Mál nr. 25/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 5. október 2010
í máli nr. 25/2010:
EJS ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 23. september 2010, kærir EJS ehf. ákvörðun Ríkiskaupa í rammasamningsútboði Ríkiskaupa nr. 14883 um hýsingar og rekstrarþjónustu. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:
1. Að innkaupaferli eða samningsgerð á grundvelli útboðsins verði stöðvað um stundarsakir.
2. Að ákvörðun kærða verði ógild að hluta, nánar tiltekið að því leyti að ganga einungis til samninga við þrjá bjóðendur og að kærða verði gert að taka afstöðu til tilboðs kæranda, að teknu tilliti til réttra útreikninga á boðnu afsláttarverði.
3. Að kærði greiði kæranda málskostnað að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, vegna málsins.
4. Að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.
Kærða var kynnt kæran og greinargerð kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun. Með bréfi, dags. 29. september 2010 lét kærði uppi afstöðu sína til framkominnar stöðvunarkröfu.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.
I.
Rammasamningsútboð kærða með örútboðum nr. 14883 varðar tilboð í hýsingar- og rekstrarþjónustu fyrir áskrifendur að rammasamningakerfi Ríkiskaupa á hverjum tíma. Leitað var eftir tilboðum í hefðbundna hýsingarþjónustu, aðgengi að þjónustuborði, viðveru þjónustustarfsmanna, gagnahýsingu, afritunarþjónustu, útstöðvaþjónustu, póstþjónustu, streymun og alrekstur. Leitað var eftir tilboðum frá tveimur flokkum þjónustuaðila, svokölluðum A-flokki, en slíkir aðilar skyldu bjóða þjónustu í öllum þjónustuflokkum, og B-flokki, en slíkir aðilar skyldu veita þjónustu í einum eða fleirum, en ekki öllum flokkum. Kærandi lagði fram tilboð í A-flokki.
Hinn 27. ágúst 2010 tilkynnti kærði bjóðendum að valin hefðu verið tilboð frá þremur aðilum í svokölluðum A-flokki, en kærandi var ekki þar á meðal. Hinn 7. september 2010 tilkynnti kærandi bjóðendum að tilboð frá þessum þremur aðilum í A-flokki hefði verið endanlega samþykkt og að því væri kominn á bindandi samningur milli kærða og þessara aðila.
Kærandi krefst þess að stöðva beri innkaupaferli eða samningsgerð á grundvelli útboðsins um stundarsakir. Kæra kæranda snýr að athugasemdum við skýrleika útboðsgagna ásamt túlkun á tilboði kæranda um framsetningu verðs og samspili verðs og gefinnar afsláttarprósentu í tilboði. Kærði byggir á því að hafna verði kröfu kæranda þar sem kominn sé á bindandi samningur samkvæmt 2. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sem ekki er unnt að breyta eða fella úr gildi, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum.
Af 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007 leiðir hins vegar að eftir að bindandi samningur er kominn á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.
Í málinu liggur fyrir að kominn er á samningur milli kærða og þriggja tilgreindra bjóðenda. Þar sem innkaupaferli og samningsgerð er lokið með gerð bindandi samnings, samkvæmt framlögðum gögnum, brestur lagaheimild til þess að stöðva samningsgerð og þar með taka til skoðunar, í þessum þætti málsins, hvort verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007. Er af þessum sökum ástæðulaust að taka til umfjöllunar röksemdir og málsástæður kæranda sem snúa að meintu broti kærða og verður það gert þegar aðrar kröfur hans verða teknar til umfjöllunar og afstaða kærða til þeirra liggur fyrir.
Ákvörðunarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, EJS ehf., um stöðvun innkaupaferlis eða samningsgerð, vegna útboðs nr. 14883.
Reykjavík, 5. október 2010.
Páll Sigurðsson,
Auður Finnsdóttir,
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík,