Hoppa yfir valmynd

Mál nr.  6/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 4. desember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 6/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Grindavíkurbæjar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 21. janúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Grindavíkurbæjar, dags. 17. janúar 2013, á beiðni hennar um lán að fjárhæð 300.000 kr.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi flutti úr Grindavíkurbæ í kjölfar skilnaðar við mann sinn. Í kjölfar skemmda á húsnæði hennar vegna myglusvepps flutti kærandi á ný í Grindavíkurbæ. Að sögn hennar hlaust gríðarlegur kostnaður af flutningunum. Kærandi sótti um lán frá Grindavíkurbæ að fjárhæð 300.000 kr. með umsókn, dags. 16. janúar 2013. Félagsmálanefnd Grindavíkur tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. janúar 2013 þar sem umsókninni var synjað með eftirfarandi rökstuðningi:

 

„Sótt er um lán vegna flutningskostnaðar o.fl.

 

Tekjur umsækjanda eru yfir viðmiðunarmörkum reglna um fjárhagaðstoð hjá félagsþjónustu Grindavíkur. Þá falla aðstæður umsækjanda ekki að ákvæðum 25. gr. reglnanna um aðstoð vegna sérstak[r]a fjárhagserfiðleika.

 

Með vísan til framangreinds hafnar félagsmálanefnd umsókninni.“

 

Niðurstaða félagsmálanefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. janúar 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 21. janúar 2013. Með bréfi, dags. 23. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Grindavíkurbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Grindavíkurbæjar barst með bréfi, dags. 11. mars 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 15. mars 2013, var bréf Grindavíkurbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi sótti um lán að fjárhæð 300.000 kr. vegna tímabundinna fjárhagsaerfiðleika í kjölfar skilnaðar. Kærandi hugðist greiða lánið upp að fullu í lok nóvember 2013 þegar hún fengi síðustu greiðslu arfs eftir föður sinn. Kærandi kveðst vera með eitt barn á framfæri sem sé langveikt. Eftir skilnaðinn hafi kærandi flust tímabundið til B og keypt þar hús en fyrrum eiginmaður hennar hafi búið í húsnæði hennar í Grindavík. Kærandi hafi neyðst til að flytjast aftur til Grindavíkur vegna sveppagróðurs í húsnæðinu í B en húsnæðið hafi verið talið ónýtt. Gríðarlegur kostnaður hafi fylgt flutningunum og greiðslur frá Tryggingastofnun að fjárhæð 210.000 kr. auk greiðslu frá lífeyrissjóði að fjárhæð 50.000 kr. hafi ekki náð yfir þann mikla kostnað sem hlotist hafi vegna þessa. Kærandi óskar eftir því að niðurstöðunni verði hnekkt.

 

 

III. Sjónarmið Grindavíkurbæjar

 

Í athugasemdum sveitarfélagsins vegna kærunnar kemur fram að synjun á umsókn kæranda hafi byggst á reglum um fjárhagsaðstoð hjá Grindavíkurbæ frá 14. janúar 2004 ásamt áorðnum breytingum. Í athugasemdunum eru ákvæði 25. gr. reglnanna rakin. Þá tekur sveitarfélagið fram að kærandi hafi sótt um tímabundið lán vegna fjárhagslegra erfiðleika í kjölfar flutninga og skilnaðar. Í viðtali við félagsráðgjafa hafi kærandi upplýst að reikningur að fjárhæð 80.000 kr. vegna flutnings á búslóð hafi ekki verið greiddur. Þá hafi kærandi upplýst að hún þyrfti að lagfæra ýmislegt innanhúss með tilheyrandi kostnaði sem hún hafi ekki getað gert frekari skil á. Með umsókn hafi fylgt greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins, auk yfirlits yfir greiðslur frá lífeyrissjóðum. Samkvæmt framangreindum gögnum hafi heildartekjur umsækjanda á mánuði verið 295.879 kr. en skattskyldar tekjur hennar 188.855 kr. Þá hafi umsókn kæranda fylgt yfirlit yfir stöðu lána og hlaupareiknings. Lögð hafi verið fram gögn um stöðu þriggja lána sem borið hafi með sér að lánin hafi verið í skilum. Þá hafi legið frammi yfirlit hlaupareiknings en samkvæmt því hafi heimild verið 800.000 kr. og ráðstöfun naumlega innan heimildar. Þá hafi komið fram í viðtali við umsækjanda að hún greiddi 20.000 kr. af bílaláni. Kærandi hafi átt tvær fasteignir og eina bifreið. Engin ákvæði séu í reglum Grindavíkurbæjar um fjárhagsaðstoð vegna búferlaflutninga. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi því verið horft til þess hvort unnt væri að beita ákvæðum 25. gr. reglnanna. Fyrir hafi legið að tekjur kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum sem samkvæmt 10. gr. reglnanna hafi verið 128.627 kr. Þá hafi umsækjandi ekki getað gert grein fyrir þörfinni á því að sækja lán umfram flutningskostnað að fjárhæð 80.000 kr. Því hafi ekki verið talin skilyrði til að fallast á umsóknina.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Grindavíkur frá 14. janúar 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Grindavíkurbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 16. janúar 2013, um lán að fjárhæð 300.000 kr.

 

Í upphafi telur úrskurðarnefndin ástæðu til að benda á að í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið skýrt á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda. Ákvörðun sveitarfélagsins í málinu var kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. janúar 2013. Ákvörðuninni fylgdi ekki rökstuðningur sem fullnægir skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga og bar sveitarfélaginu því að leiðbeina aðila máls um heimild til eftirfarandi rökstuðnings. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að tryggja að fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga sé fylgt þegar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins eru ekki rökstuddar.

 

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Kærandi sótti um lán hjá Grindavíkurbæ að fjárhæð 300.000 kr. Félagsmálanefnd Grindavíkur synjaði umsókninni á þeim grundvelli að tekjur kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum reglna um fjárhagaðstoð hjá félagsþjónustu Grindavíkur. Þá hafi aðstæður kæranda ekki fallið að ákvæðum 25. gr. reglnanna. Kærandi kveður gríðarlegan kostnað hafa fylgt flutningum vegna myglusvepps í húsnæði hennar og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði hafi ekki náð yfir kostnaðinn.

 

Í 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Grindavíkur er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika. Kemur þar fram í 1. mgr. að heimilt sé að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna sérstakra fjárhagserfiðleika, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a) staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,

b) fyrir liggi yfirlit starfsmanns félagsþjónustunnar eða Ráðgjafarstofu um fjármál

heimilanna um fjárhagsstöðu umsækjanda,

c) fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins

betra.

 

Í 2. mgr. segir að styrkur komi einungis til álita hafi umsækjandi haft tekjur á eða undir grunnfjárhæð undanfarandi sex mánuði eða lengur. Lán skal ekki veitt ef ljóst er að umsækjandi muni ekki geta staðið undir afborgunum af því, sbr. 3. mgr. 25. gr. Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð vegna greiðsluerfiðleika og til kaupa á nauðsynjum, svo sem gleraugum, fatnaði, heyrnartækjum og öðrum hjálpartækjum sem Tryggingastofnun ríkisins tekur ekki þátt í að greiða, sbr. 4. mgr. 25. gr.

 

Kærandi sótti um lán í janúar 2013. Tekjur kæranda á árinu 2012 voru 2.703.548 kr. Verður því að telja að meðalmánaðartekjur kæranda undanfarandi sex mánuði frá því hún sótti um lán frá sveitarfélaginu hafi því verið 225.296 kr. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar samkvæmt 10. gr. reglnanna er 128.627 kr. Liggur þannig fyrir að tekjur kæranda hafi verið yfir grunnfjárhæð undanfarandi sex mánuði. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 2. mgr. 25. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og átti kærandi því ekki rétt á aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Grindavíkurbæjar, dags.  17. janúar 2013, um synjun á umsókn A, um lán að fjárhæð 300.000 kr. er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta