Hoppa yfir valmynd

Nr. 110/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 110/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19010042 og KNU19010043

Kæra […],

[…]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. janúar 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 21. og 24. janúar 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir A), […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir B) og […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir C) um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. júní 2018. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum, þann 10. og 11. júní 2018, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Þann 19. júlí 2018 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 6. september 2018, kom fram að kærendum hefði verið veitt viðbótarvernd þann 20. september 2017 og væru með gilt dvalarleyfi í Grikklandi til 20. september 2020. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 14. nóvember 2018, ásamt löglærðum talsmönnum sínum. Útlendingastofnun ákvað 21. og 24. janúar 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum 29. janúar 2019 og kærðu kærendur ákvarðanirnar þann sama dag til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 8. febrúar 2019 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust frá kærendum þann 6. mars 2019 og þá bárust frekari gögn þann 20. mars 2019.

Í greinargerð óskuðu kærendur eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendum hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Grikklands.Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A, B og C kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri best borgið með því að fylgja foreldrum sínum til Grikklands.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er vísað til endurrita af viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun þar sem fram komi að kærendur hafi flúið heimaríki árið 2010 og verið í ólöglegri dvöl í þorpi […] til ársins 2016 þegar þau hafi flúið til Grikklands. Þar komi fram lýsing kærenda á aðstæðum og aðbúnaði þeirra í flóttamannabúðum í Grikklandi. Þau hafi búið í gámum, mikið hafi verið um rottugang og kakkalakka og þá hafi rifrildi og slagsmál átt sér stað milli íbúa í búðunum. Þá komi fram að kærendur hafi dvalið í búðunum eftir að þau hafi hlotið viðbótarvernd og þangað til að þau hafi yfirgefið landið. Kærendur kveða að þau hafi átt von á því að vera vísað úr búðunum auk þess sem þau hafi óttast að missa fjárhagslega aðstoð frá Sameinuðu þjóðunum þar sem hvorugt sé í boði fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd. Í greinargerð kemur fram að K sé barnshafandi. Kveður K að hún hafi átt möguleika á að leita til læknis í Grikklandi þegar hún hafi eignast C þar í landi, farið í meðgöngueftirlit og fengið vítamín sér að kostnaðarlausu. Fjölskyldan hafi þó ekki getað fengið önnur lyf afhent án þess að greiða fyrir þau. Þá kemur fram að fæðing C hafi verið K afar erfið og að í læknisskoðun sem hún hafi gengist undir í kjölfar fæðingarinnar hafi m.a. komið í ljós að hægra nýra hennar hafi ekki virkað. Þá gera kærendur nánari grein fyrir heilsu sinni og barna sinna í greinargerð.

Í greinargerð kærenda koma fram athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra. Í fyrsta lagi gera kærendur athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um réttindi þeirra í Grikklandi. Kærendur telji að umfjöllun um horfur þeirra í Grikklandi bendi til þess að við úrvinnslu málsins hafi Útlendingastofnun ekki gert fyllilegan greinarmun á þeim réttindum sem umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum séu tryggð lögum samkvæmt og hvort réttindin séu í raun virt í framkvæmd. Þá vísa kærendur til heimilda um bágar aðstæður flóttafólks í Grikklandi sem kærendur kveði að beri með sér að öryggi barna þar í landi sé ekki tryggt. Í öðru lagi gera kærendur athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í málum þeirra, einkum þá fullyrðingu stofnunarinnar að misræmis hafi gætt í frásögn kærenda og að ekki yrði annað ráðið af frásögn þeirra en að kærendur hafi reynt að slá ryki í augu fulltrúa Útlendingastofnunar með misvísandi upplýsingum um þá þjónustu og þann aðbúnað sem þau hafi búið við í Grikklandi. Kærendur telja að svör þeirra bendi þvert á móti til þess að þau hafi fengið litlar sem engar upplýsingar um réttindi sín þar í landi. Þá mótmæli kærendur því sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun um að frásögn K bendi til þess að hún hafi fengið alla nauðsynlega aðstoð vegna þungunar sinnar í Grikklandi. Í þriðja lagi gera kærendur athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á stöðu þeirra. Kærendur hafi greint frá mikilli líkamlegri og andlegri vanlíðan, auk þess sem M sé þolandi pyndinga. K hafi greint frá einkennum líkamlegrar og andlegrar vanlíðanar, þ. á m. köfnunartilfinningu, verkjum, uppköstum, skapsveiflum, grátköstum og miklum áhyggjum. Þá kveði K að hún glími við nýrna- og skjaldkirtilsvandamál. Kærendur vekja auk þess athygli á ítrekuðum athugasemdum í komunótum varðandi mikilvægi þess að fjölskyldan hljóti sérstakan stuðning með tilliti til barnanna. Í fjórða og síðasta lagi gera kærendur athugasemd við að í reglugerð nr. 540/2017 sé að finna viðmið varðandi sérstakar ástæður sem séu mun þrengri en þau sem kveðið sé á um í athugasemdum í frumvarpi með lögum um útlendinga og úrskurðum kærunefndar. Kærendur telji að kærunefnd hafi staðfest að staða viðkvæmra einstaklinga hafi enn sama vægi og fyrir gildistöku reglugerðarinnar og beri íslenskum stjórnvöldum að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda hverju sinni en ekki líta eingöngu til viðmiða í reglugerð um útlendinga. Kærendur telji að heimildir um aðstæður flóttamanna í Grikklandi sem og frásagnir þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun bendi til þess að þeirra bíði alvarleg mismunun og að þau muni eiga erfitt uppdráttar verði þeim gert að snúa aftur til Grikklands.

Í greinargerð kærenda er vísað til umfjöllunar í greinargerð þeirra til Útlendingastofnunar um aðstæður og réttindi einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi, þ. á m. hvað varðar húsnæðisvanda, heilbrigðismál, framfærslu, aðgengi að atvinnu og fordóma gagnvart innflytjendum þar í landi. Þá kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki sent umsækjendur um alþjóðlega vernd til Grikklands síðan í október 2010 og að heimildir beri með sér að staða einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi sé síður en svo betri en staða umsækjenda.

Kærendur byggja kröfu sína í fyrsta lagi á því að taka skuli mál þeirra til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því skyni vísa kærendur til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og úrskurða kærunefndar sem undirstriki að stjórnvöld þurfi, við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi, að kanna hvort kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki annað hvort vegna einstaklingsbundinna aðstæðna sinna eða vegna almennra aðstæðna í viðtökuríki. Kærendur telji að þrátt fyrir að þau hafi dvalið í flóttamannabúðum í Grikklandi og fengið fjárhagslegan stuðning hafi aðstæður þeirra þar verið skelfilegar og óviðunandi fyrir barnafjölskyldu. K hafi verið þunguð á þeim tíma sem þau hafi dvalið í búðunum við mjög bágar aðstæður. Matur hafi verið af skornum skammti og eftir að C hafi fæðst þá hafi þau ekki átt föt fyrir hann. Þá sé það með öllu óvíst hvað bíði kærenda verði þeim gert að snúa aftur til Grikklands.

Kærendur vísa til úrskurðar kærunefndar nr. 393/2018 í máli fjölskyldu sem hafði hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi. Þar hafi kærunefndin komist að þeirri niðurstöðu að viðkvæm staða fjölskyldunnar væri slík að líklegt væri að það yrði þeim vandkvæðum bundið að sækja rétt hjá grískum yfirvöldum sem þau ættu tilkall til. Þá hafi það verið niðurstaða kærunefndar að þegar litið yrði til aðstæðna kærenda, einkum þungunar móður, að þær aðstæður sem biðu þeirra í Grikklandi yrðu verulega síðri en staða almennings í Grikklandi með vísan til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærendur kveða aðstæður sínar og barna sinna keimlíkar aðstæðum kærenda í framangreindum úrskurði […]. Vísa kærendur jafnframt til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og telja að leggja beri framangreindan úrskurð til grundvallar ákvarðanatöku í málum þeirra.

Kærendur árétti þá að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og óska þess að kærunefnd taki tillit til þeirrar verndar sem þau eigi rétt á samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu bundin af þjóðarétti að virða.

Kærendur byggja kröfu sína í öðru lagi á því að ótækt sé að beita heimildinni í a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda njóti þau verndar 42. gr. laganna sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með vísan til lýsinga kærenda og heimilda um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi verði að telja að aðstæður þar séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Telja kærendur að mál þeirra skuli því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barna kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna, m.a. viðtöl við K og M hjá Útlendingastofnun og framlögð heilsufarsgögn, þ. á m. varðandi börnin A, B og C. Það er mat kærunefndar, á grundvelli gagna málanna, að ekki séu forsendur til annars en að ætla að hagsmunum A, B og C sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A, B og C verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin A, B og C eru í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna var kærendum og börnunum A og B veitt viðbótarvernd í Grikklandi þann 20. september 2017 og hafa þau gilt dvalarleyfi þar í landi til 20. september 2020. Þá kemur fram í gögnum málanna að C, sem fæddist í Grikklandi þann 26. október 2017, hlaut tímabundið dvalarleyfi sem fjölskyldumeðlimur einstaklings með alþjóðlega vernd með gildistíma til 20. september 2020. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærendur og börn þeirra njóta í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í málum kærenda og barna þeirra.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur eru hjón með þrjú börn […]. Í gögnum um heilsufar M kemur fram að hann eigi erfitt með svefn, fái martraðir og höfuðverki auk þess sem hann hefur sótt tilfallandi heilbrigðisþjónustu hér á landi […]. Í gögnum um heilsufar K kemur fram að hún hafi verið í meðferðum hér á landi […] og útbrota en hún er jafnframt þunguð. Þá kemur fram í gögnum málsins að K hafi sótt eitt viðtal hjá sálfræðingi.

Í gögnum um heilsufar A, B og C kemur fram að þau séu almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að vegna tiltekinna persónulegra eiginleika M og K hafi fjölskyldan verið undir sérstöku eftirliti félagsþjónustu sveitarfélagsins þar sem þau búa og fengið svonefndan fjölskyldustuðning.

Í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga eru taldir upp í dæmaskyni nokkrir hópar einstaklinga sem teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þ.m.t. þungaðar konur. Samkvæmt framansögðu er kærandi K þunguð. Þá liggur fyrir að fjölskyldan í heild hefur notið eftirlits og stuðnings af hálfu félagsþjónustu sveitarfélagsins þar sem þau dvelja. Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að fjölskyldan hafi sérþarfir sem taka hefur þurft tillit til hér á landi. Fjölskyldan í heild sé því í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
  • 2018 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • Freedom in the World 2018 – Greece (Freedom House, 1. ágúst 2018);
  • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • UNHCR observations on the current asylum system in Greece (UNHCR, desember 2014);
  • ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);
  • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);
  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • Rights of Children in Institutions – Report on the implementation of the Council of Europe Recommendation. Rec(2005)5 on the rights of children living in residential institutions (Council of Europe, ágúst 2008);
  • Upplýsingar af vefsíðu Eurochild (http://eurochild.org);
  • Upplýsingar af vefsíðu Unicef (http://unicef.org) og
  • Upplýsingar af vefsíðu Doctors of the World (http://mdmgreece.gr).

Af framangreindum gögnum má sjá að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst nú jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Jafnframt eru til staðar frjáls félagasamtök sem aðstoða þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi við að kynna sér réttindi sín.

Þá eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Á þetta jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í ríkinu. Í nýjustu ársskýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi hafi fundið fyrir erfiðleikum með að fá viðunandi heilbrigðisþjónustu og eigi það einkum við um einstaklinga sem tilheyri sérstaklega viðkvæmum hópum. Þá segir á vefsvæði alþjóðasamtakanna Doctors of the World að konur á flótta í Grikklandi hafi átt erfitt með að fá aðgang að fullnægjandi mæðravernd þar í landi. Kemur fram að árið 2016 hafi samtökin hrint af stað herferð með það að markmiði að bæta mæðravernd til handa flóttakonum í Grikklandi. Einnig kemur fram að þrátt fyrir að margt hafi áunnist í þeim efnum eigi þungaðar konur enn á hættu að fá ekki fullnægjandi mæðravernd og ungbarnavernd þar í landi. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að frjáls félagasamtök í Grikklandi veiti nýbökuðum mæðrum og ungabörnum aðstoð t.a.m. með því að útvega þeim barnamat og með því að veita upplýsingar um brjóstagjöf og næringu auk þess sem samtökin útvegi bleyjur ásamt því að dreifa fötum, bæði til mæðra og barna.

Sem fyrr segir eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar en aðgengi þeirra að húsnæði er háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með löglega dvöl í Grikklandi. Fá gistiskýli eru í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt getur reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin er mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem hafa verið sendir til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum.

Í framangreindum gögnum kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum með alþjóðlega vernd sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna. Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og má sem dæmi nefna að þeir þurfa að hafa kennitölu, skattnúmer, gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga.

Í skýrslu Evrópuráðsins um réttindi barna á stofnunum á vegum barnaverndaryfirvalda í Evrópu kemur fram að í Grikklandi fari heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið með yfirumsjón yfir málum sem snúa að barnavernd. Þá hefur embætti umboðsmanns barna í Grikklandi eftirlit með stofnunum landsins, annars vegar með frumkvæðisskoðun og hins vegar tekur hann við kvörtunum frá börnum og forráðamönnum þeirra. Á vefsvæði Eurochild koma fram upplýsingar sem gefa til kynna að skorið hafi verið niður í barnaverndarkerfinu í Grikklandi á undanförnum árum og að þörf sé á úrbótum. Þá kemur fram á vefsvæði Unicef að barnaverndarkerfi fyrir börn á flótta sé af skornum skammti og að þjónusta við þau hafi farið versnandi á undanförnum árum. Árið 2016 hafi þó verið ráðist í endurbætur til þess að bæta úr göllum á kerfinu.

Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að börn með alþjóðlega vernd í Grikklandi eigi sama rétt til þess að ganga í skóla þar í landi og börn með grískt ríkisfang fram að 15 ára aldri. Þrátt fyrir það þá kemur fram að einungis rúmlega helmingur barna á flótta sæki skóla í Grikklandi. Er ástæðan fyrir þessu m.a. rakin til tungumálahindrana og þess að námið henti ekki börnum sem njóti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggi bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki nái ekki alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kærenda og barna þeirra. Hafa kærendur m.a. borið fyrir sig að sérstakar ástæður eigi við í málum þeirra þar sem þau muni verða fyrir mismunun í Grikklandi og staða þeirra þar sé verulega síðri en almennings. Þá telji kærendur að þau séu í viðkvæmri stöðu, einkum þar sem kærandi K er þunguð og að skortur sé á aðgangi að viðhlítandi þjónustu þeim til handa í Grikklandi.

Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi verður ráðið að kærendur eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, t.d. nauðsynlegum lyfjum, þótt fyrir liggi að það kunni að vera vandkvæðum bundið að sækja slíka þjónustu, þar á meðal t.d. mæðra- og ungbarnavernd.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er áréttuð sú meginregla, sem kemur jafnframt m.a. fram í 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, að við mat á því hvort taka skuli mál barns til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skulu hagsmunir barns hafðir að leiðarljósi. Líkt og áður hefur verið rakið bera gögn málsins með sér að fjölskyldan hefur fengið stuðning frá félagsþjónustu sveitarfélagsins þar sem þau búa vegna tiltekinna aðstæðna. Af gögnunum verður ráðið að aðkoma sveitarfélagsins í aðstæður fjölskyldunnar hafi verið byggð á hagsmunum barna kærenda. Eins og að framan hefur verið rakið hafa einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi að formi til ýmis réttindi þar í landi sem ekki eru þó í öllum tilvikum virk m.a. vegna álags á innviði í ríkinu. Í því sambandi bera skýrslur um Grikkland m.a. með sér að barnaverndarkerfið þar í landi hafi verið gagnrýnt vegna skorts á þjónustu sem tengist takmörkuðum fjárheimildum gríska ríkisins.

Þegar litið er til aðstæðna kærenda, einkum þungunar kæranda K og hagsmuna barna kærenda, sem að mati nefndarinnar kalla á að fjölskyldan hafi aðgang að félagslegum stuðningi, er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and their children‘s applications for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                                                 Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta