Nr. 90/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 90/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20010023
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 21. janúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2020, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að hún fái útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki kæranda í hjúskap þann 2. nóvember 2018 á Íslandi. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli þess hjúskapar þann 6. desember s.á. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað. Þann 21. janúar sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála og í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 5. febrúar sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 3. febrúar 2020 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, um heimild til synjunar á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hefur hlotið refsidóm á síðustu fimm árum. Fram kom að maki kæranda hefði verið sakfelldur fyrir brot á síðastliðnum fimm árum, en brotin hefðu m.a. falist í líkamsárás sem beinst hefði gegn fyrrum maka hans, sem þá hefði verið gengin 17 vikur á leið, broti gegn valdstjórninni og broti gegn nálgunarbanni. Þá hefði maki kæranda verið sakfelldur fyrir brot gegn blygðunarsemi sem beinst hefði gegn fyrrum kærustu hans. Með vísan til framangreinds væri ljóst að brot maka kæranda væru mörg og beindust að hagsmunum sem nytu refsiverndar á grundvelli XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að synjun á umsókn kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað. Kæranda bæri að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunarinnar. Tekið var fram að ólögmæt dvöl gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð byggir kærandi á því að synjun á dvalarleyfisumsókn hennar feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni, maka hennar og nánustu ættingjum maka. Kveður kærandi að maki hennar hafi snúið við blaðinu frá því að umrædd refsibrot hafi átt sér stað. Hann hafi unnið markvisst að því að ná tökum á [...], [...], hafi ekki brotið af sér síðan [...] og sé í fastri vinnu í dag. Jafnframt vísar kærandi til þess að [...]. Vísar kærandi til fylgigagna máli sínu til stuðnings. [...]. Þá vísar kærandi til þess að hún hafi stundað íslenskunám og hafi lagt mikla áherslu á að aðlagast íslensku samfélagi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Í 70. gr. laganna er fjallað sérstaklega um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga eru dvalarleyfi skv. 70.-72. gr. ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hefur á síðustu fimm árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga nema synjun um dvalarleyfi mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu fjölskyldumeðlimum hans. Í athugasemdum við 69. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:
„Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali, heimilisofbeldi og öðrum alvarlegum brotum og á sér fyrirmynd m.a. í dönskum og norskum lögum. [...] Reynslan hefur sýnt að öðru hverju koma upp tilvik þar sem aðalhvati umsækjanda fyrir að ganga í hjúskap með aðila búsettum hér á landi er að eignast möguleika á bættum lífskjörum fyrir sig og ef til vill börn sín. Í sumum tilvikum verða hinir sömu einstaklingar fórnarlömb ofbeldis og sæta misnotkun á heimilinu. Oftast er þá um að ræða tilvik þar sem umsækjandi er kona en karlkyns maki er búsettur hér á landi. Þegar fyrir liggur vitneskja um að nánasti aðstandandi hér á landi hefur verið dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum þykir ástæða til að ætla að umsækjandi geti vegna þeirra brota verið í sérstakri hættu á að verða sjálfur fyrir ofbeldi eða sæta misnotkun af hálfu aðstandandans. Á hinn bóginn er ljóst að slíkt getur í einstökum tilvikum verið íþyngjandi. Er því lagt til að ákvæðið feli jafnframt í sér þann varnagla að ekki skuli synja umsóknir um dvalarleyfi ef synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim sem brotið framdi eða nánustu ættingjum hans. Við matið verður m.a. að taka mið af því hvers eðlis og hversu alvarlegt brotið er, gegn hverjum það beindist og hvort um ítrekuð brot sé að ræða. Ef brot var ekki alvarlegt, beindist ekki gegn heimilisfólki og hefur ekki verið ítrekað yrði litið svo á að synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu ættingjum hans. Þá verður að gera greinarmun á þeim málum þar sem umsækjandi hefur búið í sínu heimaríki með aðstandanda og þeir vilja flytjast saman til Íslands og þeim tilvikum þar sem einstaklingar með ofbeldisferil vilja stofna nýja fjölskyldu með maka sem þeir hafa ekki búið með áður. Ef um er að ræða sameiningu fjölskyldufólks, sem áður hefur búið saman um nokkurt skeið, mundi skilyrðið um ósanngjarna ráðstöfun oftast vera talið fyrir hendi. Þá þarf að taka mið af því hvort viðkomandi umsækjandi um dvalarleyfi sé eða hafi verið búsettur hér á landi þegar til kynna þeirra var stofnað sem hjúskapur eða sambúð byggist á.“
Kærandi byggir umsókn sína um dvalarleyfi á tengslum við maka sem er íslenskur ríkisborgari. Samkvæmt framangreindu ákvæði er miðað við að fjölskyldumeðlimur hafi hlotið dóm eða sætt öryggisráðstöfun vegna refsibrots gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga sem fjölskyldumeðlimur hefur hlotið á síðustu fimm árum. Verða nú reifuð þau refsibrot sem maki kæranda hefur verið sakfelldur fyrir á síðastliðnum fimm árum.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli [...], var maki kæranda dæmdur til tólf mánaða fangelsisrefsingar, þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára héldi hann almennt skilorð, fyrir brot gegn valdstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, tilraun til brots gegn nálgunarbanni, sbr. 232. gr., sbr. 20. gr. sömu laga, fyrir brot gegn nálgunarbanni, sbr. 232. laganna, og fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. laganna. Fellur síðastnefnd brot kæranda undir þá kafla almennra hegningarlaga sem tilgreindir eru í 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli [...], var maki kæranda dæmdur til 18 mánaða fangelsisrefsingar fyrir húsbrot, sbr. 231. gr. almennra hegningarlaga, eignaspjöll, sbr. 1. mgr. 257. gr. laganna, líkamsárás. sbr. 1. mgr. 217. gr. og fyrir brot gegn nálgunarbanni, sbr. 1. mgr. 232. gr. sömu laga. Voru 17 mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára héldi hann almennt skilorð. Síðastnefnd líkamsárás beindist að verðandi barnsmóður maka kæranda sem var þá gengin 17 vikur á leið. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli [...], var maki kæranda sakfelldur fyrir brot gegn blygðunarsemi og stórfelldar ærumeiðingar, sbr. 209. gr. og 233. gr. b almennra hegningarlaga, en brotin beindust að fyrrum kærustu hans og voru framin á árinu 2016. Fellur fyrrnefnda brotið undir þá kafla almennra hegningarlaga sem tilgreindir eru í 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins áfrýjaði maki kæranda dóminum til Landsréttar sem hefur ekki sett málið á dagskrá.
Að framansögðu virtu er ljóst að maki kæranda hefur á síðustu fimm árum brotið í þrígang gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga. Kemur þá til skoðunar hvort synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð vísar kærandi m.a. til þess að maki hennar hafi snúið við blaðinu frá því að framangreind refsibrot áttu sér stað [...]. Þá hafi kærandi aðstoðað tengdaforeldra sína [...].
Hér áður hafa verið rakin refsibrot kæranda á síðastliðnum fimm árum. Ljóst er að refsibrot kæranda eru ítrekuð og alvarleg, en þau hafa m.a. falið í sér ofbeldi gegn einstaklingum sem hann hefur átt í nánum samböndum við, m.a. barnsmóður sem þá var gengin 17 vikur á leið með tvíbura þeirra. Jafnvel þótt maki kæranda kveðist nú hafa snúið við blaðinu verður að mati kærunefndar ekki horft framhjá því að kærandi hefur gerst sekur um ofbeldis- og blygðunarsemisbrot sem beinst hafa gegn fyrrum mökum. Þá er ljóst af gögnum máls að kærandi var ekki búsett hér á landi þegar til kynna hennar og maka var stofnað. Auk þess má af umsókn ráða að þau hafi ekki búið saman fyrir hjúskap í heimaríki kæranda og því sé ekki um að ræða sameiningu fjölskyldufólks sem áður hafi búið saman um nokkurt skeið heldur sé tilgangurinn að stofna nýja fjölskyldu hér á landi með maka sem þeir hafi ekki búið með áður.
Af lögskýringargögnum með ákvæði 2. mgr. 69. gr. má leiða að tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst að sporna gegn heimilisofbeldi, og öðrum alvarlegum brotum. Með vísan til þess og alls framangreinds er það mat kærunefndar að synjun á umsókn kæranda feli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Hjúskapur kæranda og maka hennar veitir kæranda því ekki rétt til útgáfu dvalarleyfis skv. 70. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Áslaug Magnúsdóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Daníel Isebarn Ágústsson