Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2010

Fimmtudaginn 11. nóvember 2010 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 1/2010:


A

gegn

félagsmálaráði Garðabæjar

og kveðinn upp svohljóðandi 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 7. júlí 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskylduráðs Garðabæjar frá 9. júní 2010 um fjárhagsaðstoð í júní 2010.

 

I. Málavextir.

Kærandi er einstæð móðir drengs sem er fæddur árið 2004. Hún kveðst vera búin að glíma við veikindi og samkvæmt læknisvottorði B, dags. 19. maí 2010, hafði hún verið til rannsóknar vegna verkja í fótum. Þeim rannsóknum væri ekki lokið. Hún hafi verið með endurhæfingarlífeyri sem ljúki í maímánuði 2010. Hún hafi einnig stundað nám sem hafi verið hluti af endurhæfingunni. Í læknisvottorði C, dags. 18. júní 2010, kemur fram að kærandi getur af heilsufarsástæðum ekki unnið erfiðisvinnu en sé vinnufær í léttari verk.

Meðal gagna málins er bréf frá D starfsendurhæfingu, dags. 27. maí 2010 varðandi kæranda. Fram kemur að um sé að ræða samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Salastöð, Vinnumálastofnunar, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Tryggingastofnunar ríkisins. Í bréfinu kemur fram að þátttöku kæranda í verkefninu sé lokið. Hún hafi farið á endurhæfingarlífeyri þann 1. nóvember 2008 til 30. apríl 2010, en samþykkt hafi verið að framlengja greiðslu lífeyris til 31. maí 2010 til þess að gera kæranda kleift að ljúka námi á vorönn 2010, en hún hafi stundað nám í E og stefni að því að ljúka náminu veturinn 2011–2012.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð þann 17. maí 2010. Henni var með bréfi, dags. 19. maí 2010, boðið sumarstarf í atvinnuátaki fyrir ungt fólk í Garðabæ, við gróðursetningu trjáa við Vífilsstaðavatn. Kærandi hringdi samdægurs og afþakkaði starfið með vísan til heilsufarsástæðna, þess að hún væri í sumarskóla og að hún væri einstæð með barn. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var synjað á afgreiðslufundi fjölskyldusviðs Garðabæjar þann 26. maí 2010 með vísan til þess að hún hafði synjað atvinnutilboði. Kærandi skaut ákvörðuninni til fjölskylduráðs Garðabæjar sem fjallaði um erindið þann 9. júní 2010 og bókaði að ekki verði séð að umsækjandi sé, vegna sjúkdóms, ófær um að sinna þeirri sumarvinnu sem henni hafi verið boðin hjá Garðabæ. Afgreiðslu fjölskyldusviðs sé því staðfest og beiðni um fjárhagsaðstoð synjað.

  

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi segist hafa verið á endurhæfingarlífeyri í eitt og hálft ár þar til í maí 2010. Hún hafi verið útskrifuð af D í maílok sem sé eftirfylgd frá Hvítabandinu sem hún hafi verið í vegna þunglyndis og andlegra erfileika auk líkamlegra veikinda. Hún sé að ná sér bæði andlega og líkamlega. Kærandi kveðst vera tekjulaus í júní 2010, en hafi sótt um áframhaldandi örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hún sé í rannsóknum vegna verkja í fótum til margra ára og hryggskriðs í baki. Félagsþjónustan í Garðabær hafi boðið sér vinnu í júní og júlí við garðyrkju í sjö klukkustundir á dag, en sú vinna henti ekki einkum vegna heilsufarsins ein einnig vegna þess að hún er einstæð móðir drengs sem sé í mánaðarfríi í júlí 2010. Kærandi kveðst hafa sótt um atvinnuleysisbætur en það taki tíma og hafi hún því sótt um framfærslu til þess að brúa bilið.

 

III. Sjónarmið fjölskylduráðs Garðabæjar.

Í greinargerð fjölskylduráðs Garðabæjar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála kemur meðal annars fram að fyrir hafi legið upplýsingar um að umsækjandi hefði nokkrum mánuðum fyrir umsókn tekið þátt í „X“ í Z, keppni sem reyni mjög á líkamlegt þrek og styrk þátttakenda. Þann 28. maí 2010 hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Umsóknin hafi verið samþykkt og sé kærandi með 68% bótarétt. Hún hafi því verið skráð í atvinnuleit og þar með vinnufær hjá Vinnumálastofnun um leið og hún hafi synjað vinnu hjá Garðabæ og hafi haldið því fram að hún væri óvinnufær vegna verkja í fótum. Fjallað hafi verið um áfrýjun kæranda á fundi fjölskylduráðs 9. júní 2010. Það hafi verið niðurstaða ráðsins að ekki væri séð af fyrirliggjandi gögnum að umsækjandi væri, vegna sjúkdóms, ófær um að sinna þeirri sumarvinnu er henni hafi verið boðin hjá Garðabæ og hafi afgreiðslu Fjölskyldusviðs frá 26. maí 2010 verið staðfest.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskylduráði Garðabæjar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð fyrir júní mánuð og þar til hún fór að fá greiddar 68% atvinnuleysisbætur.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og félagsþjónustu enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Garðabær hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð, frá 18. janúar 2007. Í 2. gr. reglnanna er að finna almenna tilvísun til fyrrgreindrar 19. gr. laga nr. 40/1991, en í c-lið 20. gr. reglnanna kemur fram að umsókn um fjárhagsaðstoð skuli meðal annars synjað hafi umsækjandi ekki fullnýtt alla möguleika sína til tekjuöflunar, til dæmis með synjun vinnu.

Kærandi afþakkaði sumarstarf við gróðursetningu sem Félagsþjónusta Garðabæjar bauð henni en starfið var liður í atvinnuátaki fyrir ungt fólk í Garðabæ. Vísaði kærandi meðal annars til bágrar heilsu hennar og að hún væri óvinnufær. Ekki liggur fyrir í máli þessu að kærandi hafi verið ófær um að sinna þeirri vinnu sem henni var boðin en hún afþakkaði og hefur kærandi ekki lagt fram læknisvottorð til staðfestingar þess að hún sé óvinnufær. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar frá 9. júní 2010, í máli A, er staðfest.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

                Margrét Gunnlaugsdóttir                                      Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta