Hoppa yfir valmynd

Nr. 191/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 191/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040062

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 545/2018, dags. 14. desember 2018, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. október 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Afganistan, um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 17. desember 2018. Þann 24. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar nr. 34/2019, dags. 18. febrúar 2019. Þann 3. apríl 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin.

Í greinargerð kæranda kemur fram að þann 18. desember 2018 hafi kærandi verið nauðungavistaður á bráðaþjónustudeild geðsviðs á Landspítalanum þar sem hann hafi verið metinn í geðrofi með þunglyndi. Hafi kærandi talið sig heyra í syni sínum fyrir utan spítalann og einnig hafi kærandi talað um veru sem fylgt hafi honum og að sögn komið til hans í svefni til þess að kyrkja hann. Á tímabilinu 24. desember 2018 til 7. janúar 2019 hafi kærandi verið metinn í alvarlegri sjálfsvígshættu og hafi hann því verið vistaður á neyðardeild geðsviðs Landspítalans. Sé hann í dag vistaður á bráðaþjónustugeðdeild geðsviðs og sé útskrift hans þaðan ekki talin ráðleg. Vísar kærandi til þess að skv. læknabréfi sérfræðilæknis sé sjúkdómsgreining hans svohljóðandi: „Recurrent depressive disorder, current episode severe with pshychotic symptoms, Adjusment disorders and Myalgia.“

Kærandi telur að um sé að ræða atriði sem skipti miklu máli við úrlausn málsins og nauðsynlegt sé að skoða betur m.t.t. þess að heilsu hans hafi hrakað verulega frá því að úrskurður kærunefndar í máli hans var kveðinn upp. Óljóst sé hvort heilsa hans sé með þeim hætti að hún þoli eða leyfi brottvísun á þessu stigi. Hafa verði í huga að um þvingaða athöfn sé að ræða og brottvísun fari fram í lögreglufylgd. Kærandi telji að skilyrði til endurupptöku á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu því ótvírætt fyrir hendi og telur að það væri andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda veikan einstakling frá landinu, eins og atvikum sé háttað.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og að framan greinir byggir beiðni kæranda um endurupptöku á því að aðstæður í máli hans hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans, en hann hafi verið vistaður á geðdeild Landspítalans síðan í desember 2018.

Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi m.a. fram læknabréfi sérfræðilæknis, dags. 28. febrúar 2019, þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi dvalið á geðdeildum Landspítala tímabilið 18. desember 2018 til 28. febrúar 2019, þar af nauðungarvistaður frá 18. desember 2018 til 7. janúar 2019. Sé sjúkdómsgreining hans endurtekið þunglyndi og lota tengd geðrofseinkennum. Er vísað til þess að kærandi hafi verið nauðungarvistaður á geðdeild Landspítalans 33A þann 18. desember 2018 vegna gruns um geðrof. Hafi kærandi virst áttavilltur og virkað eins og hann sæi ofskynjanir. Þá hafi hann verið metinn í ójafnvægi og í hugsanlegri sjálfsvígsáhættu. Hafi þess vegna verið tekin ákvörðun um að nauðungarvista kæranda til 7. janúar 2019 á bráðaþjónustugeðdeild 32C. Jafnframt hafi verið gerðar breytingar á lyfjaskömmtum kæranda. Var það mat sérfræðilæknis að á því tímabili hafi ástand kæranda batnað umtalsvert og hafi kærandi því verið fluttur á almenna geðdeild 33A þann 7. janúar sl. þar sem hann hafi dvalið sjálfviljugur fram að útskrift frá spítalanum. Við dvöl á almennri geðdeild í janúar og febrúar sl. hafi kærandi ekki virst vera í bráðu geðrofsástandi. Hann hafi hins vegar lýst yfir kvíða, þunglyndi, vonleysi og svefnvandamálum. Þá kemur fram að sérfræðilæknir hafi á þessu tímabili gert breytingar á lyfjaskömmtum kæranda. Síðustu 1-2 vikur á spítalanum hafi kærandi virst vera í minni geðlægð/virkari og í minni þjáningu en áður. Við fyrstu komu á spítalann hafi kærandi kvartað yfir höfuðverk og að vera aumur og dofinn í vinstri handlegg og öxl. Hafi þessi einkenni verið viðvarandi á meðan dvöl hans á spítalanum stóð yfir. Hafi segulómunarmyndir af heila hans verið eðlilegar og rannsókn (e. electroneuromyograpchy) á vinstri handlegg og öxl verið eðlileg. Við útskrift af spítalanum hafi kærandi neitað því að hafa sjálfsvígshugsanir en hann hafi hins vegar enn verið metinn þunglyndur. Þá kemur fram í niðurlagi læknabréfsins að mælt sé með áframhaldandi sjúkraþjálfun og að kærandi hafi átt pantaðan tíma hjá geðlækni á Landspítalanum í mars sl.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 14. desember 2018. Af þeim gögnum sem lágu fyrir við meðferð málsins hjá kærunefnd áður en úrskurður nr. 545/2018 var kveðinn var ljóst að kærandi kvaðst m.a. glíma við hjartavandamál og doða í hendi og öxl. Þá ætti hann við andleg veikindi að stríða, m.a. mikinn kvíða og sjálfsvígshugsanir. Taldi kærunefnd ljóst með vísan til gagna málsins að kærandi hefði um nokkurt skeið verið í meðferð við andlegum veikindum, hann hefði fengið ávísað nokkru magni af lyfjum við þeim veikindum og væri fylgt eftir af geðlækni á Landspítalanum. Var það mat kærunefndar að gögn málsins berðu með sér að kærandi hefði sérþarfir vegna andlegra veikinda, sem taka þyrfti tillit til við meðferð málsins, og var hann því metinn í sérstaklegra viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga var það hins vegar m.a. niðurstaða kærunefndar að heilsufar kæranda væri ekki með þeim hætti að hann teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti væru svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki yrði framhjá þeim litið og því ekki talið að sérstakar ástæður mældu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar. Vísaði kærunefnd til þess að af þeim gögnum sem nefndin hefði kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð yrði ráðið að þeir hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og að kærandi kæmi til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, enda lá fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn að kærandi glímdi við andleg veikindi sem hann þarfnast sérfræðimeðferðar við auk viðeigandi lyfjameðferðar. Kærunefnd telur ný gögn um heilsu kæranda ekki þess eðlis að atvik í málinu hafi breyst verulega frá fyrri niðurstöðu nefndarinnar eða að öðru leyti sé fyrir hendi ástæða til endurupptöku málsins. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Hilmar Magnússon                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta