Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 4/2021

Miðvikudaginn 19. maí 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. janúar 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. nóvember 2020 á umsókn kæranda um hálfan ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 16. október 2020, sótti kærandi um ellilífeyri frá x 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. nóvember 2020, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði um að vera virkur á vinnumarkaði með 1% til 50% starfshlutfall. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með tölvupósti 24. nóvember 2020 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. desember 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. janúar 2021. Með bréfi, dags. 5. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 15. janúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi kæri ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á umsókn hans um 50% ellilífeyri á grundvelli þess að hann sé ekki á vinnumarkaði. Augljóst sé að kærandi sé og vilji vera á vinnumarkaði en aðstæður í þjóðfélaginu valdi því að enga vinnu sé að fá. Við þessar aðstæður í þjóðfélaginu njóti kærandi þeirra trygginga sem hann hafi greitt í atvinnubótasjóð í 50 ár.

Kærandi hafi sótt um 50% ellilífeyri til Tryggingastofnunar 16. október 2020 og skilað inn umbeðnum gögnum/upplýsingum. Til þess að eiga rétt á hálfum ellilífeyri þurfi umsækjandi í fyrsta lagi að uppfylla það skilyrði að vera 65 ára eða eldri. Kærandi hafi orðið 65 ára x 2020. Í öðru lagi þurfi umsækjandi að vera í hlutastarfi, þó ekki í hærra starfshlutfalli en 50%. Kærandi hafi lagt fram ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2020. Niðurstaða Vinnumálastofnunar hafi verið sú að samþykkja umsókn um atvinnuleysisbætur og útreiknaður bótaréttur verið ákvarðaður 49% frá 1. júlí 2020. Bent sé á að þetta sé í fyrsta skipti sem kærandi hafi farið á bætur. Í þriðja lagi þurfi umsækjandi að vera búinn að sækja um hálfan lífeyri frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Umbeðnar upplýsingar hafi verið sendar Tryggingastofnun. Lífeyrissjóðirnir hafi staðfest hálfan lífeyri og hafið greiðslu lífeyris til kæranda.

Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda með bréfi, dags. 19. nóvember 2020. Í bréfinu segi: „Umsókn þinni er synjað þar sem þú uppfyllir ekki ofangreint skilyrði um starfshlutfall. Heimild til að greiða hálfan áunninn ellilífeyri samkvæmt 4. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 er bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfyllir þú ekki það skilyrði.“

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn um hálfan ellilífeyri, dags. 19. nóvember 2020.

Með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, hafi umsókn kæranda um hálfan ellilífeyri verið synjað þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera starfandi á vinnumarkaði. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi og hann verið veittur 9. desember 2020. 

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs.  Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Í 4. mgr. 17. gr. sé fjallað um heimild til töku hálfs ellilífeyris. Þar segi:

„Heimilt er að greiða hálfan áunninn ellilífeyri samkvæmt lögum þessum frá 65 ára aldri til þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafa fengið samþykki viðkomandi sjóða til að taka hálfan lífeyri hjá þeim og fresta töku lífeyris að hálfu. Skilyrði um samþykki viðkomandi sjóða á þó einungis við um þá lífeyrissjóði sem heimila greiðslu lífeyris að hluta. Heimild þessi er enn fremur bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.“

Í reglugerð nr. 1195/2017, með síðari breytingum, segi í 2. mgr. 5. gr. að heimild samkvæmt 1. mgr. sé bundin því skilyrði að allir skyldubundnir lífeyrissjóðir þar sem umsækjandi hafi áunnið sér réttindi og heimili greiðslur lífeyris að hluta, hafi samþykkt sama fyrirkomulag og staðfest að greiðslur hefjist. Þá sé heimildin bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.

Kærandi hafi sótt um hálfan ellilífeyri með rafrænni umsókn 16. október 2020. Ýmis gögn hafi fylgt umsókn, meðal annars staðfesting frá Vinnumálastofnun um að kærandi hefði 49% bótarétt hjá stofnuninni. Ljóst sé af innsendum gögnum að kærandi sé ekki starfandi á vinnumarkaði í skilningi 4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1195/2017.

Ákvæði um að umsækjendur um hálfan lífeyri þurfi að vera starfandi á vinnumarkaði sé nýtilkomið. Fram að gildistöku laga nr. 75/2020 hafi ekki verið gerð krafa um að umsækjendur væru á vinnumarkaði. Með þeim lögum og breytingareglugerð nr. 843/2020 hafi lögum og reglum þeim sem gildi um málaflokkinn verið breytt á þann hátt að ákvæði 4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sem og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar, séu í dag skýr og afdráttarlaus varðandi það að umsækjandi um hálfan ellilífeyri þurfi að vera starfandi á vinnumarkaði.

Ekki sé neinn vafi á því að ætlun löggjafans hafi verið sú að breyta lögunum á þann hátt að sett yrði skýr og afdráttarlaus krafa um að umsækjendur um hálfan lífeyri væru starfandi á vinnumarkaði.

Um breytingarnar segi meðal annars í frumvarpinu sem hafi orðið að lögum nr. 75/2020 að „í e-lið er lagt til að heimild til töku hálfs lífeyris verði bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en sé þó ekki í meira en hálfu starfi. Er þannig gert ráð fyrir að áfram verði til staðar tengsl viðkomandi við vinnumarkaðinn en það þykir samrýmast betur upphaflegum tilgangi úrræðisins að starfssamband sé fyrir hendi. Einnig þykir það samræmast megintilgangi úrræðisins að auðvelda einstaklingum að vera lengur á vinnumarkaði þegar að lífeyrisaldri kemur. Er þar af leiðandi gert ráð fyrir að heimildin verði bundin því skilyrði að einstaklingur sé enn í starfi en að hámarki í 50% starfshlutfalli“

Í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar Alþingis um þetta tiltekna atriði segi meðal annars að meirihlutinn „áréttar að mikilvægt er að festa hámarksstarfshlutfall og að tilgangur hálfs lífeyris er að koma að helmingi til móts við þá sem lækka starfshlutfall sitt. Eðlilegt er því að festa það við 50% eða helming starfs. Með því er dregið verulega úr áhrifum þess að tekjur dragast saman við starfslok, einstaklingar á ellilífeyrisaldri geta starfað lengur en ella og fá sveigjanlegri starfslok. 50% starfshlutfall er einnig í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með lögum nr. 28/2018, sem veittu sjóðfélaga heimild til að hefja töku hálfs ellilífeyris hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð að því skilyrði uppfylltu að hann sé ekki í meira en hálfu starfi.“

Eins og farið hafi verið yfir sé ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 og eigi því ekki rétt á hálfum ellilífeyri. Ekki sé hægt að líta svo á að sú staðreynd að kærandi njóti greiðslna atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun sé sambærilegt því að vera starfandi á vinnumarkaði.

Orðalag ákvæðisins sé skýrt og afdráttarlaust, en þar segi að „heimild þessi er enn fremur bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.“ Þetta orðalag ákvæðisins sé í fullu samræmi við orðalag frumvarpsins sem hafi orðið að lögum nr. 75/2020.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til þess að endurskoða fyrri ákvörðun sína.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. nóvember 2020, þar sem umsókn kæranda um hálfan ellilífeyri var synjað.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem hafi náð 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla laganna, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Þá segir í 4. mgr. 17. gr. laganna:

„Heimilt er að greiða hálfan áunninn ellilífeyri samkvæmt lögum þessum frá 65 ára aldri til þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafa fengið samþykki viðkomandi sjóða til að taka hálfan lífeyri hjá þeim og fresta töku lífeyris að hálfu. Skilyrði um samþykki viðkomandi sjóða á þó einungis við um þá lífeyrissjóði sem heimila greiðslu lífeyris að hluta. Heimild þessi er enn fremur bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.“

Sambærilegt ákvæði er í 5. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar.

Skilyrði 3. málsl. 4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar um að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði kom inn með lögum nr. 75/2020 um breytingar á lögum um almannatryggingar sem tóku gildi 1. september 2020. Um breytingarnar segir meðal annars svo í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna:

„Í e-lið er lagt til að heimild til töku hálfs lífeyris verði bundin því skilyrði að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði en sé þó ekki í meira en hálfu starfi. Er þannig gert ráð fyrir að áfram verði til staðar tengsl viðkomandi við vinnumarkaðinn en það þykir samrýmast betur upphaflegum tilgangi úrræðisins að starfssamband sé fyrir hendi. Einnig þykir það samræmast megintilgangi úrræðisins að auðvelda einstaklingum að vera lengur á vinnumarkaði þegar að lífeyrisaldri kemur. Er þar af leiðandi gert ráð fyrir að heimildin verði bundin því skilyrði að einstaklingur sé enn í starfi en að hámarki í 50% starfshlutfalli. Er það einnig í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, sbr. lög nr. 28/2018. Í frumvarpinu er ekki gerð tillaga um ákveðið lágmarksstarfshlutfall en gert er ráð fyrir því að ef um mjög lágt starfshlutfall eða mjög lág laun er að ræða muni Tryggingastofnun ríkisins meta það í hverju tilfelli hvort skilyrðinu um atvinnuþátttöku og starfshlutfall viðkomandi sé fullnægt. Sama gildir um sjálfstæða atvinnurekendur og verktaka sem taka t.d. að sér tímabundin verkefni. Við mat á því hvort ætla megi að starfshlutfall viðkomandi einstaklings sé innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er unnt að líta til fyrri atvinnutekna eða reiknaðs endurgjalds, t.d. undanfarin þrjú ár, sem ættu að geta gefið vísbendingu um hvert starfshlutfall viðkomandi er og hvort skilyrði laganna um að starfshlutfall sé að hámarki 50% sé uppfyllt. Rétt er að vekja athygli á því að ekki er lagt til að þetta skilyrði eigi við ef einstaklingur kýs að hefja töku ellilífeyris að fullu við 65 ára aldur heldur eingöngu þegar um töku hálfs lífeyris er að ræða með áframhaldandi vinnu.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af ákvæði 3. málsl. 4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar að það sé skilyrði fyrir greiðslum hálfs ellilífeyris að umsækjandi sé enn á vinnumarkaði. Hvorki verður ráðið af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum að heimilt sé að víkja frá framangreindu skilyrði. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi er ekki á vinnumarkaði heldur þiggur hann 49% atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði fyrir greiðslum hálfs ellilífeyris.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um hálfan ellilífeyri staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um hálfan ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta