Hoppa yfir valmynd

Nr. 58/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 58/2019

Þriðjudaginn 30. apríl 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 5. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. desember 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 7. nóvember 2018. Með örorkumati, dags. 14. desember 2018, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X til X. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar með tölvupósti 19. desember 2018 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 7. janúar 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. mars 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur en ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún sé ekki sátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar. Kærandi hafi verið í endurhæfingu hjá VIRK þar sem hún hafi verið dugleg að nýta sér þau úrræði sem hafi verið í boði. Heilsa hennar sé enn mjög slæm þó svo að hún sé dugleg að nýta sér það sem hún hafi lært hjá VIRK, bæði hvað varðar hreyfingu og slökun. Frá því í X hafi kærandi verið í X% vinnu sem [...] og samkvæmt skoðun trúnaðarlæknis [...] sé hún einungis metin með X% vinnugetu. Hún vilji gjarnan vinna áfram í álíka starfshlutfalli þar sem vinnan gefi henni mikið andlega en það sé erfitt að lifa á slíku ásamt örorkustyrk.

Heimilislæknir kæranda hafi hvatt hana til að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar þó svo að það sé von um að hún muni skána með tímanum. Kærandi sé ekki sátt við mat VIRK sem hafi ekki sýnt rétta mynd af stöðu hennar. Ráðgjafi hennar hjá VIRK […] hafi einnig verið sammála því að matið hafi verið útfyllt á sérstakan máta en matið hafi samt ekki fengist endurskoðað, þrátt fyrir beiðni um það.

Kærandi geri ekki athugasemd við lækninn sem hafi skoðað hana á vegum Tryggingastofnunar en hún hafi borið sig of vel miðað við líðan. Hún eigi erfitt með að kvarta yfir því hvernig heilsa hennar sé. Hún telji að það hafi litað svolítið hvernig hún hafi svarað spurningum og hvernig hún hafi fyllt út gögn.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 7. nóvember 2018, en henni hafi verið synjað um örorkulífeyri en samþykktur hafi verið örorkustyrkur fyrir tímabilið X til X.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 14. desember 2018 hafi legið fyrir umsókn, dags. 7. nóvember 2018, læknisvottorð B, dags. X 2018, þjónustulokaskýrsla VIRK, móttekin X 2018, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, móttekin X 2018, og skoðunarskýrsla, dags. X 2018.

Í læknisvottorði séu sjúkdómsgreiningar kæranda tilgreindar sem vefjagigt, mjóbaksverkir, streita, ekki flokkuð annars staðar, þunglyndi og þreyta. Varðandi starfsgetu og batahorfur segi að kærandi hafi verið óvinnufær að fullu frá X en óvinnufær að hluta frá X en að búast mætti við að færni myndi aukast með tímanum. Einnig komi fram að hún hafi verið í starfsendurhæfingarprógrammi VIRK í X mánuði en sé nú útskrifuð með talsvert skerta starfsgetu. Kærandi vinni nú X% og telji sig ekki ráða við meira.

Í spurningalista, mótteknum X 2018, hafi kærandi lýst heilsuvanda sínum svo: „Vefjagikt, streita, þunglyndi, kvíði, mjóbaksverkir.“ Varðandi einstaka þætti færniskerðingar hafi kærandi tiltekið í líkamlega hlutanum vandkvæði við að sitja á stól, að standa upp af stól, að beygja sig og krjúpa, að standa, að ganga upp og niður stiga og að lyfta og bera. Einnig hafi hún tilgreint möguleg vandkvæði við að nota hendur og að teygja sig eftir hlutum þótt hún hafi ekki merkt við að hún ætti í erfiðleikum með það. Í andlega hlutanum hafi kærandi tiltekið að hún hafi verið með þunglyndi og kvíða frá X sem hafi ágerst X. Hún sé í ágætis farvegi eins og er en finni þó öðru hvoru fyrir þessu.

Í líkamlega hluta staðalsins í skoðunarskýrslu hafi kærandi fengið þrjú stig fyrir að geta ekki setið nema í eina klukkustund og sjö stig fyrir að geta ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um eða samtals tíu stig. Í andlega hlutanum hafi kærandi fengið tvö stig fyrir að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að hún hafi lagt niður starf, eitt stig fyrir að kvíða því að sjúkleikinn versni við að fara aftur að vinna, eitt stig fyrir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf eða samtals fjögur stig. Þetta nægi ekki til að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli, en kærandi hafi verið talin uppfylla skilyrði um örorkustyrk og hafi hann því verið veittur.

Með tölvupósti 19. desember 2018 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir örorkumatinu sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 7. janúar 2019. Einnig hafi borist nýtt læknisvottorð, dags. X 2019, sem sé samhljóða fyrra vottorði en með athugasemdum við 50% örorkumat. Í framhaldinu hafi með bréfi, dags. 11. janúar 2019, verið óskað eftir gögnum, þ.e. umsókn um örorku og spurningalista. Umsókn hafi ekki borist en spurningalisti hafi verið móttekinn 5. febrúar 2019.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri og samþykkja 50% örorkumat, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. desember 2018, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B dags. X 2018. Þar kemur fram að kærandi sé óvinnufær frá X og að hluta frá X en að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í frekari skýringu á vinnufærni kæranda segir:

„Hún er búin að vera í starfsendurhæfingarprógrammi VIRK í X mánuði og er nú útskrifuð þaðan, enn með talsvert skerta starfsgetu. Vinnur nú X% vinnu og telur sig alls ekki ráða við meira.“

Í vottorðinu segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Vefjagigt

Mjóbaksverkir

Streita, ekki flokkuð annars staðar

Þunglyndi

Þreyta“

Um fyrra heilsufar segir í vottorðinu:

„Almhraust kona, hún eignaðist [...] árið X, […] mikið álag og svefnleysi kringum umönnun [...]. […]

Byrjaði að vinna þegar [...].

Vaxandi streita og þreyta og verkir í stoðkerfinu, og stundum slæmandleg líðan vegna álagsins.

[…]

Gefur góða sögu og gott innsæi.

Hefur tekið þunglyndislyf af einhverju tagi frá árinu X, meira og minna.

[…]“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. X 2019, sem er að mestu samhljóða eldra vottorði ef frá eru taldar eftirfarandi athugasemdir:

„[…] Dugleg kona, og hún vill vinna, og hún hefur metnað til að vinna meira eftir einhver ár, en getur það alls ekki nú þe getur bara unnið X% svo vel fari. […]“

Við örorkumatið lá fyrir þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. X 2018, og segir þar um ástæðu þjónustuloka:

„Starfsendurhæfing fullreynd, fullri virkni ekki náð. Er í hlutastarfi.“

Í mati læknis hjá VIRK segir í skýrslunni um sögu kæranda meðal annars:

“[Kærandi] hefur glímt við vaxandi stoðkerfiseinkenni frá fæðingu [...] og var af þeim sökum óvinnufær í X og fór í greiningarviðtal hjá C X og var þar greind með vefjagigt. Hún fór síðan í endurhæfingu hjá C sem lauk núna á þessu ári og lærði [kærandi] gríðarlega mikið af því. Hún kann núna sín mörk, [...] og hreyfir sig hæfilega og lærði inn á sjálfa sig. [Kærandi] vaknar oft með stoðkerfisverki, bólgin, þreytt og stirð. Hún fór síðan í X% starf X en gafst endanlega upp á vinnu í X. […]

[Kærandi] hefur glímt við þunglyndi frá X og hafa þau einkenni frekar aukist síðust árin og skorar nokkuð hátt á GAD og PHQ í dag. […] Samkvæmt greinargerð sálfræðings í X er sálfræðileg vandamál ekki hindrandi í atvinnuþátttöku. […]

[Kærandi] hefur [...] síðust X árin og hefur það gengið vel og alltaf daglega vinna við það [...].

[…]“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með vefjagigt, streitu, þunglyndi, kvíða og mjóbaksverki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún þreytist mjög fljótt og finni fyrir verkjum og þreytu, hún þurfi að breyta oft um stellingu og standa upp öðru hvoru. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hún getið staðið upp en þurfi helst að styðja sig við hann eða annað til að auðvelda henni að standa upp. Það fari þó eftir dögum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa og rétta sig upp aftur þannig að hún geti ekki kropið nema í neyð. Hún geti beygt sig en ekki í of langan tíma og þurfi að passa sig þegar hún reisi sig upp. Hún finni þá oft verki og stingi í bak og mjaðmir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún eigi ekki gott með að standa lengi, hún fái verki og þreytist fljótt. Hún þurfi að sitja mjög reglulega. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún þreytist mjög fljótt, það taki toll af orkunni sem sé af skornum skammti. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beita höndunum þannig að svo sé almennt ekki en á slæmum dögum sé hún þó með verki í höndum, fingrum og handleggjum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að svo sé almennt ekki. En ef hún þurfi að teygja sig of langt eða á sérstakan hátt hafi hún fengið tak eða verki í mjóbak eða annars staðar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún sé ekki með sterkt bak. Hún hafi fengið brjósklos og nokkrum sinnum útbungun og finni því mjög reglulega til í baki og niður í fót. Því reynist það henni erfitt að lyfta og bera. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna þvaglátum þannig að svo sé ekki nema þegar hún sé með mikinn hósta og kvef, grindarbotnsvöðvar séu yfirspenntir. Hún hafi fengið meðferð við því sem hafi ekki skilað árangri og það hái henni af og til. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi. Nefnir hún þar þunglyndi og kvíða frá X, sem hafi ágerst X, en að þetta sé í ágætis farvegi þótt hún finni öðru hvoru fyrir þessu.

Einnig liggja fyrir svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, móttekin X 2019, en svör kæranda varðandi líkamlega færniskerðingu eru að mestu samhljóða fyrri svörum kæranda. Hvað varðar geðræn vandamál þá nefnir kærandi þunglyndi og kvíða sem hún hafi verið með frá X, hún sé á lyfjum en finni þó fyrir bæði depurð og kvíða inn á milli.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X 2018. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[…] Situr í viðtali í 50 mín án þess að standa upp. Stendur upp úr stól án þess að styðja sig við en aðeins stirðlega. Góðar hreyfingar í öxlum og kemur höndum aftur fyrir hnakka og aftur fyrir bak. Nær í 2 kg lóð frá gólfi án vankvæða en aðeins stirðlega. Heldur á 2 kg lóði með hægri og vinstri hendi án vankvæða. Heldur á smámynnt með hægri og vinstri hendi án vankvæða. Eðlilegt göngulag og gönguhraði. Ekki vandamál við að ganga í stiga og það því‘ekki testað í viðtali.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Tekið þunglyndislyf meira og minna frá X. Man fyrst eftir þunglyndi þegar að hún X ára gömul og hafa einkenni aukist. Var mjög þunglynd og með ofsakvíða X ára gömul þegar hún var [...]. Verið í virk og farið í sálfræðiviðtöl og samkvæmt niðurstöðum hans ætti andleg líðan ekki að hefta vinnuþátttöku. Átt við þunglyndi og kvíða frá því að hún var X.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Vaknar um X koma [...] í skóla [...]. Er með [...] yfir daginn. Sinnir heimilisstörfum. Erfitt með að ryksuga og skúra og taka af rúmum. Auðveldast með þvott og uppþvottavél. Eftir helgi þreytt. Vinnur [...] og [...]. […] Heimilisstörf safnast upp. Hefur mikið minnkað að [...] því það tekur orku. […] Hefur reynt að sinna [...]. […] Lærði margt þegar hún var í C X– X og reynt að deila upp verkefnum og minnka álagið og eitthvað eftir fyrir [...]. […] [...] lítið yfir daginn. Finnst hún hafa nóg að gera og hefur ekki eirð í sér til að gera hluti. Finnst að líkaminn sér yfirspenntur og erfitt að ná ´ser niður. Fer í búðina og kaupir inn. [...]mikið áður fyrr. Áhugamál að [...]. Geir minna af þessu vegna þreytu og verkja en ekki vegna þess að hún hafi ekki áhuga. Ekki að einangra sig [...]. […]“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í eina klukkustund. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til tíu stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til fjögurra stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk tíu stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og fjögur stig úr andlega hlutanum, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. desember 2018 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. desember 2018 um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta