Hoppa yfir valmynd

Nr. 116/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 116/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120028

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. desember 2022 kærði […], fd.[…], ríkisborgari Venesúela (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka máls hans til efnismeðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 6. mars 2022. Með umsókn framvísaði kærandi venesúelsku vegabréfi og dvalarleyfisskírteini útgefnu af yfirvöldum í Úrúgvæ með gildistíma til 12. febrúar 2023. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. 25. apríl 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 21. nóvember 2022 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 23. nóvember 2022 og kærði kærandi ákvörðunina 7. desember 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 20. desember 2022. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum um málsmeðferð í máli kæranda frá Útlendingastofnun 8. febrúar 2023 og bárust þær samdægurs.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi gilt dvalarleyfi í Úrúgvæ. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Úrúgvæ ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Úrúgvæ.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar og viðtals síns hjá stofnuninni hvað málsatvik og aðstæður í viðtökuríki varðar. Kærandi vísar til þess að dvalarleyfi hans í Úrúgvæ hafi fallið úr gildi 12. febrúar 2023 auk þess sem vegabréf hans sé þegar útrunnið. Honum sé því ekki heimilt að snúa aftur til Úrúgvæ eftir 12. febrúar 2023 og geti hann ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis þar sem vegabréf hans sé útrunnið.

Kærandi byggir á því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar á grundvelli 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Ljóst sé, með vísan til heimilda og umfjöllunar í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, að almennar aðstæður í Úrúgvæ séu með þeim hætti að íslenska ríkinu sé ekki stætt á því að senda kæranda aftur þangað. Aðgangshindranir valdi því að kærandi hafi ekki aðgang að grunnþjónustu sem sé honum nauðsynleg. Ljóst sé að hann muni áfram búa við ómannúðlegar aðstæður verði hann endursendur til Úrúgvæ, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Kærandi byggir jafnframt á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með endursendingu hans til Úrúgvæ. Langflestar umsóknir ríkisborgara frá Venesúela um alþjóðlega vernd hafi verið afgreiddar með nánast sjálfkrafa veitingu viðbótarverndar hjá stofnuninni sl. mánuði. Mál kæranda hafi hins vegar setið eftir þar sem hann hafi haft vit á því að koma sér snemma frá Venesúela og leitað skjóls frá þeim aðstæðum sem þar séu uppi. Hann hafi verið svo óheppinn að leita skjóls í landi þar sem hann sé hvorki öruggur né geti fengið grunnþjónustu. Það sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að mismuna honum á grundvelli þess og ákvarða honum lakari rétt á þeim grundvelli.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður samkvæmt 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 3 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 6. mars 2022 og voru 6. mars 2023 liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum án þess að hann hefði fengið endanlega niðurstöðu frá stjórnvöldum í máli sínu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 8. febrúar 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd samdægurs. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki tafið mál sitt að nokkru leyti.

Af framangreindum upplýsingum frá Útlendingastofnun má því ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli hans og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að hann verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er ekki tilefni til að taka aðrar málsástæður kæranda til umfjöllunar í máli þessu.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta