Líkt og fram komi að framan sé kærandi með skerta búsetu þar sem að hún hafi verið búsett erlendis frá X, bæði í C og í Noregi. Kærandi sé með 65,68% greiðslur þar sem að búseta kæranda sé skert út frá búsetu erlendis. Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar miðist réttur til örorkulífeyris við þá sem séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram, eða sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert þegar flutt hafi verið til landsins. Við ákvörðun búsetutíma greiðist örorkulífeyrir í samræmi við sömu reglur og ellilífeyrir, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna, skuli því reikna tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda. Líkt og fram komi í 17. gr. teljist fullur ellilífeyrir einstaklings sem hafi verið búsettur hér á landi að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri búsetutíma að ræða þá greiðist ellilífeyrir/örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutíma. Hlutfallsleg réttindaávinnsla eins og byggt sé á í almannatryggingalögum geri ráð fyrir því að á þeim ævi- og starfstímabilum sem liðið hafi í öðrum ríkjum hafi einstaklingur áunnið sér réttindi með búsetu og/eða iðgjaldagreiðslum í samræmi við fyrirkomulag og löggjöf viðkomandi ríkis og eigi þar rétt.

Kærandi hafi fengið senda greiðsluáætlun X 2018. Þar fái kærandi upplýsingar um mánaðarlegar greiðslur sínar. Greiðslur hafi verið reiknaðar út frá því að kærandi sé ógift og út frá tekjum í Noregi fyrir árið 2018. Líkt og fram komi að framan hafi ekki legið fyrir upplýsingar um lífeyrissjóðstekjur hér á landi á þessum tímapunkti. Þær tekjur sem reiknað sé með í tekjuáætlun X 2018 séu lífeyrissjóðstekjur frá Noregi, nánar tiltekið frá Storebrand og Statens pensjonskassen sem og örorkulífeyrisgreiðslur frá NAV. Þann 1. janúar 2015 hafi tekið gildi nýjar reglur um greiðslur örorkulífeyris í Noregi. Örorkulífeyrir (,,uføretrygd“) sé nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur hafi áður notið hafi verið afnumin. Réttindi einstaklinga sem hafi fengið örorkulífeyri frá NAV fyrir 1. janúar 2015 séu endurreiknuð með tilliti til fyrri greiðslna lífeyris. Lífeyrisgreiðslur NAV skiptist ekki lengur í „grunnpensjon“, „tilleggspensjon“ og eftir atvikum „særtilleggspensjon“ heldur heiti þær nú aðeins ,,uføretrygd“ og sé það reiknað í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þeir sem uppfylli ekki fyrir fram ákveðið lágmark (sem sé breytilegt eftir hjúskaparstöðu og búsetuhlutfalli) fái greitt „minsteytelse“ sem hafi ekki áhrif á bætur Tryggingastofnunar þar sem slík greiðsla sé sambærileg íslenskum grunnlífeyri. Greiðslur kæranda miðist meðal annars við þær tekjur sem hún hafi aflað á vinnumarkaði. Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taki aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur eingöngu búsetulengd hér á landi. Af þeim sökum líti stofnunin svo á að ,,uføretrygd“ frá NAV samsvari greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem hafi annars konar skerðingaráhrif.

Greiðslur frá Noregi hafi áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun en líkt og rakið sé að framan hafi nýjar reglur tekið gildi þann 1. janúar 2015 um greiðslur örorkulífeyris í Noregi. Lagabreytingarnar hafi haft það í för með sér að örorkulífeyrir sé nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur hafi áður notið hafi verið afnumin. Tryggingastofnun telji að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi og telji því að þær skuli skerða tekjutryggingu kæranda. Líkt og rakið hafi verið að framan séu örorkubætur kæranda frá NAV skattlagðar sem launatekjur og reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þar sem tekjurnar séu byggðar á launatekjum skulu þær hafa áhrif á tekjutryggingu kæranda líkt og um væri að ræða greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum og því falli umræddar tekjur ekki undir undantekningarreglur 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Sambærilegt mál hafi farið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. úrskurð nr. 86/2015, úrskurð nr. 107/2016 og úrskurð nr. 188/2018 sem úrskurðarnefnd hafi staðfest.

Tryggingastofnun telji búsetuútreikning kæranda réttan út frá þeim gögnum sem stofnunin hafi en útreikningur sé byggður á E205 frá Noregi og upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla Tryggingastofnunar á örorkulífeyrisgreiðslu frá NAV í Noregi hafi verið réttmæt miðað við fyrirliggjandi gögn.

Út frá framangreindu líti Tryggingastofnun svo á að útreikningur samkvæmt greiðsluáætlun 2018, þ.e. fjárhæð bóta og búseta, sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júlí 2018, á umsókn kæranda um örorkulífeyri. Af kæru verður ráðið að kærandi óski eftir endurskoðun á útreikningi á búsetuhlutfalli hennar á Íslandi og greiðslum til hennar á árinu 2018. Þá óskar kærandi eftir því að greiðslurnar verði lagðar inn á íslenska bankareikninginn hennar.

A. Búsetuhlutfall

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæði 4. mgr. 18. gr. laganna hljóðar svo:

„Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Í 1. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Þá segir meðal annars svo í 2. mgr. 68. gr. laganna:

„Í samningum skv. 1. mgr. má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita.“

Í 71. gr. laganna segir:

„Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð 1) almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar.“

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa var innleidd í íslenskan rétt með 1. gr. reglugerðar nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Í 1. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar segir að þegar lögð hafi verið fram beiðni um úthlutun bóta skuli allar til þess bærar stofnanir ákvarða rétt til bóta samkvæmt sérhverri þeirri löggjöf í aðildarríkjunum sem viðkomandi einstaklingur hefur heyrt undir, nema viðkomandi einstaklingur fari sérstaklega fram á frestun bóta vegna elli samkvæmt löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja. Í 2. mgr. segir að ef hlutaðeigandi einstaklingur fullnægir ekki eða fullnægir ekki lengur skilyrðum sérhverrar þeirrar löggjafar í aðildarríkjunum sem hann hefur heyrt undir skuli stofnanir, sem beita löggjöf þar sem skilyrði eru uppfyllt, ekki taka tillit til tímabila, sem lokið er samkvæmt löggjöf þar sem skilyrði hafa ekki verið uppfyllt eða eru ekki lengur uppfyllt, við útreikninginn í samræmi við a-lið og b-lið 1. mgr. 52. gr., ef það hefur í för með sér lægri bótafjárhæð.

Í 1. mgr. 52. gr. segir eftirfarandi:

„Þar til bær stofnun reiknar fjárhæð þeirra bóta sem skulu greiddar:

a) samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir því aðeins að skilyrðum fyrir bótarétti hafi verið fullnægt eingöngu samkvæmt landslögum (sjálfstæðar bætur)

b) með því að reikna út fræðilega fjárhæð og síðan raunverulega fjárhæð (hlutfallslegar bætur) á eftirfarandi hátt:

i fræðileg fjárhæð bóta jafngildir þeim bótum sem viðkomandi gæti krafist ef öllum trygginga- og/eða búsetutímabilum, sem hann hefur lokið samkvæmt löggjöf hinna aðildarríkjanna, hefði verið lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem stofnunin starfar eftir á þeim degi þegar bótum er úthlutað. Ef fjárhæðin er, samkvæmt þeirri löggjöf, óháð lengd lokinna tímabila skal litið svo á að hún sé fræðilega fjárhæðin,

ii þar til bær stofnun skal síðan ákvarða raunverulega fjárhæð hlutfallslegu bótanna með því að reikna af fræðilegri fjárhæð hlutfallið milli lengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir og heildarlengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöf allra hlutaðeigandi aðildarríkja.“

Samkvæmt framangreindu koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar aðeins til álita þegar um búsetu á Íslandi í að minnsta kosti 40 almanaksár er að ræða frá 16 til 67 ára aldurs. Ef um skemmri búsetu er að ræða greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Aðferðin við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega kemur ekki skýrt fram í lögum. Í framkvæmd hefur útreikningurinn, í tilviki örorkulífeyrisþega sem hafa jafnframt áunnið sér lífeyrisréttindi í öðrum aðildarríkjum EES, tekið mið af því hversu lengi viðkomandi hefur hlutfallslega búið á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Síðan hefur  búsetutíminn frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri verið framreiknaður í sama hlutfalli. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við framangreinda framkvæmd ef fyrir liggur að örorkulífeyrisþeginn fær jafnframt bætur frá öðru EES aðildarríki, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016.

Fyrir liggur að kærandi þiggur örorkulífeyrisgreiðslur frá Noregi. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var kærandi með skráð lögheimili á Íslandi til X en eftir þann tíma hefur hún búið í Noregi og C. Kærandi hefur ekki gert athugasemd við framangreinda lögheimilisskráningu. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins er samanlagður búsetutími kæranda á Íslandi eftir 16 ára aldur X ár, X mánuðir og X dagar. Framreiknaður búsetutími kæranda á Íslandi frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs er samtals X ár. Samanlagt eru búsetuár kæranda hérlendis 26,26 ár. Þar sem full réttindi til örorkulífeyris og tekjutryggingar miðast við 40 ára búsetu er búsetuhlutfall kæranda 65,68% samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur farið yfir útreikninga Tryggingastofnunar og gerir ekki athugasemdir við þá.

Með hliðsjón af framangreindu er fallist á þá niðurstöðu Tryggingastofnunar að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til kæranda skuli vera 65,68%.

B. Greiðslur til kæranda á árinu 2018

Kærandi fékk greiddar ýmsar greiðslur frá Noregi á árinu 2018, þ.e. frá X 2018. Samkvæmt bréfi frá NAV í Noregi, dags. X 2018, fékk kærandi greiddar „uføretrygd“ greiðslur frá stofnuninni að fjárhæð X norskar krónur á mánuði. Samkvæmt bréfi frá Statens Pensjonskasse, dags. X 2018, fékk kærandi greiddar X norskar krónur á mánuði frá þeim. Samkvæmt skjali sem kærandi sendi Tryggingastofnun um greiðslur hennar frá Storebrand fékk hún X norskar krónur á mánuði. Af kæru má ráða að kærandi sé ósátt við að greiðslur til hennar frá NAV í Noregi komi til skerðingar á greiðslum hennar frá Tryggingastofnun.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laganna. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Þá hljóðar 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutrygginguna og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá Noregi séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til tekjutryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af þeim upplýsingum sem koma fram á heimasíðu Statens Pensjonskasse og Storebrand að um sé að ræða atvinnutengda lífeyrissjóði. Ekkert bendir til annars en að um hefðbundnar lífeyrissjóðsgreiðslur sé að ræða. Því er fallist á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að greiðslur frá framangreindum lífeyrissjóðum eigi að skerða tekjutryggingu kæranda, sbr. 2. mgr. 16. gr. og 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. NAV er aftur á móti ekki lífeyrissjóður. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því rétt að taka til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilt að líta á „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2018. Nánar tiltekið snýst ágreiningur málsins um hvort „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum.

Um „uføretrygd“ er fjallað í 12. kafla í lov om folketrygd (LOV-1997-02-28-19). Við mat á því hvort „uføretrygd“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt ákvæðum 12-11 og 12-12 ræðst fjárhæð „uføretrygd“ af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetid“. Með „trygdetid“ er átt við tímabilið sem viðkomandi hefur verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 18. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir einnig til þess að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, er aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræðir skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í forúrskurði dómstólsins í máli nr. C-107/00. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sem grundvöllur útreiknings „uføretrygd“ og örorkulífeyris er mjög ólíkur teljist bæturnar ekki vera sömu tegundar í skilningi EB reglugerðar nr. 883/2004.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ sé ekki alveg sambærilegt örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda ráðast örorkulífeyrisgreiðslurnar einungis af búsetu bótaþega hér á landi en ekki fyrri tekjum líkt og „uføretrygd“. Hins vegar telur úrskurðarnefndin „uføretrygd“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og hann er notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla lov om folketrygd. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar nr. 86/2015, dags. 19. ágúst 2015, féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „uføretrygd“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og að tekjurnar féllu því ekki undir 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Með vísan til þess og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Að mati úrskurðarnefndar skulu því allar greiðslur kæranda frá Noregi, sem eru umfram frítekjumark, skerða greiðslur tekjutryggingar frá Tryggingastofnun um 38,35%, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna örorkulífeyrisþega gagnvart tekjutryggingu á árinu 2018 var 328.800 kr., sbr. i lið, 1. gr. reglugerðar nr. 1190/2017 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2018. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera nánari grein fyrir útreikningum Tryggingastofnunar að svo stöddu, enda hefur endurreikningur og uppgjör vegna greiðslna ársins 2018 ekki farið fram. Kæranda er bent á að verði hún ósátt við ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör vegna greiðslna ársins 2018 getur hún kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

C. Aðferð við greiðslu örorkulífeyris

Í kæru er óskað eftir því að örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun verði lagðar inn á íslenskan bankareikning kæranda. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að örorkulífeyrisgreiðslur vegna X, X og X 2018 hafi verið greiddar til NAV samkvæmt beiðni NAV þar um en að greiðslur frá og með X 2018 hafi verið lagðar inn á íslenskan bankareikning kæranda.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af gögnum málsins að framangreindur ágreiningur varðar aðferð við greiðslu örorkulífeyris en ekki grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta á grundvelli laga um almannatryggingar. Ágreiningsefnið á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kæru, er varðar aðferð við greiðslu örorkulífeyris, vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. júlí 2018 á umsókn kæranda um örorkulífeyri staðfest. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. júlí 2018 á umsókn A, um örorkulífeyri er staðfest. Þeim hluta kæru er varðar aðferð stofnunarinnar við greiðslu örorkulífeyris er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta