Hoppa yfir valmynd

Nr. 369/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 369/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040017

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. apríl 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Danmerkur.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 27. nóvember 2016, ásamt kærustu sinni. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 27. nóvember 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku og Ítalíu. Þann 30. nóvember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 30. nóvember 2016 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 17. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Kærandi kærði ákvörðunina þann 10. apríl 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 28. apríl 2017 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur. Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Danmerkur, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda sem lögð var fyrir Útlendingastofnun kom fram að kærandi eigi von á barni með kærustu sinni og hann hafi greint frá því hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér ef þeim yrði gert að snúa aftur til Danmerkur. Þau búi við stöðugan ótta um að […] muni vinna þeim mein og þá óttist þau einnig að vera send til […]. Í málinu liggi fyrir að heilsufari kæranda sé ábótavant en hann lýsi því að hann sé haldinn kvíða og hræðslu og þjáist af svefnleysi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að það sé mat stofnunarinnar að dönsk stjórnvöld séu fyllilega í stakk búin til að sinna þörfum kæranda hvað varðar heilbrigðisþjónustu og fái það stoð í þeim gögnum og skýrslum sem stofnunin hafi skoðað. Samkvæmt 25. gr. laga um útlendinga skuli fara fram einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tók mið af því við ákvörðun í málinu að kærandi eigi von á barni með kærustu sinni sem sé vissulega í viðkvæmri stöðu en þó verði ekki fallist á að staða kæranda og konu hans sé slík að taka skuli mál þeirra til efnismeðferðar sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat Útlendingastofnunar að í Danmörku séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji ekki fara aftur til Danmerkur því þar sé hann í mikilli hættu. Kærandi eigi von á barni með kærustu sinni og […], sem búi […] í Danmörku, hafi hótað að drepa þau bæði þegar þau hafi frétt af sambandinu. Kærandi, sem hafi fengið synjun á máli sínu í Danmörku, hafi reynt að fá mál sitt endurupptekið á grundvelli breyttra aðstæðna en án árangurs.

Fram hefur komið í málinu að kærasta kæranda hafi verið undir eftirliti fæðingarlæknis á Landspítalanum en hún hafi greinst með sjúkdóminn […]. Sjúkdómurinn tengist […] og áhrif sjúkdómsins á ófætt barn kæranda séu alvarleg […]. Þá hafi kærandi glímt við þunglyndi og kvíða tengdu óöryggi sínu og hótunum frá […]. Andleg heilsa hans hafi farið versnandi eftir að kærasta hans hafi orðið ólétt þar sem honum sé umhugað um öryggi fjölskyldu sinnar og að þau geti verið saman.

Kærandi byggir á því í greinargerð sinni að hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr. laganna sem mæli fyrir um grundvallarregluna um non-refoulement. Þá kveði c-liður 1. mgr. 36. gr. laganna einungis á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu. Verði ekki fallist á að endursending kæranda til Danmerkur brjóti gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, auk annarra sambærilegra ákvæða alþjóðasamninga og íslenskra laga um bann við ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð, byggir kærandi á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Fyrir liggur að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt kærustu sinni og hafa mál þeirra haldist í hendur hjá íslenskum stjórnvöldum. Hún væntir fæðingar og benda gögn málsins ekki til annars en að hann sé faðir barnsins. Samkvæmt úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 368/2017 var ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kærustu kæranda felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn hennar til efnismeðferðar. Byggði sú niðurstaða kærunefndar á m.a. því að maki kæranda sé með […]. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væru líkur á […] sem krefðist náins eftirlits með barninu […]. Barnsmóðir kæranda væri í áhættumæðravernd á Landspítalanum og það væri mat sérfræðilæknis að æskilegt væri að hún fæði barnið á Íslandi og verði í mæðraeftirliti á Landspítalanum. Í ljósi framangreinds ástands hennar og mats lækna taldi kærunefnd að flutningur hennar til Danmerkur gæti haft verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á heilsu hennar og ófædds barns hennar.

Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í málinu, þá sérstaklega með vísan til ástands maka kæranda og ófædds barns þeirra, telur kærunefnd að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Kærunefnd telur því að þrátt fyrir að staðfesting danskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá beri, eins og hér háttar sérstaklega til, að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld enda séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda og fjölskyldu hans.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga skal Útlendingastofnun framkvæma einstaklingsbundna greiningu á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun fór slíkt mat ekki fram á kæranda. Kærunefnd áréttar að Útlendingastofnun ber að framkvæma slíkt mat lögum samkvæmt og gerir athugasemd við þennan ágalla á málsmeðferð stofnunarinnar. Þá telur kærunefnd jafnframt að það væri í betra samræmi við reglur um rannsókn og rökstuðning stjórnvaldsákvarðana ef Útlendingastofnun hefði lagt mat á það hvort kærandi sé í viðkvæmri stöðu með tilliti til fyrirliggjandi gagna í málinu og stöðu kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta