Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 1/2024, úrskurður 28. ágúst 2024

28. ágúst 2024 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 1/2024.

 

Vegagerðin

gegn

Sigvalda H Ragnarssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Ingvar Smára Birgissyni, lögmanni og varaformanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 15. janúar 2024 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Suðurhrauni 3, 210 Garðabæ (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms í landspildu í landi Langagerðis á Jökuldal, landeignanúmer 156918, undir vegsvæði nýs Jökuldalsvegar.

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþoli er Sigvaldi H Ragnarsson, […]. Hann er eigandi spildunnar að Langagerði, landeignanúmer 156918.

 

Matsandlagið er 30 metra breið landspilda, alls 101.200 fermetrar, undir vegsvæði gegnum land Langagerðis á milli vegstöðva 7075 við Hnjúksá og 10450 við Grjótlæk, að frádregnum 40.500 fermetrum af vegsvæði eldri vegar, eða samtals 60.700 fermetrar. Þá er eru teknir eignarnámi 11.800 rúmmetrar malarefnis úr landi Langagerðis sem nýttir kunna að verða í þágu vegalagningarinnar.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 8. febrúar 2024. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 12 tölusettum fylgiskjölum. Fært var til bókar að matsnefnd féllist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 37. gr. vegalaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, svo og að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málsl. 7. gr. sömu laga. Þá var fært til bókar að ekki væri til staðar ágreiningur um umráðatöku eignarnema. Bókað var að stefnt væri að því að fara á vettvang og kanna aðstæður þegar snjó tæki að leysa með vori og að fundinn yrði tími fyrir vettvangsgöngu og málflutning þegar nær dregi. Var þá eignarnema veittur frestur til þess að skila greinargerð til 29. febrúar 2024.

 

Fimmtudaginn 29. febrúar var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Eignarnemi lagði fram greinargerð og var eignarnámsþola veittur frestur til 28. mars til þess að skila greinargerð.

 

Fyrirhugaðri fyrirtöku þann 28. mars 2024 var frestað með tölvubréfi og fór því fram fyrirtaka þann 8. apríl 2024. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt einu skjali, afrit af samningi um sölu malarefni á vegum eignarnámsþola frá 3. sept. 2019. Eignarnema var veittur frestur til 22. apríl til þess að skila viðbótarathugasemdum.

 

Fyrirhugaðri fyrirtöku þann 22. apríl 2024 var frestað með tölvubréfi og fór fram fyrirtaka þann 29. apríl 2024. Eignarnemi lagði fram viðbótarathugasemdir ásamt þremur skjölum; loftmyndir af landamerkjum Langagerðis, magndreifirit skeringa og fyllinga, og yfirlit yfir skerðingu túna í landi Langagerðis. Eignarnámsþoli lagði fram eitt skjal, samanburðarmyndir af vegsvæði við Langagerði. Var þá eignarnámsþola veittur frestur til 14. maí til að kynna sér viðbótarathugasemdir eignarnema og bregðast við þeim.

 

Þriðjudaginn 14. maí var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Eignarnámsþoli lagði fram viðbótarathugasemdir ásamt einu skjali, yfirlit yfir skeringar og fyllingar við Langagerði. Ákveðið var að vettvangsganga færi fram 25. júní 2024 og í kjölfarið færi fram munnlegur málflutningur á Egilsstöðum.

 

Þriðjudaginn 25. júní 2024 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Að lokinni vettvangsgöngu fór fram málflutningur í húsakynnum Héraðsdóms Austurlands. Við upphaf málflutnings var bókað eftir málsaðilum að ekki væri ágreiningur uppi um að stærð vegstæðisins í landi Langagerðis væri 10,12 hektarar. Þá lagði eignarnámsþoli fram skýrslu vegna vinnu lögmanns hans. Að loknum málflutningi var bókað eftir aðilum að þeir teldu sig ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi. Svo búið var málið tekið til úrskurðar nefndarinnar.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi fer fram á að nefndin meti til peningaverðs bætur vegna matsandlagsins, nánar tilgreindrar spildu úr landi Langagerðis. Þá fer eignarnemi fram á að metnar verði bætur vegna fyllingarefnis, samtals 11.800 rúmmetra, sem nýtt kann að verða í þágu vegarlagningarinnar. Enn fremur verði metnar bætur fyrir skerðingu 2.300 fermetra af túnum og fyrir rask og átroðning.

 

Eignarnemi krefst þess að til grundvallar matinu verði lagt tilboðsbréf Vegagerðarinnar frá 24. ágúst 2023 þar sem boðnar hafi verið bætur að fjárhæð 4.228.500 krónur. Í tilboðsbréfi eignarnema var lagt til grundvallar að hæfilegar bætur fyrir land undir vegsvæði væru 450.000 krónur fyrir hektara eða samtals 2.731.500 krónur. Þá væru hæfilegar bætur vegna rasks á túnum 100 krónur fyrir hvern fermetra, eða samtals 230.000 krónur. Svo væru hæfilegar bætur fyrir hvern rúmmetra af fyllingarefni sem nýtt verður úr skeringum utan 15 metra frá miðju vegar 65 krónur, eða samtals 767.000 krónur. Að endingu væru 500.000 krónur hæfilegar bætur vegna rasks og átroðnings.

 

Eignarnemi telur að fyrrgreindar fjárhæðir séu í samræmi við þær fjárhæðir sem fram hafa komið í úrskurðum nefndarinnar, þar sem um sambærilegt land og aðstöðu sé að ræða, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga frá eldri tíð. Þá séu þau einingarverð bótafjárhæða sem boðin hafi verið þau sömu og eignarnámsþoli hafi samþykkt fyrir jörð sína Arnórsstaði 3 á sama fundi og hann hafnaði þeim sömu einingarverðum vegna jarðarinnar Langagerðis. Eignarnemi telur ekki haldbær rök fyrir því að önnur eða hærri einingaverð eigi að gilda um bætur vegna eignarnáms í landi Langagerðis en á aðliggjandi jörðum. 

 

Eignarnemi vísar til þess að til grundvallar tilboði um bætur vegna Langagerðis hafi legið samningur við eignarnámsþola um land úr jörðinni Arnórsstöðum 3. Þá útskýrir eignarnemi að landverð sem eignarnemi hafi boðið fram við þá samningsgerð hafi byggt á úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 16/2019 og 17/2019 frá árinu 2022. Þó hafi bótafjárhæðin verið lækkað nokkuð með tilliti til þess að vegalengdin frá Arnórsstöðum 3 að næsta þéttbýli, sem væri helsta markaðssvæðið, er a.m.k. helmingi lengri en matsandlagið í þeim úrskurðum. Auk þess sem vegsvæðið í landi Arnórsstaða 3 hafi ekki verið á láglendi, heldur liggi í u.þ.b. 250 metra hæð yfir sjó.  Landfræðilegar aðstæður í Langagerði séu með þeim hætti, að mati eignarnema, að nýtingarmöguleikar séu takmarkaðir og land Langagerðis liggi enn fjær þéttbýli og er í um 300 metra hæð yfir sjó.

Eignarnemi rekur að eignarnámsþoli telji að tilboð eignarnema um verð á hektara lands í 30 metra breiðu vegsvæðinu gegnum land Langagerðis sé of lágt vegna verðmætis þess malarefnis sem á svæðinu sé.  Eignarnemi fullyrðir að engin gögn styðji kröfu eignarnámsþola varðandi magn eða gæði þeirra jarðefna sem kunni að leynast í hinu fyrirhugaða vegsvæði. Málsaðilar hafi náð samkomulagi um verðmæti lands í vegsvæði Jökuldalsvegar í landi Arnórsstaða 3 sem hafi verið 450.000 krónur fyrir hvern hektara lands. Það mat hafi tekið mið af því að mögulega sé einhver hluti þess efnis sem í vegsvæðinu liggur nýtanlegt í þágu vegagerðar, en jafnframt sé ljóst að úr vegsvæðinu geti einnig þurft að fjarlægja jarðefni svo sem moldar- og mýrajarðveg.  Land Arnórsstaða 3 liggi að landi Langagerðis að norðan, en Jökuldalsvegur liggur þvert í gegnum báðar jarðirnar og er eignarnemi nú þegar þinglýstur eigandi 9,33 hektara vegsvæðis í gegnum land Arnórsstaða 3, landeignanúmer 236510. 

 

Eignarnemi rekur að aðstæður séu mjög áþekkar á báðum jörðunum, Langagerði og Arnórsstöðum. Landið halli í vegsvæðinu talsvert niður að farvegi Jökulsár, en þó sé öllu meira undirlendi í landi Langagerðis en Arnórsstaða 3, þannig að líkur bendi til þess að í vegstæðinu í landi Langagerðis sé meira um moldar- og mýrajarðveg en í landi Arnórsstaða 3. Að öðru leyti sé land jarðanna mjög sambærilegt og hafi ekki verið færð haldbær rök fyrir því hvers vegna meta ætti verðmæti lands undir veg í landi Langagerðis hærra en land Arnórsstaða 3.

 

Þá víkur eignarnemi að því að malarefni sem leynast kunni í vegsvæði verði almennt ekki unnið eða numið burt úr vegsvæðinu og notað annars staðar, heldur nýtist það sem undirlag vegarins. Auk þess bendir eignarnemi á að Vegagerðin eigi fyrir 12 metra breiða spildu í vegsvæðinu, en hinn nýi vegur muni liggja nánast algerlega í vegstæði eldri vegar. Svo rekur eignarnemi að jarðefni sem ekki séu frostþolin þurfi að fjarlæga úr vegstæði og aka í það frostfríu efni. Því verði ekki séð, allra síst að órannsökuðu máli, hvert það tjón eigi að vera sem eignarnámsþoli verði fyrir eða hagnaður sem eignarnemi ætti að njóta sem honum bæri að bæta eignarnámsþola í formi hærra matsverðs á landi þótt eitthvert malarefni kunni að leynast í vegsvæði. Vegsvæði hins nýja endurbyggða vegar verði innan veghelgunarsvæðis eldri vegar og því hafi eignarnámsþoli hvort eð er ekki möguleika á því að nýta það malarefni sem þar kynni að finnast. Feli það í sér að nýtingarmöguleikar þess lands sem óskað er mats á eru og hafi verið takmarkaðir, en verðmæti lands hljóti að mati eignarnema að ráðast af nýtingarmöguleikum þess. Vísar svo eignarnemi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 644/2006 og 645/2006 til stuðnings máli sínu. Eignarnemi rökstyður svo að í máli þessu hagi svo til að efnið sem kynni að vera í vegsvæði þess vegar sem fyrir er, verður einnig vegsvæði hins nýja vegar, þar sem veglínan sé sú sama, þ.e. nýi vegurinn er lagður „ofan á“ gamla veginn. Þegar af þessari ástæðu sé önnur nýting efnisins ekki möguleg og efnið verður ekki selt í burtu og getur því ekki kallast auðlind skv. 3. gr tilvitnaðra laga.  Til enn frekari áréttingar er vísað til þess að eignarnemi sé þegar eigandi vegsvæðisins og byggir þann rétt sinn á dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1978, svokölluðum Leirvogstungudómi.

 

Víkur svo eignarnemi að bótum vegna rasks á túnum og rekur að þar sem vegur, vegskeringar eða vegfláar skerða ræktuð tún hafi eignarnemi boðið að skerðingin verði bætt og eru boðnar 100 krónur í bætur fyrir hvern glataðan fermetrum í túnum og sé það sama einingarverð og liggi til grundvallar samningi aðila varðandi Arnórsstaði 3. Jafnframt muni eignarnemi lagfæra og reisa túngirðingar skv. samkomulagi aðila.

 

Eignarnemi telur hæfilegar bætur fyrir fyllingarefni úr vegskeringum utan hins eignarnumda svæðis vera 65 krónur á rúmmetra, en á stöðum þar sem hliðarhalli sé mestur muni vegskeringar geta teygt sig út fyrir hið 30 metra breiða vegsvæði. Eignarnemi rekur að alls óvíst sé hver séu gæði þess efnis sem kunni að verða nýtanlegt til vegagerðar úr vegskeringunum utan 15 metra frá miðlínu vegar, en líkur séu á að efnið sé m.a. moldarblandið en geti þó mögulega nýst til fyllinga utan vegarins sjálfs.  Samkomulag hafi verið með málsaðilum að óflokkað efni úr vegskeringum utan 15 metra frá vegarmiðju í landi Arnórsstaða 3 yrði metið á ætluðu meðalverði 65 krónur á hvern rúmmetra. Það verð hafi verið boðið fyrir sambærilegt efni í landi Langagerðis, en eignarnemi hafi tekið mið af fyrrnefndum úrskurðum nefdarinnar í málum nr. 16/2019 og 17/2019 við samningsgerð um efni úr landi Arnórsstaða 3.

 

Hvað varðar bætur fyrir rask og átroðning rekur eignarnemi að boðnar hafi verið sömu bætur og í landi Arnórsstaða 3, þ.e. eingreiðsla sem nemur 500.000 krónum. Við mat þeirrar fjárhæðar hafi eignarnemi tekið tillit til röskunar og óþæginda á verktíma varðandi aðgengi að landi og aukið umstang við sauðfé í heimahögum vor og haust meðan á vegagerð stendur.

 

Að endingu vísar svo eignarnemi til þess að varðandi eðli þeirra réttinda sem eignarnemi telji sig eiga til 12 metra breiðs vegsvæðis eldri Jökuldalsvegar og liggur innan vegsvæðis hins nýja vegar, sé sem fyrr vísað til  dóms Hæstaréttar í málinu nr. 99/1978, svokallaðs Leirvogstungudóms. Í þeim dómi hafi eignarréttur Vegagerðarinnar á eldra vegsvæði, sem nýtist við lagningu nýs vegar, verið staðfestur á grundvelli hefðarréttar. Hefðarréttur eignarnema til eldra vegsvæðis hafi síðan verið áréttaður í dómum Hæstaréttar nr. 344/2008 og 345/2008. Þá er það álit eignarnemi að það sé verksvið nefndarinnar að kveða upp úrskurði um bætur til handa eignarnámsþola þegar eign hans eða réttindi séu tekin eignarnámi. Ágreiningur um túlkun laga varðandi eignarrétt og hefðarrétt eigi ekki undir nefndina heldur falli slíkur ágreiningur undir verksvið dómstóla. Úr þessu álitaefni hafi verið leyst m.a. í þremur tilvitnuðum dómum Hæstaréttar.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli krefst þess með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnámið nái til svæðis sem er 12 metra ræma, 6 metrar frá miðlínu eldri vegar innan Langagerðis, með sama hætti og annað svæði sem verður hluti nýs vegar, enda mun svæðið ónýtast fyrir eignarnámsþola.

 

Þá krefst eignarnámsþoli þess að eignarnema verði gert að greiða matsþolum fullar bætur vegna eignarnáms í landi jarðarinnar Langagerðis. Nánar tiltekið þannig að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþola 16.150.000 krónur í eignarnámsbætur. Krafa matsþola sundurliðast þannig að eignarnema verði gert að greiða 9.516.000 krónur í bætur vegna lands, 414.000 krónur í bætur vegna rasks á túnum, 4.720.000 krónur vegna efnisnáms og 1.500.000 í bætur vegna rasks o.fl. á framkvæmdatíma. Að endingu krefst eignarnámsþoli þess að eignarnemi greiði kostnað vegna starfa lögmanns í tengslum við málið sem og kostnað vegna annarrar sérfræðivinnu sem fellur til.

 

Eignarnámsþoli byggir á því að land undir vegsvæði sem komi til mats sé 30 metra vegspilda. Að mati eignarnámsþola komi fram verulegur misskilningur í matsbeiðni eignarnema um meginreglur eignarréttar og lagareglur um störf matsnefndar eignarnámsbóta. Með eignarnámsákvörðun eignarnema hyggist eignarnemi stofna til eignarheimildar yfir 30 metra breiðu vegsvæði. Ástæðan sé sú að eignarnemi hafi ekki haft eignarheimild yfir nokkrum hluta þeirrar spildu, jafnvel þótt þar liggi eldri vegur. Ljóst sé að mati eignarnámsþola að eignarnemi hafi haft ótímabundna heimild til notkunar lands undir eldri veg, en ekki eignarheimild. Í matsbeiðni sé hins vegar blandað inn í þessi atriði hvaða reglur gilda um mat á fjárhæð eignarnámsbóta, en fyrir eldra vegsvæði séu ekki greiddar eignarnámsbætur.

 

Eignarnámsþoli telur ljóst að eignarnámi eignarnema sé ætlað að ná til 30 metra breiðrar spildu, þ.m.t. 12 metra beltis, sem eignarnemi ,,telur” sig eiga fyrir.  Eignarnemi hefur ekki, að mati eignarnámsþola, eignarheimild fyrir neinum hluta lands Langagerðis, en landeigandi hafi hins vegar látið land undir veg, skv. eldri lagaheimildum um það efni og vísar eignarnámsþoli til eldri vegalaga nr. 23/1970 og nr. 101/1933. Eignarnámsþoli lítur svo á að þessi afstaða eignarnema virðist hvíla á misskilningi um fordæmisgildi og umfjöllun Hæstaréttar um svokallaðan Leirvogstungudóm frá 1980 í máli nr. 99/1978. Þá telur eignarnámsþoli að fullyrðing eignarnema um að dómar Hæstaréttar nr. 644/2006 og 345/2008 staðfesti hefðarrétt eignarnema á eldra vegsvæði séu alrangar.

 

Eignarnámsþoli rekur svo að ágreiningur málsins varði það m.a. hversu breytt eldra vegsvæði er. Forsögu vegmannvirkja á svæðinu megi lýsa þannig að árið 1947 hafi eldri reiðgötur verið leystar af hólmi með einföldum vegslóða. Á 7. og 8. áratugnum hafi svo farið fram nokkur vegagerð og ýmsir vegkaflar síðar bættir í áföngum. Borin hafi verið möl í veginn og hann heflaður og akbraut hafi smám saman breikkað. Engar greiðslur hafi farið fram til landeigenda nema ef skerðing hafi átt sér stað á túnrækt. Landeigandi hafi því í raun borið þá lagaskyldu að vera skylt að láta af hendi land það sem hafi þurft undir vegi, sbr. ákvæði eldri vegalaga nr. 101/1933 og 23/1970.

 

Eignarnámsþoli telur að álitamálið birtist í þeirri spurningu, hvenær það hafi gerst að eignarnámsþoli hafi lagt 12 metra undir veg. Eignarnámsþoli telur það aldrei hafa gerst, en land hafi verið tekið undir akbraut og eignarnámsþoli hafi haft óbreytt not af aðliggandi svæði.

 

Eignarnámsþoli kveðst alla tíð hafa haft full not af landi meðfram vegi allt upp að akbraut vegarins. Í raun hafi nýting beitar meðfram veginum verið heppileg því þar hafi komið upp gróður snemma á vorin. Enginn munur hafi verið á nýtingu þess lands og annars hluta Langagerðis.

 

Þá vísar eignarnámsþoli til þess að akbrautin hafi upphaflega verið um 3 metrar, en hafi síðar breikkað eftir heflun í 4-5 metra. Þegar kom hafi fram á 21. öld hafi einstaka kaflar með akbraut stækkað í allt að 6 metra. Eignarnámsþoli hafi látið fara yfir loftmyndir frá því um 2000 sem sýni breidd akbrautar og að vegurinn sé í raun almennt innan við 6 metra breiður.

 

Víkur svo eignarnámsþoli að Leirvogstungudóminum sem hafi að mati eignarnámsþola ekki fjallað beinlínis um breidd vegsvæðis. Málið hafi varðað eldri Vesturlandsveg sem hafi verið umfangsmeira vegmannvirki. Dómurinn hafi ekki fordæmisgildi um breidd eldri vegar, þar sem aðstæður séu aðrar. Það er afstaða eignarnámsþola að einungis 6 metra belti falli undan fjárhagslegu mati, sbr. grunnreglu 4. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þannig komi til mats 3 metra belti sitt hvoru megin 6 metra ræmu um miðlínu vegar. Auk þess svæði að 15 metrum frá miðlínu hvoru megin. Svo rekur eignarnámsþoli að í úrskurðum nefndarinnar komi stundum fram að miðað sé við 12 metra breitt svæði vegna eldri vegar og það dregið frá bótum. Verðmæti þess lands sé jafnan minna en nýtt land undir veg. Í mörgum úrskurðum komi forsendur breiddar eldri vegar ekki fram, heldur bara heildarflatarmál. Vegna málsins megi hafa í huga reglur um vegflokkun, en þær hafi breyst. Í lögunum frá 1970 hafi vegir skipst í þjóðvegi og sýsluvegi, en ákvæðið um skyldu til að leggja land undir veg hafi líka átt við um sýsluvegi. Nú sé skilgreining þjóðvega víðtæk og taki m.a. til svokallaðra héraðsvega, sem séi vegir sem liggi að býlum o.fl. Eignarnámsþoli telur að þegar meta eigi að hvaða leyti eldra vegsvæði sé ekki metið þegar breikkun vegar stendur fyrir dyrum, beri nefndinni að meta í hverju tilviki forsögu vegagerðar og umfang eldra vegmannvirkis, til að greina hvaða svæði kemur til mats og hvað ekki.

 

Eignarnámsþoli byggir á því með vísan til 3. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi fái ótímabundin afnot af því svæði sem eignarnámsákvörðun tekur til. Í því felist víðtæk skerðing eignarréttinda landeigenda, sem varðandi bótaákvörðun megi jafna við ráðstöfun beins eignarréttar. Um svæðið gildi sú lögbundna kvöð, sbr. 4. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007, að verði vegur lagður af falli landið aftur til jarðarinnar Langagerðis.

 

Víkur þá eignarnámsþoli að sjónarmiðum um fjárhæð eignarnámsbóta.  Eignarnámsþoli mótmælir því að samþykki hans á bótum sem landeigandi að Arnórsstöðum eigi að hafa nokkur áhrif á mat eignarnámsbóta í máli þessu. Eignarnámsþoli áréttaði í málflutningi að hann hefði samþykkt tilboð eignarnema um eignarnámsbætur vegna Arnórsstaða 3 í því skyni að einfalda ágreining málsaðila. Þannig hefði verið ákveðið að beina ágreiningi vegna einnar jarðar, þ.e. Langagerðis, til nefndarinnar í stað þess að beina ágreiningi vegna fleiri jarða. Þá væri til staðar fyrirvari um endurskoðun bóta vegna eignarnáms í landi Arnórsstaða 3 ef mat nefndarinnar á eignarnámsbótum vegna Langagerðis gæfi tilefni til þess.

 

Eignarnámsþoli rekur að tillaga eignarnema um greiðslu fyrir land hafi upphaflega verið 420.000 krónur á hektara en síðari tillögur eignarnema hafi miðað við 450.000 krónur á hektara. Sú fjárhæð er að mati eignarnámsþola með öllu óraunhæf sé tekið mið af eðlilegu markaðsverði lands, m.t.t. aðstæðna. Í því sambandi vísar eignarnámsþoli til þess að verð á sölu minni landspilda séu önnur en þegar heilar jarðir eru seldar. Horfa beri til verðdæma um sölu á minni spildum í Múlaþingi. Ástæða þessarar verðmyndunar séu margvíslegar, en m.a. að sala á einstökum spildum hefur áhrif á nýtingarmöguleika annars lands sem eigandi á áfram, til framtíðar. Hið eignarnumda svæði sé láglendi Langagerðis og mikilvægt fyrir sauðfjárbúskap eignarnámsþola. Verðgildi lands á svæðinu, og minni landspilda, taki mið af uppbyggingu og miklum tækifærum ferðaþjónustu á svæðinu, einkum vegna nágrennis við Stuðlagil og annarri ferðamennsku meðfram Jökulsá á Dal. Eignarnámsþoli kveðst geta fellt sig við greiðslu á 1.200.000 krónum fyrir hvern hektara, eða 120 krónur á fermetra.  Þá beri einnig að horfa til þess að mikið malarefni sé í landinu, en skeringar munu nýtast vel, þar sem hvorki þurfi að kaupa malarefni sem því nemur né flytja um langan veg. Eignarnámsþoli telur að efni úr vegskeringum innan hins eignarnumda lands eigi að vera verðmetið með þeim hætti að tekið verði tillit til þess við ákvörðun verðs á hvern fermetra.

 

Eignarnámsþoli víkur svo sérstaklega að sjónarmiðum eignarnema hvað landverð varðar. Sjónarmið eignarnema hafi verið að nálægð við veg lækki verðgildi lands. Þessi sjónarmið gæti, að mati eignarnámsþola, ekki að því uppbygging nýs og breiðari vegar hafa áhrif á lækkun verðgildis lands, út fyrir 30 metra vegsvæði. Þegar um breikkun og uppbyggingu vegar er að ræða  verði að meta eignaskerðingu gagnvart eignarnámsþola í heild með tilliti til þess. Ef það er rétt að land næst veginum hafi nú þegar lækkað að verðgildi, er ljóst að breikkun og uppbygging vegarins, muni verðfella land fyrir utan nýja vegsvæðið enn frekar, þ.e. verðfellingin nái lengra frá veginum. Með öðrum orðum:

 

Ef landræma sem nú er tekin undir vegsvæði er verðfelld vegna nálægðar við veg og afsalað til eignarnema, þá verður leggja mat á það belti sem liggur sitt hvoru megin við veginn og lækkar að verðgildi, enda ljóst að vegsvæði og vegur er breikkaður. Vegur er byggður upp og hann gerður frekar áberandi. Þetta hefur í raun í för með sér verðlækkun aðliggjandi lands, en getur einnig endurspeglast í söluverði/matsverði þeirrar spildu sem eignarnemi fái.

 

Eignarnámsþoli telur að ef almenn verðlækkun á landi verði ekki metin inn í verð á eignarnámsspildu, skuli verðlækkun á landi umhverfis hinn uppbyggða veg metin sérstaklega. Ljóst sé að vegur muni takmarka nýtingarmöguleika og hafa neikvæð áhrif á aðra nýtingu á belti sem er um 100 metra frá miðlínu vegar til hvorrar handar. Eðlilegt að slíkt svæði sé bætt m.v. 10-15% af grunnverði lands á svæðinu. Eignarnámsþoli vísar til úrskurðarframkvæmdar matsnefndar eignarnámsbóta varðandi flutningskerfi raforku í þessu sambandi.

 

Eignarnámsþoli vísar jafnframt til úrskurða um eignarnámsbætur við Hornafjörð, t.d. matsmál nr. 8/2019. Þar var verð á hektara ákveðið 600.000 krónur, þ.e. m.v. verðlag ársins 2019. Eignarnámsþoli rekur að röksemdir nefndarinnar í því máli hafi m.a. verið:

 

Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis austan Hornafjarðarfljóts nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna.

 

Vegna stöðu lands Langagerðis bendir eignarnámsþoli sérstaklega á að nágrenni landsins við ferðamannastaðinn Stuðlagil og ferðamennsku sem tengist farvegi Jökulsár á Dal. Gestafjöldi við Stuðlagil árið 2022 hafi verið um 140.000 og 200.000 á árinu 2023. Þá tekur eignarnámsþoli fram að hann vinni nú að uppbyggingu á ferðaþjónustu vegna stöðu Stuðlagils, en uppbygging hefur verið á fleiri jörðum í nágrenni gilsins. Samkvæmt skipulagsákvörðunum sé t.a.m. gert ráð fyrir 100 herbergja hóteli á jörðinni Grund.

 

Eignarnámsþoli byggir á því að verð fyrir túnsvæði skuli vera sama verð og almennt land að viðbættum ræktunarkostnaði. Ræktunarkostnaður geti verið allt að 600.000 krónur á hektara með hliðsjón af upplýsingum um frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Ræktunarkostnaður komi því til viðbótar við grunnverð lands. Þá beri að líta til þess að ræktunarkostnaður og ræktunarmöguleikar séu takmarkaðir við Langagerði og á svæðinu í heild. Túnrækt sé kostnaðarsöm enda séu ekki til staðar samliggjandi svæði.

 

Eignarnámsþoli byggir á því að efnisnám á svæðinu sé afar hagkvæmt fyrir eignarnema. Samkvæmt fyrirspurnum um efnisverð á Fljótsdalshéraði, þyki sýnt að efni af þeim gæðum sem nýtist í burðarlags- og klæðningarefni sé nokkuð hærra en tilboð eignarnema miðar við.  Kæmi efnistaka ekki til greina úr námum í Langagerði þyrfti að kaupa efni á forsendum almenns markaðsverðs á Fljótsdalshéraði. Eignarnámsþoli krefst þess að greiðsla fyrir malarefni verði 400 krónur á rúmmetra. Verðið taki mið af fyrri sölu eignarnámsþola á malarefni, í tengslum við framkvæmdir við flutningskerfi raforku á vegum Landsnets á árinu 2019-2020 og hafi fjárhæð verið uppreiknuð miðað við verðlag. Landsnet hafi gert fjölda samninga miðaða við sama verð frá Kröflu að  Fljótsdalsheiði, þ.m.t. við landeigendur Reykjahlíðar og fasteignir í eigu sveitarfélagsins Múlaþings.

 

Þá vísar eignarnámsþoli til þess að við skoðun málsins hafi hann aflað upplýsinga um verð á malarefni í námum á Fljótsdalshéraði:

 

  • Þórsnes – innan við Egilsstaði.Líklega um 300-400 krónur á rúmmetra.
  • Mýnes – Náma200-300 krónur á rúmmetra.
  • Efni úr Selhöfða. Verð um 300-400 krónur á rúmmetra.

 

Einnig vísar eignarnámsþoli til efnisnáms á Jökulsáreyrum og að sveitarfélagið Múlaþing hafi námu á Eyvindarárdal. Eignarnámsþoli telur að vegna malarnáms beri að hafa í huga að verð úr malarnámum taki mið af því að landeigandi hafi ákveðið að hefja landnot með efnisnámi. Í tilviki eignarnámsákvarðana hafi landeigandi ekki ákveðið slíkt og staðsetning efnisnáma sé ákveðin út frá hagsmunum eignarnema.

 

Eignarnámsþoli byggir á því að fyrirhugaðar framkvæmdir munu leiða til mikils rasks og óhagræðis á starfsemi á jörðinni en jörðin Langagerði sé nýtt til sauðfjárbúskapar eignarnámsþola á Hákonarstöðum. Í því sambandi vísar eignarnámsþoli til þess að allt land upp að akbraut hafi verið notað til beitar og fé getað gengið um veginn enda beitarsvæði beggja vegna vegar og ekki veggirðingar á svæðinu. Þá hafi vegur verið notaður til fjárrekstra. Eignarnámsþoli telur að  beit við vegsvæði muni raskast á framkvæmdatíma og til framtíðar. Þá muni breikkun og uppbyggingu auka hraðakstur á veginum og fyrirsjáanlega verði keyrt á gripi og bregðast þurfi við því með aukinni vinnu. Á framkvæmdatíma muni girðingar í beitarhólfum og túnum opnast og fyrirsjáanleg verði aukin vinna vegna þess, eða hreinlega að ekki verði unnt að nota beitarhólf. Á framkvæmdatíma muni verða truflun og rask á beit búfjár og aukin vinna við rekstur búfjár. Þá þyki sýnt að framkvæmdin muni breyta þeirri nýtingu sem verið hefur á landi eignarnámsþola og kalla á viðbótarvinnu vegna ýmissa þátta.

 

Eignarnámsþoli byggir á því að þegar meta þurfi bætur vegna rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma og til framtíðar verði að líta til þess hvaða mótvægisaðgerðir eignarnemi hafi samþykkt. Þá rekur eignarnámsþoli að samþykkt hafi verið að ekki verði ráðist í að girða veginn í heild, heldur aðeins lagfæra núverandi girðingar. Þó muni frágangur veghólka að mörgu leyti draga úr óhagræði, enda staðfesti eignarnemi það fyrirkomulag. Að mati eignarnámsþoli beri bætur fyrir rask og óhagræði taka nokkuð mið af áætlaðri aukavinnu og kostnaði við aðlögun af uppbyggingu nýs vegar, sem koma muni fram á næstu árum. Krefst eignarnámsþoli 1.500.000 króna í bætur vegna þessa liðar.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildu eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmdar við endurbyggingu og breikkun á Jökuldalsvegi á Austurlandi. Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að bæta samgöngur og umferðaröryggi í Jökuldalnum, en umferð um svæðið hefur aukist umtalsvert eftir að Stuðlagil varð eftirsóttur ferðamannastaður. Samkvæmt mælingum eignarnema fara um 700 bílar um Jökulsdalsveg daglega á sumrin og hafi núverandi Jökulsdalsvegur ekki verið hannaður með tilliti til þess bílafjölda sem um hann fer í dag. Ráðgert er að vegsvæði Jökuldalsvegar verði 30 metrar á breidd eftir breytingarnar, eða 15 metrar frá miðlínu til hvorrar handar. Þá verði leyfður hámarkshraði 90 km./klst. en er í dag 80 km./klst. Með yfirlýsingu dagsettri 29. ágúst 2023 heimilaði eignarnámsþoli eignarnema að hefja framkvæmdir og taka umráð umrædds svæðis og að taka malarefni til vegargerðar á nánar afmörkuðu svæði í landi jarðarinnar í samráði við eignarnámsþola.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- og markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin hefur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2024 og kynnti sér aðstæður ásamt aðilum málsins og fulltrúum þeirra. Samkvæmt matsbeiðni og fylgigögnum tekur eignarnámið til 30 metra breiðrar spildu, samtals 3,375 km. langri, undir vegsvæði nýs Jökuldalsvegar er liggja mun í gegnum land Langagerðis. Heildarflatarmál spildunnar er 101.200 fermetrar eða 10,12 hektarar en eignarnemi kveðst þar af eiga 40.500 fermetra eða 4,05 hektara sem komi til frádráttar í mati nefndarinnar. Um er að ræða eldri Jökuldalsveg sem eignarnemi telur sig hafa eignast á grundvelli hefðar og taki því eignarnámið til 60.700 fermetra eða 6,07 hektara. Vettvangsathugun á landi Langagerðis leiddi í ljós að matsandlagið liggur að verulegu leyti í hlíð en er nokkuð gróið og að hluta til ræktað land. Ræktað land er af skornum skammti í landi Langagerðis og fer því nokkurt hlutfall af því ræktaða landi sem er til staðar fyrir undir hinn nýja veg.

 

Fyrir matsnefnd er uppi ágreiningur um stærð matsandlagsins og hvor aðila fari með eignarétt yfir eldra vegsvæði Jökuldalsvegar. Eignarnemi telur sér til eignar á grundvelli hefðar vegsvæði eldri vegar og krefst þess að það verði dregið frá stærð matsandlagsins við útreikning bóta en eignarnámsþoli hefur mótmælt því og telur m.a. skilyrði hefðarhalds ekki uppfyllt. Með vísan til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta 2. mars 2023 í málum nr. 2/2022 og 3/2022 er það álit matsnefndar að lögum samkvæmt sé verkefni matsnefndar bundið við eignarnám í landi í þágu þeirrar framkvæmdar sem er tilefni eignarnáms, sem hér varðar endurbyggingu og breikkun á Jökuldalsvegi. Það er ekki hluti af verksviði nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um hvernig eignarrétti sé háttað. Verður því við það miðað að matsandlagið sé 60.700 fermetrar að stærð eins og byggt er á af hálfu eignarnema. Með sömu rökum kemur ekki til skoðunar í máli þessu að beita úrræði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 að kröfu eignarnámsþola og láta eignarnámið ná til eldra vegsvæðis Jökuldalsvegar.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að til staðar sé virkur markaður um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum nefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir landspilduna sem fer undir nýtt vegsvæði Jökuldalsvegar, samtals 60.700 fermetrar. Tilboð eignarnema, að fjárhæð 4.228.500 krónur, er reist á úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 16/2019 og 17/2019. Þá kemur fram í málatilbúnaði eignarnema að tilboðið sé lækkað nokkuð með vísan til landfræðilegra aðstæðna og fjarlægðar Langagerðis frá þéttbýli. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 45 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Það geri ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggi á, 120 krónur á fermetra. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi 52 krónur á fermetra eða 520.000 krónum á hektara. Það er einnig álit matsnefndar að eignarnámsþoli eigi rétt til viðbótargreiðslu sem nefndin telur hæfilega vera 100 krónur á fermetra vegna þess hluta matsandlagsins sem telst til ræktaðs lands, sem samkvæmt málatilbúnaði eignarnema eru samtals 2.300 fermetrar. Fyrir 60.700 fermetra spildu í landi Langagerðis auk viðbótargreiðslu fyrir 2.300 fermetra ræktaðs landa þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 3.386.400 krónur (60.700 fermetrar x 52 krónur + 2.300 fermetrar x 100 krónur).

 

Í öðru lagi kemur til álita fyrir matsnefndinni hverjar bætur eignarnámsþola beri vegna fyrirhugaðrar töku jarðefna til framkvæmdanna innan landamerkja Langagerðis, þ.e. 11.800 rúmmetrar af malarefni. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 65 krónur fyrir rúmmetra af malarefni, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti efnisins. Það geri ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggi á, 400 krónur fyrir rúmmetra malarefnis. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti fyllingarefnis nemi 60 krónum á rúmmetra og verðmæti styrktarlagsefnis 135 krónum á rúmmetra. Að svo stöddu er alls óvíst hve stórt hlutfall af því malarefni sem nýtt verður til vegagerðarinnar muni teljast til fyllingarefnis annars vegar og styrktarlagsefnis hins vegar. Að framangreindu virtu telur matsnefndin hæfilegar áætlaðar bætur vegna efnistöku í landi eignarnámsþola vera 100 krónur á rúmmetra eða samtals 1.180.000 krónur (11.800 x 100). Þá er það álit matsnefndar, eins og atvikum er háttað, að ekki komi til sérstakar bætur fyrir efnistöku úr skeringum innan hins eignarnumda svæðis, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 345/2008 frá 8. október 2009.

 

Í þriðja lagi er það álit nefnarinnar að eignarnámsþoli verði fyrir tjóni sem til komi af völdum rasks og ónæðis í tengslum við framkvæmdirnar á Jökuldalsvegi í landi Langagerðis, þá sérstaklega í tengslum við sauðfjárbúskap eignarnámsþola. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur.

 

Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola vera samtals 5.166.400 krónur (3.386.400 + 1.180.000 + 600.000).

 

Að þessu öllu virtu skal eignarnemi greiða eignarnámsþola 2.000.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði. Þá skal eignarnemi greiða 2.400.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða eignarnámsþola, Sigvalda H Ragnarssyni, 5.166.400 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og 2.000.000 krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Þá skal eignarnemi greiða 2.400.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

 

 

Ingvar Smári Birgisson

 

 

 

Gústaf Vífilsson                                                                               Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta