Mál nr. 146/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 146/2022
Fimmtudaginn 31. mars 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 10. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála meint brot Vinnumálastofnunar gegn leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. mars 2022 og vísaði til þess að hann hefði fengið rangar upplýsingar frá Vinnumálastofnun í tengslum við umsókn sína um atvinnuleysisbætur sem hefðu leitt til fjártjóns. Eðlilegast væri að úrskurðarnefndin myndi beina þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að stofnunin leiðrétti hlut kæranda.
Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2022, var óskað eftir að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Svar barst frá kæranda 16. mars 2022 þess efnis að ekki væri um eiginlega stjórnvaldsákvörðun að ræða heldur væri hann að kvarta undan málsmeðferð Vinnumálastofnunar, aðallega með tilliti til leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 21. mars 2022, var óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um hvort fyrir lægi ákvörðun í máli kæranda. Svar barst samdægurs þess efnis að kærandi hefði óskað eftir afturvirkum greiðslum atvinnuleysisbóta en engin ákvörðun hefði verið tekin í málinu.
II. Niðurstaða
Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að úrskurðarnefndin skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt gögnum málsins lá ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Að því virtu og í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir