Hoppa yfir valmynd

Nr. 76/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 76/2018

Föstudaginn 25. maí 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 22. febrúar 2018, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 22. nóvember 2017, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. júní 2017, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2017. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 19. júní 2017, á þeirri forsendu að hún félli ekki að skilyrði 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 5. júlí 2017 og staðfesti synjunina. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi velferðarráðs, dags. 22. nóvember 2017, var þeirri beiðni hafnað.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 6. mars 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 27. mars 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. apríl 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 18. apríl 2018 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 4. maí 2018, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. maí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi þurft að hætta í skóla í október 2016 til að annast veikan föður sinn. Kærandi hafi ekki fengið greiddar umönnunarbætur afturvirkt frá Tryggingastofnun ríkisins og því hafi honum verið bent á að sækja um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hann hafi skilað læknisvottorði þar sem fram komi að hann hafi hvorki verið í skóla né atvinnuleit. Kærandi ítrekar að hann hafi þurft að hætta í skóla til að sinna föður sínum.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að samkvæmt 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sé ekki skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn sé lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki sé aðstoð veitt aftur í tímann og skilyrði reglnanna verði að vera uppfyllt allt það tímabil sem sótt sé um. Það hafi verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. reglnanna þar sem hann hafi hvorki verið í atvinnuleit né skilað læknisvottorði sem staðfesti óvinnufærni. Þá hafi ekki legið fyrir að á kæranda hvíldu fjárhagslegar skuldbindingar eða að hann ætti í fjárhagsvandræðum. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2017 hafi því verið synjað.

Reykjavíkurborg vísar til þess að beiðni kæranda um endurupptöku hafi verið hafnað þar sem framangreind ákvörðun um synjun hafi ekki verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar að auki hafi þriggja mánaða frestur til að óska eftir endurupptöku máls, sbr. 2. mgr. 24. gr., verið liðinn.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 22. nóvember 2017, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:1.      ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða2.      íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa      verulega frá því að ákvörðun var tekin.Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hafa ekki komið fram í málinu upplýsingar sem leiða eigi til þess að Reykjavíkurborg skuli taka ákvörðun sína frá 5. júlí 2017 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin á þann veg að réttlætanlegt sé að mál hans verði tekið aftur til meðferðar hjá Reykjavíkurborg, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.   

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 22. nóvember 2017, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta