Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 170/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 170/2022

Fimmtudaginn 7. júlí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. mars 2022, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 16. febrúar 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. mars 2022, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að réttur hans til atvinnuleysistrygginga skerðist að fullu þegar tekið væri tillit til tekna sem kærandi fengi frá lífeyrissjóðum og séreignarsjóði. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. mars 2022. Með bréfi, dags. 11. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 23. maí 2022 og 13. júní 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að úrskurður Vinnumálastofnunar um að hann þéni of mikið til að komast á atvinnuleysisbætur hljóti að vera rangur.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 16. febrúar 2022. Í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur hafi kærandi sagst vera reiðubúinn til að taka starfi frá og með þeim degi. Samhliða umsókn sinni hafi kærandi skráð tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt tekjuáætlun hafi kærandi verið að fá greiðslur frá Tryggingastofnun, Lífeyrissjóði verslunarmanna, Greiðslustofu lífeyrissjóða og fleiri lífeyrissjóðum. Þá hafi kærandi áætlað að hann væri með um 250.000 kr. í fjármagnstekjur á mánuði.

Umsókn kæranda hafi verið afgreidd í lok mars 2022. Með ákvörðun, dags. 24. mars 2022, hafi umsókn kæranda verið hafnað þar sem fyrirséð væri að áætlaðar tekjur kæranda myndu skerða atvinnuleysisbætur hans að fullu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um rétt launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysistrygginga.

Mál þetta varði skerðingu á greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna en höfnun Vinnumálastofnunar byggi á því að tekjur kæranda komi til með að skerða bætur hans að fullu. Kærandi fái reglulegar tekjur frá lífeyrissjóðum, auk tekna frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá áætli kærandi að mánaðarlegar fjármagnstekjur hans nemi 250.000 kr. á mánuði. Vinnumálastofnun beri á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að taka ákvörðun um skerðingu á atvinnuleysistryggingum vegna tekna atvinnuleitenda. Í ákvæðinu segi meðal annars:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Við útreikning á skerðingu Vinnumálastofnunar sé horft til reiknireglu 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem stofnuninni sé gert að framfylgja við skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tekna. Ákvæðið feli í sér að séu samanlagðar tekjur og atvinnuleysisbætur hærri en sem nemi óskertum rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram séu. Þar sem kærandi hafi ekki verið í hlutastarfi sé tryggingarhlutfall hans ekki skert og því yrði enginn munur á atvinnuleysisbótum hans og óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta.

Bótaréttur kæranda sé 100% miðað við framlögð gögn og ætti hann rétt á fullum atvinnuleysisbótum eða 313.729 kr. á mánuði. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga sé 77.223 kr. Samkvæmt greiðsluáætlun kæranda sé hann með 855.696 kr. í tekjur á mánuði. Skerðing til kæranda myndi því nema 389.373 kr. á mánuði. Óskertar atvinnuleysisbætur nemi 313.729 kr. á mánuði. Skerðing sé því meiri en sem nemi rétti kæranda til atvinnuleysisbóta. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga. Því hafi Vinnumálastofnun borið að hafna umsókn kæranda.

Rétt sé að taka fram að samkvæmt vottorði vinnuveitanda kæranda frá B hafi starfstími kæranda þar verið til 31. mars 2022. Kærandi hafi fengið greidd lausnarlaun og orlof til þess tíma. Kærandi hafi því ekki getað talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í febrúar 2022, sbr. g-lið 1. mgr. 14. gr. og 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kærandi fyrst orðið vinnufær 1. apríl 2022 samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. mars 2022, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að réttur hans til atvinnuleysistrygginga skerðist að fullu þegar tekið væri tillit til tekna sem kærandi fengi frá lífeyrissjóðum og séreignarsjóði. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í ákvæði 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 16. febrúar 2022. Samkvæmt gögnum málsins er bótaréttur kæranda 100% og ætti hann þar af leiðandi rétt á fullum atvinnuleysisbótum, eða 313.729 kr. á mánuði. Samkvæmt tekjuáætlun sem kærandi skilaði inn samhliða umsókn sinni um atvinnuleysistryggingar er hann með 855.969 kr. í tekjur á mánuði. Ljóst er að tekjurnar leiða til þess að atvinnuleysisbætur kæranda skerðast að fullu, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. mars 2022, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta